Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 131  —  131. mál.
Tillaga til þingsályktunarum rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Örlygur Hnefill Jónsson, Einar Már Sigurðarson,


Kristján L. Möller, Rannveig Guðmundsdóttir, Gísli S. Einarsson,


Karl V. Matthíasson, Björgvin G. Sigurðsson.    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að standa hið fyrsta fyrir rannsóknum á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar umhverfis Ísland. Kanna skal útbreiðslu og magn tegundarinnar utan þekktra veiðisvæða og veiðidýpis og meta veiðiþol á núverandi veiðisvæðum. Jafnframt skulu gerðar aðrar líffræðilegar rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að nýting kúfskeljar sé með sjálfbærum hætti. Markmið rannsóknanna skal vera að kanna betur núverandi veiðisvæði en jafnframt að finna ný mið, og tryggja þannig rekstraröryggi núverandi veiðiréttarhafa og auka afrakstur kúfskeljar við Ísland.

Greinargerð.


    Töluverður árangur hefur náðst hjá Hraðfrystistöð Þórshafnar í veiðum og vinnslu kúfskeljar. Markaðir eru ágætir í Bandaríkjunum fyrir afurðirnar, 9 kg pakkningar af frystum skelfiski, sem stórkaupendur hakka í súpur o.fl. Því er ekki fjarri lagi að fyrirtækið geti fært út kvíarnar. Sömuleiðis gæti reynsla HÞ leitt til þess að vinnsla á kúfskel yrði búhnykkur fyrir fleiri fyrirtæki í sjávarútvegi. Það helgast þó af því að niðurstaða úr þeim rannsóknum, sem hér eru lagðar til, réttlæti auknar veiðar. Þekking á útbreiðslu tegundarinnar, landfræðilega og eftir dýpi — og þar með á veiðiþoli — er hins vegar af skornum skammti. Dreifing kúfskeljar hefur verið kortlögð að einhverju leyti við allt Ísland, að Suðurlandi undanskildu. Þessi kortlagning hefur þó aðeins farið fram á mjög takmörkuðu dýptarbili og engar frekari rannsóknir á þessu sviði hafa verið gerðar síðan árið 1995. Þörfin fyrir frekari kortlagningu er tvíþætt. Í fyrsta lagi að auka veiðisvæði og þar með heildarafla og í öðru lagi til að geta dreift veiðum þannig að ekki sé gengið of nærri núverandi veiðisvæðum.
    Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að kúfskel getur orðið ákaflega gömul, eða yfir 200 ára. Nýliðun virðist hæg og er ekki þekkt til hlítar. Slíkar aðstæður bjóða heim hættunni á staðbundinni ofveiði. Reynsla erlendis sýnir einmitt að liggi ekki fyrir vísindalegar upplýsingar um stofnstærð og veiðiþol getur það leitt til ofveiði á staðbundnum miðum. Í Bandaríkjunum hafa kúfskeljaveiðar flust frá upphaflegum veiðisvæðum, sem voru á syðri útbreiðslumörkum tegundarinnar, og norður eftir. Flutningurinn á milli veiðisvæða hefur haft í för með sér flutning verksmiðjanna sem svo aftur hefur leitt til aukins kostnaðar við vinnsluna. Þess má geta að Fiskistofa hefur aðeins gert heilnæmisúttekt á tveimur veiðisvæðum kúfskeljar við Norðausturland og þar með aðeins getað veitt Hraðfrystistöð Þórshafnar leyfi til veiða á þessum tveimur svæðum. Í viðtali við viðskiptablað Morgunblaðsins í júlí sl. kvað talsmaður HÞ nauðsynlegt að fá leyfi til veiða víðar, til þess að auka veiðina og hlífa núverandi veiðisvæðum.
    Fyrri tilraunir til að veiða og vinna kúfskel til sölu erlendis gengu ekki upp. Reynslan frá Þórshöfn sýnir þó að með góðu skipi, réttum vinnubrögðum og farsælli markaðssetningu er hægt að skapa mikilvægan gjaldeyri og verulegan fjölda starfa í tengslum við kúfskel. Á Þórshöfn starfa nú fjórir sjómenn við veiðarnar og um 15–18 manns að vinnslunni á einni vakt. Stefnt er að því að taka upp aðra vakt, þannig að 30 starfsmenn gætu starfað við kúfskel í landi. Í viðtali við Morgunblaðið snemma árs 2001 (sjá fylgiskjal) kom fram að forráðamenn HÞ áforma að gera vinnslu kúfskeljar að burðarstoð í landvinnslu fyrirtækisins.

