Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 150  —  150. mál.
Frumvarp til lagaum lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)1. gr.


    Samkvæmt lögum þessum geta stjórnvöld eða samtök, sem um ræðir í 2. og 3. gr., leitað eftir aðgerðum skv. 4. gr. til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðirnar að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn eftirtöldum tilskipunum sem þar gilda, eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög:
     1.      Tilskipun ráðsins 84/450/EBE frá 10. september 1984 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar.
     2.      Tilskipun ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva.
     3.      Tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán (Stjtíð. EB L 42, 12. febrúar 1987, bls. 48), eins og henni var síðast breytt með tilskipun 98/7/EB.
     4.      Tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur: 10. til 21. gr. eins og henni var breytt með tilskipun 97/36/EB.
     5.      Tilskipun ráðsins 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka.
     6.      Tilskipun ráðsins 92/28/EBE frá 31. mars 1992 um auglýsingu lyfja sem ætluð eru mönnum.
     7.      Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.
     8.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB frá 26. október 1994 um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni.
     9.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga.
     10.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 99/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.
     11.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“).

2. gr.


    Erlend stjórnvöld, sem getið er á skrá Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ákvæða í tilskipun 98/27/EB, geta að fullnægðum ákvæðum 1. gr. krafist hér á landi þeirra aðgerða sem nánar greinir í 4. gr. Sama á við um samtök sem þannig eru skráð og gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði ef brot beinist gegn slíkum hagsmunum.

3. gr.


    Viðskiptaráðuneytið getur fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu krafist þeirra aðgerða, sem nánar greinir í 4. gr., til að vernda heildarhagsmuni íslenskra neytenda, enda hafi afleiðinga athafnarinnar gætt hér á landi.
    Ráðherra getur jafnframt útnefnt íslensk félagasamtök, sem gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði, til að njóta heimildar til að grípa til aðgerða eins og um ræðir í 1. mgr. Setja má í reglugerð nánari skilyrði fyrir þessari heimild og neytingu hennar. Ráðherra skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir samkvæmt þessu og nánari skilyrði, sem kunna að verða sett um heimild þeirra í reglugerð, til að fá þau tekin þar á skrá, sbr. 2. gr.

4. gr.


    Í þeim tilgangi, sem um ræðir í 1. gr., geta stjórnvöld eða samtök, sem njóta réttar skv. 2. og 3. gr., leitað lögbanns hér á landi við athöfn sem ákvæði 1. gr. geta tekið til. Um lögbannsbeiðni, meðferð hennar, lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls til að fá það staðfest gilda almennar reglur að öðru leyti en því að gerðarbeiðandi getur að fengnu lögbanni krafist þess að sýslumaður láti birta auglýsingu um það svo komið verði í veg fyrir að áfram gæti afleiðinga af háttseminni sem lögbann var lagt við. Fallist sýslumaður á að nauðsyn beri til slíkrar auglýsingar skal hann verða við kröfu um að fá hana birta en kostnaður af því greiðist þá úr ríkissjóði.
    Í sama skyni og um ræðir í 1. mgr. geta stjórnvöld eða samtök, sem þar greinir, höfðað einkamál hér á landi til að fá bann lagt við athöfn.

5. gr.


    Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/99 24. september 1999, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið til þess að innleiða í íslensk lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda. Viðskiptaráðuneytið aflaði álits réttarfarsnefndar með bréfum, dags. 13. ágúst 1998 og 15. október 1999, á því hvort efni væri til að breyta íslenskum lögum vegna þessarar tilskipunar Evrópusambandsins eða hvort ákvæði gildandi laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, skýrð til samræmis við samninginn um Evrópska efnahagssvæði, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, mundu veita svigrúm til að vernda hagsmuni neytenda með lögbannsaðgerð eða málssókn. Í bréfi réttarfarsnefndar, dags. 16. des. 1999, segir m.a. að nauðsynlegt sé að setja sérlög um þetta efni hér á landi:
    „Er það einkum vegna þess að með tilskipuninni er sem áður segir stefnt að því að vernda heildarhagsmuni neytenda, en ekki aðeins samanlagða hagsmuni þeirra, sem brot hafi beinst gegn, en að baki umræddri 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 býr áskilnaður um að félög eða samtök, sem láta mál til sín taka, hafi innan vébanda sinna félagsmenn, sem sjálfir hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Í þessu ljósi verður að telja verulegan vafa leika á því að íslensk lög veiti að óbreyttu þau úrræði, sem krafist er með tilskipun 98/27.
    Vegna þess, sem að framan greinir, telur réttarfarsnefnd að ástæða sé til að setja sérstök lög til að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru með umræddri tilskipun. Í því sambandi skal þess getið að nefndin fær ekki séð hvernig unnt yrði að leysa þarfir í þessum efnum með því einu að breyta lögum á sviði réttarfars, enda er hér um að ræða mjög afmarkaðan flokk mála, sem illa færi á að setja sérreglur um í löggjöf um lögbann, auk þess að lagaheimildar væri væntanlega þörf til að fela samtökum eða stofnun gæslu þeirra hagsmuna, sem tilskipunin tekur til, sbr. áðurnefnda 3. gr. hennar.“
    Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu réttarfarsnefndar skipaði viðskiptaráðherra 15. september 2000 nefnd til að gera „tillögur um lagabreytingar sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunarinnar“. Í nefndina voru skipuð: Tryggvi Axelsson, formaður, deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu, Benedikt Bogason, þá skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, og Telma Halldórsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af Neytendasamtökunum, en síðar tók hennar sæti Geir Marelsson lögfræðingur, einnig tilnefndur af Neytendasamtökunum.
    Með bréfi dags 5. september 2001 skilaði nefndin viðskiptaráðherra drögum að frumvarpi til innleiðingar á tilskipun 98/27/EB og er frumvarp þetta byggt á tillögu nefndarinnar.
    Í tilskipun 98/27/EB er lagt til grundvallar að í öllum aðildarríkjum á EES-svæðinu séu til réttarúrræði til þess að stöðva ólögmæta markaðsfærslu (viðskiptahætti) sem eru í andstöðu við þær níu tilskipanir á sviði neytendaverndar sem taldar voru upp í viðauka tilskipunarinnar þegar hún var upphaflega birt. Síðar hefur tveimur tilskipunum verið bætt við þann lista, þ.e. tilskipun 99/44/EB, um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi, og tilskipun 2001/31/EB, um rafræn viðskipti. Tilgangur tilskipunar 98/27/EB er ekki að samræma réttarúrræði eða réttarfar aðildarríkjanna heldur að auðvelda hlutaðeigandi yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum að krefjast dómsúrskurðar eða lögbanns gegn ólögmætum athöfnum í því ríki þar sem varnarþing fremjanda brotsins er. Heimild þessara aðila samkvæmt frumvarpi þessu nær þó ekki til hvers kyns athafna heldur aðeins þeirra sem kunna að brjóta gegn þeim lögum sem hlutaðeigandi ríki hafa sett vegna lögleiðingar á þeim tilskipunum sem taldar eru upp í viðauka 