Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 168  —  167. mál.
Frumvarp til lagaum leigubifreiðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til fólksbifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs. Fólksbifreiðar sem skráðar eru fyrir fleiri en átta farþega falla þó ekki undir lög þessi. Leiguakstur fólksbifreiða telst það þegar fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra.
    Heimilt er með reglugerð að kveða á um mörkin á milli atvinnusviðs fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs. Rísi ágreiningur um þessi mörk sker Vegagerðin úr.
    Leigubifreiðar skulu auðkenndar samkvæmt reglum sem samgönguráðherra setur að fengnum tillögum Vegagerðarinnar.

2. gr.
Umsjón með leiguakstri.

    Vegagerðin fer með framkvæmd mála er varða leigubifreiðar. Undir starfssvið hennar fellur útgáfa starfsleyfa bifreiðastöðva, útgáfa atvinnuleyfa, útgáfa leyfa fyrir forfallabílstjóra og námskeiðahald. Þá sér Vegagerðin um starfrækslu gagnagrunns sem m.a. geymir upplýsingar um atvinnuleyfi og heimildir til undanþágu frá akstri eigin bifreiðar. Í gagnagrunninn eru skráðar nauðsynlegar upplýsingar sem liggja verða til grundvallar útgáfu atvinnu- og/eða starfsleyfis. Við skráningu gagna í gagnagrunninn og meðferð þeirra skal gætt ákvæða laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Bifreiðastöðvar skulu gefa Vegagerðinni upplýsingar um einstaka atvinnuleyfishafa, svo sem hverjir aka á hvaða stöð og önnur atriði er varða umsýslu leigubifreiðamála. Vegagerðin getur heimilað sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á bifreiðastöðvum eða hjá bifreiðastjórafélögum til þess að afgreiða undanþágur skv. 9. gr.
    Atvinnuleyfishöfum er skylt að veita Vegagerðinni upplýsingar sem varða atvinnuleyfi þeirra og nýtingu þess.
    Samgönguráðherra er heimilt að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að fela einstökum sveitarstjórnum framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins.

3. gr.
Bifreiðastöðvar.

    Allar leigubifreiðar á takmörkunarsvæði skv. 8. gr. skulu hafa afgreiðslu á bifreiðastöð sem fengið hefur viðurkenningu Vegagerðarinnar. Vegagerðin gefur út starfsleyfi til bifreiðastöðva.
    Bifreiðastöðvar fyrir leigubifreiðar skulu í samráði við félög leigubifreiðastjóra skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að almenningi verði veitt góð og örugg þjónusta. Hver bifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigubifreiðar. Skal hún sérstaklega fylgjast með því að reglur um nýtingu atvinnuleyfis séu ekki brotnar.
    Bifreiðastöð getur séð um afgreiðslu undanþágna frá akstri eigin bifreiða skv. 9. gr. Telji bifreiðastöð að þeir sem hafa afgreiðslu á stöðinni hafi brotið gegn ákvæðum þessum skal hún stöðva afgreiðslu þeirra og tilkynna það til Vegagerðarinnar.
    Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um hlutverk og skyldur bifreiðastöðva og skilyrði starfsleyfis að fengnum tillögum Vegagerðarinnar. Þar geta m.a. komið fram kröfur um þjónustustig, lágmarksfjölda bifreiða og tæknibúnað. Vegagerðinni er heimilt að setja í reglur gæðastaðla um þjónustu leigubifreiðastjóra, stærð og búnað bifreiða o.fl. Bifreiðastöðvar skulu sjá um að gæðastöðlum sé framfylgt.

4. gr.
Stjórnsýslukæra.

    Ákvörðunum Vegagerðarinnar og bifreiðastöðva samkvæmt lögum þessum verður skotið til samgönguráðherra.
     Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