Nauðsyn rannsókna.
    Fleiri upplýsingar um kúfskel skortir, svo sem um útbreiðslu og magn, til að efla rekstraröryggi núverandi veiðiréttarhafa en jafnframt til að stefna að aukinni nýtingu á tegundinni við landið allt. Víða eru takmarkaðar upplýsingar fyrir hendi og sums staðar engar. Fyrir heilum landsfjórðungum, eins og Suðurlandi þar sem góður botn er víða fyrir kúfskel, hafa alls engar rannsóknir verið gerðar á dreifingu og magni tegundarinnar. Sömuleiðis liggja engar upplýsingar fyrir um útbreiðslu kúfskeljar neðan 50 m dýpis. Það er athyglisvert í ljósi þess að helstu mið við strendur Bandaríkjanna eru á 50–100 m dýpi.
    Veiðar á nær öllum nytjategundum sjávar eru studdar af hinu opinbera með rannsóknum og leit að miðum. Nægir að minna á árvissa – og eðlilega – leit að síld og loðnu sem ríkið tekur ævinlega þátt í með einhverjum hætti, oft sem fullgildur þátttakandi á eigin rannsóknarskipum. Það er lágmark á tímum þegar kallað er eftir nýjum möguleikum til útflutnings og aukinni sköpun gjaldeyris að ríkið styðji með eðlilegum og brýnum rannsóknum nýja vaxtarsprota á borð við veiðar á kúfskel. Frumherjastarfið á Þórshöfn hefur sýnt óyggjandi að í veiðunum liggja miklir, ónýttir möguleikar, svo fremi markaðir haldist. Hins vegar er brýn þörf á auknum rannsóknum til að hægt sé að breyta þeim möguleikum í beinhörð verðmæti. Þess vegna leggur Samfylkingin fram þessa tillögu til þingsályktunar.

Veiðar og nýting.
    Veiðar á kúfskel hófust við austurströnd Bandaríkjanna undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Um miðjan áttunda áratuginn færðist aukinn kraftur í þær og áratug síðar, eða 1993, var afli Bandaríkjamanna nálægt 200 þús. tonnum. Þó virðist sem þá hafi verið gengið of nærri stofnunum því að afli á sóknareiningu fór minnkandi þegar leið nær aldarlokum. Lítils háttar veiðar voru á kúfskel í Kanada en þó miklu minni en í Bandaríkjunum. Sama ár, 1993, voru þar aðeins veidd 9 þús. tonn.
    Frá því að veiðarnar hófust hefur markaður smám saman þróast fyrir skelina. Í upphafi var hann einkum í Bandaríkjunum en kúfskel er nú eftirsótt víðs vegar um heiminn. Vaxandi eftirspurn stafar af á háu próteininnihaldi og miklum bragðgæðum skeljarinnar, en einnig þeirri staðreynd að veiðar á kúfskel og skyldum samlokum hafa minnkað í kjölfar ofnýtingar og mengunar í hafi. Helsti markaðurinn er áfram í Bandaríkjunum, bæði fyrir ferska skel af heimaslóð og fyrir hreinsaðan og frystan kúfisk (eins og Íslendingar hafa frá alda öðli kallað skelfiskinn), sem kaupendur þíða svo, hakka og vinna áfram í súpukraft. Í Evrópu hefur eftirspurn aukist hratt, meðal annars eftir ferskum, nýveiddum kúfiski. Fersk skel er einkum eftirsótt í Frakklandi, þar sem hefð er fyrir neyslu nýveidds kúfisks, en mengun hefur leitt til þess að heimastofnar nýtast ekki sem forðum.