98/27/EB, sbr. og 1. gr frumvarpsins. Tilskipunin gerir þó þær lágmarkskröfur til aðildarríkjanna að þau veiti aðgang að þeim stjórnvöldum og dómstólum sem séu bærir til þess með skjótum hætti að stöðva brot á tilskipunum sem taldar eru upp í viðaukanum. Aðildarríkjum er einnig skylt að tilnefna fyrir sitt leyti og viðurkenna með gagnkvæmum hætti þau stjórnvöld (eða samtök) sem önnur aðildarríki hafa veitt heimild og tilnefnt vegna lögleiðingar þessarar tilskipunar til þess að teljast bær um að höfða dómsmál, að undangengnu lögbanni ef þörf krefur, gegn ólögmætum athöfnum og þar með brotum á ákvæðum þeirra tilskipana sem frumvarp þetta tekur til. Aðildarríkin skulu tilkynna til framkvæmdastjórnar ESB hvaða stjórnvöld (eða samtök) hafi fengið slíkt vald og birtir hún síðan einn heildarlista yfir þá aðila sem tilkynnt hefur verið um í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. EFTA-ríkin í EES tilkynna með samsvarandi hætti um framangreinda aðila til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
    Í tilskipun 98/27/EB er ekki að finna ákvæði sem víkja að mati á því hvort leggja skuli lögbann við athöfn sem talin er andstæð ákvæðum tilskipunarinnar. Veltur það því á almennum reglum í hverju tilviki fyrir sig. Aðildarríkjum er líka heimilt að setja reglur um að samráð skuli haft við innlend eftirlitsstjórnvöld í því landi sem fyrirtækið (fremjandi brots) á varnarþing og veita því stjórnvaldi möguleika á því að hefja málssókn í staðgöngu hins erlenda stjórnvalds en um slíkt samstarf færi samkvæmt samkomulagi hlutaðeigandi aðila og almennum reglum um málflutningsumboð, o.fl.
    Á alþjóðavettvangi fer fram ýmislegt samstarf aðila sem fara með eftirlit á sviði markaðsfærslu yfir landamæri. Árið 1992 stofnuðu stjórnvöld ýmissa ríkja til samstarfs og stofnuðu með sér samtök er nefnast International Marketing Supervision Network (IMSN) en þátttakendur í því samstarfi eru ýmis ríki í Evrópu og fjölmörg OECD-ríki. Árið 1999 var stofnaður undirhópur í framangreindu samstarfi (IMSN Europe) þar sem þátt taka stjórnvöld ýmissa EES-ríkja sem eiga að framfylgja ákvæðum í löggjöf Evrópusambandsins á sviði neytendaverndar. Meginástæða þess að stofnað var til sérstaks samstarfs þessara aðila var sú að styrkja samstarf þessara aðila, einkum vegna sífellt aukinnar markaðsfærslu yfir landamæri og stuðla þannig að því að skipst verði á upplýsingum með skipulögðum hætti og gagnkvæm aðstoð veitt ef á þarf að halda. Eins og áður hefur komið fram er einn megintilgangur tilskipunar 98/27/EB og þessa frumvarps að koma í veg fyrir ólögmætar athafnir þegar viðskipti eru stunduð yfir landamæri. Loks má geta þess að á ráðherrafundi neytendamála á Norðurlöndum sem fór fram í Finnlandi 19. júní 2001 var kynntur nýr samstarfssamningur hinna fjögurra starfandi umboðsmanna neytenda á Norðurlöndum þar sem þeir hafa samið um gagnkvæma aðstoð við framkvæmd laga sem lögleiða tilskipun 98/27/EB. Við samþykkt þessa frumvarps mun ráðuneytið kanna hvort hagkvæmt sé að Ísland gerist aðili að þeim samstarfssamningi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Af greininni kemur skýrt fram að ákvæði þessa frumvarps eiga aðeins við þegar ástæða þykir til að krefjast lögbanns í því skyni að vernda hagsmuni neytenda samkvæmt þeim lagaákvæðum sem sett hafa verið í innlendan rétt samkvæmt þeim tilskipunum sem taldar eru upp í viðauka við tilskipun 98/27/EB. Ákvæði þessa frumvarps eiga við þegar íslensk fyrirtæki eða viðskiptaaðilar framkvæma athafnir sem brjóta gegn áðurnefndum lagaákvæðum ef afleiðingar brotsins koma fram í öðru EES-ríki enda meginmarkmið þessa frumvarps að styrkja framkvæmd laga þegar um er að ræða viðskipti yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er gert ráð fyrir að viðskiptaráðuneytið eða samtök sem það tilnefnir, sbr. 3. gr., geti gripið til úrræða samkvæmt lögunum.