II. KAFLI
Leyfisveitingar.
5. gr.
Skilyrði fyrir atvinnuleyfi.

    Sá sem fullnægir öllum eftirtöldum skilyrðum getur fengið atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum:
     1.      Hefur fullnægjandi starfshæfni, þ.m.t. fullnægjandi ökuréttindi og tilskilin námskeið sem nánar er fjallað um í reglugerð.
     2.      Er skráður eigandi fólksbifreiðar, þ.e. atvinnuleyfishafi skal vera skráður eigandi bifreiðar eða skráður fyrsti umráðamaður með a.m.k. 35% eignarhlutdeild samkvæmt samningi við löggilt kaupleigufyrirtæki.
     3.      Stundar leiguakstur að aðalatvinnu, sbr. þó 9. gr.
     4.      Hefur óflekkað mannorð. Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem dæmdur hefur verið til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar eða öryggisgæslu. Ef meira en fimm ár eru liðin frá uppkvaðningu dómsins og dómurinn hefur ekki kveðið á um lengri en fjögurra mánaða fangelsis- eða varðhaldsvist telst brotið fyrnt í skilningi laganna nema um sé að ræða skírlífisbrot eða að viðkomandi hafi verið dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi. Brotið telst þó ætíð fyrnt ef viðkomandi hefur fengið uppreist æru.
     5.      Er fjár síns ráðandi.
     6.      Er 70 ára eða yngri, sbr. þó 2. málsl. 7. mgr. 9. gr.
    Forfallabílstjóri skal uppfylla skilyrði 1., 4. og 6. tölul. 1. mgr.
    Samgönguráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og akstri forfallabílstjóra.

6. gr.
Veiting atvinnuleyfa.

    Atvinnuleyfi skv. 5. gr. er skilyrði þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leiguakstur á fólki, sbr. þó 9. gr. Atvinnuleyfi eru gefin út af Vegagerðinni hvort sem er á takmörkunarsvæðum eða utan þeirra.
    Atvinnuleyfi er bundið við nafn. Engum má veita meira en eitt atvinnuleyfi. Leyfishafa er óheimilt að selja atvinnuleyfi, leigja það út eða ráðstafa því á annan hátt til þriðja aðila. Bifreiðastjórar sem stunda leiguakstur samkvæmt lögum þessum skulu hafa í bifreiðinni skírteini til sönnunar á því að þeir hafi atvinnuleyfi eða stundi leiguakstur í forföllum leyfishafa. Vegagerðin gefur atvinnuskírteinin út gegn gjaldi skv. 12. gr.
    Vegagerðin skal halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi með hæfilegu millibili og skal gera viðunandi prófárangur að skilyrði fyrir því að leyfi verði veitt. Vegagerðinni er heimilt að fela öðrum aðila framkvæmd námskeiða og fræðslu samkvæmt lögum þessum.
    Vegagerðin skal gefa út leyfi til forfallabílstjóra til staðfestu því að þeir hafi leyfi til að aka leigubíl eftir að hafa sýnt fram á að þeir hafi fullnægt skilyrðum 5. gr.
    Heimilt er að taka sérstakt tillit til umsókna um atvinnuleyfi frá öryrkjum, enda uppfylli þeir skilyrði þessara laga. Endurnýja ber skírteinin á fimm ára fresti.

7. gr.
Skilyrt atvinnuleyfi.

    Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla er Vegagerðinni heimilt að veita tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi til reksturs eðalvagnaþjónustu og til bifreiðastjóra sem jafnframt er fullgildur leiðsögumaður.

8. gr.
Takmörkun á fjölda bifreiða.

    Samgönguráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Vegagerðarinnar, nánari reglur um fjölda bifreiða í leiguakstri á ákveðnum svæðum að fenginni umsögn viðkomandi sveitarstjórna, héraðsnefnda og félaga bifreiðastjóra.
    Þegar heimild til takmörkunar á fjölda leigubifreiða er veitt er óheimilt að skerða atvinnuréttindi þeirra manna sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur er takmörkun hefst.
    Þar sem takmörkun á fjölda fólksbifreiða hefur verið ákveðin skal umsækjandi fullnægja skilyrðum 5. gr. og situr hann að jafnaði fyrir við úthlutun leyfa hafi hann stundað leiguakstur á fólki í a.m.k. eitt ár. Þar sem ekki hefur verið kveðið á um takmörkun á fjölda fólksbifreiða í leiguakstri á umsækjandi rétt á að fá útgefið atvinnuleyfi ef hann fullnægir skilyrðum 5. gr. Vegagerðinni er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum 5. gr. á svæðum þar sem ekki er í gildi takmörkun á fjölda leigubifreiða. Takmörkun þessi er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa samkvæmt þessum kafla.

9. gr.
Nýting atvinnuleyfis.

