Ferill 357. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 497  —  357. mál.




Frumvarp til laga



um útflutning hrossa.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa nema þegar um er að ræða úrvalskynbótagripi. Útflutningshross skulu vera á aldrinum fjögurra mánaða til fimmtán vetra. Þó má flytja úr landi eldri kynbótahross en þá einungis með flugvélum. Óheimilt er að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.

2. gr.


    Óheimilt er að flytja úr landi hross nema embættisdýralæknir hafi skoðað það í útflutningshöfn, metið það hæft til útflutnings með tilliti til dýraverndar og smitsjúkóma og staðfest að það sé rétt merkt og uppfylli kröfur sem gerðar eru af hlutaðeigandi yfirvöldum í innflutningslandi. Öll útflutningshross skulu örmerkt eða frostmerkt. Útflytjendur hrossa greiða kostnað við skoðun útflutningshrossa í útflutningshöfn samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir að fenginni tillögu yfirdýralæknis.

3. gr.


    Flutningsfar fyrir hross og öll aðstaða, svo sem rými, loftræsting, brynningartæki, fóður og aðstaða til fóðrunar, skal vera með þeim hætti að sem best sé að hrossunum búið. Embættisdýralæknir skal ávallt líta eftir að reglum um aðbúnað sé fylgt.
    Á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl er einungis heimilt að flytja hross til útlanda með flugvélum.

4. gr.


    Hrossum sem flutt eru úr landi skal fylgja upprunavottorð, hestavegabréf, frá Bændasamtökum Íslands er staðfesti uppruna og ætterni hrossins og hver eigandi þess sé. Útflytjendur hrossa greiða gjald vegna kostnaðar við útgáfu hestavegabréfa samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands.
    Innlendir hrossaræktendur og samtök þeirra eiga forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum sem áformað er að flytja úr landi. Landbúnaðarráðuneytið getur að beiðni Bændasamtaka Íslands frestað útflutningi þeirra í allt að tvær vikur á meðan forkaupsréttur er boðinn. Við boð á forkaupsrétti skal miða við umsamið útflutningsverð.
    Fagráð í hrossarækt, sem starfar skv. 4. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, skal árlega ákveða mörk kynbótamats sem hross þarf að hafa til að teljast úrvalskynbótagripur.

5. gr.


    Af hverju útfluttu hrossi skal greiða 500 kr. gjald í stofnverndarsjóð skv. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Bændasamtök Íslands annast innheimtu gjaldsins.

6. gr.


    Skipa skal fimm manna ráðgjafarnefnd um málefni er snerta útflutning hrossa og skal hún jafnframt vera samráðsvettvangur stjórnvalda og þeirra sem að þeim málum vinna. Bændasamtök Íslands, Félag hrossabænda, yfirdýralæknir og Félag hrossaútflytjenda tilnefna menn í nefndina en ráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

7. gr.


    Landbúnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara og setur með reglugerðum nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, þar með talið skoðun og merkingu útflutningshrossa, aðstöðu í útflutningshöfn og upplýsingar sem útflytjanda er skylt að leggja fram og sem upprunavottorð byggist á.

8. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessara laga falla úr gildi lög nr. 161/1994, um útflutning hrossa, með síðari breytingum. Ákvæði 2. gr. um að öll útflutningshross skuli vera örmerkt eða frostmerkt tekur þó fyrst gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frá árinu 1994, þegar núgildandi lög um útflutning hrossa voru samþykkt, hefur sú skipan gilt að innheimt er tiltekin fjárhæð – útflutningsgjald – af hverju útfluttu hrossi í sérstakan útflutningssjóð sem er í vörslu landbúnaðarráðuneytisins. Er því ætlað að standa undir kostnaði við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu upprunavottorðs, en 5% gjaldsins skal greiða í stofnverndarsjóð sem starfar skv. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Eftirstöðvum hvers árs skal varið til útflutnings- og markaðsmála að fengnum tillögum útflutnings- og markaðsnefndar. Útflutningsgjaldið er ákveðið af Alþingi og er nú 6.800 kr. fyrir hvert útflutt hross, sbr. lög nr. 16/1994, um útflutning hrossa, eins og þeim var breytt með lögum nr. 15/1999.
    Frá því að útflutningsgjaldið var síðast ákveðið hefur kostnaður við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu upprunavottorða hækkað stórlega og er nú svo komið að lítið sem ekkert fé er eftir til ráðstöfunar vegna útflutnings- og markaðsmála. Rætt hefur verið um hækkun útflutningsgjaldsins í því skyni að fá aukið fé til sameiginlegra markaðsaðgerða, en eindregin andstaða hefur komið fram við þá hugmynd, bæði meðal hrossaútflytjenda og hrossabænda. Þegar svo er komið að útflutningsgjaldið hrekkur vart fyrir kostnaði við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu upprunavottorða og ekki er samstaða um að afla með þessum hætti fjár til sameiginlegra markaðsstarfa, er vandséð hvaða tilgangi það þjónar að innheimta fé í sjóð til þess að greiða kostnað við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu upprunavottorða. Eðlilegt er að hrossaútflytjendur greiði þennan kostnað milliliðalaust.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru efnislega samhljóða ákvæðum 1. gr. núgildandi laga.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um að öll útflutningshross skuli skoðuð af embættisdýralækni í útflutningshöfn og metin hæf til útflutnings, vera rétt merkt og uppfylla kröfur sem gerðar eru af hlutaðeigandi yfirvöldum í innflutningslandi. Jafnframt skoði embættisdýralæknir aðstæður í útflutningsfari og meti þá þætti sem varða dýravernd. Ákvæði þessi fela í sér nokkra einföldun á skoðun útflutningshrossa frá því sem nú er. Færst hefur í vöxt að kaupendur hrossa óski eftir ítarlegri heilbrigðisskoðun en hin opinbera eftirlitsskoðun gerir ráð fyrir. Rétt þykir að hér sé skilið á milli og hið opinbera eftirlit taki einungis til ákveðinna grunnþátta sem varða útlit og heilbrigði hrossanna, og atriða sem heilbrigðisyfirvöld í innflutningslandi krefjast. Heilbrigðisskoðun útflutningshrossa umfram það sé samkomulagsatriði milli kaupanda og seljanda. Kostnað við skoðun hrossa í útflutningshöfn greiði útflytjendur samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir að fenginni tillögu yfirdýralæknis. Þá er í greininni kveðið á um að öll útflutningshross skuli örmerkt eða frostmerkt, en það er grundvallaratriði fyrir trúverðugleika upprunavottorðs.

Um 3. gr.


    Ákvæði greinarinnar fjalla um aðbúnað hrossa við útflutning og eru efnislega samhljóða ákvæðum 3. gr. núgildandi laga.

Um 4. gr.


     Í greininni er kveðið á um að hrossum sem flutt eru úr landi fylgi vottorð frá Bændasamtökum Íslands er staðfesti uppruna hrossins og ætterni. Hliðstætt ákvæði er að finna í gildandi lögum en ákveðið hefur verið að upprunavottorð verði mun ítarlegri en verið hefur og um verði að ræða einskonar vegabréf sem fylgi hrossinu ævilangt. Þetta er í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig sem upprunaland íslenska hestsins og kröfur sem gerðar eru til hrossa í helstu viðskiptalöndum þar sem krafist er upprunavottorðs/ vegabréfs þegar hross eru flutt milli landa. Í þessu felst því mikilvæg þjónusta við kaupendur hrossanna sem líkleg er til að greiða fyrir útflutningi.
    Þá er í greininni kveðið á um að innlendir ræktendur og samtök þeirra eigi forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum sem áformað er að flytja úr landi. Ákvæði þessi eru samhljóða ákvæðum 4. gr. gildandi laga.

Um 5. gr.