Um 2. gr.


    Samkvæmt þessu ákvæði er erlendum stjórnvöldum og samtökum veitt málshöfðunarheimild fyrir íslenskum dómstólum í því skyni að fá stöðvað með dómsúrskurði eða lögbanni ólögmætar athafnir íslensks viðskiptaaðila sem þau telja að séu brot á einhverjum þeirra lagabálka sem settir hafa verið til þess að innleiða þær tilskipanir sem taldar eru upp í viðauka tilskipunar 98/27/EB í hlutaðeigandi ríki. Framkvæmdstjórn ESB og eftirlitsstofnun EFTA (ESA) eiga samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar að taka saman lista yfir þá aðila sem aðildarríkin hafa tilnefnt í samræmi við þetta ákvæði tilskipunarinnar og birta hann í Stjórnartíðindum ESB og EES-tíðindunum. Á þessum lista verða því stjórnvöld (eða samtök er gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði) í aðildarríkjum EES sem teljast hafa lögmæta hagsmuni af því að tryggja framkvæmd þeirra tilskipana sem taldar eru upp í viðauka tilskipunarinnar og hafa til þess leyfi samkvæmt löggjöf hlutaðeigandi ríkis. Væntanlega munu dómstólar byggja ákvörðun um rétt aðila til málshöfðunar á þessum lista sem birtur verður opinberlega með framangreindum hætti. Hins vegar er rétt að benda á að það takmarkar ekki á nokkurn hátt rétt dómstólanna til þess að kanna með venjubundum hætti hvort hinir tilkynntu aðilar í hverju einstöku máli fyrir sig hafi lögvarða hagsmuni af málssókninni. Til dæmis gæti dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að tiltekin samtök bifreiðaeigenda í Evrópu væru á framangreindum lista hefðu þau ekki lögvarða hagsmuni af því að lagt yrði bann við tiltekinni lyfjaauglýsingu vegna upplýsinga sem þar kæmu fram. Auk þess verður alltaf að gera þá kröfu að sú athöfn sem krafist er lögbanns gegn hafi í reynd áhrif í því ríki þar sem viðkomandi stjórnvald (eða samtök) sem leggja fram kröfuna eru staðsett.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er að finna ákvæði um hvaða aðilar geta farið með sókn máls á grundvelli þessa frumvarps. Nauðsynlegt er að það liggi skýrt fyrir að minnsta kosti einn aðili hér á landi hafi samkvæmt lögum rétt og skyldu að geta krafist þess að athafnir sem kunna að brjóta í bága við lagaákvæði sem vísað er til í 1. gr. frumvarpsins verði stöðvaðar. Eðlilegt er að viðskiptaráðuneytinu sé falið það verkefni enda fellur neytendavernd undir verksvið ráðuneytisins. Í 2. mgr. er ráðherra einnig veitt heimild til þess að útnefna íslensk félagasamtök sem gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði og tilkynna þau á listann sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mun halda yfir þá aðila í EFTA-ríkjunum í EES sem tilnefndir hafa verið með hliðsjón af tilskipun 98/27/EB. Að svo stöddu er einungis gert ráð fyrir að viðskiptaráðuneytið verði tilkynnt til ESA en með hliðsjón af framkvæmd og reynslu af ákvæðum þessa frumvarps kann síðar að koma í ljós hvort æskilegt sé og jafnvel hagfellt að tilnefna fleiri innlenda aðila og tilkynna um það til eftirlitsstofnunar EFTA. Einungis reynsla næstu ára muni skera úr um það atriði. Í heimild ráðherra til þess að geta í samráði við hlutaðeigandi aðila tilnefnt fleiri aðila til þess að vera sóknaraðilar í málum, sem falla undir ákvæði þessa frumvarps, felst einnig að ráðherra getur afturkallað slíka tilnefningar ef ástæða þykir til.

Um 4. gr.


    Af ákvæði þessarar greinar leiðir að unnt verður að leita eftir að lagt verði bann eða eftir atvikum lögbann við athöfn íslensks aðila sem brýtur í bága við ákvæði þeirra tilskipana sem vísað er til í 1. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er ekki tekið fram hvaða efnisréttur skuli lagður til grundvallar í málum samkvæmt þessari grein og veltur það á þeim reglum sem reynir á í hverju tilviki. Að öðru leyti fer um lögbannsbeiðni, meðferð hennar og lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls eftir almennum reglum réttarfarsins að öðru leyti en því að gerðarbeiðandi getur krafist þess að sýslumaður láti birta auglýsingu um það svo komið verði í veg fyrir að áfram gæti afleiðinga af háttseminni, sem lögbann er lagt við. Fallist sýslumaður á að nauðsyn beri til slíkrar auglýsingar skal hann verða við kröfu um að fá hana birta, en kostnaður af því greiðist þá úr ríkissjóði.