Útbreiðsla og líffræði.
    Kúfskel er algeng við Ísland og lifir frá fjöruborði niður á 100 m dýpi eða jafnvel dýpra í fínsendnum eða leirkenndum botni. Hún grefur sig niður í botninn, hversu djúpt hún getur farið er ekki vitað, en gjarnan liggur hún rétt undir yfirborði þannig að aðeins sjást inn- og útstreymisop hennar. Skelin er staðbundin eftir að lirfustigi sleppir en hún hefur gildan fót sem hún notar til að færa sig upp og niður í botnlaginu. Kúfskelin andar með tálknum sem sía örsmáa fæðu úr umhverfinu, svo sem bakteríur, lífrænar leifar plantna og dýra og plöntu- og dýrasvif. Vöxturinn hægist með aldri en ræðst að öðru leyti af fæðu, hitastigi og seltu.
    Kúfskel finnst einnig á landgrunninu beggja vegna N-Atlantshafsins. Vestanhafs lifir hún norðan frá Nýfundnalandi til Norður-Karólínu í Bandaríkjunum en austanmegin er hún tíð við strendur meginlands Evrópu frá Hvítahafi suður til Spánar. Hún er algeng við eylendur Evrópu, svo sem Færeyjar, Stóra-Bretland og Hjaltland, auk Íslands.

Fyrri rannsóknir.
    Rannsóknir á stærð kúfskeljastofna við Ísland hófust árið 1988 þegar Hrafnkell Eiríksson mat stærð stofnanna 280 þús. tonn í Faxaflóa, 100 þús. tonn í Breiðafirði og 125 þús. tonn við Suðausturland. Verkinu var ekki fram haldið fyrr en árið 1994 þegar Guðrún G. Þórarinsdóttir og Sólmundur T. Einarsson komust að þeirri niðurstöðu að 124 þús. tonn væru af kúfskel við Norðvesturland, 76 þús. tonn við Norðurland, og 104 þús. tonn við Austurland. Könnunarsvæðin náðu frá Patreksfirði í vestri og til Álftafjarðar í austri. Stofninn var kannaður á 5–50 m dýpi, en þó var langmest skoðað á 15–30 m dýpi.
    Í þessu samhengi er mikilvægt að benda á tvennt: Í fyrsta lagi að kúfskel virðist geta lifað niður á 200 m dýpi þó að hér við land hafi tilvist hennar ekki verið könnuð svo djúpt. Í öðru lagi að Bandaríkjamenn veiða mest af sinni kúfskel á 50–100 m dýpi, eða dýpra en hér hefur verið skoðað, eins og áður sagði. Mögulega eru því umfangsmikil mið kúfskeljar enn ófundin neðan þess dýpis sem nýtt er hér við land.

Varnaðarorð.
    Kúfskel er með afbrigðum langlíf. Elsti einstaklingurinn sem hér hefur verið aldursgreindur var 201 árs, en í Bandaríkjunum var elsta mælda skelin 221 árs. Vöxtur kúfskeljar er mjög hægur og rannsóknir Guðrúnar G. Þórarinsdóttur benda til að nýliðunin sé í samræmi við það. Kúfskelin verður kynþroska að meðaltali við 15 ára aldur og 4–5 sm skellengd. Meginþorri skeljanna í veiðinni hér við land eru 6–9 sm langar skeljar, eða frá 20 ára aldri og upp úr. Þessar upplýsingar gefa til kynna að varlega þurfi að fara í nýtingu stofnsins og endurnýjunartími hans sé langur. Þær undirstrika því nauðsyn öflugra rannsókna til að tryggja aukna og sjálfbæra nýtingu kúfskeljastofna við Ísland.
    Bandarískir vísindamenn hafa stundað rannsóknir á kúfskel við austurströnd Bandaríkjanna. Niðurstaða þeirra er að stofninn sé langlífur og hægvaxta. Náttúruleg dánartíðni hans sé ekki nema 2–3% og að engin nýliðun hafi átt sér stað þar um 20–30 ára skeið. Af sjálfu leiðir að slíkur stofn er mjög viðkvæmur fyrir ofveiði. Þetta kemur fram í yfirlitsgrein sem birtist í Náttúrufræðingnum 1997, eftir Guðrúnu G. Þórarinsdóttur og Sólmund T. Einarsson. Þar er sagt frá því að nýliðun kúfskeljar við Ísland sé ekki þekkt en rannsóknir bendi til að hún gæti verið lítil. Síðan er sleginn eftirfarandi varnaðartónn: „Niðurstöður rannsóknanna við Ísland benda til þess að samsetning kúfskeljastofnsins sé svipuð hér og vestanhafs þar sem meginuppistaðan eru stórar og gamlar skeljar. Þetta vekur grun um að nýliðun gæti verið lítil í kúfskeljastofninum við Ísland … Því er nauðsynlegt að nýliðun verði rannsökuð á komandi árum og fylgjast verður náið með áhrifum veiða á stofninn.“

