Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 368  —  216. mál.
Svarviðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.

     1.      Er ráðherra sammála því mati forstjóra Fjármálaeftirlitsins að líklegt sé að einhverjar fjármálastofnanir lendi í verulegum erfiðleikum á næstu mánuðum? Telur ráðherra rétt að grípa til aðgerða vegna þess og þá hverra?
    Forstjóri Fjármálaeftirlitsins sagði í ræðu á aðalfundi þess 18. október sl.: ,,Þrátt fyrir hækkun eiginfjárhlutfalla telur Fjármálaeftirlitið að margar lánastofnanir þurfi enn frekar að styrkja eiginfjárstöðu sína til að mæta hugsanlegum áföllum í nánustu framtíð. Margar lánastofnanir hafa fullnýtt heimildir til töku víkjandi lána til að styrkja eiginfjárstöðu sína, bæði hvað varðar hefðbundin víkjandi lán og hin nýju víkjandi skuldabréf. Eiginfjárstaða þessara lánastofnana verður því helst styrkt með auknum hagnaði eða útgáfu nýs hlutafjár/stofnfjár.
    Rétt er að taka fram að staða einstakra lánastofnana er mjög mismunandi. Ekki er ólíklegt að einhverjar lánastofnanir eigi eftir að lenda í erfiðleikum. Aðrar munu verða fyrir litlum skakkaföllum. Þegar á heildina er litið og að gefnum eðlilegum efnahagslegum forsendum er ekki ástæða til að ætla að fjármálastöðugleiki sé í hættu.“
    Ráðherra telur ástæðulaust að grípa til sértækra aðgerða í bankakerfinu þar sem fjármálastöðugleika er ekki ógnað að mati Fjármálaeftirlitsins, alþjóðastofnana og matsfyrirtækja. Hins vegar eru lög og reglur á fjármálamarkaði í örri þróun og er ástæða til að styrkja þau enn frekar á næstu missirum, t.d. með hliðsjón af ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

     2.      Hver er heildareign Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og hvernig skiptist hún milli innstæðudeildar og verðbréfadeildar? Hve hátt hlutfall er heildareignin af heildarinnstæðum einstaklinga í bönkum og sparisjóðum annars vegar og verðbréfaeign þeirra hins vegar?
    Eigið fé innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 31. desember 2000 var 2.963 millj. kr. en eigið fé verðbréfadeildar 21 millj. kr. Miðað við sl. áramót nam eigið fé Tryggingarsjóðs 1,08% af tryggðum innstæðum sem er yfir því lágmarki (1,0%) sem lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, krefjast.
    Samkvæmt 7. gr. laga nr. 98/1999 skal heildareign verðbréfadeildar sjóðsins nema að lágmarki 100 millj. kr. Á árinu 2000 voru innheimtar 20 millj. kr. frá aðildarfyrirtækjum og í ár jafnhá fjárhæð, hvorutveggja skv. 7. gr nefndra laga. Aðildarfyrirtæki sjóðsins hafa lagt fram ábyrgðaryfirlýsingar vegna verðbréfadeildar sem brúa bilið milli innheimtra lögboðinna fjárhæða og lágmarksstærðar sjóðsins, 100 millj. kr.
    Verðbréfadeild tryggir einungis viðskipti með verðbréf sem eru í vörslu eða umsýslu aðildarfyrirtækis sjóðsins og því ber að endurgreiða eða standa skil á samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti aðildarfyrirtækis og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum. Hliðstæð regla gildir um innborgað reiðufé fjárfestis til aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf. Verðbréfaeign einstaklinga, eins og hún er á hverjum tíma, er ekki tryggð á grundvelli laganna, enda stóð það aldrei til. Þar af leiðandi er ekkert samband milli verðbréfaeignar sem slíkrar og lögbundinnar lágmarksstærðar verðbréfadeildar Tryggingarsjóðs.

