Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 525 —  136. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson og Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Lögmannafélagi Íslands, Verslunarráði Íslands, Seðlabanka Íslands, Þjóðhagsstofnun, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Neytendasamtökunum.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga verði reglugerðarheimild svo að unnt verði að taka upp viðauka við tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum, en tilskipunin er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Nefndin telur þá reglugerðarheimild sem lögð er til í frumvarpinu of víðtæka og leggur til breytingu á því þess efnis að tekið verði skýrt fram í ákvæðinu hvað reglugerðin eigi í raun að varða, þ.e. ósanngjarna samningsskilmála. Nefndin leggur einnig til að við frumvarpið bætist ný grein sem auki við 36. gr. b laganna ákvæði um takmörkun á beitingu reglu 2. mgr. ákvæðisins sem fjallar um túlkun á skriflegum samningum milli atvinnurekanda og neytanda. Takmörkun í þeim tilvikum sem tilgreind eru í breytingartillögunni byggist á 2. mgr. 7. gr. framangreindrar tilskipunar, en samkvæmt ábendingu frá Eftirlitsstofnun EFTA er ekki hægt að fella þessa takmörkun niður, sbr. 8. gr. tilskipunarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. des. 2001.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.