Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 347  —  285. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.


    Á eftir 1. gr. laganna bætist við ný grein, 1. gr. a, svohljóðandi:
    Siglingastofnun Íslands getur heimilað að fiskiskip sem skráð er á íslenska skipaskrá sé skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá. Þurrleiguskráning er tímabundin skráning skips, sem leigt hefur verið án áhafnar, á erlenda skipaskrá án þess að það sé afmáð af íslenskri skipaskrá. Siglingastofnun Íslands getur ákveðið að heimild til þurrleiguskráningar takmarkist við skipaskrár tiltekinna ríkja. Heimilt er að skrá skip með þessum hætti til allt að eins árs og framlengja þurrleiguskráningu í framhaldi af því um allt að sex mánuði í senn. Með umsókn um heimild til þurrleiguskráningar skulu fylgja:
     a.      upplýsingar um leigutaka skipsins,
     b.      upplýsingar um hvar óskað er að skrá skipið þurrleiguskráningu,
     c.      afrit þurrleigusamnings, auk löggiltrar þýðingar á samningnum ef hann er á öðru tungumáli en íslensku eða ensku,
     d.      staðfesting erlendrar skipaskrár á því að heimilt sé að skrá skipið þurrleiguskráningu þar,
     e.      staðfesting erlendrar skipaskrár á því að skipið verði tafarlaust afmáð af skipaskránni ef íslensk stjórnvöld fara fram á það,
     f.      skriflegt samþykki veðhafa fyrir þurrleiguskráningunni,
     g.      aðrar upplýsingar sem samgönguráðherra getur kveðið á um í reglugerð.
    Áður en Siglingastofnun Íslands veitir heimild til þurrleiguskráningar skips skv. 1. mgr. skal liggja fyrir staðfesting sjávarútvegsráðuneytisins á því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
     a.      skip sem sigla undir þjóðfána Íslands gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
     b.      þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur grafa ekki undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum sem ákveðnar eru og beitt er í samræmi við reglur þjóðaréttar,
     c.      verndunarsjónarmið mæla ekki gegn þeim veiðum sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
     d.      þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur eru í samræmi við þær reglur sem viðeigandi alþjóðasamningar mæla fyrir um,
     e.      sýnt þykir að ríkið sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í muni virða skyldur sínar sem fánaríki,
     f.      þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur ganga ekki að öðru leyti gegn hagsmunum Íslands,
     g.      önnur skilyrði sem sjávarútvegsráðherra getur kveðið á um í reglugerð.
    Skip, sem skráð er á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá, siglir undir þjóðfána erlenda ríkisins og skal fylgja ákvæðum laga og reglna þess ríkis, þ.m.t. ákvæðum um eftirlit með skipum, búnað skipa og mönnun þeirra, meðan á þurrleiguskráningu stendur. Veðbönd skips, sem skráð er með þessum hætti, skulu skráð hjá hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra hér á landi.
    Heimild til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður þegar:
     a.      þurrleigusamningur fellur úr gildi,
     b.      forsendur heimildar til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. eru brostnar að mati Siglingastofnunar Íslands,
     c.      skilyrði fyrir heimild til þurrleiguskráningar skv. 2. mgr. er ekki lengur uppfyllt að mati sjávarútvegsráðuneytisins,
     d.      leigutaki skipsins óskar þess,
     e.      skipið fellur undir 1. mgr. 15. gr.
    Þegar heimild skips til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður skal Siglingastofnun Íslands fara fram á það við erlendu skipaskrána að skipið verði tafarlaust afmáð af henni.
    Þurrleiguskráningu skips telst lokið þegar tilkynning berst frá erlendu skipaskránni um að það hafi verið afmáð af henni.

2. gr.