    Leyfishafi skal hafa leiguakstur að aðalatvinnu. Þó má víkja frá því skilyrði á svæðum þar sem íbúar eru færri en 10.000.
    Veita má leyfishafa tímabundnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar vegna:
     1.      orlofs, veikinda eða annarra forfalla,
     2.      vaktaskipta á álagstímum,
     3.      viðgerðar eða endurnýjunar á bifreið.
    Samgönguráðherra setur nánari reglur um undanþágur skv. 2. mgr. að fengnum tillögum Vegagerðarinnar og félaga bifreiðastjóra. Bifreiðastöðvar geta annast veitingu undanþágna á grundvelli upplýsinga í gagnagrunni sem Vegagerðin heldur og hefur að geyma upplýsingar um leyfishafa, undanþágur til þeirra, forfallabílstjóra og annað sem nauðsynlegt þykir í þessu skyni, sbr. 2. gr.
    Vegagerðin getur heimilað að félög bifreiðastjóra annist afgreiðslu undanþágna standist félagið kröfur hennar, sbr. 4. mgr. 3. gr.
    Bifreiðastjóra sem öðlast atvinnuleyfi ber að hefja nýtingu þess innan sex mánaða frá útgáfudegi og að nýta það samfellt í tvö ár áður en til fyrstu innlagnar kemur. Að öðrum kosti fellur atvinnuleyfi úr gildi.
    Vegagerðin setur reglur um heimildir til tímabundinna innlagna atvinnuleyfa.
    Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til atvinnuleyfishafi nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur. Nánar má kveða á um þessi atriði í reglugerð.
    Heimilt er að leyfa eftirlifandi maka eða dánarbúi leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa, þó eigi lengur en til þess tíma er leyfishafi hefði misst leyfið fyrir aldurs sakir ef hann hefði lifað, þó aldrei skemur en tólf mánuði.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
10. gr.
Gjaldmælar.

    Löggiltir gjaldmælar skulu vera í öllum fólksbifreiðum sem notaðar eru til leiguaksturs samkvæmt lögum þessum. Löggildingarstofan hefur eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla. Vegagerðin setur reglur um með hvaða hætti verðskrá leigubifreiða skal sýnileg viðskiptavinum þeirra.

11. gr.
Refsingar. Svipting leyfis.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum og leyfissviptingu, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum, og skal farið með mál út af slíkum brotum að hætti opinberra mála.
    Við alvarleg eða ítrekuð brot er Vegagerðinni heimilt að svipta viðkomandi atvinnuleyfi. Slík svipting tekur gildi þegar í stað og gildir þar til úrlausn hefur fengist í málinu skv. 1. mgr.

12. gr.
Leyfisgjöld.

    Greiða skal 13.000 kr. árlegt gjald fyrir hvert atvinnuleyfi sem í gildi er. Að auki skulu eftirtalin gjöld innheimt:
     1.      Fyrir útgáfu atvinnuskírteina 2.500 kr.
     2.      Fyrir tímabundna innlögn leyfis 1.000 kr.
     3.      Fyrir úttekt leyfis 1.000 kr.
     4.      Fyrir vottorð um gilt atvinnuleyfi vegna bifreiðakaupa 1.000 kr.
     5.      Fyrir færslu á milli stöðva 1.000 kr.
    Halda skal tekjum og gjöldum vegna framangreinds aðskildum í bókhaldi.
    Framangreind gjöld skulu renna til Vegagerðarinnar og standa undir umsýslu og starfsemi samkvæmt lögum þessum. Jafnframt er heimilt að innheimta námskeiðsgjöld fyrir kostnaði.

13. gr.
Reglugerð.

    Samgönguráðherra setur að öðru leyti reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

14. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002. Jafnframt falla úr gildi lög um leigubifreiðar, nr. 61/1995, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Bifreiðastöðvar sem starfandi eru við gildistöku laga þessara skulu 1. júlí 2002 hafa uppfyllt öll ákvæði reglna sem Vegagerðin setur um bifreiðastöðvar.
    Hinn 1. júlí 2002 skulu allir forfallabílstjórar hafa staðist fullnægjandi námskeið skv. 2. og 5. gr. laga þessara. Að öðrum kosti falla leyfi þeirra niður.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Gildandi lög um leigubifreiðar eru nr. 61/1995. Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi síðastliðið vor en hlaut ekki afgreiðslu. Nú hefur frumvarpið verið endurskoðað með tilliti til þeirra umsagna sem bárust og þá sérstaklega tekið tillit til tillagna meiri hluta samgöngunefndar og Persónuverndar.
    Tilgangur frumvarpsins er að færa lög um leigubifreiðar að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Þetta á ekki hvað síst um auknar kröfur sem gerðar verða til starfsstéttarinnar og bifreiðastöðva um aukið öryggi. Frumvarpið fjallar m.a. um skiptingu takmarkaðra gæða, þ.e. leyfi til aksturs leigubifreiða. Nauðsynlegt þykir að laga fyrirmæli og framkvæmd reglna sem um þennan málaflokk gilda, m.a. til þess að komast hjá misnotkun og samræma alla framkvæmd. Með uppsetningu þess gagnagrunns sem fjallað er um í frumvarpinu er komið á virku eftirliti hlutlausrar stofnunar með framkvæmd og notkun þessa kerfis. Þá verður mögulegt að halda á samræmdan hátt utan um skipulag greinarinnar fyrir allt landið. Gildissviði frumvarpsins er breytt frá gildandi lögum þannig að ákvæði um sendibifreiðar og vörubifreiðar eru felld brott. Á vorþingi voru samþykkt lög nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, og þar eru samræmd ákvæði um allar starfsgreinar landflutninga. Þá eru gerðar verulegar breytingar á stjórnsýslu í þessum málaflokki.
    Verði frumvarp þetta að lögum færist stjórnsýsla málaflokksins og öll umsýsla leigubifreiðamála frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Það er í samræmi við eðli málaflokksins og krafna sem gerðar eru til stjórnsýslunnar.
    Hlutverk Vegagerðarinnar felst í útgáfu atvinnuleyfa og skírteina fyrir afleysingabílstjóra, að hafa umsjá með námskeiðum og að starfrækja gagnagrunn sem mun geyma allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að umsýsla og skipulag verði með viðunandi hætti. Starfssvið Vegagerðarinnar mun auk þessa felast í leyfisveitingum og eftirliti með bifreiðastöðvum. Bifreiðastöðvunum mun, verði frumvarpið að lögum, verða heimilt að sjá um útgáfu undanþágna sem áður voru hjá bifreiðastjórafélögunum auk þess að taka á sig þá ábyrgð innan ramma starfsleyfisins að lögum og reglum sé fylgt í hvívetna.
    Gagnagrunnur Vegagerðarinnar mun geyma upplýsingar um nafn og kennitölu bifreiðastjóra, heimilisfang, bifreiðastöð og kallnúmer, nýtingu atvinnuleyfis, heimilað og tekið orlof, útgerðarheimildir vegna veikinda o.fl. Markmiðið með rekstri grunnsins er margþætt. Gagnagrunnurinn mun tryggja betur að útgáfa undanþáguheimilda verði eins og lög og reglur kveða á um. Grunnforritun hans leiðir til þess að ekki verður mögulegt að veita undanþáguheimildir nema öll atriði séu í lagi.
    Á höfuðborgarsvæðinu hefur útgáfa akstursleyfa frá nóvember 1999 verið í höndum þriggja stéttarfélaga leigubifreiðastjóra. Ráðuneytið telur það fyrirkomulag ekki hafa gefist vel. Sem dæmi má nefna að mjög erfitt hefur verið að tryggja samræmda framkvæmd félaganna. Með tilkomu gagnagrunns Vegagerðarinnar verður lögreglu auðveldað eftirlitshlutverk sitt en henni ber að hafa eftirlit með því að á götum úti aki enginn leigubifreið nema hann hafi til þess réttindi.
    Gert er ráð fyrir að aðgangur að grunnupplýsingum gagnagrunnsins verði mjög takmarkaður og í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Með frumvarpinu er einnig kynnt sú nýlunda að setja megi lágmarksgæðastaðla fyrir þjónustu leigubifreiða. Nokkuð hefur verið mismunandi hvaða kröfur einstakar stöðvar hafa gert að þessu leyti. Engir almennir staðlar hafa því verið til. Með þessu verður mögulegt að auka gæði þjónustunnar. Það ætti að koma öllum almenningi til góða og jafnframt bæta ímynd íslenskrar ferðaþjónustu. Það skal þó tekið skýrt fram að um heimildarákvæði er að ræða.
    Þá eru skýr viðurlagaákvæði, þannig að ábyrgð einstakra leyfishafa og bifreiðastöðva á því að reglum sé fylgt verður ríkari.
    Samkvæmt gildandi lögum er þessi umsýsla hjá umsjónarnefndum fólksbifreiða á svokölluðum takmörkunarsvæðum sem í eiga sæti fulltrúar þriggja aðila, formaður skipaður af ráðherra án tilnefningar, einn skipaður af sveitarfélagi og sá þriðji af stéttarfélagi bifreiðastjóra á viðkomandi stað. Hingað til hafa umsjónarnefndir starfað á fjórum takmörkunarsvæðum á landinu en utan þeirra hafa leyfishafar snúið sér til ráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er skilgreint hvað falli undir gildissvið laganna. Í fyrstu grein núgildandi laga er kveðið á um starfsemi sendi- og vörubifreiða en þau ákvæði eru felld brott. Engu að síður er gert ráð fyrir að samgönguráðuneytið geti sett reglur um mörkin á milli starfssviða sendibifreiða, vörubifreiða og leigubifreiða. Er það gert þar sem starfssvið þeirra hefur hingað til skarast og hafa leigubifreiðar flutt t.d. bréf og blóm án þess að flytja farþega í sömu ferð. Talið er eðlilegt að svo verði áfram.

