Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 326  —  276. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gerð verndaráætlana samkvæmt Ramsar-samþykktinni.

Flm.: Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson, Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að gera verndaráætlanir samkvæmt Ramsar-samþykktinni, um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, fyrir þau svæði hér á landi sem falla undir samþykktina. Þau eru Mývatns- og Laxársvæðið, Þjórsárver og Grunnafjörður.

Greinargerð.


    Ramsar-samþykktin um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi tók gildi hér á landi árið 1978. Þrjú svæði á Íslandi hafa verið tilkynnt á skrá Ramsar-samþykktarinnar: Við gildistöku hennar Mývatns- og Laxársvæðið, Þjórsárver árið 1990 og Grunnafjörður í Borgarfirði árið 1996, eða skömmu eftir að hann var friðlýstur. Samkvæmt 3. gr. samþykktarinnar ber aðildarríkjum að semja og hrinda í framkvæmd áætlun sem stuðlar að vernd skráðra Ramsar-svæða, svo og að skynsamlegri nýtingu votlenda (wise use).
    Í skýrslu umhverfisráðherra um framkvæmd alþjóðlegra samninga á sviði náttúruverndar, sem lögð var fram á 125. löggjafarþingi, samkvæmt beiðni fyrsta flutningsmanns og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar, segir um Ramsar-samþykktina: „Markmið samþykktarinnar er að stuðla að verndun votlendis, einkum fyrir votlendisfugla og samkvæmt samningnum er hvert aðildarríki skuldbundið til þess að tilnefna a.m.k. eitt friðað votlendissvæði á skrá hennar yfir votlendi, sem hafa alþjóðlega þýðingu fyrir fuglalíf.“
    Verndaráætlun fyrir þau þrjú svæði sem tilkynnt hafa verið hér á landi hefur ekki litið dagsins ljós. Í skýrslu umhverfisráðherra kom fram að vinna við gerð verndaráætlunar fyrir Mývatns- og Laxársvæðið væri hafin en óljóst væri hvenær henni lyki. Þá var vinna við gerð sérstakra verndaráætlana fyrir Þjórsárver og Grunnafjörð ekki hafin. Í skýrslunni segir enn fremur: „Á fimmta aðildarríkjaþingi Ramsar-samþykktarinnar árið 1993 var samþykkt ályktun um skynsamlega nýtingu votlendissvæða þar sem aðildarríkin eru hvött til þess að nýta leiðbeiningarreglur samþykktarinnar á kerfisbundnari og markvissari hátt til þess að stuðla að betri framkvæmd samþykktarinnar og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða.“ Í reglunum er bent á leiðir til þess að styrkja framkvæmdina, svo sem um uppbyggingu stofnana, upplýsingaöflun, vöktun, rannsóknir, þjálfun starfsfólks, menntun og kynningarstarf.
    Þótt Ramsar-samþykktin kveði á um verndun votlendissvæða heimsins, sérstaklega með tilliti til fuglalífs, er verndunin í raun mun víðtækari þar sem öll dýr og plöntur votlendis skulu vernduð gegn ofnýtingu þannig að vistkerfið raskist ekki. Skilgreining samþykktarinnar á votlendi er víðtæk og nær m.a. til mýra, flóa, fenja og vatna með fersku, ísöltu eða söltu vatni, þ.m.t. er sjór þar sem dýpi er innan við sex metrar, t.d. leirur og sjávarfitjar. Sérstakt tillit þarf að taka til Ramsar-svæða við landnotkun og ákvarðanir um framkvæmdir eða aðgerðir sem geta haft áhrif á ástand þeirra.
    Dregist hefur úr hömlu að semja verndaráætlun um nýtingu íslensku Ramsar-svæðanna. Það getur ekki talist fullnægjandi af hálfu íslenskra stjórnvalda að hafa tilnefnt þrjú votlendissvæði til Ramsar-skrárinnar, það fyrsta fyrir 23 árum, en láta gerð verndaráætlunar sitja á hakanum sem raun ber vitni. Án slíkrar áætlunar fullnægjum við ekki skyldum okkar á alþjóðlegum vettvangi.