Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 388  —  312. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, 2. og 3. mgr., svohljóðandi:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal innheimta 5.000 kr. skráningargjald af áfengisbirgjum við skráningu á hverri sölutegund þeirra í reynsluflokk. Með reynsluflokki er átt við söluflokk vara sem eru í tilraunasölu í ákveðinn tíma.
    Áður en reynslusala hverrar sölutegundar hefst í vínbúðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skal áfengisbirgir leggja fram tryggingu að fjárhæð 40.000 kr. til tryggingar því að varan nái tilskildum söluárangri til þess að komast í kjarna. Með kjarna er átt við söluflokk vara sem skráðar eru til almennrar ótímabundinnar sölu í flestum vínbúðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Náist tilskildur söluárangur endurgreiðist tryggingarfjárhæðin en að öðrum kosti rennur hún til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins innheimti skráningargjald vegna kostnaðar stofnunarinnar við reynslusölu á vörum frá áfengisbirgjum. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að áfengisbirgjar leggi fram 40.000 kr. tryggingu sem þeir fá endurgreidda komist varan í kjarna.
    Þær sölutegundir áfengis sem skráðar eru til almennrar ótímabundinnar sölu í flestum vínbúðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hverju sinni eru í sérstökum kjarna. Stofnunin hefur þó tímabundið í reynslusölu sölutegundir sem ekki hafa áunnið sér rétt til sölu í kjarna. Slíkar vörur sem flokkast í reynsluflokk færast hins vegar í kjarna nái þær ákveðnu söluhlutfalli á þeim tíma sem reynslusala stendur yfir. Um 300 sölutegundir eru teknar til reynslusölu á ári og er langur biðlisti yfir skráðar vörur til reynslusölu eða um 2.500 sölutegundir. Borið hefur á því að birgjar skrái fjölda tegunda eða jafnvel allar sölutegundir frá tilteknum framleiðanda án þess að ætlunin sé að koma öllum tegundum í sölu. Þetta fyrirkomulag kostar mikla vinnu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins auk þess sem slíkt fyrirkomulag tefur fyrir öðrum sölutegundum á skrá. Með því að mæla fyrir um 5.000 kr. skráningargjald og 40.000 kr. tryggingu til þess að vara komist úr reynslusölu og í kjarna verður vöruval


Prentað upp.

Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins markvissara jafnframt því að standa undir kostnaði stofnunarinnar við ofangreinda reynslusölu. Er þetta fyrirkomulag því bæði stofnuninni sjálfri og birgjum til hagsbóta. Auk þess verður það birgjum hvatning til að vanda val þeirrar vöru sem þeir bjóða til reynslusölu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969,
um verslun með áfengi og tóbak.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins innheimti skráningargjald og tryggingargjald af birgjum vegna reynslusölu á áfengi. Gert er ráð fyrir að þessi gjöld verði fremur lítill hluti af söluveltu fyrirtækisins og hafi óveruleg áhrif á skil á hagnaði til A-hluta ríkissjóðs.