Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 55  —  55. mál.
Tillaga til þingsályktunarum aukið samstarf fagstétta í heilsugæsluþjónustu.

Flm.: Katrín Fjeldsted, Jónína Bjartmarz, Bryndís Hlöðversdóttir, Þuríður Backman.    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kanna gildi þess fyrir framgang heilbrigðisáætlunar og jafnframt hagkvæmni þess að koma á auknu samstarfi heilsugæslu við aðrar fagstéttir svo sem gert er ráð fyrir í lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerð fyrir heilsugæslustöðvar.

Greinargerð.


    Mikilvægi heilsugæslunnar sem einnar af grunnstoðum heilbrigðisþjónustunnar í landinu er óumdeilt. Talið hefur verið að 80–85% af landsmönnum ættu að geta fengið þjónustuþörf sinni fullnægt innan heilsugæslunnar. Jafnframt því sem áhersla er lögð á að fjölga heimilislæknum þarf að huga að aðkomu skjólstæðinga að stoðþjónustu og ráðgjöf annarra fagstétta og hefur löggjafinn gert ráð fyrir að á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skuli veitt þjónusta af ýmsu tagi. Í 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, er kveðið á um starfsemi heilsugæslustöðva, en þar segir:
„19.1.    Á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skal veita þjónustu eftir því sem við á og hér segir:
    1.    Almenn læknisþjónusta, hjúkrunarþjónusta, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, vaktþjónusta, vitjanir og sjúkraflutningar.
    2.    Lækningarannsóknir.
    3.    Sérfræðileg læknisþjónusta, tannlækningar og læknisfræðileg endurhæfing.
    4.    Heimahjúkrun.
    5.    Heilsuvernd. Aðalgreinar heilsuverndar eru:
    5.1.    Heilbrigðisfræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi.
    5.2.    Mæðravernd.
    5.3.    Ungbarna- og smábarnavernd.
    5.4.    Heilsugæsla í skólum.
    5.5.    Ónæmisvarnir.
    5.6.    Berklavarnir.
    5.7.    Kynsjúkdómavarnir.
    5.8.    Geðvernd, áfengis-, tóbaks- og fíkniefnavarnir.
    5.9.    Sjónvernd.
    5.10.    Heyrnarvernd.
    5.11.    Heilsuvernd aldraðra.
    5.12.    Hópskoðanir og skipulögð sjúkdómaleit.
    5.13.    Félagsráðgjöf, þ.m.t. fjölskyldu- og foreldraráðgjöf.
    5.14.    Umhverfisheilsuvernd.
    5.15.    Atvinnusjúkdómar, sbr. og lög nr. 46/1980.
    5.16.    Slysavarnir.
    Sé aðsetur heilbrigðisfulltrúa ákveðið þar sem heilsugæslustöð er, skal heilbrigðiseftirlit starfrækt frá stöðinni.“
    Nánar er síðan fjallað um inntak þessarar þjónustu í reglugerð fyrir heilsugæslustöðvar, nr. 160/1982, sem reyndar er komin nokkuð til ára sinna og brýnt að ný og endurskoðuð reglugerð verði sett hið fyrsta.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra verði falið að kanna hagkvæmni þess að heilsugæslan auki starfstengsl sín við fleiri fagstéttir en nú er. Tillögunni er ætlað að stuðla að auknu og bættu þjónustustigi innan heilsugæslunnar þannig að hún sé betur fær um að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til hennar. Aukið samstarf við aðrar fagstéttir ætti jafnframt að létta nokkuð álagi af heimilislæknum og um leið auka afköst heilsugæslunnar í heild sinni. Þannig gæti heilsugæslan m.a. samið við félagsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa, sálfræðinga o.fl. um samstarf til stuðnings þeim skjólstæðingum sem heimilislæknar stöðvanna teldu að þyrftu á slíkri þjónustu að halda. Vert er í þessu sambandi að minnast á verkefnið „Nýja barnið“. Það var þróunarverkefni Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og lagði stöðin þar áherslu á að nýta fjölskylduráðgjöf til að þróa nýja vídd í heilsuverndarstarfi, sérstaklega í mæðra- og ungbarnavernd. Verkefnið var síðan tilnefnt af heilbrigðisráðuneytinu sem framlag Íslands í samkeppni þróunarverkefna sem efnt var til í tilefni 50 ára afmælis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar 1998 og þar fékk það sérstaka viðurkenningu. Þá hefur samstarf um fyrirbyggjandi aðgerðir komist á milli heilsugæslunnar í Hafnarfirði við skólaskrifstofu og aðra faghópa og jafnframt á heilsugæslan í Grafarvogi aðild að Miðgarði þar sem rekin er fjölskylduþjónusta fyrir íbúa Grafarvogs.
    Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktun um heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Í þeirri ályktun eru sett fram metnaðarfull markmið til næstu ára. Til að þessi markmið megi nást verður heilsugæslan að geta veitt þá þjónustu sem lög um heilbrigðisþjónustu og reglugerð um starfsemi heilsugæslustöðva gera ráð fyrir. Af þessum sökum er lagt til að ráðherra kanni gildi aukins samstarfs fyrir framgang heilbrigðisáætlunar sérstaklega. Með því að efla samstarf við aðrar fagstéttir er unnt að renna styrkari stoðum undir starfsemi heilsugæslunnar í landinu.
    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á seinasta þingi en eigi var mælt fyrir henni og er hún nú lögð fram að nýju, óbreytt.