    Við 2. gr. bætist svohljóðandi málsgrein:
    Skip, sem er skráð á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá, telst þó ekki vera íslenskt skip og hefur ekki rétt til að sigla undir þjóðfána Íslands meðan á þurrleiguskráningunni stendur.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem samgönguráðherra skipaði í samráði við sjávarútvegsráðherra, en nefndinni var ætlað að „gera tillögur um tvískráningu íslenskra fiskiskipa, þar með talið hvort óska eigi eftir samningum þar um við erlend ríki og gera tillögur um lagabreytingar sem nauðsynlegar kunna að vera ef þurrleiguskráning íslenskra fiskiskipa verður heimiluð. Í störfum sínum ber nefndinni að hafa samráð við hagsmunaaðila“. Í nefndinni voru Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneyti, formaður, Helgi Jóhannesson, samgönguráðuneyti, Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneyti. Starfsmaður nefndarinnar var Sigurbergur Björnsson, Siglingastofnun Íslands.
    Með þurrleiguskráningu er átt við skráningu skips þegar gerður er samningur um leigu á skipi milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja. Leigutaki getur ýmist verið tengdur leigusala eða ótengdur honum. Leigusali getur komið upp fyrirtæki í öðru landi, t.d. með þátttöku þarlendra aðila, sem uppfyllir kröfur þess ríkis um eignarhald. Þetta fyrirtæki gæti þurrleigt skipið af móðurfyrirtækinu. Í öðrum tilvikum gæti leigutakinn verið ótengdur leigusala með öllu. Skipið er áfram skráð á skipaskrá í heimalandi eiganda skipsins, þ.e. leigusalans. Hafi eigandinn veðsett skipið með samningsveðum er haldið utan um þau í landi eigandans, þ.e. frumskráningarríkinu. Leigutaki tekur við skipinu og skráir það þurrleigu á skipaskrá heimalands síns. Við það færist skipið undir lögsögu fánaríkis leigutakans og gilda þá lög þess um allan rekstur skipsins, þ.m.t. um veiðileyfi, veiðieftirlit, öryggismál, kjaramál, tryggingamál og atvinnuréttindi.
    Tilgangur frumvarpsins er að auka möguleika íslenskra útgerða á að nýta skip sín til verkefna erlendis. Lagt er til að heimilt verði að skrá fiskiskip þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá en séu eftir sem áður frumskráð á íslenska skipaskrá. Í frumvarpinu eru sett mjög ströng skilyrði fyrir slíkri heimild og við það miðað að þurrleigð skip stundi aðeins veiðar sem íslensk skip ættu annars ekki kost á. Veiðiheimildir annarra ríkja, innan eða utan lögsögu þeirra, er yfirleitt einungis hægt að nýta með skipum er bera fána viðkomandi ríkis. Íslenskar útgerðir sem hafa sóst eftir að nýta veiðiheimildir annarra ríkja hafa fært skip sín undir erlendan fána í þessum tilgangi og leigt þau til tengdra eða ótengdra aðila í erlenda ríkinu. Í þeim tilvikum hafa þau afskráð skip sín af íslenskri skipaskrá, skráð þau í öðru ríki, jafnvel þurrleiguskráð þau þaðan, og siglt undir fána þess ríkis sem á veiðiheimildirnar sem ætlunin er að nýta. Dæmi um veiðar sem Íslendingar hafa sótt í eru rækjuveiðar undir rússneskum fána í Barentshafi, rækjuveiðar undir fánum Eystrasaltsríkjanna á Flæmingjagrunni og þorskveiðar undir færeyskum fána í Barentshafi. Mikil fyrirhöfn og kostnaður er þessu samfara fyrir útgerðir skipanna. Veiðar þessara skipa yrðu því hrein viðbót við þau verkefni sem íslenski flotinn getur nú stundað. Í því felast ekki aðeins auknar tekjur fyrir útgerðir heldur einnig fleiri atvinnutækifæri fyrir íslenska sjómenn og auknar tekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Hinn meginkosturinn er að íslenskar útgerðir gætu nýtt þurrleiguskráningu til að bæta réttarstöðu sína við sölu á skipum til erlendra aðila með kaupleigusamningi.
    Lagt er til að áður en Siglingastofnun Íslands veiti heimild til þurrleiguskráningar skips skuli liggja fyrir staðfesting sjávarútvegsráðuneytisins á því að nánar tiltekin skilyrði séu uppfyllt, en þau eru eftirfarandi:
          skip sem sigla undir þjóðfána Íslands gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
          þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur grafa ekki undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum sem ákveðnar eru og beitt er í samræmi við reglur þjóðaréttar,
          verndunarsjónarmið mæla ekki gegn þeim veiðum sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
          þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur eru í samræmi við þær reglur sem viðeigandi alþjóðasamningar mæla fyrir um,
          sýnt þykir að ríkið sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í muni virða skyldur sínar sem fánaríki,
          þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur ganga ekki að öðru leyti gegn hagsmunum Íslands,
          önnur skilyrði sem sjávarútvegsráðherra getur kveðið á um í reglugerð.
    Nefndin sem vann frumvarpið viðaði að sér upplýsingum og gögnum um alþjóðasamninga er varða málið og skoðaði þá með hliðsjón af mögulegri þurrleiguskráningu frá íslenskri skipaskrá. Einnig aflaði utanríkisráðuneytið upplýsinga, í gegnum nokkur sendiráð Íslands, um löggjöf erlendra ríkja um þurrleiguskráningu og úthlutun veiðiheimilda erlendis. Loks aflaði hún upplýsinga um löggjöf í Danmörku og Færeyjum um skráningu skipa í þessum löndum. Þar er þurrleiguskráning heimiluð, en það felur í sér heimild til þurrleiguskráningar á og frá skipaskrám þessara landa. Í Danmörku er heimildin bundin við kaupskip. Niðurstaða nefndarinnar var að þurrleiguskráning væri heimil samkvæmt þjóðarétti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og vísast til umfjöllunar í áliti nefndarinnar sem birtist í fylgiskjali með frumvarpi þessu.
    Eins og þar kemur fram leitaði nefndin álits hagsmunaðila á málinu. Af hálfu stéttarfélaga sjómanna hafa komið fram sjónarmið um að engin rök standi til þess að veita heimild til þurrleiguskráningar fiskiskipa.
    Sjómannasamband Íslands lýsti m.a. þeirri skoðun að útgerðarmenn væru að þrýsta á stjórnvöld um að heimila þurrleiguskráningu fiskiskipa í þeim tilgangi að fá ódýrt erlent vinnuafl til starfa á skipum sínum í samkeppni við íslenska sjómenn og að útgerðir mundu nota þurrleigu til þess að stunda veiðar undir erlendum fána sem mætti stunda undir íslenskum fána í því skyni að draga úr kostnaði við veiðarnar. Að því er fyrra atriðið varðar óttast sambandið að þegar þurrleiguskráð skip ljúki verkefnum sínum erlendis verði það afskráð af erlendri skipaskrá og komi aftur til Íslands með erlenda áhöfn. Þá aukist þrýstingur á að útlendingarnir starfi áfram á skipinu. Einnig óttast sjómenn að samningsstaða íslenskra sjómanna, að því er kjaramál varðar, versni við þessar aðstæður.
    Við þessum athugasemdum er því til að svara að íslensk lög og kjarasamningar gilda um skip sem sigla undir íslenskum fána. Til þess að unnt sé að ráða erlenda sjómenn á skip sem siglir undir íslenskum fána þurfa þeir að fá viðurkenningu á atvinnuskírteinum sínum. Auk þess þurfa þeir atvinnuleyfi á Íslandi ef þeir koma frá löndum utan EES-svæðisins. Skylt er að leita umsagnar viðkomandi stéttarfélaga áður en atvinnuleyfi er veitt. Sé atvinnuleyfi veitt fá viðkomandi sjómenn laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Áréttað skal í þessu sambandi að það er brot á 6. gr. laga nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga, að greiða samkvæmt erlendum kjarasamningum á skipum sem sigla undir íslenskum fána. Rétt er að minna á að óheimilt er að ráða erlendan skipstjóra á íslenskt skip, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum. Hvað seinna atriðið varðar er í frumvarpinu miðað við að heimild til þurrleiguskráningar verði ekki veitt nema skip sem sigla undir þjóðfána Íslands geti ekki stundað viðkomandi veiðar.
    Farmanna- og fiskimannasambandið taldi að áhætta væri fólgin í þurrleiguskráningu þar sem óvissa gæti ríkt um réttarstöðu áhafnar, eigenda og skips gagnvart öðrum ríkjum. Vísaði sambandið í því efni til ákvæðis 2. tölul. 92. gr. hafréttarsamningsins. Að mati nefndarinnar sem vann að frumvarpinu er þessi athugasemd byggð á þeim misskilningi að þurrleiguskráning sé hið sama og tvíflöggun. Niðurstaða nefndarinnar var að þurrleiguskráning sé heimil samkvæmt þjóðarétti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sambandið benti jafnframt á að veiðireynsla þurrleigðra skipa kæmi fánaríkinu til góða og gæti unnið gegn hagsmunum Íslands. Tekið er undir þau sjónarmið og lagt til að heimild til þurrleiguskráningar verði ekki veitt nema skip sem sigla undir þjóðfána Íslands geti ekki stundað viðkomandi veiðar.
    Í máli Vélstjórafélags Íslands kom fram að félagið gerði sér grein fyrir því að þurrleiguskráning mundi auka tekjumöguleika íslenskra útgerða. Félagið legðist samt sem áður gegn því að þurrleiguskráning yrði heimiluð hér á landi.
    Þegar skip eru þurrleigð gildir leigusamningurinn einungis um skipið, en ekki um áhafnir eins og ef um tímaleigusamning væri að ræða. Ætla má að íslenskar útgerðir kjósi að hafa íslenska sjómenn um borð að meira eða minna leyti, m.a. til þess að draga úr þeirri áhættu sem fylgir því að leigja frá sér dýr atvinnutæki. Heimild íslenskra sjómanna til þess að starfa á þurrleigðum skipum er háð reglum fánaríkisins um atvinnuleyfi.
    Að öðru leyti vísast til álits nefndar sem birtist í fylgiskjali með frumvarpinu.