Um 5.–6. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal I.TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 98/27/EB
frá 19. maí 1998
um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 100. gr. a,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 189. gr. b í sáttmálanum ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í ákveðnum tilskipunum, sem taldar eru upp í skrá sem er viðauki við þessa tilskipun, eru settar reglur um neytendavernd.

     2)      Ekki er alltaf unnt að stöðva nógu fljótt brot gegn sameiginlegum hagsmunum neytenda með þeim aðferðum sem nú eru tiltækar hvort heldur er á landsvísu eða á bandalagsvísu, til þess að tryggja að farið sé að þessum tilskipunum. Sameiginlegir hagsmunir eru þeir hagsmunir sem ekki eru uppsafnaðir hagsmunir einstaklinga sem hafa orðið fyrir skaða vegna brots. Þetta hefur ekki áhrif á lögsókn af hálfu einstaklinga sem hafa orðið fyrir skaða vegna brots.

     3)      Áhrifin af innlendum ráðstöfunum til að leiða í lög framangreindar tilskipanir, sem er ætlað að binda enda á viðskiptahætti sem eru ólöglegir samkvæmt gildandi landslögum, að meðtöldum verndarráðstöfunum sem ganga lengra en krafist er í þessum tilskipunum, að því tilskildu að þessar ráðstafanir samrýmist stofnsáttmálanum og séu leyfilegar samkvæmt tilskipununum, geta orðið að engu þegar slíkir viðskiptahættir hafa áhrif í öðru aðildarríki en þar sem þeir eru upprunnir.

     4)      Þessi vandkvæði geta raskað snurðulausri starfsemi innri markaðarins vegna þess að þetta hefur í för með sér að ekki þarf annað en að flytja ólöglega viðskiptahætti til annars lands til þess að komast undan hvers konar réttaraðför. Veldur þetta röskun á samkeppni.

     5)      Þessi vandkvæði eru líkleg til að rýra traust neytenda á innri markaðinum og geta takmarkað svigrúm til aðgerða af hálfu þeirra samtaka, sem gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda, eða óháðra opinberra aðila sem bera ábyrgð á því að gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda sem verða fyrir skaða vegna viðskiptahátta er brjóta gegn lögum bandalagsins.

     6)      Þessir viðskiptahættir ná oft út fyrir landmærin milli aðildarríkjanna. Því er áríðandi að samræma sem fyrst innlend ákvæði sem myndu binda enda á framangreint form ólöglegs athæfis, án tillits til þess í hvaða landi hið ólöglega athæfi hefur áhrif. Að því er varðar lögsögu hefur þetta ekki áhrif á ákvæði í reglum alþjóðlegs einkamálaréttar eða samninga sem í gildi eru milli aðildarríkjanna, en taka ber tillit til almennra skuldbindinga aðildarríkjanna sem af sáttmálanum leiðir, einkum skuldbindinga sem varða snurðulausa starfsemi innri markaðarins.

     7)      Einungis bandalagið getur náð fram fyrirhuguðum markmiðum þessara aðgerða. Bandalaginu ber því skylda til að bregðast við.

     8)      Þriðja málsgrein 3. gr. b í sáttmálanum leggur þær kvaðir á bandalagið að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná fram markmiðum sáttmálans. Í samræmi við þá grein verður að taka tillit til sérstakra einkenna innlendrar löggjafar að því marki sem unnt er með því að eftirláta aðildarríkjunum valið á milli mismunandi möguleika sem hafa samsvarandi áhrif. Dómstólar og yfirvöld á sviði stjórnsýslu sem eru til þess bær að taka ákvörðun um þá málsmeðferð sem vísað er til í 2. gr. þessarar tilskipunar skulu hafa rétt til að rannsaka áhrif fyrri ákvarðana.