     3.      Hve mikið hafa bankar og sparisjóðir greitt í sjóðinn árlega sl. fimm ár?
    Tryggingarsjóður var stofnaður í árslok 1999 á grundvelli laga nr. 98/1999 og tók hann 1. janúar 2000 við eignum og skuldum Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða og voru síðarnefndu sjóðirnir lagðir niður frá sama tíma. Engar innborganir frá aðildarfyrirtækjum Tryggingarsjóðs í innstæðudeild hafa átt sér stað frá stofnun hans. Viðskiptabankar greiddu heldur ekki í Tryggingarsjóð viðskiptabanka síðustu starfsár hans.
    Um innborganir í innstæðudeild gildir 6. gr. laga nr. 98/1999, en þar segir að nái heildareign ekki 1% lágmarki af tryggðum innstæðum skulu allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins sem nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ár.
    Um innborganir í verðbréfadeild er vísað til svars við 2. tölulið hér að framan.

     4.      Telur ráðherra Tryggingarsjóðinn nægjanlega öflugan til að geta mætt hugsanlegum skakkaföllum fjármálastofnana, annars vegar vegna innstæðna hjá bönkum og sparisjóðum og hins vegar vegna verðbréfaeignar?
    Markmið með lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er að veita viðskiptavinum lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Greiðslu úr sjóðnum er skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr., miðað við gengi evru 5. janúar 1999, er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Miðað við gengi evru í nóvember 2001 er lágmarkstryggingaverndin nú um 1,95 millj. kr. Stórt gjaldþrot fjármálafyrirtækis getur leitt til þess að ekki séu nægilegar eignir til í sjóðnum til að greiða kröfuhöfum en við slíkar aðstæður er heimilt að taka lán til að greiða þeim.

     5.      Getur ráðherra fullvissað sparifjáreigendur um að tryggingavernd þeirra vegna innstæðna í bönkum eða verðbréfaeignar sé nægjanlega örugg þannig að tap þeirra verði að fullu bætt komi til gjaldþrota eða skakkafalla á fjármálamarkaðnum eða hjá einstökum fjármálafyrirtækjum?
    Nei. Kröfur eru ekki bættar að fullu nema eignir sjóðsins hrökkvi til. Eins og fram kom í svari við 4. tölulið er lágmarksvernd hvers kröfuhafa nú um 1,95 millj. kr.

     6.      Hve margir eiga innstæðu í bönkum og sparisjóðum sem er yfir lágmarkstryggingu sem Tryggingarsjóður bætir að fullu og hver er lágmarkstryggingavernd sjóðsins? Hver er meðalinnstæða þeirra sem áttu hærri innstæðu en 10.000 kr. en undir lágmarkstryggingu sem bætt er að fullu?
    Nýlegar upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir. Í þinglegri meðferð frumvarpsins sem síðar varð að lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta árið 1999 óskaði viðskiptaráðuneytið eftir þessum upplýsingum frá einum viðskiptabanka. Eingöngu voru teknar með í útreikningana innstæður yfir 10 þús. kr., en um helmingur innlánsreikninga í viðkomandi viðskiptabanka voru með innstæðum undir þeirri fjárhæð. Meðalinnstæða þeirra innstæðueigenda sem voru með hærri innstæðu en 10 þús. kr. var 544.965 kr. Af þessum innstæðueigendum voru 93% með innstæðu undir 1,7 millj. kr.

     7.      Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að Tryggingarsjóður taki á sig fulla tryggingavernd einstaklinga vegna innstæðna í bönkum eða verðbréfaeignar?
    Nei, mestu máli skiptir að einstaklingar með lágar innstæður fái kröfur sínar bættar að fullu. Vísbendingar eru um að tiltölulega fáir einstaklingar eigi innstæður yfir lágmarkstryggingavernd. Ekki er þörf á þeirri neytendavernd sem felst í innstæðutryggingakerfi fyrir eignameiri einstaklinga.
    Innstæðutryggingaverndin hér á landi er meiri heldur en víðast hvar á EES-svæðinu, þó að Noregi undanskildum. Samkvæmt tilskipun ESB um innstæðutryggingar nr. 94/19/EBE skulu innstæður að lágmarki 20 þúsund evrur vera tryggðar. Heimilt er þó að undanskilja 10% innstæðunnar frá tryggingu. Hér á landi eru innstæður tryggðar fyrir að lágmarki tæpar 21 þúsund evrur en allar innstæður eru tryggðar að því marki sem eignir sjóðsins hrökkva til. Heimildin til að undanskilja hluta frá tryggingu er ekki nýtt.