Fylgiskjal I.


Skýrsla nefndar um tvískráningu fiskiskipa.


I. Forsaga og nefndarskipan.


    Með bréfi til samgönguráðuneytisins, dags. 29. apríl 1999, (fylgiskjal 1) fór Landssamband íslenskra útvegsmanna þess á leit að íslensk stjórnvöld leyfðu tvískráningu íslenskra fiskiskipa. Í gögnum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, er vísað til slíkrar skráningar sem skráningar skipa á þurrleigu (e.: bareboat charter registration) sem nefndin kýs að kalla þurrleiguskráningu og verður það hugtak notað í þessari skýrslu.
    Þurrleiguskráning felur í sér að gerður er samningur um leigu á skipi milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja. Skipið er áfram skráð á skipaskrá í heimalandi eiganda skipsins, þ.e. leigusalans. Hafi eigandinn veðsett skipið með samningsveðum er algengast að haldið sé utan um þau í landi eigandans, þ.e. frumskráningarríkinu. Leigutaki tekur við skipinu og þurrleiguskráir það á skipaskrá heimalands síns. Við það færist skipið undir lögsögu fánaríkis leigutakans og lög þess gilda um allan rekstur skipsins, þ.m.t. um veiðileyfi, veiðieftirlit, öryggismál, kjaramál, tryggingamál og atvinnuréttindi. Farið er með skipið eins og það sé eign leigutaka að því er sjóveð varðar. Leigusali og samningsveðhafar taka því nokkra áhættu varðandi sjóveð. Safni skipið t.d. hafnagjöldum í landi leigutakans er sú hætta ávallt fyrir hendi að skipið verði boðið upp til fullnustu sjóveðskrafna. Einnig tekur leigusali áhættu af því að skipinu verði haldið af yfirvöldum leigutaka í einhvern tíma ef leigutaki brýtur af sér við veiðar. Leigutaki hefur hins vegar hagsmuni af því að gæta þess að ekki hvíli sjóveðskrafa á skipinu áður en hann tekur við því.
    Leigutaki getur ýmist verið tengdur leigusala eða ótengdur honum. Leigusali gæti komið upp fyrirtæki í öðru landi, t.d. með þátttöku þarlendra aðila, sem uppfyllir kröfur þess ríkis um eignarhald. Þetta fyrirtæki gæti þurrleigt skipið af móðurfyrirtækinu. Í öðrum tilvikum gæti leigutakinn verið ótengdur leigusala með öllu.
    Þegar skip eru þurrleigð gildir leigusamningurinn einungis um skipið, en ekki um áhafnir eins og ef um tímaleigusamning væri að ræða. Hins vegar má ætla að íslenskar útgerðir kjósi að hafa íslenska sjómenn um borð að meira eða minna leyti, m.a. til þess að draga úr þeirri áhættu sem fylgir því að leigja frá sér þessi dýru atvinnutæki. Heimild íslenskra sjómanna til þess að starfa á þurrleigðum skipum er háð reglum fánaríkisins um atvinnuleyfi.
    Fram hefur komið að nokkrar ástæður liggja að baki fyrrnefndrar beiðni LÍÚ. Íslenskar útgerðir hafa á undanförnum árum ekki haft næg verkefni fyrir flota sinn. Þetta ásamt öðru hefur leitt til þess að útgerðir sækjast í auknum mæli eftir verkefnum erlendis. Að auki hafa íslenskar útgerðir fundið markað erlendis fyrir skip sem þær hafa ekki not fyrir og fengið greitt fyrir þau með afla. Að sögn útgerðarmanna yrði um eftirfarandi tilvik að ræða:
          Sala á skipi úr landi með kaupleigusamningi. Skipið yrði í þessum tilvikum þurrleiguskráð þar til kaupverð hefur verið að fullu greitt. Með þessu væru útgerðarmenn að tryggja sig gagnvart kaupendum skipa er búa við réttarkerfi sem þeir treysta ekki fyllilega.
          Leiga á skipum til ótengdra aðila í tímabundin verkefni erlendis.
          Leiga á skipum til tengdra erlendra aðila svo þau geti veitt tímabundið úr veiðiheimildum annarra ríkja sem ekki er hægt að nýta undir íslenskum fána. Í sumum tilvikum yrði um dótturfyrirtæki að ræða með eignaraðild þarlendra aðila. Dæmi eru um að íslenskar útgerðir eigi hlut í fyrirtækjum eða dótturfyrirtæki erlendis, t.d. í Eistlandi, Lettlandi, Þýskalandi, Bretlandi og Noregi. Þessi ríki taka þó ekki öll við skipum til þurrleiguskráningar.
    Veiðiheimildir annarra ríkja, innan eða utan lögsögu þeirra, er yfirleitt einungis hægt að nýta með skipum er bera fána viðkomandi ríkis. Íslenskar útgerðir, sem hafa sóst eftir að veiða úr veiðiheimildum annarra ríkja, hafa fært skip sín undir erlendan fána í þessum tilgangi og leigt þau til tengdra eða ótengdra aðila í erlenda ríkinu. Í þeim tilvikum hafa þau afskráð skip sín af íslenskri skipaskrá, skráð þau í öðru ríki og jafnvel þurrleiguskráð þau þaðan, og siglt undir fána þess ríkis sem á þær veiðiheimildir sem ætlunin er að nýta. Dæmi um veiðar sem Íslendingar hafa sótt í eru rækjuveiðar undir rússneskum fána í Barentshafi, rækjuveiðar undir fánum Eystrasaltsríkjanna á Flæmingjagrunni og þorskveiðar undir færeyskum fána í Barentshafi. Mikil fyrirhöfn og kostnaður er þessu samfara og hefur það ásamt öðru leitt til fyrrnefndrar beiðni frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Samgönguráðherra hefur í samráði við sjávarútvegsráðherra brugðist við þessari beiðni með því að skipa nefnd (sjá fylgiskjal 2) sem hefur það hlutverk að: „gera tillögur um tvískráningu íslenskra fiskiskipa, þar með talið hvort óska eigi eftir samningum þar um við erlend ríki og gera tillögur um lagabreytingar sem nauðsynlegar kunna að vera ef þurrleiguskráning íslenskra fiskiskipa verður heimiluð. Í störfum sínum ber nefndinni að hafa samráð við hagsmunaaðila“.
    Í nefndinni eru Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneytinu, formaður, Helgi Jóhannesson, samgönguráðuneytinu, Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar er Sigurbergur Björnsson, Siglingastofnun Íslands. Nefndin hélt alls 18 fundi, þ.m.t. þrjá samráðsfundi með hagsmunaaðilum.

