Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 434  —  39. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um að lögleiða ólympíska hnefaleika.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn óbreytt. Á 125. löggjafarþingi var málinu vísað til menntamálanefndar sem fékk á sinn fund Reyni Karlsson frá menntamálaráðuneyti, Sólveigu Ásgrímsdóttur frá Sálfræðingafélagi Íslands og Baldur Kristjánsson frá Kennaraháskóla Íslands. Umsagnir bárust frá Ungmennafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, ríkissaksóknara, Ómari Ragnarssyni, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, landlækni, Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis. Einnig barst yfirlýsing frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
    Málinu var aftur vísað til menntamálanefndar á 126. löggjafarþingi og þá kom einnig á fund nefndarinnar Reynir Karlsson frá menntamálaráðuneyti og síðan Ellert B. Schram frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Nefndin fékk jafnframt aftur umsögn frá heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis.
    Frá því að bann við hnefaleikum tók gildi með lögum nr. 92/1956 hafa þeir tekið miklum breytingum og aðskildir hafa verið annars vegar atvinnuhnefaleikar og hins vegar áhugamannahnefaleikar. Með frumvarpinu er lagt til að áhugamannahnefaleikar verði heimilaðir og að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Öll keppni, svo og sýning eða kennsla, í atvinnuhnefaleikum er hins vegar áfram bönnuð, sbr. framangreind lög.
    Áhugamannahnefaleikar eru viðurkennd íþróttagrein af alþjóðaólympíunefndinni og í þeirri íþrótt er keppt á Ólympíuleikum og í öllum vestrænum löndum.
    Atvinnuhnefaleikar eru m.a. stundaðir í Bandaríkjunum, Bretlandi og Rússlandi en víða eru þeir bannaðir. Munurinn á atvinnuhnefaleikum og áhugamannahnefaleikum er meðal annars sá að í áhugamannahnefaleikum eru höfuðhlífar notaðar og lotur geta verið allt að fimm talsins en hver þeirra stendur aldrei lengur en tvær mínútur í senn. Í atvinnuhnefaleikum getur hver keppni hins vegar staðið í tólf lotur og hver þeirra stendur í þrjár mínútur.
    Reglur um atvinnuhnefaleika eru ekki samræmdar milli landa og gilda því mismunandi reglur um ýmsa þætti íþróttarinnar. Ákveðin atriði eru þó sameiginleg hjá öllum löndum sem heimila atvinnuhnefaleika og verða nokkur þeirra því nefnd hér: Höfuðhlífar eru ekki notaðar, bannað er að vera í bol og aukastig eru gefin fyrir rothögg. Munnstykki eru almennt notuð en það er þó ekki algilt.
    Reglur um áhugamannahnefaleika eru hins vegar samræmdar í öllum 190 aðildarlöndum International Amateur Boxing Association (AIBA). Nokkur helstu einkenni áhugamannahnefaleika eru að í þeim er ávallt keppt með höfuðhlífar, munnstykki og í bol. Í áhugamannahnefaleikum kvenna er hnefaleikurum skylt að nota brjósthlífar. Rothögg gefa ekki aukastig.
    Nánari afmörkun milli atvinnu- og áhugamannahnefaleika hérlendis mun fara eftir þeim reglum sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur. Við samningu reglnanna leggur meiri hluti nefndarinnar áherslu á að hugað verði sérstaklega að öryggiskröfum fyrir iðkendur íþróttarinnar. Það er mat meiri hlutans að með ströngum öryggisreglum, líkt og í Noregi og Svíþjóð, sé það nægilega tryggt.
    Réttlætanlegt þykir að heimila iðkun áhugamannahnefaleika þar sem markmið þeirra er ekki það sama og í atvinnuhnefaleikum. Áhugamannahnefaleikar snúast um leikni í að fara inn fyrir varnir andstæðingsins en ekki um að slá andstæðinginn niður eða veita honum rothögg eins og í atvinnuhnefaleikum. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun PriceWaterhouseCoopers vilja rúmlega 60% landsmanna að hnefaleikar verði leyfðir hér á landi. Hér er þó eingöngu verið að leggja til lögleiðingu á áhugamannahnefaleikum. Að lokum er lögð áhersla á að það á að vera á valdi hvers einstaklings að ákveða hvaða íþrótt hann kýs að stunda.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á heiti frumvarpsins og hugtakanotkun þess varðandi ólympíska hnefaleika. Hugtakanotkun fyrir þessa íþrótt hefur verið á reiki og jöfnum höndum verið notuð orðin ólympískir hnefaleikar og áhugamannahnefaleikar. Ástæða þessa er að öllum líkindum sú að stór þáttur röksemdafærslu fyrir lögleiðingu íþróttarinnar hefur verið sá að sýna fram á að hún sé leyfð á Ólympíuleikum og þannig verið talað um ólympíska hnefaleika. Hið rétta er að íþróttin heitir áhugamannahnefaleikar og því er lögð til framangreind breyting. Fram hefur komið að reglur um áhugamannahnefaleika eru samræmdar í öllum 190 aðildarlöndum International Amateur Boxing Association og gilda þær jafnframt á Ólympíuleikum. Alkunna er að keppt er í margs konar íþróttum á Ólympíuleikum án þess að það breyti nafngift þeirra, sbr. tennis, frjálsar íþróttir o.s.frv.
     2.      Breyting sú sem lögð er til í 2. tölul. lýtur einungis að málfari.
     3.      Lagt er til að við 3. gr. frumvarpsins bætist nýr málsliður til að tryggja að við samningu reglna um íþróttina verði öryggi iðkenda haft í fyrirrúmi.

Alþingi, 29. nóv. 2001.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Einar Már Sigurðarson.



Sigríður Ingvarsdóttir.


Kjartan Ólafsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Magnús Stefánsson.