    Í greininni er kveðið á um að af hverju útfluttu hrossi skuli greiða 500 kr. gjald í stofnverndarsjóð skv. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Hlutverk stofnverndarsjóðs er að veita lán eða styrki til kaupa á sérstökum úrvalskynbótagripum sem annars kynnu að verða fluttir úr landi. Jafnframt má veita úr sjóðnum fé til þróunarverkefna í viðkomandi búgreinum. Þannig hefur sjóðurinn á undanförnum árum veitt styrki til ýmissa mikilvægra rannsókna í þágu hrossaræktarinnar. Sjóðnum skal skipt í deildir eftir búfjártegundum og fer fagráð með stjórn hlutaðeigandi deildar. Samkvæmt ákvæðum gildandi laga skulu 5% af útflutningsgjaldi renna í stofnverndarsjóð, eða 340 kr. af hverju útfluttu hrossi miðað við núverandi gjaldtöku. Lagt er til að þrátt fyrir að innheimtu útflutningsgjalds verði hætt verði áfram innheimt gjald í stofnverndarsjóð. Gjaldið verði 500 kr. af hverju útfluttu hrossi og annist Bændasamtök Íslands innheimtu gjaldsins.


Um 6. gr.


    Í greininni er kveðið á um að landbúnaðarráðherra skipi fimm manna ráðgjafarnefnd um málefni er snerta útflutning hrossa og skal hún jafnframt vera samráðsvettvangur stjórnvalda og þeirra sem að þeim málum starfa. Hér er um að ræða hliðstæð ákvæði við þau sem eru í gildandi lögum að öðru leyti en því sem leiðir af niðurfellingu ákvæðanna um útflutningssjóð og innheimtu gjalds til sjóðsins af hverju útfluttu hrossi. Í reglugerð um útflutning hrossa, nr. 220/1995, er hlutverk útflutningsnefndar m.a. skilgreint á eftirfarandi hátt:
     a)      að vera ráðgefandi um málefni er varða útflutning á hrossum;
     b)      að hafa tiltækar upplýsingar um málefni er varða útflutning á hrossum:
     c)      að auðvelda útflutning og markaðssetningu á íslenskum hrossum, m.a. með því að ná fram breytingum á innflutningshindrunum í öðrum löndum:
     d)      að stuðla að samstarfi þeirra sem kynna íslensk hross og annarra er kynna íslenskar vörur og þjónustu.
    Enda þótt ákvæði frumvarpsins geri ráð fyrir að fésýsla á vegum nefndarinnar falli niður gegnir nefndin mikilvægu hlutverki að því er varðar þau viðfangsefni sem rakin eru hér að framan og því lagt til að hún starfi áfram samkvæmt tilnefningu sömu aðila og áður.

Um 7. gr.


    Í greininni er kveðið á um að landbúnaðarráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um gildistöku laganna. Samkvæmt ákvæðum 2. gr. skulu öll útflutningshross vera örmerkt eða frostmerkt. Rétt þykir að gefa nokkurn tíma til aðlögunar að framkvæmd þessa ákvæðis og er því lagt til að það taki gildi 1. janúar 2003.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um útflutning hrossa.


    Tilgangur frumvarpsins er að samræma eftirlit með hrossaútflutningi og gera það skilvirkara. Útflytjendur hrossa greiða kostnað vegna skoðunar útflutningshrossa í útflutningshöfn samkvæmt gjaldskrá landbúnaðarráðuneytis. Í 6. gr. frumvarpsins er getið um ráðgjafarnefnd og er áætlað að hún komi saman 3–5 sinnum á ári. Laun nefndarmanna verða ákvörðuð af þóknananefnd og rúmast innan núverandi útgjaldaramma verkefnisins. Í 5. gr. er kveðið á um 500 kr. gjald í stofnverndarsjóð fyrir hvert útflutt hross og er það 160 kr. hækkun frá fyrra ákvæði um að 5% af gjaldinu renni í sjóðinn og er það um 0,3 m.kr. hækkun á ári. Einnig er kveðið á um gjald samkvæmt gjaldskrá sem útflytjendur hrossa greiða vegna sannanlegs kostnaðar við útgáfu upprunavottorða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.