Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 318  —  183. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um fartölvuvæðingu framhaldsskólanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað hefur ráðherra gert til að stuðla að því að fartölvuvæða framhaldsskólana?
     2.      Hefur ráðherra beitt sér fyrir samningum um hagstæð innkaup skólanna á fartölvum?
     3.      Hvað hyggst ráðherra gera til að koma í veg fyrir að efnahagur mismuni nemendum og að fartölvuvæðingin skapi ójafnræði á milli barna efnaðra foreldra og efnaminni foreldra?
     4.      Hyggst ráðherra veita nemendum fjárhagsstuðning við fartölvukaupin og ef svo er, verður hann tengdur efnahag foreldranna?


    Ráðherra varpaði sumarið 1999 fram þeirri hugmynd að framhaldsskólar nýttu sér fartölvur í ríkari mæli í sínu starfi. Þessi hugmynd var kynnt á fundum í framhaldsskólum og einnig átti menntamálaráðuneytið viðræður við fyrirtæki um þátt þeirra. Niðurstaðan varð sú að skólum yrði í sjálfsvald sett hvernig þeir stæðu að fartölvumálum en ráðuneytið ákvað að styrkja tilraunir á þessu sviði í þremur þróunarskólum í upplýsingatækni. Eins og segir í stefnu ráðuneytisins um rafræna menntun, Forskot til framtíðar: „Reynsla af tilraunum í þróunarskólum með fartölvur og þráðlaus net verður nýtt til að finna raunhæfar og hagkvæmar leiðir í þessum efnum fyrir aðra framhaldsskóla.“ Í samvinnu við þróunarskóla í upplýsingatækni stendur ráðuneytið nú fyrir mati á reynslu skólanna af tilraunum með fartölvur. Í ljósi þeirra niðurstaðna verður framhaldið ákveðið.
    Ráðuneytið hafði samráð við Ríkiskaup um sameiginleg kaup framhaldsskóla á fartölvum. Var óskað eftir tilboðum í fartölvur og þráðlaus net innan rammasamnings Ríkiskaupa. Í ljós kom að hvorki ráðuneytið né framhaldsskólar gátu skuldbundið sig til kaupa á fartölvum sem nægði til magnafsláttar. Tölvufyrirtæki höfðu síðan frumkvæði að því að bjóða skólum og nemendum fartölvur og tengingar á hagstæðum kjörum og hefur ráðuneytið fylgst með hvernig þau mál hafa þróast. Í ljósi reynslu þróunarskólanna mun ráðuneytið kanna leiðir til hagstæðra innkaupa á fartölvum í framtíðinni.
    Möguleikar til að jafna tækifæri nemenda varðandi aðgengi að tölvum eru hluti af tilraunaverkefni þróunarskólanna. Sem dæmi má nefna að í Menntaskólanum á Akureyri hefur verið gerð tilraun með fartölvuver sem notað er til að útvega nemendum fartölvur á skólatíma og til kennslu í tilteknum áföngum. Lögð hefur verið áhersla á að í öllum skólum séu tölvuver þar sem nemendur hafa aðgang að tölvum.
    Ekki eru áform um að veita nemendum fjárstuðning til kaupa á fartölvum.