Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 389  —  313. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Frá landbúnaðarnefnd.



l. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð þar sem tilgreindar eru lágmarkskröfur sem gerðar eru til vottaðra lífrænna framleiðsluhátta við íslenskar aðstæður í samræmi við grunnreglur Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM) og skuldbindingar Íslands skv. I. og II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

2. gr.


    7. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektir renna í ríkissjóð.
    Með mál samkvæmt þessari grein skal farið að hætti opinberra mála, sbr. lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Við gildistöku laganna um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, var sett reglugerð á grundvelli þeirra, reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 219/1995. Byggðist sú reglugerð á gerðum Evrópusambandsins um lífræna framleiðslu sem þá höfðu tekið gildi og sem Íslendingar höfðu, með samþykkt EES-samningsins, skuldbundið sig til að yfirtaka. Einnig byggðist sú reglugerð á stöðlum IFOAM – Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga, fyrir lífræna framleiðslu. Frá gildistöku þessara ákvæða hér á landi hefur orðið mikil þróun á þessum vettvangi hjá Evrópusambandinu. Með samþykkt EES-samningsins hafa Íslendingar sem fyrr segir skuldbundið sig til þess að yfirtaka gerðir ESB á þessu sviði. Í landbúnaðarráðuneytinu er unnið að því að endurútgefa og yfirtaka þessar gerðir í heild og laga þær að íslenskum aðstæðum eftir því sem svigrúm er til. Við þá vinnu hefur komið í ljós að í lögunum um lífræna landbúnaðarframleiðslu er ekki að finna ótvíræðar heimildir til yfirtöku sumra þessara ákvæða, einkum ákvæða sem snerta viðurlög. Með frumvarpi þessu er því lagt til að ótvíræð ákvæði verði lögfest hvað það varðar. Enn fremur er lagt til að heimild ráðherra til setningar reglugerðar verði aðlöguð þeirri öru þróun sem orðið hefur á þessu sviði innan ESB, sbr. skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt ákvæðum 6. gr. gildandi laga er heimild landbúnaðarráðherra til setningar reglugerðar bundin við grunnreglur Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM) og reglugerð Evrópusambandsins nr. 2092/91, með síðari breytingum. Frá því að gildandi lög voru sett hafa komið til sögunnar fleiri gerðir og staðlar sem Íslendingum er skylt að yfirtaka samkvæmt ákvæðum EES-samningsins og fleiri eru væntanlegar. Er því ljóst að ákvæði 6. gr. laganna þar sem segir að heimild ráðherra sé bundin við reglugerð ráðs Evrópusambandsins nr. 2092/91, með síðari breytingum, er of þröngt og ekki í samræmi við þá þróun sem orðið hefur innan ESB og Ísland er skuldbundið af samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Er því í 1. gr. lagt til að í stað tilvísunar til reglugerðar ESB nr. 2092/91 komi tilvísun til skuldbindinga Íslands skv. I. og II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en þar er að finna þær gerðir og staðla sem gilda um lífræna landbúnaðarframleiðslu og Ísland er skuldbundið af.

Um 2. gr.


    Með ákvæðum 2. gr. er lagt til að lögfest verði ótvíræð ákvæði um viðurlög svo að unnt sé með öruggum hætti að framfylgja ákvæðum þeirra gerða ESB sem Íslendingar hafa með EES-samningnum skuldbundið sig til þess að yfirtaka. Lífræn framleiðsla er flókið ferli og sýnir reynslan að margvíslegar freistingar til undanbragða verða á vegi þeirra sem framleiða og markaðssetja slíkar afurðir. Þá er jafnan nokkuð um að vörur sem ekki eru lífrænt framleiddar eru boðnar á markaði sem slíkar. Slíkra tilhneiginga hefur einnig gætt hér á landi. Til þess að unnt sé að koma við nauðsynlegu eftirliti og tryggja hagsmuni neytenda á þessu sviði er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi ótvíræðar heimildir til að grípa inn í og beita viðurlögum.
    Með ákvæðum greinarinnar er jafnframt lagt til að felld verði úr gildi ákvæði 7. gr. laganna um að ráðherra skipi nefnd er skuli vera til ráðuneytis um reglur, staðla, vottun og allt er varðar lífræna landbúnaðarframleiðslu. Samráðsnefndin gegndi mikilvægu hlutverki við setningu gildandi reglugerðar um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 215/1995, en með tilkomu búnaðarlaga, nr. 70/1998, þar sem kveðið er á um að fagráð skuli starfa í hverri búgrein, hefur fagráð í lífrænni ræktun að mestu tekið við því samráðshlutverki sem nefndinni var ætlað.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.