Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 393  —  317. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um unglingamóttöku og getnaðarvarnir.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Guðmundur Árni Stefánsson,


Drífa Hjartardóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Svanfríður Jónasdóttir, Drífa Snædal, Bryndís Hlöðversdóttir, Jónína Bjartmarz, Hjálmar Árnason.

    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja viðræður við heilsugæsluna í Reykjavík um opnun unglingamóttöku, t.d. við eina af stöðvum hennar. Jafnframt feli ráðherra landlækni að koma á fót tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar með ókeypis eða ódýrar getnaðarvarnir fyrir fólk á aldrinum fimmtán ára til tvítugs.

Greinargerð.


    Miklar umræður hafa verið á undanförnum árum um stöðu ungs fólks í samfélaginu, ábyrgð þess og hlutverk.
    Afar mikilvægt er bregðast við þörfinni fyrir sérstaka móttöku fyrir ungt fólk þar sem það getur rætt sín mál við fagaðila á eigin forsendum en ekki á forsendum hinna fullorðnu. Þegar hefur verið stofnað til unglingamóttöku á Akureyri og í Hafnarfirði. Slík þjónusta er mikilvæg bæði í kynfræðslumálum og sértækum vandamálum ungmenna sem upp geta komið.
    Í fréttablaði Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir, FKB, er fjallað um þær tvær stöðvar sem þegar eru starfandi. Þar segir m.a. um unglingamóttökuna á heilsugæslustöðinni Sólvangi í Hafnarfirði að sumarið 1999 hafi verið byrjað að þróa hugmyndir um starfsemi unglingamóttöku á vegum heilsugæslustöðvarinnar. Sýnt hafi þótt strax í upphafi að stór hluti starfsemi unglingamóttöku mundi felast í ráðgjöf og meðferð sem beindist að kynlífi ungs fólks í ljósi þess að markhópurinn væri unglingar sem eru kynþroska og eru að verða eða orðnir virkir í kynlífi. Þetta eru þættir eins og getnaðarvarnaráðgjöf og fóstureyðingaráðgjöf en ótímabærar þunganir unglinga eru margar á Íslandi og mjög brýnt þótti að sinna þessum þætti enn betur en gert er.
    Áhættuhegðun unglinga, t.d. reykingar, vímuefnaneysla og ofneysla áfengis, er málaflokkur sem þarfnast umfjöllunar og forvarna og átti unglingamóttakan að geta sinnt einhverjum hluta þessa málaflokks. Talið var að ungt fólk mundi leita til slíkrar móttöku vegna ofbeldis sem það hefði verið beitt, eins og sifjaspells og/eða nauðgunar, félagslegra vandamála, t.d. samskiptavanda á heimilum eða í skóla, og vegna húðvandamála, geðheilsu, kvíða, þunglyndis eða átraskana.
    Markhópur móttökunnar var skilgreindur sem unglingar og ungt fólk 14 til 20 ára á upptökusvæði heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi í Hafnarfirði.
    Móttakan er skipulögð með þarfir unglinga í huga og nauðsynlegt er að leiðarljósið sé:
          þægileg og vingjarnleg framkoma starfsfólks sem sýnir ungmennum virðingu og skilning,
          engar tímapantanir,
          ókeypis heimsóknir,
          gott aðgengi, t.d. með tilliti til strætisvagna,
          móttakan aðskilin frá fullorðinsmóttöku,
          þægilegur opnunartími (síðdegis, t.d. eftir skóla).
    Um unglingamóttökuna á heilsugæslustöðinni á Akureyri segir að hugmyndir varðandi unglingamóttöku hafi verið komnar fram síðla árs 1999. Heilsugæsluheimsóknir níundu bekkinga höfðu þá tíðkast um nokkurra ára skeið og var vel tekið af unglingum og starfsfólki heilsugæslunnar og komu þær í stað hefðbundinna fyrirlestra skólalækna.
    Fjölmennasti hópurinn sem leitar þangað er stúlkur í 9. og 10. bekk og miðbekkjum í framhaldsskólum. Einstaka drengir slæðast þó inn.
    Flestir búa nemendurnir á Akureyri og mun fátíðara er að utanbæjarnemar sæki móttökuna en þeir eru talsvert margir í skólum á Akureyri. Komuástæður eru fjölmargar en þyngst vega getnaðar- og kynsjúkdómaráðgjöf og geðfélagsleg vandamál. Slíkum tilfellum fjölgar og hefur orðið að vísa þeim erfiðustu annað, svo sem til barna- og unglingageðlækna, sálfræðinga og geðlækna. Nauðsynlegt er að hafa öflugt stuðningsnet sem hægt er að beina þeim til sem á þurfa að halda til áframhaldandi meðferðar.
    Eflaust eru afar svipuð markmið með báðum þessum stöðvum, og vitað er af undirbúningi víðar, m.a. á Seltjarnarnesi. Eins og fram kemur í upplýsingum um þessar stöðvar ber hæst ráðgjöf og fræðslu um getnaðarvarnir og kynlíf – en mikilvægt er hvernig starfsemin auglýsir sig strax í upphafi.
    Í febrúar árið 2000 kom út skýrsla um fóstureyðingar og aðgengi að getnaðarvörnum en Sóley Bender var formaður starfshóps sem vann skýrsluna fyrir þáverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjörgu Pálmadóttur. Þar kemur m.a. fram að það hafi verið viðurkennd staðreynd í heiminum að fjárfesting til forvarna í formi fræðslu og ráðgjafar um kynlíf og barneignir skili sér margfalt ef borið er saman við þann kostnað sem heilbrigðis- og félagsmálaþjónusta leggur af mörkum ef forvörnum er ekki komið við. Talið er að hver króna sem fari í að greiða kostnað við forvarnastarf á þessu sviði spari hverjar tíu krónur sem fari í aðstoð við fólk ef forvörnum er ekki beitt.
