Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 396  —  145. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 107/1999, um fjarskipti.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Einar Hannesson frá samgönguráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Póst- og fjarskiptastofnun, Landssíma Íslands hf., Tali hf. og Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
    Markmið frumvarpsins er tvenns konar. Annars vegar að koma gjaldstofni og gjaldhlutfalli vegna jöfnunarsjóðs alþjónustu í varanlegt form þannig að ekki þurfi að leggja fram sérstakt frumvarp á Alþingi ár hvert nema fjárþörf jöfnunarsjóðsins breytist og hins vegar að tryggja aðgang að heimtaugum rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild, en Landssími Íslands hf. er eina fjarskiptafyrirtækið sem fellur undir þá skilgreiningu hér á landi.
    Varðandi aðgang að heimtaugum leggur nefndin áherslu á að ákvæði frumvarpsins sem skylda rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild til að birta viðmiðunartilboð um aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu verði fylgt vel eftir.
    Í 26. gr. fjarskiptalaga er lögð skylda á fyrirtæki sem starfrækja fjarskiptanet o.fl. og njóta umtalsverðrar markaðshlutdeildar að leggja fram viðmiðunartilboð vegna samtenginga. Framkvæmd þessa ákvæðis hefur gengið illa og hafa þau viðmiðunartilboð sem Landssíminn hefur lagt fram ekki talist fullnægjandi að mati Póst- og fjarskiptastofnunar. Dráttur á framlagningu viðmiðunartilboða er mjög bagalegur fyrir fyrirtæki á þessu sviði og afar mikilvægt að ástand í þessum málum verði bætt. Í 2. tölul. 1. mgr. 26. gr. fjarskiptalaga er að finna heimild til handa Póst- og fjarskiptastofnun til að setja reglur um hvert skuli vera efni samtengingarsamninga og viðmiðunartilboðs. Samkvæmt upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun stendur nú yfir vinna við gerð slíkra reglna og ætla menn að með tilkomu þeirra muni komast á viðunandi ástand. Nefndin mælist til þess að þessari vinnu verði flýtt eins og kostur er.
    Viðmiðunartilboð vegna aðgangs að heimtaugum samkvæmt frumvarpinu eru annars eðlis en viðmiðunartilboð skv. 26. gr. fjarskiptalaga. Ljóst má vera að ekki er síður mikilvægt að viðmiðunartilboð vegna aðgangs að heimtaugum sé birt en viðmiðunartilboð á sviði samtenginga. Til að tryggja að framkvæmd þessa ákvæðis verði eins og til er ætlast leggur nefndin til að Póst- og fjarskiptastofnun verði með sambærilegum hætti og í 26. gr. laganna gert að setja reglur um hvert skuli vera efni viðmiðunartilboða samkvæmt greininni.
    Þá leggur nefndin til að orðalagi a-liðar 1. gr., þar sem kveðið er á um að gjaldhlutfall skuli endurskoðað árlega af Póst- og fjarskiptastofnun, verði breytt. Misskilja má þetta ákvæði frumvarpsins á þann veg að með þessu sé Póst- og fjarskiptastofnun framselt vald til að breyta gjaldhlutfallinu eftir þörfum en það er engan veginn ætlunin með frumvarpinu auk þess sem slíkt framsal skattlagningarvalds er andstætt stjórnarskrá. Þessu ákvæði var einungis ætlað að tryggja að Póst- og fjarskiptastofnun endurskoðaði gjaldhlutfallið reglulega, með hliðsjón af fjárþörf jöfnunarsjóðsins. Síðan var ætlunin að ráðherra mundi á grundvelli þeirrar endurskoðunar leggja fram frumvarp til breytingar á gjaldhlutfallinu, ef þörf væri á. Það er ljóst að gjaldhlutfallinu verður ekki breytt nema með lögum og til að ákvæðið valdi ekki misskilningi að þessu leyti leggur nefndin til að orðalagi þess verði breytt og það skýrt nánar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lúðvík Bergvinsson, Kristján L. Möller og Árni Steinar Jóhannsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 22. nóv. 2001.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður Ingvarsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.



Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Árni Steinar Jóhannsson,


með fyrirvara.