II. Umfjöllun nefndarinnar.


    Nefndin byrjaði á að fara yfir umfjöllun hagsmunaaðila og fjölmiðla á innlendum vettvangi sem vitað var um. Þá viðaði hún að sér upplýsingum og gögnum um alþjóðasamninga er varða málið og skoðaði með hliðsjón af mögulegri þurrleiguskráningu frá íslenskri skipaskrá. Einnig aflaði utanríkisráðuneytið upplýsinga um þurrleiguskráningu og úthlutun veiðiheimilda erlendis í gegnum nokkur sendiráð Íslands. Loks aflaði hún upplýsinga um löggjöf í Danmörku og Færeyjum um skráningu skipa í þessum löndum, en þar er þurrleiguskráning heimiluð sem felur í sér heimild til þurrleiguskráningar á og frá skipaskrám þessara landa. Rétt er að geta þess að heimildin í Danmörku er bundin við kaupskip.
    Á fundum nefndarinnar komu fljótlega fram eftirfarandi sjónarmið:
          Fara þyrfti yfir þjóðréttarlegan grundvöll þurrleiguskráningar.
          Kanna þyrfti fyrirkomulag skráningar skipa og úthlutunar veiðiheimilda erlendis.
          Kanna þyrfti sjónarmið hagsmunaaðila í þessu máli.

Þjóðaréttur.
    Hér á eftir er farið yfir helstu niðurstöður athugunar nefndarinnar á þjóðarétti að því er að þurrleiguskráningu varðar.
    Hvað heimilar þjóðaréttur í þessu sambandi og hvað ekki?
          Ríki skulu skv. 91. gr. hafréttarsamningsins (fylgiskjal 3) „setja skilyrði fyrir veitingu þjóðernis síns til handa skipum, skráningu skipa í landi sínu og réttinum til að sigla undir fána sínum.“ Upptalningin virðist bera með sér að greinarmunur sé gerður á þessum þrem atriðum. Þau verða þó að teljast nátengd.
          Að þjóðarétti virðist því vera heimilt að setja mismunandi skilyrði fyrir því að skip a) fáist skráð á Íslandi, b) teljist vera íslensk skip samkvæmt íslenskum lögum og c) megi sigla undir íslenskum fána.
          Ef ríki er heimilt að ákveða skilyrði fyrir skráningu, þjóðerni og réttinum til að sigla undir fána sínum er því þar með í sjálfsvald sett hvort það heimilar að skip séu skráð innan lands og erlendis samtímis.
          Jafnframt er ríki í sjálfsvald sett hvaða skilyrði það setur fyrir þurrleiguskráningu. Ákvæði 2. tl. 92. gr. hafréttarsamningsins (fylgiskjal 3) kveður þó á um að skip, sem siglir undir fánum tveggja eða fleiri ríkja og notar þá eftir sinni hentisemi, teljist þjóðernislaust.
          Samningur S.þ. um skilyrði fyrir skráningu skipa frá 7. febrúar 1986 (fylgiskjal 4) byggist m.a. á því að þurrleiguskráning sé heimil samkvæmt þjóðarétti. Samningurinn hefur þó ekki enn öðlast gildi.
          Í umfjöllun IMO um þurrleiguskráð skip (fylgiskjal 5) er gengið út frá því að ekki ríki neinn ágreiningur um þjóðréttarlegt lögmæti þurrleiguskráningar.
          Í samþykkt Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, nr. FC DOC 99/11 (fylgiskjal 6) eru reglur varðandi veiðar þurrleiguskráðra skipa á NAFO svæðinu. Í samþykktinni koma ekki fram neinir fyrirvarar um lögmæti slíkrar skráningar.
    Hvernig skiptist lögsaga yfir skipum sem eru þurrleiguskráð?
          Þótt hægt sé að kveða á um í íslenskum lögum að skip, sem siglir undir erlendum fána en er skrásett á Íslandi, teljist vera íslenskt er því að frumskráningu og eignarhald varðar nær lögsaga Íslands að öðru leyti ekki til þess fyrr en þurrleigu lýkur.
          Skipið telst vera erlent skip að því er alþjóðlegar fiskveiðistjórnunarráðstafanir varðar og getur ekki nýtt íslenskar veiðiheimildir.
    Hver verða áhrif „FAO Compliance Agreement“?
          Ef Ísland fullgildir samninginn og hann öðlast gildi munu íslensk skip sem fara undir erlendan fána þurfa ný úthafsveiðileyfi í hvert sinn sem þau koma aftur undir íslenskan fána. Áður en slíkt leyfi yrði gefið út þyrfti að kanna feril skipsins skv. 5. tl. 3. gr. samningsins. Allar upplýsingar um feril skipsins ættu að liggja fyrir og yrði slík könnun því vart erfið eða tímafrek.
    Hverjar eru skuldbindingar Íslands gagnvart alþjóðlegum fiskveiðistjórnarstofnunum og fiskveiðisamningum?
          Gera þarf ráðstafanir til þess að íslensk skip grafi ekki undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum á meðan þau sigla undir erlendum fána.
    Hvaða áhrif hefur krafan um raunveruleg tengsl milli skips og fánaríkisins á þurrleiguskráningu?
          Íslenskum stjórnvöldum ber að fullvissa sig um að fánaríki hafi virkt eftirlit með þurrleigðuskráðu skipi. Að öðru leyti er það í höndum fánaríkis að meta hvort um raunveruleg tengsl samkvæmt þjóðarétti sé að ræða.
    Eftirlit og stjórn fánaríkis.
          Í 4. tl. 12. gr. samnings S.þ. um skráningu skipa er kveðið á um að ríki hafi lögsögu yfir þurrleigðu skipi sem siglir undir fána þess.
    Af framangreindu er ljóst að þurrleiguskráning er heimil samkvæmt þjóðarétti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.


Fyrirkomulag skráningar skipa og úthlutunar veiðiheimilda erlendis.

