Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 204  —  193. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)1. gr.

    3. málsl. 5. gr. laganna orðast svo: Á sama fiskveiðiári er aðeins heimilt að veita fiskiskipi eina gerð leyfis til veiða í atvinnuskyni, þ.e. veiðileyfi með almennu aflamarki, veiðileyfi með krókaaflamarki eða leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum.

2. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ákvæði laganna um úthlutun, nýtingu og framsal aflahlutdeildar og aflamarks gilda einnig um krókaaflahlutdeild og krókaaflamark nema öðruvísi sé kveðið á um í þeim.

3. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Á hverju fiskveiðiári er sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta til árs í senn samtals allt að 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

4. gr.

    Við 10. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Til 31. desember 2002 er skipstjóra fiskiskips heimilt að ákveða að allt að 5% aflans í hverri veiðiferð skipsins reiknist ekki til aflamarks skipsins, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
     a.      Aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
     b.      Aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Sé ofangreind heimild nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er boðinn upp standa skil á andvirði hins selda afla til Hafrannsóknastofnunarinnar að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 10 kr. fyrir hvert kg selds afla, sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

5. gr.

    2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Krókaaflahlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 6 brl. eða 6 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki.

    6. gr.

    8. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Krókaaflamark verður aðeins flutt til báts sem er undir 6 brl. eða 6 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki. Þó er heimilt að skipta á krókaaflamarki og almennu aflamarki í þorski, ýsu, ufsa, steinbít, löngu, keilu og karfa, enda sé um jöfn skipti að ræða miðað við verðmætahlutföll einstakra tegunda samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Á fiskveiðiárinu 2001/2002 skal úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001, 1.800 lestum af ýsu, 1.500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa, sem skal skipt milli þeirra á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á tímabilinu 1. júní 2000 til 31. maí 2001. Þetta magn kemur til viðbótar við þá úthlutun í þessum tegundum sem ákveðin var í reglugerð nr. 631 3. ágúst 2001, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001/2002. Hlutdeild einstakra krókaaflamarksbáta skal hækka til samræmis við úthlutað viðbótarmagn og hlutdeild aflamarksskipa skerðast sem því nemur. Hlutur krókaaflamarksbáta skal eftir endurreikning hlutdeildar vera 14,4858770% í ýsu, 6,0736640% í ufsa og 38,3989351% í steinbít.
    Bátum með krókaaflamarksleyfi skal á fiskveiðiárinu 2001/2002 úthlutað aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001. Að úthlutun lokinni skal endurreikna aflahlutdeild og aflamark allra fiskiskipa í keilu, löngu og karfa að teknu tilliti til þeirra breytinga sem stafa af þessari úthlutun.
    Á fiskveiðiárinu 2001/2002 skal enn fremur úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001, 200 lestum af ýsu og 600 lestum af steinbít sem skiptist milli þeirra á grundvelli aflareynslu þeirra í þessum tegundum á tímabilinu 1. júní 2000 til 31. maí 2001. Þetta aukna aflamark ýsu og steinbíts á fiskveiðiárinu 2001/2002 kemur til viðbótar því heildarmagni sem ákveðið er í 1. mgr. þessa ákvæðis.
    Við ákvörðun veiðireynslu samkvæmt þessu ákvæði skal taka tillit til flutnings veiðileyfa milli krókabáta.
    Útgerðum báta, sem á fiskveiðiárinu 2000/2001 stunduðu línu- eða handfæraveiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki, er heimilt að velja á milli veiðileyfis með krókaaflamarki og veiðileyfis til handfæraveiða með dagatakmörkunum. Skulu útgerðir tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 1. nóvember 2001. Tilkynni útgerðir ekki um val fyrir þau tímamörk skal bátum þeirra úthlutað veiðileyfi með krókaaflamarki. Velji útgerð veiðileyfi með dagatakmörkunum fyrir bát reiknast róðrardagar hans fyrir útgáfu veiðileyfisins til leyfilegra sóknardaga á fiskveiðiárinu 2001/2002.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi síðari málsliður 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 1 14. janúar 1999, um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við upphaf þessa fiskveiðiárs, sem hófst 1. september 2001, komu til framkvæmda ákvæði laga nr. 1/1999 um nýja skipan veiða krókabáta. Eru nú í gildi tvö kerfi um veiðar krókabáta, annars vegar krókaaflamarkskerfi og hins vegar sóknarkerfi með framseljanlegum sóknardögum. Þegar liggur fyrir að tæplega 600 bátar verða í krókaaflamarkskerfinu en rúmlega 200 í því síðarnefnda. Í frumvarpi þessu er lagt til að hlutur krókaaflamarksbáta verði aukinn nokkuð í ýsu, steinbít og ufsa og þeim verði jafnframt úthlutað aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa. Þá er lagt til að krókaaflamarksbátum sem voru á föstu þorskaflahámarki verði gefinn kostur á veiðileyfi með dagatakmörkunum. Þá verði heimilað að skipt sé á krókaaflamarki og almennu aflamarki, enda sé um jöfn skipti að ræða þannig að ekki verði um breytingu á heildarþorskígildistonnum að ræða innan hvors kerfis. Enn fremur verði ráðherra heimilt að úthluta allt að 1.000 lestum af ýsu og 1.000 lestum af steinbít til báta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem eru verulega háðar veiðum krókaaflamarksbáta.
    Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að breytt verði ákvæði 5. gr. um gerðir veiðileyfa og kveðið verði skýrt á um að sömu reglur gildi að jafnaði um krókaaflahlutdeild og krókaaflamark og gilda um aflahlutdeild og aflamark. Loks er lagt til að heimilt verði að koma með afla að landi sem reiknast ekki til aflamarks veiðiskips, enda renni andvirði þess afla til Hafrannsóknastofnunarinnar. Er lagt til að sú heimild gildi til loka ársins 2002 og er gert ráð fyrir að hún verði endurskoðuð í ljósi reynslunnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Eftir gildistöku laga nr. 1/1999, sem komu til framkvæmda 1. september 2001, eru gerðir veiðileyfa aðeins þrjár og eru þær tilgreindar í þessari grein. Veiðileyfi með þorskaflahámarki fellur niður. Þykir nauðsynlegt að breyta ákvæði 5. gr. í samræmi við það.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að ákvæði laganna um úthlutun, nýtingu og framsal hins almenna aflamarks og aflahlutdeildar gildi einnig um krókaaflamark og krókaaflahlutdeild. Í lögunum um stjórn fiskveiða eru ýmsar reglur sem snerta úthlutun, nýtingu og framsal hins almenna aflamarks og aflahlutdeildar. Í reglugerðum um framkvæmd laganna eru settar frekari reglur sem lúta að þessum þáttum. Gengið hefur verið út frá því að sömu reglur giltu um krókaaflamark og krókaaflahlutdeild en rétt þykir að kveða á um þetta atriði með afdráttarlausum hætti. Samkvæmt þessu gilda þá sömu reglur um framkvæmd aflaheimildaflutninga, útreikning aflamarks, þ.m.t. undirmálsafla, flutning aflamarks milli ára, tegundatilfærslu og útflutningsálag, hvort sem um er að ræða krókaaflahlutdeild/krókaaflamark eða almenna aflahlutdeild/aflamark. Í lögunum eru sérákvæði sem lúta að framsali krókaaflahlutdeildar og krókaaflamarks.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er lagt til að ráðherra verði heimilt að ráðstafa allt að 1.000 lestum af ýsu og steinbít og 300 lestum af ufsa til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem eru verulega háðar veiðum þeirra. Ljóst er að með þeim ráðstöfunum sem felast í frumvarpi þessu er hlutur krókaaflamarksbáta bættur verulega. Því er þó ekki að leyna að nokkur minni byggðarlög sæta nokkurri skerðingu aflaheimilda við þá kerfisbreytingu sem kom til framkvæmda í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs. Með slíkri heimild yrði unnt að koma til móts við þau byggðarlög sem mest hafa misst í því efni. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji sérstaka reglugerð um þessa úthlutun.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er lagt til að heimilt verði að koma með að landi í hverri veiðiferð allt að 5% af heildarafla veiðiferðarinnar og að sá afli reiknist ekki til kvóta viðkomandi veiðiskips. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú að með þessu móti er opnuð leið fyrir veiðiskip að koma með fisk að landi sem að öðrum kosti hefði getað farið í hafið aftur, annaðhvort vegna þess að hann er verðlítill eða vegna þess að skipið hefur ekki haft nægilegt aflamark í viðkomandi tegund. Nú ber áhöfn skips vissulega samkvæmt gildandi lögum að hirða allan fisk sem veiðist en það er ljóst að mikil freisting er fyrir hendi að henda verðlitlum fiski og fiski sem viðkomandi skip hefur ekki nægilegt aflamark í. Hefur slíku verið mjög haldið á lofti í umræðum um fiskveiðistjórnun auk þess sem niðurstöður kannana hafa staðreynt það með ótvíræðum hætti að slíkt á sér stað, þótt deila megi um í hversu miklum mæli slíkt sé gert.
    Hér er lagt til að uppistaða andvirðis aflans, sem ekki reiknast til kvóta, renni til Hafrannsóknastofnunarinnar og að útgerð skips og áhöfn hafi ekki hag af veiðunum en verði þó greitt eitthvað fyrir þann kostnað og vinnu sem felst í að skila honum að landi. Til þess að ekki fari milli mála hvert andvirðið sé og til að tryggja að útgerðir, sem jafnframt eru með fiskvinnslu, hafi ekki hag af þessum afla er það skilyrði að aflinn verði seldur á opinberum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir.
    Óvíst er að hve miklu marki þessi heimild verður nýtt en hún gerir útgerðarmönnum og sjómönnum fært að draga úr brottkasti sé til þess vilji. Þykir rétt að gera slíka tilraun sem stæði til loka árs 2002 og yrði endurskoðuð í ljósi reynslunnar.

Um 5. gr.