     9)      Einn þessara möguleika skal felast í því að krefjast þess að einn eða fleiri óháðir opinberir aðilar, sem eru sérstaklega ábyrgir fyrir því að gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda, framfylgi réttinum til lögsóknar sem greint er frá í þessari tilskipun. Annar möguleiki skal felast í ráðstöfunum, sem veita samtökum, sem gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda þennan rétt, í samræmi við skilyrði sem mælt er fyrir um í landslögum.
     10)      Aðildarríkin skulu geta valið á milli þessara möguleika eða notað þá báða við tilnefningu innlendra stofnana og/eða samtaka sem eru viðurkennd samkvæmt markmiðum þessarar tilskipunar.

     11)      Við brot innan bandalagsins skal meginreglan um gagnkvæma viðurkenningu gilda um þessar stofnanir og/eða samtök. Aðildarríkin skulu, samkvæmt fyrirmælum sinna innlendu stofnanna/samtaka, tilkynna framkvæmdastjórninni nöfn og tilgang innlendra stofnana/samtaka sem eru til þess bærar eða bær að bera fram kæru í heimalandi sínu í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

     12)      Það er framkvæmdastjórnarinnar að tryggja að birt verði skrá yfir þessar viðurkenndu stofnanir/samtök í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna. Þar til tilkynning hefur borist um annað, telst viðurkennd stofnun/samtök hafa rétthæfi ef nafn hennar/þeirra er í skránni.

     13)      Aðildarríki skulu geta farið þess á leit að málsaðili sem hyggst hefja málsókn vegna brota geti, áður en til þess kemur, haft samráðsfund með stefnda til að gefa honum tækifæri til að binda enda á brotið sem um er deilt. Aðildarríki skulu geta farið þess á leit að þessi samráðsfundur eigi sér stað á sameiginlegum fundi ásamt óháðri opinberri stofnun sem tilnefnd er af þessum aðildarríkjum.

     14)      Þegar aðildarríkin hafa ákveðið slíkt samráð skal veittur tveggja vikna frestur eftir að beiðni um slíkar viðræður berst þannig að ef ekki er bundinn endir á hið brotlega athæfi á stefnandi rétt á að hefja málsókn á vettvangi dómstóls eða yfirvalds á sviði stjórnsýslu án frekari tafa.

     15)      Rétt er að framkvæmdastjórnin gefi skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar og þá sérstaklega um gildissvið hennar og undanfarandi viðræður.

     16)      Beiting þessarar tilskipunar skal ekki hafa áhrif á beitingu samkeppnisreglna bandalagsins.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.


Gildissvið


1.     Tilgangurinn með þessari tilskipun er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna er varða lögbannsaðgerðir sem um getur í 2. gr. og miða að verndun sameiginlegra hagsmuna þeirra neytenda, sem fjallað er um í þeim tilskipunum sem skráðar eru í viðaukanum, með það fyrir augum að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins.

2.     Í þessari tilskipun merkir brot hvers konar verknað sem brýtur gegn þeim tilskipunum sem taldar eru upp í viðaukanum eins og þær eru teknar upp í landsrétt aðildarríkjanna og skaðar þá sameiginlegu hagsmuni sem um getur 1. mgr.

2. gr.


Lögbannsaðgerðir


1.     Aðildarríkin skulu tilnefna til þess bæra dómstóla og yfirvöld á sviði stjórnsýslu til þess að úrskurða um dómsmál, sem stofnað er til af viðurkenndum stofnunum/samtökum í skilningi 3. gr., og leita eftir:

     a)      skjótum úrskurði, með einfaldaðri málsmeðferð ef það á við, þar sem krafist er stöðvunar eða banns við hvers konar broti;

     b)      aðgerðum, ef það á við, svo sem birtingu ákvörðunarinnar, í heild eða að hluta, með því sniði sem sýnist fullnægjandi og/eða birtingu á tilkynningu um leiðréttingu með það fyrir augum að koma í veg fyrir áframhaldandi áhrif brotsins;

     c)      að því marki sem löggjöf aðildarríkisins leyfir, úrskurði um sektargreiðslu stefnda ef hann tapar málinu, í ríkissjóð eða til hvers þess rétthafa sem skilgreindur hefur verið í eða samkvæmt innlendri löggjöf, ef viðkomandi hlítir ekki úrskurði innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið fyrir dómstólum eða af stjórnsýsluyfirvöldum, er nemi tilteknum dagsektum eða annarri fjárhæð sem kveðið er á um í innlendri löggjöf, með það fyrir augum að tryggja að úrskurði sé hlítt.