Nytjar fyrri alda.
    Þrátt fyrir gnótt kúfskeljar og prýðileg matgæði hennar virðast Íslendingar ekki hafa nytjað skelina fyrr en leið fram á 18. öldina. Ekkert er minnst á kúfskel í Jarðabók Árna og Páls, sem rituð er snemma á 18. öldinni, en í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem byggð er á ferðum þeirra um miðja öldina, er sagt frá því að kúfskel sé hirt til beitu við Álfsnes í Kollafirði en vestan lands sé hún nýtt til manneldis. Aðallega var það rekakúskel, sem fannst á fjörum eftir illviðri. Lúðvík Kristjánsson segir í tímamótaverki sínu, Íslenskum sjávarháttum, að kúfskel hafi ekki verið nýtt að nokkru ráði til beitu fyrr en seint á 19. öldinni. Það gerðu fyrst og fremst Vestfirðingar. Kúfskel rak oft í hrönnum við Ísafjarðardjúp og þar hófu menn fyrstir að nota hana í beitu, eða kringum 1880. Kúfiskurinn reyndist afbragðsbeita og vann fljótt á. Til marks um það má nefna að á Patreksfirði var honum fyrst beitt 1898, en var þremur árum síðar orðinn aðalagnið. Norðlendingar og Austfirðingar nýttu ekki kúfskel til beitu fyrr en miklu síðar. Í verstöðvunum miklu á Snæfellsnesi og Suðurlandi var kúfskel aldrei beitt að ráði. Þess má geta að á Þórshöfn er kúfskel sem ekki þykir hæf til manneldis unninn til beitu og þykir enn hið besta agn.
    Kúfskelja öfluðu menn með ferns konar hætti. Kaldranalegasta aðferðin fólst í að vaða hana uppi, eins og gert var við Skersbug við Patreksfjörð. Menn gengu þá í sjó fram fast að mjöðmum, lutu niður til að taka skelina, yfirleitt án stakks eða bróka, enda forblautar skinnflíkur ekki notalegar í kalsaveðri. Í stillilogni, þegar sást til botns, var kúfskel stungin. Yfirleitt voru þrír mislangir stingir hafðir í takinu, frá hálfum og upp í þriggja metra lengd, allt eftir veiðidýpinu. Ísfirðingar voru atorkumestir við stingveiði sem var einkum stunduð kringum Tangana. Sérstakar hrífur voru líka notaðar til að kraka upp kúfskel, einkanlega í grennd við Ísafjarðarkaupstað.
    Fjórða og afkastamesta aðferðin, sem síðast var tekin upp, voru plógveiðar. Sumarliði Sumarliðason úr Æðey var staddur á fiskveiðisýningu í Björgvin árið 1865, þar sem kúfiskplógur af Finnmörku var sýndur, 15 árum seinna smíðaði Sumarliði fyrsta plóginn. Á Byggðasafni Vestfjarða er gamalt eintak frá upphafsárum veiðanna. Honum svipar um margt til fyrstu norsku plóganna. Þó að vart sé hann frumsmíð Sumarliða hafa margir vestra fyrir satt að hann sé smíðaður af honum. Illa gekk þegar Sumarliði dró plóginn í fyrsta sinn á árabát sínum. Eftir að Guðmundur Rósinkarsson í Æðey endurbætti plægingaraðferðina með því að draga hann með spili að landi, reyndist auðvelt að plægja umtalsvert magn af skel til beitu. Þessi aðferð var nýtt víða vestra. Faðir fyrsta flutningsmanns tók þannig á æskuárum sínum fyrir 1930 þátt í að plægja kúfisk á landspili fyrir Keldudal í Dýrafirði og þótti púlsvinna.
    Kúfiskurinn reyndist slík afbragðsbeita að um skeið töldu menn að kúfiskbeittar lóðir í fjarðarmynnum stöðvuðu fisksig inn firði. Árið 1887 komu Inndjúpsmenn af þeim sökum fram banni á notkun kúfskeljar í beitu. Töldu þeir hana tálma fiskgengd inn Djúpið. Banninu var ekki hrundið fyrr en 1904.

