Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 367  —  302. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skráningarskyldu skipa.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að semja reglur og leggja fyrir Alþingi að breyta lögum ef nauðsyn krefur í þá veru að skráningarskylt verði sérhvert skip sem notað er í atvinnuskyni, svo og önnur skip sem eru lengri en átta metrar að skráningarlengd.
    Ráðherra setji reglur um skip sem eru undir átta metrum að stærð og kunna að vera notuð tímabundið í atvinnuskyni.

Greinargerð.


    Eðlilegt verður að telja að öll skip sem haldið er úti í atvinnuskyni séu skráningar- og eftirlitsskyld, óháð stærð þeirra. Á slík skip er líklegt að ráðnir séu til starfa launþegar (fiskimenn), aðrir en eigendur. Hins vegar er einnig sjálfsagt að skilgreina í reglugerð, enda sé slíkrar heimildar aflað í lögum, hvað sé tímabundin atvinnustarfsemi þeirra manna sem róa fáa daga eða vikur á ári, t.d. við sérveiðar á ákveðnum svæðum eða til tímabundinnar tekjuöflunar við sjávarnytjar eða leiðsögu. Líklegt má telja að á næstu árum fjölgi bátum allt að átta metrum að stærð í flokkum skemmti- og tómstundabáta. Þessi þróun mun verða samhliða því að eldri bátar sem nú eru notaðir í atvinnuskyni verða seldir þegar atvinnumenn endurnýja fiskibáta sína. Telja verður eðlilegt að mæta þessari þróun sem óhjákvæmilega verður með því að setja nýjar viðmiðanir í lög og reglur um báta sem ekki eru að jafnaði notaðir í atvinnuskyni.














Prentað upp.