2.     Tilskipun þessi skal ekki hafa áhrif á reglur alþjóðlegs einkamálaréttar, með tilliti til gildandi laga, sem leiðir að öllu jöfnu til beitingar laga þess aðildarríkis þar sem brotið á sér stað eða laga þess aðildarríkis þar sem brotið hefur áhrif.

3. gr.


Aðilar sem geta hafið málsókn

Í þessari tilskipun merkir „viðurkennd stofnun/samtök“ hverja þá stofnun eða samtök sem eru stofnuð formlega í samræmi við lög aðildarríkisins, sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta við að tryggja að þeim ákvæðum sem vísað er til í 1. gr. sé hlítt, einkum þegar um er að ræða:

     a)      eina eða fleiri óháðar opinberar stofnanir, sérstaklega ábyrgar fyrir því að verja þá hagsmuni sem vísað er til í 1. gr., í þeim aðildarríkjum þar sem slíkar stofnanir eru til og/eða

     b)      samtök sem hafa þann tilgang að verja þá hagsmuni sem um getur í 1. gr., í samræmi við þær viðmiðanir sem mælt er fyrir um í landslögum.

4. gr.
Brot innan bandalagsins

1.     Hvert aðildarríki skal, ef brot á sér stað í því aðildarríki, gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að hver viðurkennd stofnun eða samtök frá öðru aðildarríki, þar sem brotið hefur áhrif á hagsmuni sem stofnunin eða samtökin eiga að verja, geti vísað málinu til dómstóls eða stjórnsýsluyfirvalds sem um getur í 2. gr. með því að framvísa skránni sem kveðið er á um í 3. mgr. Dómstólar eða stjórnvöld skulu viðurkenna skrána sem sönnun á rétthæfi stofnunarinnar eða samtakanna án þess að það hafi áhrif á rétt þeirra til að rannsaka hvort tilgangur viðurkenndu stofnunarinnar/samtakanna réttlæti að þau grípi til aðgerða í tilteknu tilviki.

2.     Varðandi brot innan bandalagsins, og án þess að það hafi áhrif á réttindi annarra aðila samkvæmt landslögum, skulu aðildarríkin, að beiðni viðurkenndrar stofnunar/samtaka, tilkynna til framkvæmdastjórnarinnar að þessi stofnun/samtök séu viðurkennd til að hefja málsókn samkvæmt 2. gr. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni nöfn og markmið þessarar viðurkenndu stofnunar/samtaka.

3.     Framkvæmdastjórnin skal gera tillögu að skrá yfir viðurkenndar stofnanir/samtök sem vísað er til í 2. gr., ásamt lýsingu á markmiðum þeirra. Þessa skrá skal birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna. Breytingar á þessari skrá skal birta án tafar; endurskoðaða skrá skal birta á sex mánaða fresti.

5. gr.
Undanfarandi viðræður

1.     Aðildarríki geta samþykkt eða haldið í gildi ákvæðum um að sá aðili sem hyggst krefjast lögbanns geti því aðeins hafið það ferli að hann hafi áður reynt að stöðva hið brotlega athæfi með viðræðum við annaðhvort stefnda eða bæði stefnda og viðurkennda stofnun/samtök í samræmi við 3. gr. a, í því aðildarríki þar sem leitað er eftir lögbanni. Það er aðildarríkisins að ákveða hvort sá málsaðili sem krefst lögbannsins verði að eiga viðræður við viðurkennda stofnun/samtök. Ef ekki tekst að stöðva hið brotlega athæfi innan tveggja vikna frá því að beiðni um viðræður berst getur viðkomandi málsaðili hafið lögbannsaðgerðir.

