Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 493  —  150. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson og Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Samkeppnisstofnun, Bandalagi háskólamanna, Neytendasamtökunum, Lyfjastofnun, Seðlabanka Íslands og Lögmannafélagi Íslands.
    Með ákvæðum frumvarpsins eru innleidd í íslenska löggjöf ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda. Í tilskipuninni er lagt til grundvallar að í öllum aðildarríkjum á EES-svæðinu séu til réttarúrræði til að stöðva ólögmæta markaðsfærslu eða viðskiptahætti sem eru í andstöðu við tilskipanir á sviði neytendaverndar samkvæmt lista þar að lútandi. Heimild samkvæmt frumvarpinu nær eingöngu til þeirra athafna sem kunna að brjóta gegn þeim lögum sem hlutaðeigandi ríki hafa sett vegna lögleiðingar á þessum tilskipunum.
    Nefndin gerir nokkrar tillögur til breytinga á frumvarpinu. Þær snúa fyrst og fremst að því að gera ákvæði þess skýrari og gagnsærri. Jafnframt er lagt til að auk þess að ráðherra geti falið íslenskum félagasamtökum sem gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði að grípa til aðgerða samkvæmt frumvarpinu verði honum einnig heimilt að tilnefna önnur stjórnvöld til þess.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. des. 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Jón Bjarnason.



Hjálmar Árnason.