    Að beiðni nefndarinnar óskaði utanríkisráðuneytið eftir svörum frá tilteknum ríkum við eftirfarandi spurningum:
    Hvort þurrleiguskráning fiskiskipa sé leyfð þar og hvaða reglur gildi þar um.
    Hvort það sé skilyrði fyrir því að skip geti fengið heimildir til að veiða úr veiðiheimildum viðkomandi ríkis að það sigli undir þarlendum fána.
    Óskað var eftir upplýsingum frá eftirfarandi ríkjum: Argentínu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Chile, Eistlandi, Frakklandi, Írlandi, Japan, Kanada, Kína, Lettlandi, Litháen, Noregi, Portúgal, Póllandi, Rússlandi, Spáni og Þýskalandi.
    Skemmst er frá því að segja að svör frá Argentínu, Chile, Japan, Kína, Noregi, Póllandi og Spáni voru á þá leið að þurrleiguskráning væri ekki leyfileg. Einungis skip undir innlendum fána gætu nýtt veiðiheimildir þessara landa. Í Japan gætu erlend skip frá nálægum slóðum þó fengið veiðiheimildir hjá þarlendum stjórnvöldum.
    Samkvæmt svari frá Bandaríkjunum er þurrleiguskráning ekki leyfð þar í landi. Hins vegar geta bandarísk stjórnvöld veitt erlendum útgerðum fiskveiðiheimildir ef fiskstofnar eru í góðu ástandi.
    Í svari frá Þýskalandi kom fram að einungis skip sem sigla undir þýskum fána geta nýtt sér þýskar veiðiheimildir. Fram kom að einungis skip sem hafa þýskt „fánavottorð“ geta siglt undir þýskum fána. Ekki kom fram hvort þurrleiguskráning væri leyfileg.
    Ráða má af svari frá Frakklandi að þurrleiguskráning sé leyfileg á franska skipaskrá að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Í svari frá Eistlandi kom fram að heimilt er að þurrleiguskrá skip til Eistlands. Eistnesk lög gilda um þurrleiguskráð skip á þarlenda skipaskrá og sigla undir þarlendum fána. Ef öryggisreglur frumskráningarríkisins eru strangari en þær eistnesku gilda reglur frumskráningarríkisins um skipið. Skilyrði fyrir skráningu skips á eistneska skipaskrá er að leigutakinn sé eistneskur ríkisborgari, opinber aðili eða lögaðili. Ef um sameignarfélag er að ræða verður meirihlutaeign að vera í höndum Eistlendinga. Þá setja lögin skilyrði um að a.m.k. helmingur áhafnar sé eistneskir ríkisborgarar. Eftirfarandi verður að liggja fyrir áður en hægt er að þurrleiguskrá skip:
          Það sé þurrleigt til eistneskra aðila, sbr. skilyrðin hér að framan.
          Lög frumskráningarríkisins heimili þurrleiguskráningu.
          Eigandi skipsins leyfi þurrleiguskráningu.
    Að uppfylltum þessum skilyrðum er skipið þurrleiguskráð til allt að tveggja ára og hægt að framlengja skráninguna um allt að eitt ár í senn. Til þess að nýta eistneskar veiðiheimildir verða erlend skipa að sigla undir eistneskum fána.
    Í svari frá Litháen kom fram að þurrleiguskráning fiskiskipa væri leyfð með vissum skilyrðum. Enn fremur kom fram að einungis skip sem sigldu undir litháenskum fána gætu veitt úr veiðiheimildum landsins.
    Í svari frá Lettlandi kom fram að veiðiheimildum væri einungis úthlutað til lettneskra útgerða. Lettneskar útgerðir gætu stofnað til samstarfs við erlendar útgerðir en í slíkum tilfellum yrðu þau að flytja skip sín undir lettneskan fána. Ekki kom fram hvort leyfi væri veitt til þurrleiguskráningar fiskiskipa.

Sjónarmið hagsmunaaðila.
    Nefndin kallaði helstu hagsmunaaðila á fund sinn og kynnti fyrir þeim hugmyndir um framkvæmd þurrleiguskráningar og skilyrði sem yrðu sett í því sambandi. Um var að ræða Landssamband íslenskra útvegsmanna, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja. Hagsmunaaðilarnir kynntu sjónarmið sín fyrir nefndinni. Í kjölfarið sendi nefndin hagsmunaaðilum bréf með endurskoðuðum hugmyndum sínum (fylgiskjal 7) og óskaði eftir að þeir gæfu nefndinni skriflega umsögn. Umsagnirnar fylgja skýrslunni (fylgiskjöl 8 – 12). Hér á eftir fara athugasemdir hagsmunaaðila og umfjöllun nefndarinnar um þær.

