Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 136  —  136. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 40. gr. a, sem orðast svo:
    Viðskiptaráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Er lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, voru sett á sínum tíma var ekki talin þörf á að hafa reglugerðarheimild í lögunum. Sú þörf er hins vegar fyrir hendi nú. Tengist hún breytingu á 36. gr. laganna um ósanngjarna samningsskilmála eins og greininni var breytt m.a. með 36. gr. a–d, sbr. lög nr. 14/1995.
    Með lögunum frá 1995 voru tekin upp í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum en þessi tilskipun ráðs Efnahagsbandalags Evrópu varð hluti af EES-samningnum. Samráð var haft við önnur Norðurlönd um undirbúning að breytingu á löggjöfinni á þessum tíma enda eru samningalögin byggð á norrænum grunni.
    Í viðauka við framangreinda tilskipun er skrá yfir samningsskilmála sem teljast ósanngjarnir og er skráin til leiðbeiningar en ekki tæmandi. Var skráin birt sem fylgiskjal með lagafrumvarpinu á sínum tíma.
    Dómstólum og jafnvel stjórnvöldum er ætlað að tryggja framkvæmd framangreindra ákvæða í samningalögum um ósanngjarna samningsskilmála. Var eigi talið nauðsynlegt við upptöku tilskipunarinnar í íslenskan rétt að setja sérstaka reglugerð vegna upptalningar á ósanngjörnum samningsskilmálum í viðauka við gerðina, sér í lagi þar eð dómstólar og viðkomandi stjórnvöld mundu kynna sér þá upptalningu í þingskjalinu. Í ljós hefur hins vegar komið að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki talið að viðaukinn við tilskipunina, með upptalningu á ósanngjörnum samningsskilmálum, sé tekinn upp í rétt aðildarríkja sambandsins með viðunandi hætti og hefur málarekstur verið í gangi fyrir dómstóli Evrópubandalaganna (mál framkvæmdastjórnarinnar gegn Svíþjóð). Þá hefur eftirlitsstofnun EFTA spurst fyrir um upptöku tilskipunarinnar hér á landi og þá m.a. þetta atriði. Þykir með hliðsjón af þessu rétt að hafa reglugerðarheimild í lögunum. Er þá einnig horft til þess að taka átti ákvæði framangreindrar tilskipunar upp í lög hér á landi í síðasta lagi 31. desember 1994.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1936, um
samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að veita viðskiptaráðherra heimild til að gefa út reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd laganna. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.