Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 139  —  139. mál.
Tillaga til þingsályktunarum markvisst átak til að lengja ferðaþjónustutímann á Íslandi.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Örlygur Hnefill Jónsson, Kristján L. Möller,


Margrét Frímannsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Björgvin G. Sigurðsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra í samráði við Ferðamálaráð, Byggðastofnun og Samtök ferðaþjónustunnar að hrinda af stað markvissu átaki til að lengja ferðaþjónustutímann á Íslandi svo nýting gistrýma og annarrar þjónustu við ferðamenn aukist til muna. Sérstaklega skal tekið tillit til landsbyggðarinnar í þessu máli þar sem ferðaþjónusta er mun minni yfir vetrartímann en hún gæti orðið, miðað við þá aðstöðu og möguleika sem fyrir hendi eru.

Greinargerð.


    Ferðaþjónusta er afar mikilvæg atvinnugrein á Íslandi og hefur farið ört vaxandi undanfarin ár, svo mjög að hún er orðin sá atvinnuvegur sem aflar næstmestra gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið. Gífurleg fjölgun ferðamanna sem komu til Íslands yfir sumartíma hin síðari ár sýnir þetta hvað gleggst. Þá hefur aukist fjöldi erlendra ferðamanna sem koma til Reykjavíkur og nágrennis yfir vetrartímann. Í því tilviki er það oft fólk sem kemur hingað á ráðstefnur en fer lítið sem ekkert út fyrir borgarmörkin.
    Gistirýmum á Íslandi hefur fjölgað mjög undanfarin ár. Miklar fjárhæðir hafa verið lagðar í byggingu hótela, gistiheimila og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þessar fjárfestingar eru nauðsynlegar til þess að við getum tekið á móti ferðamönnunum sem koma hingað. Svo líkingamál sé notað má segja að hótelin séu bátar ferðaþjónustunnar. Ekki fiskast nema bátar séu til þess að sækja aflann. En hin öra uppbygging hefur líka orsakað miklar skuldir og rekstrarleg þörf greinarinnar fyrir aukna nýtingu, og þar með arðsemi, er gríðarlega mikil.
    Víða um land standa hótel og aðrir gististaðir að miklu leyti ónýttir yfir vetur, vor og haust þótt aðstaða sé öll hin besta. Fjárhagsleg staða margra hótela úti á landi er frekar bágborin og því geta eigendur þeirra eða rekstraraðilar ekki staðið í mikilli markaðssókn og auglýsingum á erlendri grund.
    Því er mjög eðlilegt að ríkið komi hér að með myndarlegum hætti og stuðli að komu fleiri ferðamanna til Íslands á þeim tíma sem nú nýtist ferðaþjónustunni frekar illa. Allt það fjármagn sem sett er í markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannaparadís mun skila sér margfalt til baka. Ef ferðamönnum fjölgar hér til muna og ferðaþjónusta vex, t.d. það mikið að hún skilar þrefalt meiri tekjum en núna, hefði það mjög jákvæð áhrif á efnahagslífið hér.
    Þetta mundi jafnframt styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni, auka þar fjölbreytni heilsársstarfa og hafa um leið þau áhrif að ferðaþjónustan efldist enn sem grundvallaratvinnugrein í landinu.


Prentað upp.