Óleystur vandi.
    Hér á landi hafa komið upp þreytandi vandamál sem tengjast vinnslu kúfskeljarinnar. Svo virðist sem prótein í kúfisknum sjálfum, eða extrakti úr honum, vekji ofnæmi hjá starfsfólki í vinnslunni. Þetta hefur birst hjá háu hlutfalli starfsmanna HÞ. Skyld vandamál hafa komið upp í vinnslu vestanhafs en þó í mun minna mæli en hérlendis sem bendir til að hægt sé að hemja vandann. Jafnskjótt og ofnæmið gerði vart við sig fyrir tæpum hálfum áratug leituðu forustumenn Hraðfrystistöðvar Þórshafnar liðsinnis stjórnvalda til að ráða bót á vandamálinu. Skortur á fjárveitingum leiddi til þess að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gat ekki, þrátt fyrir góðan vilja, lagt í þær rannsóknir sem stofnunin taldi nauðsynlegar til að brjóta vandann til mergjar. Hann er því enn til staðar. Hér er um tæknilega örðugleika að ræða sem verður að ráða bót á til að vinnsla á kúfskel geti orðið sjávarútvegi á Íslandi sá búhnykkur sem efni standa að öðru leyti til.
    Samfylkingin mun ganga ríkt eftir því við stjórnvöld að þau styðji rannsóknir á orsökum ofnæmis starfsmanna í kúfskelvinnslu samhliða þeim rannsóknum sem hér eru lagðar til. Ef nauðsyn krefur mun flokkurinn leggja fram sérstakt þingmál um það.

Ný sókn í sjávarútvegi.
    Íslendingar búa að talsverðri þekkingu á kúfskel og eiga prýðilega sérfræðinga um lífshætti hennar eins og sést af fjölmörgum vísindaritgerðum Guðrúnar G. Þórarinsdóttur sjávarlíffræðings, auk skrifa fiskifræðinganna Sólmundar T. Einarssonar og Hrafnkels Eiríkssonar og annarra. Það breytir ekki bráðri nauðsyn frekari hagnýtra rannsókna varðandi nýtingu kúfskeljar. Þess vegna leggur Samfylkingin fram þessa tillögu til þingsályktunar. Hún er liður í vinnu flokksins að nýrri sókn í sjávarútvegi, ein af fjölmörgum hugmyndum Samfylkingarinnar sem kynntar verða á þessum vetri, þar sem bent er á leiðir til að margfalda verðmætasköpun úr hafinu við Ísland.


Fylgiskjal.

Langþráð kjölfesta í landvinnsluna.


(Úr Verinu, 22. febrúar 2001.)


