Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 58  —  58. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um áframeldi á þorski.

Flm: Hjálmar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristinn H. Gunnarsson, Magnús Stefánsson.


    Alþingi ályktar að Hafrannsóknastofnuninni verði heimilað í tilraunaskyni að úthluta allt að 500 lesta þorskkvóta árlega næstu fimm árin til áframeldis á veiddum þorski. Þessum aflaheimildum verði skipt í sjö jafna hluta og dreift um landið til einstaklinga. Jafnframt verði Hafrannsóknastofnuninni falið að skrá og fylgjast með tilrauninni og birta niðurstöður um reynslu tímabilsins.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 126. löggjafarþingi en fékkst ekki útrædd. Hún er því endurflutt núna.
    Að undanförnu hafa nokkrir einstaklingar stundað tilraunir með áframeldi þorsks. Ber flestum saman um að tilraunir þessar lofi góðu. Felast þær í að veiddum þorski er haldið lif-andi en síðan komið fyrir í sjókvíum þar sem hann er alinn upp í sláturstærð. Dæmi eru um að fiskur hafi allt að tvöfaldað þyngd sína í kvíum á hálfu ári. Nemendur sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri hafa unnið nákvæma skýrslu um möguleika á þorskeldi af þessum toga. Margt bendir til þess að um geti verið að ræða arðbæran rekstur.
    Í tillögunni er kveðið á um að Hafrannsóknastofnunin úthluti í tilraunaskyni næstu fimm árin allt að 500 lestum af þorskkvóta til sjö aðila á mismunandi stöðum á landinu. Gert er ráð fyrir að bátar, sem taka þátt í tilrauninni, komi með lifandi þorsk í sjókvíar en þar verði fiskurinn fóðraður í sláturstærð. Margt bendir til þess að eldisþorskur af þessum toga vaxi í heppilega sláturstærð á tiltölulega skömmum tíma með réttri fóðrun og að nýtingarhlutfall eldisþorsks sé betra en villts þorsks vegna sérstaks vaxtar í holdinu. Ormar virðast auk þess mun færri í eldisþorski og er hann því ódýrari til vinnslu en villtur þorskur. Þá skal á það bent að kostur eldisþorsks er m.a. sá að unnt er að stýra markaðssetningu hans eftir verðþróun þannig að hann fari á markað þegar verðið er hvað hæst. Hér getur verið um byggðavæna aðgerð að ræða sem felur í sér að aflaheimildir geti aukist í raun um allt að 20% frá úthlutuðum heimildum. Hafrannsóknastofnuninni er ætlað að annast yfirumsjá með tilraun þessari, safna upplýsingum og birta niðurstöður í lok tímabilsins svo að marka megi áframhaldandi stefnu um málið.
    Nágrannaþjóðir okkar, svo sem Norðmenn, Skotar og Hjaltlendingar, leggja nú mikla áherslu á seiða- og áframeldi á þorski. Ýmsir halda því fram að eldisþorskur kunni á næstu árum að hafa stórvægileg áhrif á markaðsverð þorsks. Áframeldi á þorski getur verið stoð fyrir slíka þróun og því augljóst að um verulega hagsmuni þjóðarinnar er að ræða.