Um 2. gr.

    Hér er um nýmæli að ræða frá gildandi lögum. Hlutverk Vegagerðarinnar er tiltekið í ákvæðinu og nú er framkvæmd laganna í höndum hennar. Í gagnagrunni Vegagerðarinnar verða upplýsingar um þá sem hafa atvinnuleyfi, heimilað orlof, tekið orlof, heimildir til veikindaútgerðar. Þá er undirstrikað í ákvæðinu að um meðferð og skráningu gagna í gagnagrunninn verði farið eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Gert er ráð fyrir að bifreiðastöðvar geti séð um útgáfu undanþágna með heimild frá Vegagerðinni.
    Nú er skylt að krefja þá sem aka fyrir aðra í forföllum þeirra um að þeir hafi sótt sérstakt námskeið á vegum Vegagerðarinnar og telst fullnægjandi árangur á slíku námskeiði m.a. til fullnægjandi starfshæfni skv. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr.
    Þá eru Vegagerðinni veittar ítarlegri heimildir til eftirlits með atvinnuleyfishöfum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir misnotkun fenginna leyfa. Lokamálsgreinin heimilar ráðherra að fela einstökum sveitarstjórnum framkvæmd leigubifreiðamála innan síns sveitarfélags. Það er nýmæli og er sett hér sem heimild, þannig að ef það telst hagkvæmt og vilji er fyrir slíku framsali þá geti það verið í höndum sveitarfélaga.

Um 3. gr.

    Kröfur til starfrækslu bifreiðastöðva eru verulega auknar samkvæmt frumvarpi þessu. Gert er ráð fyrir að starfræksla leigubifreiðastöðva sé háð viðurkenningu Vegagerðarinnar. Vegagerðin gefur út starfsleyfi til þeirra. Þá er í frumvarpinu gerð ríkari krafa til stöðvanna um að þær sjái til þess að lögum um leigubifreiðar sé framfylgt og m.a. gert ráð fyrir að stöðvarnar sæti ströngum viðurlögum sinni þær ekki þeim skyldum sem á þær eru lagðar.
    Ákvæði um heimild Vegagerðarinnar til að setja reglur um gæðastaðla er nýmæli. Þetta er gert til að tryggja betri og áreiðanlegri þjónustu og bætta ímynd stéttarinnar. Reglur um þetta tíðkast víða erlendis.

Um 4. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að umsjónarnefndir samkvæmt núgildandi lögum verði lagðar niður. Ákvörðunum Vegagerðarinnar samkvæmt frumvarpinu verður skotið til samgönguráðherra sem æðra setts stjórnvalds. Þetta er í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 5. gr.

    Í greininni eru gerðar sambærilegar kröfur til atvinnuleyfishafa og í núgildandi lögum, þó með auknum kröfum um óflekkað mannorð og starfshæfni. Ekki er um sömu skilgreiningu að ræða á óflekkuðu mannorði og greinir í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Ákveðinn er fyrningarfrestur brota nema um sé að ræða brot sem ekki geta talist samræmast eðli starfseminnar. Tilgreint er hvaða skilyrði forfallabílstjórar þurfa að uppfylla samkvæmt lögunum.

Um 6. gr.