Sjónarmið Landssambands íslenskra útvegsmanna.
    LÍÚ vill opna fyrir möguleika á þurrleiguskráningu fiskiskipa eins og vikið er að í inngangi þessarar skýrslu. Sambandið færir rök fyrir því að slíkt muni auka tækifæri útgerða og sjómanna á frekari tekjuöflun. Ástæðurnar eru einkum tvær. Annars vegar að þurrleiguskráning geri útgerðarmönnum kleift að nýta skip sín betur en nú. Mörg íslensk fiskiskip hafi litlar aflaheimildir. Möguleikar á að leigja aflaheimildir og flytja þær á milli skipa hafi minnkað í kjölfar nýlegrar lagasetningar. Þessu til viðbótar sé afkastageta íslenskra skipa sífellt að aukast. Þetta leggist allt á eitt um að verkefni íslenskra fiskiskipa dragist saman. Hættara sé við því en áður að þessi dýru tæki liggi í einhvern tíma á ári bundin við bryggju verkefnalaus sjómönnum og útgerðum til vanþurftar. Hin ástæðan er sú að kostnaður við þurrleiguskráningu sé minni en við að taka skip af íslenskri skipaskrá og skrá þau á erlenda skipaskrá.
          Gagnrökin eru þau að ríkissjóður yrði af tekjum af stimpilgjöldum sem útgerðir greiða af kaupsamningi við útflöggun skipa. Sömuleiðis yrði ríkið af tekjum af stimpilgjöldum þegar skip eru aftur skráð á íslenska skipaskrá. Þegar betur er að gáð verður þó vart séð að það eigi við sterk rök að styðjast að ríkissjóður yrði fyrir tekjumissi ef þurrleiguskráningu frá íslenska skipaskrá væri heimiluð. Útgerðir og sjómenn fengju tekjur sem ólíklegt er að fengjust ella. Þar sem þurrleiga frá íslenskri skipaskrá mundi leiða til þess að kostnaður og fyrirhöfn við að nýta veiðiheimildir erlendra ríkja minnkaði er líklegt að fleiri íslensk skip gerðu slíkt en nú. Áhafnir greiða skatta og gjöld til viðkomandi fánaríkis en ekki til Íslands ef tvísköttunarsamningur er í gildi við viðkomandi ríki. Hins vegar aukast tekjur íslenska þjóðarbúsins þar sem tekjur skipverja og útgerða koma væntanlega að meira eða minna leyti inn í landið. Þessar tekjur eru nýttar til framfærslu áhafna, fjölskyldna þeirra og til reksturs útgerða. Þegar tekjurnar fara í umferð hérlendis innheimtast beinir og óbeinir skattar. Ríkissjóður fær þannig tekjur sem hann hefði ella ekki fengið. Þessar auknu skatttekjur yrðu væntanlega hærri en tekjur af stimpilgjöldum sem ríkissjóður yrði af ef þurrleiguskráning yrði leyfð frá íslenskri skipaskrá.
    Eftirfarandi eru athugasemdir við hugmyndir nefndarinnar um skilyrði fyrir leyfi til þurrleiguskráningar sem komu fram í umsögn LÍÚ.
    LÍÚ taldi rétt að heimild til þurrleiguskráningar næði til tilvika þar sem skip eru seld með kaupleigusamningi.
          Nefndin telur þetta eðlilega tilhögun.
    LÍÚ taldi eðlilegt að eftirfarandi ákvæði 12. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 gilti um veiðar þurrleigðra skipa: „Viðmiðunarhlutfall, sem ákveðið er í þessari málsgrein, [50%] lækkar þó um 5% fyrir hverja fulla 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilandhelgi Íslands á fiskveiðiárinu á þeim tegundum sem ekki hefur verið samið um veiðistjórn á.“
          Nefndin telur rétt að þetta fyrirkomulag mundi gilda.
    LÍÚ óskaði eftir því að jákvætt yrði tekið í hugsanlegar kröfur erlendra ríkja um gagnkvæmni þurrleiguskráningar.
          Nefndin telur óraunhæft að ætla að þurrleiguskráning inn á íslenska skipaskrá yrði heimiluð.
    LÍÚ lagði til að hámarksgildistími þurrleiguskráningar yrði a.m.k. eitt ár í stað sex mánaða eins og hugmyndir nefndarinnar gerðu ráð fyrir.
          Hugmynd nefndarinnar um sex mánaða hámarksgildistíma var sett fram í ljósi athugasemda sem Samtök fjármálafyrirtækja gerðu á fundi sínum með nefndinni. Í umsögn sinni telja samtökin nú ásættanlegt að leyfi séu gefin út til eins árs og telur nefndin því rétt að hámarksgildistími leyfis yrði eitt ár í senn.
    LÍÚ taldi að erfiðleikum yrði háð að fá yfirlýsingu frá fánaríki um að það uppfyllti skuldbindingar sínar sem slíkt og að heimild til þess að afturkalla leyfi til þurrleiguskráningar væri nægjanleg.
          Nefndin telur þessa ábendingu réttmæta. Í stað slíkrar yfirlýsingar virðist eðlilegra að kveðið yrði á um að heimilt væri að hafna umsókn um þurrleiguskráningu ef sýnt þætti að erlent ríki muni ekki uppfylla skuldbindingar sínar sem fánaríki.
    LÍÚ taldi óeðlilegt að leggja þyrfti fram tryggingar vegna hugsanlegra brota á reglum um þurrleiguskráningu eða brota á reglum um veiðar sem framin væru undir erlendum fána. Í því fælist hlutlæg refsiábyrgð á brotum sem viðkomandi íslensk útgerð hefði engin tök á að koma í veg fyrir og starfsmenn hennar ættu engan þátt í.
          Nefndin fjallaði ítarlega um þetta mál og telur að LÍÚ hafi nokkuð til síns máls. Nefndin telur þó nauðsynlegt að gerðar yrðu ráðstafanir til að stemma stigu við brotum. Slíkar ráðstafanir gætu m.a. falist í að krefjast þess að lögð yrðu fram gögn um leigutaka og leigusala skips, s.s. nöfn stjórnarmanna og helstu eigenda viðkomandi fyrirtækja, og upplýsingar um bein eða óbein eignatengsl milli leigutaka og leigusala. Ef brot sannaðist væri heimilt að synja umsóknum um þurrleiguskráningu síðar ef aðilar sem gerst hefðu brotlegir væru tengdir leigunni.
    LÍÚ taldi álitamál hvaða reglur um öryggismál væru strangastar og taldi rétt að ekki yrðu gerðar kröfur um að framfylgja þyrfti íslenskum reglum um öryggismál um borð í þurrleiguskráðum skipum. Eðlilegra væri að reglur fánaríkisins giltu.
          Nefndin telur að um réttmæta ábendingu sé að ræða. Að athuguðu máli telur nefndin ekki raunhæft að framfylgja íslenskum reglum um öryggismál um borð fremur en öðrum íslenskum reglum meðan á þurrleigu stendur.
    LÍÚ benti á að e.t.v. þyrfti að huga að breytingum á þinglýsingarlögum vegna þurrleiguskráningar fiskiskipa þannig að tryggt væri að réttarvernd þinglýsingar héldist meðan á þurrleiguskráningu stendur.
          Hugað verður að þessu atriði við frekari útfærslu á hugmyndum nefndarinnar ef niðurstaðan verður sú að leggja fram lagafrumvarp um að heimila þurrleiguskráningu fiskiskipa frá íslenskri skipaskrá.

