Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 159  —  158. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni.

Flm.: Ármann Höskuldsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Drífa Hjartardóttir,
Ólafur Örn Haraldsson, Hjálmar Árnason, Margrét Frímannsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að skipa nefnd er hafi það hlutverk að undirbúa stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni. Meginmarkmið með þjóðgarðinum verði að varðveita og kynna jarðsögu Heklu.

Greinargerð.


    Hekla er eitt þekktasta eldfjall Íslands sem og heimsins alls. Hekla er ekki einungis fræg fyrir það að hafa um nokkrar aldir verið talin einn megininngangurinn til hins neðra heldur er hún eitt þeirra eldfjalla á Íslandi þar sem nær allar tegundir eldgosa hafa orðið. Íslenskt samfélag varð fyrst vart við Heklu er hún gaus fyrsta sinni á sögulegum tíma 1104 með miklu sprengigosi. Í því gosi lögðust allar byggðir í Þjórsárdal og nágrenni í eyði vegna öskufalls. Síðan þá hefur Hekla gosið 17 sinnum, síðast í febrúar árið 2000. Undanfarna þrjá áratugi hefur hún gosið á um 10 ára fresti. Þrátt fyrir að forsöguleg gossaga Heklu sé ekki að fullu þekkt má fullyrða að hún er ekki síður mikilfengleg en virkni hennar á sögulegum tíma. Best eru þekkt forsöguleg gos hennar, nefnd H3 (um 2.900 ára), H4 (um 4.800 ára) og H5 (um 7.000 ára), sem samkvæmt Sigurði heitnum Þórarinssyni prófessor eru með stærstu eldgosum landsins á nútíma. Menjar þessara eldgosa eru notuð sem tímamerki við rannsóknir á forsögulegum tíma á Íslandi og í Evrópu. Eldgos í Heklu eru einna mestu valdar búsifja í sögu byggðar á landinu. Má það einkum rekja til mikillar ösku og flúors er upp kemur í gosum hennar.
    Hekla flokkast til megineldstöðva, en það eru þau eldfjöll sem gjósa um sömu sprunguna aftur og aftur þannig að upp hlaðast mikil fjöll. Hekla er þó frábrugðin erlendum systrum sínum þar sem hún gýs um eldsprungu er liggur eftir endilöngu fjallinu. Þannig hefur Hekla byggst upp sem hryggur en ekki keila eins og hinar erlendu systur hennar.
    Berggerð Heklu er einnig einstök í flokki íslenskra eldfjalla. Langalgengasta bergtegund er upp kemur í íslenskum eldfjöllum er basalt, en í Heklu er algengasta berggerðin aftur á móti andesít, sem er súrara og seigara en basaltið. Umhverfi Heklu ber þess merki enda hraun hennar úfin og ill yfirferðar. Frá ísaldarlokum hefur kvikukerfi eldfjallsins þróast þannig að efnasamsetning kvikunnar er upp kemur í eldgosum mótast af þeirri tímalengd er líður á milli gosa. Svo taktviss eru þessi tengsl goshlés og efnasamsetningar að einstakt þykir á heimsvísu.
    Eldvirkni Heklu nær langt inn í síðustu ísöld og má því finna í nágrenni hennar menjar eldgosa frá tímum aljöklunar landsins sem og hinum íslausa tíma síðustu 10 þúsund ár.
    Útræn öfl herja á Heklu milli gosa, hraun veðrast og gróður nemur í þeim land. Sökum mikillar og reglubundinnar virkni eldfjallsins er nánasta umhverfi þess eins og opin kennslubók í þessum fræðum þar sem má finna hraun á öllum stigum þessarar þróunar.
    Fræðagildi þjóðgarðsins er ótvírætt og býður upp á mikla möguleika fyrir fróðleiksfúsa.