Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 120  —  120. mál.
Tillaga til þingsályktunarum þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson,


Ólafur Örn Haraldsson, Árni R. Árnason, Gísli S. Einarsson,
Karl V. Matthíasson, Kristján Pálsson, Katrín Fjeldsted.


    Alþingi ályktar að í þingsal Alþingis skuli vera þjóðfáni Íslendinga.

Greinargerð.


    Við setningu Alþingis, 126. löggjafarþings, sagði forseti Íslands m.a. í ávarpi sínu að það væri sér gleðiefni hve hinum erlendu þjóðhöfðingjum sem hefðu heimsótt landið á sl. fjórum árum hefði þótt mikilsvert að heimsækja með formlegum hætti elsta þjóðþing veraldar:
    „Alþingi ætti að hugleiða þær breytingar á þingsköpum sem opnuðu leiðir til að bjóða erlendum þjóðarleiðtogum að ávarpa Alþingi. Sú skipan gæti gert heimsókn í Alþingi að hápunkti Íslandsdvalar og veitt hinum erlendu áhrifamönnum tækifæri til að lýsa stefnu sinni og viðhorfum á vettvangi sem hefði einstæðan sess í lýðræðissögu veraldarinnar.“
    En hvernig má það vera að innan veggja Alþingis, hvar rætt er um eflingu, vegsemd og gildi þingsins sjálfs, skuli þjóðfáni vor ekki hafinn til vegs og virðingar?
    „Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar. Hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er því göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar.“ (Úr ræðu Sigurðar Eggerz fjármálaráðherra sem gegndi störfum forsætisráðherra 1. desember 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki.)
    Í tengslum við heimsóknir þjóðhöfðingja hingað til lands hafa birst fréttamyndir í sjónvarpi frá viðkomandi landi og þingi þar sem að öllu jöfnu er áberandi þjóðfáni landsins við forsæti eða ræðustól.
    Með lögum nr. 67/1998, um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga, voru heimildir til að nýta þjóðfánann rýmkaðar. Var það m.a. gert til að aflétta ofverndun íslenska þjóðfánans og stuðla að því að gera hann sýnilegri.
    Alla daga þá Alþingi starfar eru beinar útsendingar sjónvarps frá þingsal og verður ekki annað sagt en að mikil blæbrigði yrðu á sjónvarpsmynd og ásýnd önnur ef þjóðfáni Íslendinga væri sýnilegur við eða nærri forsetastól.
    Flutningsmenn telja það mjög við hæfi að þjóðfáni Íslendinga skipi veglegan sess í þingsal Alþingis. Það yrði hinu háa Alþingi til sóma, sem og þjóðfána vorum til vegs og virðingar.