Sjónarmið Sjómannasambands Íslands.
    Sjómannasambandið lýsti þeirri skoðun að „útgerðarmenn séu að þrýsta á stjórnvöld um að heimila tvískráningu fiskiskipa í þeim tilgangi að fá ódýrt erlent vinnuafl til starfa á skipum sínum í samkeppni við íslenska sjómenn“. Svo virðist sem athugasemdir sambandsins lúti einkum að tvennu í þessu efni. Annars vegar að aðstæðunum þegar skip kæmi aftur til Íslands með erlenda áhafnarmeðlimi að lokinni þurrleigu. Hins vegar að því að útgerðir noti þurrleigu til þess að stunda veiðar undir erlendum fána sem stunda mætti undir íslenskum fána, í því skyni að draga úr kostnaði við veiðarnar.
          Að því að fyrra atriðið varðar óttast sjómenn að þegar þurrleiguskráð skip lyki verkefni sínu, hefði verið afskráð af erlendri skipaskrá og væri komið aftur til Íslands með erlenda áhafnarmeðlimi ykist þrýstingur á að þeir yrðu áfram skráðir á skipið. Einnig óttast þeir að samningsstaða íslenskra sjómanna að því er kjaramál varðar mundi versna við þessar aðstæður.
    Því er til að svara að íslensk lög og kjarasamningar gilda um skip sem sigla undir íslenskum fána. Til þess að unnt sé að ráða erlenda sjómenn á skip sem siglir undir íslenskum fána þurfa þeir að fá viðurkenningu á atvinnuskírteinum sínum. Auk þess þurfa þeir atvinnuleyfi á Íslandi ef þeir koma frá löndum utan EES-svæðisins. Skylt er að leita umsagnar viðkomandi stéttarfélaga áður en atvinnuleyfi er veitt. Sé atvinnuleyfi veitt fá viðkomandi sjómenn laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Áréttað skal í þessu sambandi að það er brot á 6. gr. laga nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga, að greiða samkvæmt erlendum kjarasamningum á skipum sem sigla undir íslenskum fána. Rétt er að minna á að óheimilt er að ráða erlendan skipstjóra á íslenskt skip.
    Fram hefur komið að samtök sjómanna telja að við núverandi aðstæður sé opinberu eftirliti ábótavant, bæði varðandi það að erlendir sjómenn starfi á íslenskum skipum án atvinnuleyfis og varðandi þau laun sem erlendir sjómenn fái greidd. Sjómannasambandið óttast að við þurrleiguskráningu mundi þetta vandamál versna.
          Að því er varðar síðara atriðið hefur nefndin aflað gagna til þess að kanna hvort íslensk skip geti nýtt veiðiheimildir erlends ríkis án þess að sigla undir fána þess. Benda þau til að möguleikar til þess séu mjög takmarkaðir. Tekið skal fram að hugmyndir nefndarinnar gera ráð fyrir því að þurrleigð skip gætu eingöngu nýtt veiðiheimildir sem ekki væri hægt að nýta undir íslenskum fána.
    Sjómannasambandið gagnrýndi að þurrleiguskráning mundi ýta undir „kvótabrask“ útgerðarmanna.
          Þar sem heimild til þurrleiguskráningar mundi auka möguleika til þess að nýta tækifæri erlendis má gera ráð fyrir því að framsal veiðiheimilda mundi aukast, enda mundi skip ekki geta nýtt íslenskar veiðiheimildir sínar meðan á þurrleigu stæði. Það er stjórnvalda hverju sinni að setja reglur um fiskveiðistjórnun, veiðiheimildir og framsal þeirra og fellur það utan verksviðs nefndarinnar.
    Sjómannasambandið taldi að ekki yrði hægt að framfylgja íslenskum reglum um öryggismál um borð í þurrleiguskráðum skipum.
          Nefndin telur þessa ábendingu vera réttmæta. Eftir að hafa athugað málið nánar telur nefndin ekki raunhæft að framfylgja íslenskum reglum um öryggismál um borð fremur en öðrum íslenskum reglum meðan á þurrleigu stendur.
    Sjómannasambandið taldi eðlilegra að stjórnvöld leituðu eftir samningum við önnur ríki um veiðiheimildir innan lögsögu þeirra en að þurrleiguskráning yrði heimiluð.
          Nefndin telur óraunhæft að ætla að slíkir samningar gætu komið í stað þurrleiguskráningar, enda krefjist erlend ríki undantekningarlaust gagnkvæmni við slíka samningagerð.
    Sjómannasambandið benti á að veiðireynsla þurrleigðra skipa kæmi fánaríkinu til góða og að veiðar þurrleigðra skipa gætu þannig unnið gegn hagsmunum Íslands.
          Nefndin telur að hér sé um réttmæta ábendingu að ræða. Í hugmyndum hennar hefur verið tekið fullt tillit til þessarar ábendingar og gera þær ráð fyrir því að leyfi yrði veitt til veiða úr tilteknum stofnum. Leyfi yrði ekki veitt ef fyrirhugaðar veiðar gengju gegn hagsmunum Íslands.

Sjónarmið Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.
    Farmanna- og fiskimannasambandið taldi að áhætta væri fólgin í þurrleiguskráningu þar sem óvissa gæti ríkt um réttarstöðu áhafnar, eigenda og skips gagnvart öðrum ríkjum. Vísaði sambandið í því efni til ákvæðis 2. tl. 92. gr. hafréttarsamningsins.
          Svo virðist sem þessi athugasemd sé byggð á þeim misskilningi að þurrleiguskráning sé hið sama og tvíflöggun. Vísað er til umfjöllunar um þjóðarétt hér að framan. Niðurstaða þeirrar umfjöllunar er sú að þurrleiguskráning sé heimiluð samkvæmt þjóðarétti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Á fundi með nefndinni komu fram ýmis sjónarmið FFSÍ m.a. um að veiðireynsla þurrleigðra skipa komi fánaríkinu til góða, sem gæti unnið gegn hagsmunum Íslands.
          Fjallað er um þessa ábendingu í síðasta lið umfjöllunar um athugasemdir Sjómannasambands Íslands.

Sjónarmið Vélstjórafélags Íslands.
    Í umsögn Vélstjórafélags Íslands kom fram að félagið gerði sér grein fyrir því að þurrleiguskráning mundi auka tekjumöguleika íslenskra útgerða, en legðist samt sem áður gegn því að þurrleiguskráning yrði heimiluð hér á landi.
    Röksemd félagsins var sú að ef þurrleiguskráning yrði heimiluð yrði erfiðara að standa gegn kröfum útgerðarmanna um að innlendum vélstjórum er nytu markaðslauna yrði „skipt út fyrir pólska eða rússneska vélstjóra sem gerðu sér að góðu nakta kauptaxta.“
          Nefndin vísar til umfjöllunar um fyrstu athugasemd Sjómannasambands Íslands varðandi þetta atriði.

