Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 197, 127. löggjafarþing 53. mál: bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika (staðfesting bráðabirgðalaga).
Lög nr. 120 19. október 2001.

Lög um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.


l. gr.

     Ríkissjóði er heimilt að veita tryggingu eða endurtryggingu gegn bótaábyrgð sem íslenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns af notkun loftfars sem stafar af hernaðaraðgerðum, hryðjuverkum eða áþekkum atvikum. Trygging ríkissjóðs skal vera í formi viðbótartryggingar við eða endurtryggingar á viðbótartryggingu við ábyrgðartryggingu sem flugrekendur geta keypt á almennum markaði. Tryggingin skal að hámarki tryggja það sem á vantar að vátryggingarfjárhæð ábyrgðartryggingar sem unnt er að kaupa á almennum markaði nái þeirri lágmarksfjárhæð ábyrgðartryggingar sem viðkomandi flugrekandi hefur skuldbundið sig gagnvart þriðja aðila til þess að hafa í gildi.
     Binda má veitingu tryggingar skv. 1. mgr. þeim skilyrðum og skilmálum sem ríkissjóður álítur nauðsynleg. Heimilt skal að áskilja ríkissjóði gjald fyrir þá tryggingu sem ríkissjóður lætur í té.

2. gr.

     Trygging sem ríkissjóður veitir á grundvelli heimildar skv. 1. gr. skal vera tímabundin og má eigi gilda lengur en til ársloka 2001.
     Trygging ríkissjóðs skv. 1. gr. skal hafa að geyma áskilnað um rétt ríkissjóðs til þess að segja tryggingu upp á gildistíma hennar ef áhættustig í flugsamgöngum vex eða vátryggjendur hefja að bjóða viðbótarábyrgðartryggingar.

3. gr.

     Ríkissjóði skal í því skyni að dreifa áhættu ríkissjóðs af veitingu trygginga skv. 1. gr. heimilt að taka þátt í samstarfi við önnur ríki um veitingu eða endurtryggingu ábyrgðartrygginga á borð við þær sem um ræðir í 1. gr.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. október 2001.