Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 495  —  308. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

     1.      Hvaða reglur gilda hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna um lán fyrir skólagjöldum, annars vegar til náms hér á landi og hins vegar náms í erlendum skólum?
    Lánað er fyrir skólagjöldum með almennum kjörum sjóðsins til sérnáms og háskólanáms hér á landi og til framhaldsháskólanáms í erlendum skólum. Vegna skólagjalda erlendis til grunnháskólanáms og sérnáms er heimilt að veita námslán til allt að 10 ára með venjulegum meðalvöxtum banka. Skólagjaldalán með almennum kjörum er heimilt að greiða út við upphaf námstímabils til annarra en fyrsta árs nemenda. Samanlögð lán nemanda vegna skólagjalda skulu aldrei verða hærri en 2,8 millj. kr. og einungis er veitt lán vegna árlegra skólagjalda umfram 25 þús. kr. Skólagjöld sem nemandi greiðir með sjálfsaflatekjum hækka svokallað frítekjumark hans. Hann getur þannig fengið viðbót við framfærslulán sitt sem samsvarar allt að 40% skólagjaldanna sem hann greiðir með tekjum sínum. Tekjur nemanda skerða ekki skólagjaldalán hans. Að öðru leyti eru almenn skólagjaldalán Lánasjóðs íslenskra námsmanna á sömu kjörum og framfærslulán sjóðsins. Þau eru verðtryggð, bera 1% vexti frá námslokum, endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok og miðað er við að afborganir séu 4,75% af árstekjum greiðanda þar til lán hans er uppgreitt.
    Þau lán sjóðsins sem eru með venjulegum meðalvöxtum banka endurgreiðast með jöfnum afborgunum óháð öðrum námslánum, enda er endurgreiðsla þeirra sérstaklega tryggð. Hámarkslán með þessum kjörum er samtals 500 þús. kr. á námsári. Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok.

     2.      Á hvaða grundvelli byggist sú ákvörðun að hafa ólíkar reglur um lán fyrir skólagjöldum hérlendis og erlendis?

    Framangreinda skilmála má rekja til breytinga á úthlutunarreglum sjóðsins vorið 1992. Fram að þeim tíma voru lán vegna skólagjalda aðeins veitt til háskólanáms og sérnáms erlendis sem ekki var hægt að stunda á Íslandi. Þá eins og nú var lánað vegna skólagjalda til sérnáms og háskólanáms við viðurkennda skóla á Íslandi. Breytingin árið 1992 var með öðrum orðum sú að í stað þess að takmarka almenn skólagjaldalán sjóðsins vegna náms erlendis við nám sem ekki var hægt að stunda hér á landi voru þau takmörkuð við framhaldsháskólanám (nám eftir þriggja ára háskólanám). Samtímis var farið að veita lán með venjulegum meðalvöxtum banka. Ætla má að ástæða breytingarinnar hafi verið tvíþætt, þ.e. fjárhagsleg og framkvæmdaleg. Í kjölfar hennar dró úr lánveitingum sjóðsins vegna skólagjalda og öll framkvæmd varð einfaldari, en í aðdraganda hennar voru töluverðar deilur um það hvaða nám væri hægt að stunda á Íslandi og hvaða nám ekki. Þannig var tekist á um lánshæfi háskólanáms vegna skólagjalda í lögfræði, ýmsum viðskiptagreinum og í kvennafræðum, svo dæmi séu nefnd.
    Þegar framangreind breyting var gerð fóru 96% skólagjaldalána til námsmanna erlendis og 4% til námsmanna hér á landi. Samkvæmt fjárhagsáætlun sjóðsins fyrir árið 2002 fara 60% skólagjaldalána (340 millj. kr.) til námsmanna erlendis og 40% (230 millj. kr.) til námsmanna á Íslandi.

     3.      Samræmast mismunandi reglur um lán fyrir skólagjöldum samningnum um Evrópska efnahagssvæðið?

    Litið er á skólagjaldalán sem aðstoð við nemendur en ekki þá skóla sem innheimta skólagjöldin. Í samræmi við EES-samninginn er í 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna kveðið á um rétt ríkisborgara ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu til námsaðstoðar hjá sjóðnum. Þeir sem uppfylla skilyrðin, meðal annars um atvinnuþátttöku á EES-svæðinu og búsetu hér á landi, fá þannig sama rétt og aðrir til námsaðstoðar, þ.e. hvort heldur um er að ræða framfærslu- eða skólagjaldalán, lán til náms á Íslandi eða erlendis. Reglur sjóðsins um lánshæft nám og/eða lánshæf skólagjöld gilda þannig jafnt fyrir alla og samræmast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.