    FOSSÁ ÞH 362, hið nýja kúfiskveiðiskip Hraðfrystistöðvar Þórshafnar, kom til heimahafnar á Þórshöfn á þriðjudagsmorgun eftir tveggja mánaða siglingu frá Kína. Skipið var smíðað í Huangpu-skipasmíðastöðinni í Gung Zhou í Kína, en það er hannað af Ráðgarði – Skiparáðgjöf. Skipið kostaði 170 milljónir króna og er reiknað með því að það haldi á veiðar upp úr næstu mánaðamótum.
    Jóhann A. Jónsson, framkvæmdastjóri HÞ, segir að með komu nýja skipsins sé hægt að hefja framleiðslu á kúfiski á nýjan leik og langþráð kjölfesta sé komin í landvinnsluna. „Með tilkomu skipsins vonumst við til að um nokkuð stöðuga kúfiskvinnslu verði að ræða á einni til tveimur vöktum eftir því hve mikið er að gera í öðru. Við ætlum okkur að keyra þessa landvinnslu þannig að kúfiskvinnslan verði grunnurinn og síðan frystum við loðnu, síld og hrogn þegar sá fiskur kemur að landi. Með þessu ættum við að ná saman árinu í atvinnu fyrir það fólk sem hér stundar landvinnslu.
    Við reiknum með því að um 20 til 30 manns vinni í vinnslunni þegar hún verður komin í gang á einni til tveimur vöktum eftir því hvernig gengur. Það er eftirspurn eftir afurðunum og frekar meiri en minni þannig að ég á von á að við komum til með að vinna á tveimur vöktum hluta af árinu. Síðan verða 4 til 5 menn á sjónum.“
    Fossá er fyrsta fiskiskipið sem byggt er fyrir Íslendinga í Kína en talsvert mörg önnur skip eru þar í byggingu nú. Jóhann segir reynsluna af því að byggja skip í Kína í heildina vera góða. „Reynslan af samskiptunum við Kínverjana er ágæt. Þeir eru nýir á þessum markaði og eru enn að átta sig á kröfum vestræna markaðarins. Þetta er fyrsta skipið sem smíðað er fyrir Íslendinga í Kína og í heildina hafa samskiptin við Kínverjana gengið ágætlega. Vissulega hefði eitthvað orðið öðruvísi ef skipið hefði verið byggt annars staðar en á heildina litið gekk þetta vel og ég tel að við höfum fengið gott skip fyrir það verð sem sett var upp.“

Vinna 10–15 þúsund tonn af skel á ári.
    HÞ byggði upp kúfiskverksmiðju á Þórshöfn á árunum 1995 og 1996 og hófust veiðar um haustið 1996. Jóhann segir að það hafi verið mikið áfall fyrir vinnsluna þegar kúfiskveiðiskip vinnslunnar sökk úti fyrir Langanesi 1997. „Síðan þá hefur engin stöðug kúfiskvinnsla verið hér. Við höfðum um tíma bát í leigu frá Flateyri í fyrra og það er það eina sem hefur verið unnið hér í verksmiðjunni síðan skipið okkar sökk um árið.
    Með nýja skipinu gera áætlanir okkar ráð fyrir að vinna um 10 til 15 þúsund tonn af skel á ári og framleiða þannig um þúsund tonn af kjöti fyrir Ameríkumarkað. Kúfiskurinn er heilsársveiði og því standa vonir okkar til að geta veitt þetta á ársgrunni. Síðan er stefnan að framleiða fleiri afurðir úr kúfiskinum þannig að verðmætastigið vaxi smátt og smátt. Við byrjum sem sagt á kjötinu en síðan ætlum við sem fyrst að hirða soðið og kúfiskkraftinn og auka þannig verðmætin.“

