Ferill 274. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 433  —  274. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Stefaníu Óskarsdóttur um flutning Byggðastofnunar.

     1.      Hver er áætlaður heildarkostnaður við flutning Byggðastofnunar frá Reykjavík til Sauðárkróks?
    Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar er áætlað að heildarkostnaður við flutning Byggðastofnunar nemi um 40 millj. kr. þar af nema biðlaun um 25 millj. kr.

     2.      Hve mikill kostnaður hefur þegar hlotist af þessum flutningi?
    Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar nemur greiddur kostnaður 25 millj. kr.

     3.      Hvað er áætlað að störfum muni fjölga á Sauðárkróki á næstunni vegna flutnings Byggðastofnunar á næsta ári?
    Byggðastofnun gerir ráð fyrir að störfum þar muni fjölga um fimm til sex til viðbótar þeim sem nú eru hjá stofnuninni.

     4.      Hve mörg stöðugildi eru við Byggðastofnun nú samanborið við fyrir ári?
    Starfsmenn Byggðastofnunar eru nú 18 miðað við 22 á sl. ári.

     5.      Hefur Byggðastofnun aðstöðu til fundahalda í Reykjavík?
    Byggðastofnun hefur takmarkaða aðstöðu til fundarhalda í Reykjavík. Stofnunin getur, eftir nánara samkomulagi, haft aðgang að fundarherbergi fyrir minni fundi hjá Lánasýslu ríkisins og í iðnaðarráðuneytinu.

     6.      Hver er kostnaður við ferðalög innan lands á vegum Byggðastofnunar síðustu þrjú árin?
    Á árinu 1998 nam innlendur ferðakostnaður 5,3 millj. kr., árið 1999 7,3 millj. kr. og 7,1 millj. kr. árið 2000. Það sem af er þessu ári nemur innlendur ferðakostnaður 11,9 millj. kr.