    Nýmæli ákvæðisins er það að samkvæmt frumvarpinu er framkvæmd þess í höndum Vegagerðarinnar. Að öðru leyti er ákvæðið efnislega samhljóða 5. og 6. gr. núgildandi laga, nr. 61/1995.

Um 7. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 10. gr. núgildandi laga, nr. 61/1995, og vísast til hennar.

Um 8. gr.

    Greinin er að mestu sambærileg 4. og 6. gr. núgildandi laga, nr. 61/1995. Það nýmæli er þó að Vegagerðinni er heimilað að veita undanþágu til aksturs samkvæmt frumvarpinu á strjálbýlum svæðum. Leyfishafi skal uppfylla öll skilyrði 5. gr. frumvarpsins að því undanskildu að hafa sótt einhver af þeim námskeiðum sem tilskilin er skv. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr.

Um 9. gr.

    Það er nýmæli samkvæmt frumvarpi þessu að heimilt verður að víkja frá skilyrði 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. um að leyfishafi þurfi að hafa starfið að aðalatvinnu. Þetta er samkvæmt núgildandi lögum heimilt ef færri en 5.000 íbúar búa á svæðinu en samkvæmt frumvarpinu er heimilt að víkja frá þessu ef íbúar eru færri en 10.000.
    Þá eru rýmkaðar heimildir eftirlifandi maka til nýtingar atvinnuleyfa.

Um 10. gr.

    Samkvæmt frumvarpi þessu er gerð krafa um að gjaldmælar skuli vera löggiltir. Þessi krafa byggir á lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Í þeim lögum er gerð krafa um löggildingu gjaldmæla í leigubifreiðum sem byggist á tilskipun ráðsins 77/95/EBE frá 21. desember 1976 um samræmingu aðildarríkjanna varðandi gjaldmæla leigubíla. Einnig skal Vegagerðin setja reglur um að verðskrá leigubifreiða sem er í notkun hverju sinni skuli vera viðskiptavinum sýnileg. Að öðru leyti er greinin efnislega samhljóða 9. gr. núgildandi laga.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu eru sett strangari viðurlög við brotum gegn lögunum. Gert er ráð fyrir að þegar við alvarleg eða ítrekuð brot geti leyfishafi misst atvinnuleyfi sitt. Þá er gert ráð fyrir að allt daglegt eftirlit með atvinnuleyfishöfum og forfallabílstjórum sé í höndum lögreglunnar.

Um 12. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um gjaldtökuheimild Vegagerðarinnar og er ætlað að standa straum af kostnaði sem hlýst af námskeiðahaldi, útgáfu leyfa og eftirliti samkvæmt lögunum. Í frumvarpinu er afmörkuð sú fjárhæð sem er ætlað að standa straum af fyrrgreindum kostnaðarliðum. Fjárhæð gjaldsins tekur mið af þeim kostnaði sem hlýst af veittri þjónustu Vegagerðarinnar.

Um 13. og 14. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um leigubifreiðar.

    Tilgangur frumvarpsins er að færa stjórnsýslu leigubifreiðamála frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutverk Vegagerðarinnar felist í útgáfu atvinnuleyfa og skírteina fyrir afleysingabílstjóra, að hafa umsjón með námskeiðum og starfrækja gagnagrunn sem mun geyma lágmarksupplýsingar sem nauðsynlegar eru til útgáfu atvinnu- og/eða starfsleyfis. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður af veitingu atvinnuleyfa verði u.þ.b. 9 m.kr. Til að standa straum af kostnaði sem hlýst af þjónustu Vegagerðarinnar er í frumvarpinu veitt gjaldtökuheimild skv. 12. gr. Ekki er því gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna frumvarpsins. Samgönguráðherra er heimilt að fenginni umsögn Vegagerðarinnar að fela einstökum sveitarstjórnum framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að allar umsjónarnefndir fólksbifreiða verði lagðar niður. Nefndirnar eru fjórar talsins á mismunandi svæðum landsins, og hefur kostnaður af starfi þeirra verið u.þ.b. 3 m.kr. á ári. Eitt af verkefnum umsjónarnefndanna var að úrskurða um kærur vegna afgreiðslu á undanþágum. Það verkefni færist nú til samgönguráðuneytisins þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði að skjóta ákvörðunum Vegagerðarinnar og bifreiðastöðvanna til samgönguráðuneytisins sem æðsta stórnvalds. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir útgjaldaauka fyrir ríkissjóð vegna þess.