Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 344  —  208. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um skipulagsmál á hálendinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve mörg sveitarfélög koma nú að skipulagsmálum hálendisins?
     2.      Hvaða sveitarfélög eru þetta og hver er íbúatala þeirra hvers um sig?
     3.      Hver þeirra hafa gengið frá nýju aðalskipulagi síðan lög nr. 45/1998 tóku gildi og hver þeirra hafa deiliskipulagt svæði innan þess?


    Þrjátíu og fjögur sveitarfélög fara með stjórnsýslu á miðhálendi Íslands, sem er sami fjöldi og þegar umhverfisráðherra staðfesti svæðisskipulag miðhálendis Íslands til 2015, 10. maí 1999.
    Um er að ræða eftirtalin sveitarfélög (íbúafjöldi 1. desember 2000 innan sviga): Borgarfjarðarsveit (688), Borgarbyggð (2.468), Hvítársíðuhreppur (83), Húnaþing vestra (1.225), Áshreppur (84), Svínavatnshreppur (138), Bólstaðarhlíðarhreppur (114), Sveitarfélagið Skagafjörður (4.183), Akrahreppur (228), Eyjafjarðarsveit (990), Hálshreppur (167), Bárðdælahreppur (112), Skútustaðahreppur (443), Norður-Hérað (322), Fljótsdalshreppur (86), Austur-Hérað (2.023), Djúpavogshreppur (524), Sveitarfélagið Hornafjörður (2.370), Skaftárhreppur (574), Mýrdalshreppur (519), Austur-Eyjafjallahreppur (138), Vestur-Eyjafjallahreppur (182), Fljótshlíðarhreppur (197), Hvolhreppur (796), Rangárvallahreppur (793), Holta- og Landsveit (371), Ásahreppur (144), Gnúpverjahreppur (285), Skeiðahreppur (250), Hrunamannahreppur (726), Biskupstungnahreppur (551), Laugardalshreppur (249), Grímsnes- og Grafningshreppur (328) og Þingvallahreppur (43).
    Eftir að sveitarstjórnarlög, nr. 45/1998, tóku gildi 3. júní 1998 hefur umhverfisráðherra staðfest aðalskipulag Sveitarfélagsins Hornafjarðar 1998–2018, 23. janúar 2001. Umhverfisráðherra hefur nú skv. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga til meðferðar samþykktar tillögur að aðalskipulagi Biskupstungnahrepps og Laugardalshrepps. Nokkur af fyrrnefndum sveitarfélögum eru langt komin með að vinna tillögu að aðalskipulagi alls lands viðkomandi sveitarfélags. Gera má ráð fyrir að einhverjar þessara tillagna verði auglýstar nú í vetur, sbr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga.
    Eftirtaldar deiliskipulagsáætlanir hafa verið samþykktar:
    Hvítársíðuhreppur: deiliskipulag áningarstaðar við Surtshelli samþykkt 23. júní 2001. Skútustaðahreppur: deiliskipulag hálendismiðstöðvar við Drekagil samþykkt 10. maí 2001. Holta- og Landsveit: deiliskipulag þjónustusvæðis við Tjaldvatn samþykkt 6. júlí 1998. Holta- og Landsveit og Ásahreppur: deiliskipulag Búðarhálsvirkjunar og Búðarhálslínu samþykkt í júní 2001. Ásahreppur: deiliskipulag Vatnsfellsvirkjunar samþykkt 5. júlí 1999.