Ofnæmisvandamálið vonandi úr sögunni.
    Þegar kúfiskvinnsla var hafin á Þórshöfn gekk hún ekki þrautalaust fyrir sig og komu upp vandamál vegna próteinofnæmis hjá starfsfólki. Jóhann segir að síðan hafi menn lagt mikla vinnu í að átta sig á hver skýringin væri. „Það er búið að bera þessa verksmiðju hér saman við verksmiðju í Ameríku með tilliti til loftræstingar og annars. Þar finnst sami ofnæmisvaldurinn í fiskinum en mun minna verður vart við ofnæmiseinkenni í fólki þar. Niðurstaðan úr þessu starfi var sú að breytingar voru gerðar á loftræstingunni hér þannig að hún verði skilvirkari og vonumst við til að vandamálið sé úr sögunni með þessum aðgerðum. Það mun þó ekki koma óyggjandi í ljós fyrr en á það reynir þegar framleiðsla verður hafin að nýju. Það er eins með þetta og margt annað að svona vinnsla tekur tíma að þróast og komast á flug og það kom á óvart á sínum tíma að þetta ofnæmi skyldi koma upp.“

Þurfum ekki að finna aftur upp hjólið.
    Kúfiskvinnsla hefur áður verið reynd á Flateyri en þar gekk hún ekki sem skyldi. Jóhann segir að verksmiðja þeirra byggi á sömu vinnslu og áður hafi verið reynd hérlendis en það er að taka fiskinn úr skelinni og hreinsa hann. Frá því að kúfiskvinnsla hófst á Þórshöfn hefur HÞ verið í samstarfi við bandaríska aðila og segir Jóhann að það samstarf hafi reynst þeim mikils virði. „Við höfum verið í miklum samskiptum við Ameríkanana sem hafa verið í þessu með okkur og þeir hafa kennt okkur mikið um veiðar, vinnsluna og eins markaðinn. Þetta samstarf hefur tryggt það að við höfum ekki þurft að eyða kröftum okkar í að finna upp hjólið aftur og aftur þar sem við höfum aðgang að þekkingu, sem hefur verið okkur mikils virði. Eins höfum við búið við nokkuð stöðuga veiði á kúfisk, sem er vel.
    Aðalmarkaðurinn fyrir kúfisk er í Ameríku og er sá markaður nokkuð stöðugur og frekar meiri eftirspurn en hitt. Þar hafa samstarfsaðilar okkar einnig verið okkur innan handar og það hefur komið sér vel í marga staði.“

Landvinnslan glæðist á ný.
    Jóhann segir að tiltölulega rólegt hafi verið yfir landvinnslu HÞ síðan hætt var að vinna Rússafisk á miðju síðasta ári en vonir standi til að landvinnslan glæðist með komu nýja skipsins. „Við vorum að vinna Rússafisk þar til á miðju síðasta ári, ásamt loðnu, síld og hrognum þegar það hráefni barst. Það hefur verið rólegt yfir þessari vinnslu í haust þar sem við höfum ekki haft Rússafiskinn sem grunn en það má segja að jafnvægi sé að skapast nú með kúfiskvinnslunni, því sú vinnsla gefur okkur þann möguleika að við getum flutt fólk til eftir því hvað við erum að framleiða og því fellur það vel saman við hitt.“
    Hjá HÞ er aðstaða til að verka frosinn fisk sem og saltfisk en Jóhann segir óvíst hver framtíð þeirrar vinnslu sé. „Það er eins með þá vinnslu og aðra að hún byggist á því hvernig tekjur og gjöld koma út í þessu. Þar sem ekki er mikið framboð af fiski á þessu svæði nema kannski yfir hásumarið, ef vel fiskast á færi hér, fer það algerlega eftir því hver afkoman í þeirri vinnslu er hvort það er vitrænt að vinna hana. Við höfum ekki getað byggt upp bolfiskvinnslu á okkar kvótaeign, sem er um 1.400 tonn, við höfum ekki séð grunn í því að veiða og vinna og byggja á því hér. Um tíma unnum við hér Rússafisk sem féll ágætlega að því að frysta loðnu, síld og hrogn. Þegar þeir toppar komu var Rússinn geymdur á meðan í frysti en það er erfiðara að fá slíkt til að falla vel saman við ferskan fisk sem ekki getur beðið.
    Hér er allt til staðar til að vinna bolfisk og við erum ekki að hugsa um að slátra þeirri aðstöðu nema upp komi þörf til þess. Við viljum frekar sjá hverju fram vindur og hver þróun mála verður,“ segir Jóhann A. Jónsson.