2.     Þær reglur sem hafa verið settar um viðræður ber að tilkynna til framkvæmdastjórnarinnar og skal birta þær í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

6. gr.
Skýrslur

1.     Á þriggja ára fresti og í fyrsta sinn eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslu um beitingu tilskipunarinnar.

2.     Í fyrstu skýrslu sinni skal framkvæmdastjórnin sérstaklega rannsaka:

               gildissvið þessarar tilskipunar með tilliti til verndunar á sameiginlegum hagsmunum einstaklinga sem stunda verslunar-, iðnaðar-, listiðnaðar- eða atvinnustarfsemi;
    
               gildissvið þessarar tilskipunar eins og það er ákvarðað í tilskipununum sem skráðar eru í viðaukanum;
    
               hvort samráðsviðræður 5. gr. hafi stuðlað að skilvirkri verndun neytenda.

Þessari skýrslu skulu fylgja tillögur með það fyrir augum að breyta þessari tilskipun, þar sem það á við.

7. gr.
Ákvæði um frekari aðgerðir

Þessi tilskipun skal ekki hindra aðildarríkin í að setja eða halda í gildi ákvæðum sem veita hæfum stofnunum/samtökum og hverjum þeim öðrum sem málið varðar víðtækari réttindi til að hefja málsókn innanlands.

8. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30 mánuðum eftir að hún tekur gildi. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.


9. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

10. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

    Gjört í Brussel 19. maí 1998.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,
    J. M. GIL-ROBLES     G. BROWN
     forseti.        forseti.VIÐAUKI


SKRÁ YFIR TILSKIPANIR SEM FALLA UNDIR 1. GR. ( * )
     1.      Tilskipun ráðsins 84/450/EBE frá 10. september 1984 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar (Stjtíð. EB L 250, 19.9.1984, bls. 17).

     2.      Tilskipun ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva (Stjtíð. EB L 372, 31.12.1985, bls. 31).

     3.      Tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán (Stjtíð. EB L 42, 12.2.1987, bls. 48), eins og henni var síðast breytt með tilskipun 98/7/EB (Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 17).

     4.      Tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur: 10. til 21. gr. (Stjtíð. EB L 298, 17.10.1989, bls. 23 eins og henni var breytt með tilskipun 97/36/EB (Stjtíð. EB L 202, 30.7.1997, bls. 60)).

     5.      Tilskipun ráðsins 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka (Stjtíð. EB L 158, 23.6.1990, bls. 59).

     6.      Tilskipun ráðsins 92/28/EBE frá 31. mars 1992 um auglýsingu lyfja sem ætluð eru mönnum (Stjtíð. EB L 113, 30.4.1992, bls. 13).

     7.      Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum (Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29).

     8.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB frá 26. október 1994 um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni (Stjtíð. EB L 280, 29.10.1994, bls. 83).

     9.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga (Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19).


Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um lögbann og dómsmál
til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

    Tilgangur frumvarpsins er að efla vörn gegn ólögmætum viðskiptaháttum milli landa sem er hluti öryggisverndar neytenda á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt frumvarpinu geta íslensk stjórnvöld krafist fyrir erlendum dómstólum lögbanns á ólögmæta viðskiptahætti sem stefnt er gegn Íslendingum. Alls er óvíst hvernig þessi réttur verði nýttur, ef svo fer er gert ráð fyrir að kostnaðurinn falli undir meðferð opinberra mála. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi annan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

     1 Stjtíð. EB C 107, 13.4.1996, bls. 3 og Stjtíð. EB C 80, 13. 3. 1997, bls. 10.
     2 Stjtíð. EB C 30, 30. 1. 1997, bls. 112.
     3     Ályktun Evrópuþingsins frá 14. nóvember 1996 (Stjtíð. EB C 362, 2. 12. 1996, bls. 236). Sameiginleg afstaða ráðsins frá 30. október 1997, (Stjtíð. EB C 389, 22. 12. 1997, bls. 51) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 12. mars 1998 (Stjtíð. EB C 104, 6. 4. 1998). Ákvörðun ráðsins frá 23. apríl 1998.
     * Tilskipanir nr. 1, 6, 7, og 9 innihalda sérstök ákvæði um lögbannsaðgerðir.