    Í þessari grein felst ekki efnisbreyting á gildandi lögum. Hér eru sameinuð í einni grein ákvæði sem eru nú í 2. málsl. 6. mgr. 11. gr. og síðari málslið 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 1/1999, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Þykir fara betur á því að hafa þessi ákvæði í sömu grein.

Um 6. gr.

    Um þá breytingu sem felst í fyrri málslið þessarar greinar er vísað til athugasemda við 4. gr. Hér er áréttuð sú meginregla að ekki sé heimilt að flytja krókaaflamark til báta sem veiðileyfi hafi með almennu aflamarki. Í síðari málslið þessarar greinar er lagt til að sú undantekning verði gerð að heimilt verði að skipta á jöfnu á krókaaflamarki og almennu aflamarki. Samkvæmt núgildandi lögum er krókaaflamarksbátum ekki úthlutað aflahlutdeild í öllum tegundum sem undir aflamarkskerfið eru felldar. Uppistaða aflaheimilda krókaaflamarksbáta er í þorski og með því að heimila slík skipti gætu þeir aflað sér heimilda í þeim tegundum sem þeim væri hentugt að veiða hverju sinni. Fyrir liggur að oft er unnt að stunda slík skipti þótt erfitt reynist að afla þeirra veiðiheimilda sem vantar með kaupum. Leiti útgerðir krókabáta eftir skiptum á veiðiheimildum er það vafalaust gert í því skyni að hafa veiðiheimildir sem henti veiðum bátsins. Auknir möguleikar til að afla veiðiheimilda geta þannig skipt verulegu máli til að koma í veg fyrir brottkast.

Um 7. gr.

    Í 1. efnismgr. er lagt til að hlutur krókaaflamarksbáta verði aukinn sérstaklega með 1.800 lestum af ýsu, 1.500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa á fiskveiðiárinu 2001/2002. Eftir að þessu aflamarki hefur verið bætt við áður úthlutað aflamark þeirra verði aflahlutdeild allra skipa í þessum tegundum endurreiknuð og aflahlutdeild krókaaflamarksbáta aukin sem viðbótinni nemur á kostnað annarra aflamarksbáta. Leiðir þessi breyting til þess að hlutdeild krókaaflamarksbáta í ýsu hækkar um rúmlega 6%, í ufsa um rúmt 1% og í steinbít um tæp 12%. Er lagt til að þessum sérstöku heimildum verði úthlutað á grundvelli aflareynslu eins árs. Eftir endurreikning yrði hlutdeild krókaaflamarksbátanna sú sem tiltekin er í málsgreininni.
    Í 2. efnismgr. er lagt til að krókaaflamarksbátum verði úthlutað aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa á fiskveiðiárinu 2001/2002 á grundvelli aflareynslu þriggja ára. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að þessum bátum sé aðeins úthlutað aflahlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít en rétt þykir að þeim verði einnig úthlutað aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa. Þessir bátar stunda margir línuveiðar og er keila og langa algengur meðafli við þær veiðar. Á því viðmiðunartímabili sem hér verður lagt til grundvallar úthlutun aflahlutdeildar veiddu krókabátar tæp 9% af heildarafla í löngu, rúm 12% af heildarafla í keilu en tæpt 1% af heildarafla í karfa og fá þeir þann hlut í varanlegri aflahlutdeild í þessum tegundum.
    Í 3. efnismgr. er lagt til að krókaaflamarksbátum verði á fiskveiðiárinu 2001/2002 úthlutað 200 lestum í ýsu og 600 lestum í steinbít, sem skiptist milli þeirra á grundvelli aflareynslu eins árs. Þessar sérstöku heimildir eru bundnar við fiskveiðiárið 2001/2002 og hafa ekki áhrif á aflahlutdeild þeirra. Með þessari sérstöku úthlutun ásamt því sem greinir í 1. efnismgr. yrði staðan á fiskveiðiárinu 2001/2002 sú að krókaaflamarksbátum yrði úthlutað 4.045 lestum af ýsu og 5.150 lestum af steinbít miðað við slægðan fisk. Til samanburðar skal þess getið að afli þorskaflahámarksbáta í ýsu og steinbít í lestum hefur verið þessi frá fiskveiðiárinu 1996/1997, miðað við slægðan fisk:

Ýsa Steinbítur
1996/1997 1.821 2.283
1997/1998 3.758 3.923
1998/1999 6.027 4.590
1999/2000 6.968 6.226
2000/2001 8.568 8.780

    Í lokamálsgreininni er lagt til að þeim 80 bátum sem á síðasta fiskveiðiári höfðu veiðileyfi, sem heimilaði þeim veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki, verði gefinn kostur á að velja veiðileyfi með dagatakmörkunum. Þessir bátar voru yfirleitt með mjög óverulega aflareynslu og eru því með litla aflahlutdeild í krókaaflamarkskerfinu. Þykir nauðsyn bera til að gefa þessum bátum kost á að velja dagakerfið sem gefur þeim kost á leyfi til að stunda handfæraveiðar í tiltekinn dagafjölda samkvæmt ákvæðum 6. gr. laganna.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að kveða á um úthlutun, nýtingu og framsal aflaheimilda. Lögfesting frumvarpsins hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.