    Eftirfarandi eru tillögur að forvörnum úr skýrslunni:
          Auka þarf val kvenna/para um þjónustuform. Starfrækt verði sérhæfð móttaka til ráðgjafar um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir með sérmenntuðu starfsfólki sem geti verið annarri þjónustu á þessu sviði til ráðgjafar. Slík þjónusta hafi opið að degi til og á kvöldin.
          Stuðla þarf að áframhaldandi þróun fræðslu og ráðgjafar um getnaðarvarnir fyrir konur sem fara í fóstureyðingu á kvennadeild Landspítalans. Þar hafi konur aðgang að getnaðarvörnum á kostnaðarverði.
          Auka þarf aðgengi kvenna að neyðargetnaðarvörn.
          Meiri umfjöllun þarf að verða um ábyrgt kynlíf og þar með ábyrga notkun getnaðarvarna, t.d. í fjölmiðlum og víðar.
          Kynna þarf neyðargetnaðarvörn fyrir fólki með ýmsum hætti, eins og auglýsingum á strætisvögnum, með skjáauglýsingum og í kvikmyndahúsum.
          Kynna þarf betur hormónasprautuna.
    Sérstakur kafli er í skýrslunni um aðgengi að getnaðarvörnum, en þar segir m.a. að hér á landi hafi fólk ekki haft nægjanlega greiðan aðgang að nokkrum getnaðarvörnum. Megi þar nefna neyðargetnaðarvörn, hormónasprautuna, hormónalykkjuna og hettuna. Árið 1996 hafi FKB markvisst byrjað að kynna neyðargetnaðarvörn. Það sama ár hafi í fyrsta skipti verið dreift bæklingi hér á landi um neyðargetnaðarvörn. Bæklingnum var dreift til þeirra ungmenna sem tóku þátt í könnun um viðhorf ungs fólks til sérhæfðrar ráðgjafar á sviði kynlífs og barneigna. Það sama ár var hann einnig sendur til allra heimilislækna, kvensjúkdómalækna og barnalækna ásamt greinum og upplýsingum um neyðargetnaðarvörn. Samkvæmt þessari könnun sem gerð var 1996 kom fram að 64% ungmenna vissu ekki hvað neyðargetnaðarvörn var. Jafnframt kom fram að verið væri að skoða þekkingu kvenna sem fara í fóstureyðingu á neyðargetnaðarvörn. Bráðabirgðatölur sem byggðust á svörum 100 kvenna sem sótt höfðu um fóstureyðingu hérlendis sýndu að 43% vissu ekki hvað neyðargetnaðarvörn var en hinar (57%) höfðu allflestar fengið þá vitneskju samdægurs. Ljóst er af viðtölum við konurnar að þeim þótti það miður að hafa ekki haft vitneskju um þessa leið til neyðargetnaðarvarnar.
    Niðurstöður skýrslunnar eru m.a. eftirfarandi og gætu tvímælalaust verið leiðarljós til úrbóta í þessum málaflokki:
          Vaxandi þörf er á ráðgjöf fyrir ungt fólk um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir í ljósi þess aukna fjölda sem leitar til ráðgjafa FKB.
          Ráðgjöf skortir um getnaðarvarnir, svo sem neyðargetnaðarvörn og smokka, fyrir ungt fólk innan veggja skólanna.
          Skortur er á hjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum sem geta m.a. veitt fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvarnir.
          Hjúkrunarfræðingar í skólum hafa ekki leyfi til að gefa neyðargetnaðarvörn.
          Betur verði kynntir möguleikar (ungs) fólks til ráðgjafar varðandi getnaðarvarnir á heilsugæslustöðvum og afgreiðslutími þjónustunnar lengdur í samræmi við óskir og þarfir (ungs) fólks.
          Endurskoða þarf námsefni um getnaðarvarnir í framhaldsskólum landsins.
          Neyðargetnaðarvörn sé aðgengileg á kostnaðarverði fyrir ungt fólk yngra en 20 ára.
    Samkvæmt reglugerð frá 2001 hefur apótekum verið veitt undanþága til að afgreiða neyðargetnaðarvarnir sem lyf í neyðartilfelli, enda þarf að nota slíka vörn innan 72 klst. frá óvörðum samförum.
    Sýnt hefur verið fram á að góð fræðsla og ráðgjöf um getnaðarvarnir stuðlar að staðfastri notkun þeirra. Forsenda þess er að starfsfólk heilsugæslunnar hafi góða þekkingu og þjálfun til að geta veitt fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvarnir. Þegar tekið er tillit til þarfa skjólstæðingsins varðandi getnaðarvarnir eru meiri líkur á því að viðkomandi sé ánægður með þá getnaðarvörn og noti hana reglubundið. Eftir því sem fleiri getnaðarvarnir eru í boði skapast meira svigrúm varðandi val á þeim og verður líklegra að fólk geti fundið sér þá getnaðarvörn sem hentar því best.
    Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að gera fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvarnir aðgengilegri fyrir ungt fólk og er það í samræmi við nýsamþykkta heilbrigðisáætlun til ársins 2010 en í henni segir í 5. kafla að íslensk markmið til 2010 séu:
     1.      Dregið verði úr áfengis- og vímuefnaneyslu ungs fólks um 25%.
     2.      Dregið verði úr reykingum ungs fólks um 50%.
     3.      Dregið verði úr slysum og dauðaslysum ungs fólks um 25%.
     4.      Ótímabærum þungunum meðal stúlkna 19 ára og yngri fækki um 50%.