Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 134  —  134. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, með síðari breytingum.

Flm.: Örlygur Hnefill Jónsson, Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson.1. gr.

    Við A-lið 9. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Sé markaðsverð fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi slík matsgjörð, sem ekki er eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu skv. 1. mgr. 11. gr. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessari grein.

2. gr.

         Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með setningu laga um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, voru lögbundnar reglur um greiðslu skatts til erfðafjársjóðs af öllum fjárverðmætum og fjármunaréttindum. Við setningu laganna var gengið út frá því að löggjafinn hefði sett reglur sem mismunuðu þegnunum ekki með tilliti til skattlagningar. En tímar breytast og þær reglur sem voru sanngjarnar og réttlátar við setningu geta snúist upp í andhverfu sína.
    Á þeim tíma sem ákvörðun er tekin um það að miða í 9. gr. laga nr. 83/1984 við fasteignamatsverð til gjaldstofns erfðafjárskatts var um að ræða reglu sem telja má að verið hafi sanngjörn öllum þegnum þjóðfélagsins. Á þessum tíma má segja að undantekningalítið hafi söluverð eigna verið hærra en gildandi fasteignamatsverð, óháð því hvar á landinu eignir voru og því hvort þær voru í þéttbýli eða sveit. Nú er staðan hins vegar sannanlega önnur. Þeim dæmum fjölgar stöðugt, og þá sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, að ekki er hægt að selja eignir fyrir fasteignamatsverð. Með öðrum orðum er fasteignamatsverð, sem er gjaldstofn, í mörgum tilvikum orðið hærra, og það mikið hærra, en raunverulegt söluverð eignanna. Til eru einnig þau tilvik að ekki er hægt að koma viðkomandi eignum í verð. Því er ljóst að erfingjar geta staðið frammi fyrir því að þurfa að greiða umtalsverðan erfðafjárskatt af eign sem í raun er miklu minna virði. Það er því þannig komið að mikið óréttlæti felst í skattlagningu sem byggð er á A-lið 9. gr. varðandi fasteignir og hallar þar mjög á landsbyggðina og erfingja eigna þar. Hins vegar er ljóst að í öðrum liðum greinarinnar er gert ráð fyrir að hægt sé að byggja á matsverði eða markaðsverði varðandi eignir sem þar er fjallað um.
    Sú breyting sem lögð er til á lögunum er réttlætismál, þ.e. að þegnarnir séu skattlagðir í samræmi við raunverulega eign sína, en ekki út frá mati sem ekki fylgir fasteignaverði um stóran hluta landsins. Þetta mál er því byggðamál jafnframt því að vera jafnréttismál þegar svo er komið að fólk sem búsett er á ákveðnum stöðum landsins þarf að greiða hlutfallslega hærri skatta miðað við verðmæti en þeir sem búsettir eru eða erfa eignir sem eru t.d. á höfuðborgarsvæðinu þar sem raunverð fasteigna hefur haldist hátt og umfram fasteignamatsverð, en þar geta þó fundist tilvik sem þessi lagabreyting gæti bætt.
    Til að fullnægja réttlæti í þessum efnum er lagt til að erfingjar geti valið að fá metnar fasteignir sem þeir erfa. Er þá miðað við að matið yrði unnið og framkvæmt af matsmönnum sem sýslumenn tilnefna, sbr. 17. og 18. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., og að varðandi mat þetta sé farið eftir ákvæðum II. kafla laga nr. 20/1991 eftir því sem við getur átt.
    Til þess að ekki séu notuð gömul gögn varðandi þetta mat er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að gögn um slíkt mat, þ.e. matsgjörðir, megi ekki vera eldri en fjögurra vikna.