Sjónarmið Samtaka fjármálafyrirtækja.
    Samtök fjármálafyrirtækja lýstu sig fylgjandi hugmyndum um að leyfa þurrleiguskráningu á íslenskum fiskiskipum að því gefnu að strangar reglur gildi þar um. Eftirfarandi eru athugasemdir sem komu fram í umsögn samtakanna um hugmyndir nefndarinnar.
    Samtökin óskuðu þess að gerð yrði krafa um að viðkomandi erlend stjórnvöld mundu staðfesta að veiðileyfi hafi verið gefið út til viðkomandi skips eða útgerðar áður en leyfi til þurrleiguskráningar yrði veitt.
          Nefndin telur þetta ekki raunhæft þar sem í mörgum tilfellum settu erlend ríki það sem skilyrði fyrir útgáfu veiðileyfis að viðkomandi skip sigldi undir fána þess. Í slíkum tilfellum mundi umsækjandi lenda í pattstöðu þar sem annars vegar fengi skip hans ekki veiðileyfi fyrr en það væri komið undir viðkomandi erlendan fána en hins vegar fengi það ekki að fara undir erlendan fána fyrr en það hefði fengið erlent veiðileyfi. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt tillögum nefndarinnar er þurrleiga háð samþykki veðhafa og geta þeir sett skilyrði um að veiðileyfi hafi verið gefið út telji þeir slíkt nauðsynlegt.
    Samtökin óskuðu þess að gerðir yrðu tvíhliða samningar milli Íslands og viðkomandi ríkja um þurrleiguskráningu.
          Nefndin telur þetta óraunhæft vegna væntanlegra krafna um gagnkvæmni. Hugsanlegt væri að koma á beinu sambandi við skipaskrár viðkomandi ríkja enda væri það líklega besta og hagkvæmasta leiðin til að framkvæma þurrleiguskráningu.
    Samtökin óskuðu eftir að samþykki veðhafa yrði þinglýst. Auk þess óskuðu samtökin eftir að nefndin útskýrði réttarstöðu fjárnámsbeiðanda og uppboðsbeiðanda í þessu sambandi.
          Nefndin taldi rétt að óska eftir nánari útskýringum á því við hvað væri átt. Svar við þessu erindi hefur ekki borist nefndinni. Ljóst er að þetta mál gæti haft áhrif á endanlega útfærslu á lagafrumvarpi um heimild til þurrleiguskráningar, en ætti ekki að hafa áhrif á ákvörðun um framhald málsins á þessu stigi.
    Á fundi með nefndinni kom fram það sjónarmið samtakanna að hámarksgildistími leyfis til þurrleiguskráningar yrði ekki lengri en sex mánuðir. Í skriflegri umsögn samtakanna kemur hins vegar fram að sá tími gæti verið of knappur og ásættanlegt væri að leyfi yrði gefið út til eins árs í senn.
          Nefndin leggur til að hámarksgildistími leyfis verði eitt ár í senn.

III. Niðurstaða.


    Ljóst er að ákvörðun um hvort heimila eigi þurrleiguskráningu hér á landi er fyrst og fremst pólitísk, enda hafa hagsmunaaðilar mjög ólíka afstöðu til málsins. Landssamband íslenskra útvegsmanna er fylgjandi því að þurrleiguskráning verði leyfð hér á landi og Samtök fjármálafyrirtækja eru því einnig fylgjandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samtök sjómanna eru hins vegar andvíg því að þurrleiguskráning verði heimiluð.
    Eins og ráða má af umfjölluninni hér að framan sér nefndin ýmsa kosti við að heimila þurrleiguskráningu. Meginkostirnir eru annars vegar aukin verkefni fyrir íslensk skip, enda mundu þurrleigð skip aðeins stunda veiðar sem íslensk skip ættu annars ekki kost á. Veiðar þurrleigðra skipa yrðu því hrein viðbót við þau verkefni sem íslenski flotinn getur nú stundað. Í því mundu ekki aðeins felast auknar tekjur fyrir útgerðir heldur einnig aukin atvinnutækifæri fyrir íslenska sjómenn og auknar tekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Hinn meginkosturinn er að íslenskar útgerðir gætu nýtt þurrleiguskráningu til að bæta réttarstöðu sína við sölu á skipum til erlendra aðila með kaupleigusamningi.
    Í ljósi þess að ákvörðun um framhald þessa máls er í eðli sínu pólítísk telur nefndin, sem skipuð er embættismönnum, ekki rétt að gera beinar tillögu þar að lútandi. Með skýrslu þessari telur nefndin hins vegar að forsendur séu skapaðar fyrir viðkomandi ráðherra til þess að taka ákvörðun um framhald málsins.
    Nefndin hefur mótað hugmyndir um reglur varðandi þurrleiguskráningu sem hún leggur til að verði lagðar til grundvallar verði ákvörðun tekin um að heimila slíka skráningu hér á landi. Hefur nefndin endurskoðað upphaflegar hugmyndir sínar í ljósi athugasemda hagsmunaaðila.
    Í hugmyndum nefndarinnar er miðað við eftirfarandi:
          Þurrleigusamningur með eða án kaupréttar yrði forsenda þurrleiguskráningar.
          Rekstur skips færðist alfarið til fyrirtækis í því landi sem leigði skipið og mundu þarlend lög gilda um reksturinn.
          Lögsaga Íslands næði ekki til skipsins. Það teldist vera erlent skip meðan á þurrleigu stæði. Lög fánaríkis þess giltu um borð, þ.m.t. lög um veiðileyfi, veiðieftirlit, atvinnuleyfi, kjaramál og öryggismál.
    Hugmyndir nefndarinnar gera ráð fyrir að leyfi til þurrleiguskráningar yrði háð margvíslegum skilyrðum sem hefðu það m.a. að markmiði:
          að koma í veg fyrir veiðar sem hægt væri að stunda undir íslenskum fána.
          að koma í veg fyrir veiðar sem græfu undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum.
          að koma í veg fyrir veiðar sem verndunarsjónarmið mæltu gegn.
          að stuðla að því að veiðarnar færu fram eftir þeim reglum sem viðeigandi alþjóðasamningar mæla fyrir um.
          að koma í veg fyrir veiðar sem að öðru leyti gengju gegn hagsmunum Íslands.
          að veiðar yrðu einungis stundaðar þar sem sýnt þætti að fánaríki virti skyldur sínar sem slíkt.
    Verði ákvörðun tekin um að leyfa þurrleiguskráningu leggur nefndin til að bætt yrði heimildarákvæði í lög nr. 115/1985, um skráningu skipa, þar sem kveðið yrði á um skilyrði þurrleiguskráningar. Unnt yrði að kveða nánar á um slík skilyrði í reglugerð. Útfærsla á þurrleiguskráningu mundi kalla á samvinnu samgönguráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins þar sem málið varðar bæði fiskveiðar og skráningu skipa. Einnig yrði að koma á samskiptum við viðkomandi stjórnvöld í þeim erlendu ríkjum sem leyfa þurrleiguskráningu á sína skipaskrá. Nefndin telur ekki rétt að útfæra nánar lagabreytingar og reglugerðarsetningar nema ákvörðun verði tekin um að heimila þurrleiguskráningu íslenskra fiskiskipa.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa,


nr. 115/1985, með síðari breytingum.


    Tilgangur frumvarpsins er að veita Siglingastofnun heimild til að fiskiskip sem skráð eru á íslenskri skipaskrá séu skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá. Með þurrleiguskráningu er átt við skráningu skips þegar gerður er samningur um leigu á skipi milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja. Skipið er áfram skrá á skipaskrá í heimalandi eiganda skipsins, en siglir undir fána og lýtur reglum þurrleiguríkis. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.