Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 529  —  230. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu, Val Valsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Hrafn Magnússon og Þóri Hermannsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Árna Reynisson frá vátryggingamiðluninni Hagli, Halldór Sigurðsson og Eirík Guðnason frá Seðlabanka Íslands og Skarphéðin B. Steinarsson og Árna Pál Árnason frá ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur. Umsagnir bárust um málið frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Fjármálaeftirlitinu, Íbúðalánasjóði, Seðlabanka Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, vátryggingamiðluninni Hagli, Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Verðbréfaþingi Íslands.
    Í lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kemur fram að þeir aðilar sem eru eftirlitsskyldir samkvæmt lögunum skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Árlega skal viðskiptaráðherra gefin skýrsla um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Með hliðsjón af skýrslunni tekur ráðherra síðan ákvörðun um hvort ástæða sé til að breyta eftirlitsgjaldinu með lögum. Frumvarp þessa efnis er nú lagt fyrir Alþingi í annað sinn.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á álagningarhlutföllum og lágmarksgjaldi eftirlitsskyldra aðila. Búist er við að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi í för með sér að álagt eftirlitsgjald hækki úr 198,8 millj. kr. árið 2001 í 215,0 millj. kr. árið 2002.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmarksgjald vátryggingamiðlara lækki úr 200.000 kr. eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu í 150.000 kr. Í öðru lagi er lagt til að kauphallir og skipulegir tilboðsmarkaðir greiði 0,5% af rekstrartekjum í eftirlitsgjald í stað 0,76297% eins og ráðgert er í frumvarpinu. Í þriðja lagi er lagt til að eftirlitsgjald aðila (dótturfélags) sem er að minnsta kosti að 9/10 hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila (móðurfélags) lækki niður í 1/5 hluta eftirlitsgjalds í stað 2/3 hluta eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þær breytingar sem nefndin leggur til leiða til 3,5 millj. kr. lækkunar á áætluðu eftirlitsgjaldi Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2002 og það verður því 211,5 millj. kr. í stað 215,0 millj. kr. eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
    Nefndin tekur fram að strax á næsta ári hyggst hún taka til umfjöllunar skýrslur Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um starfsemi þess og áætlaðan rekstrarkostnað árið 2002, þ.m.t. meginatriði athugasemda eftirlitsskyldra aðila við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2002. Nefndin bendir einnig á að skv. 3. mgr. 2. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er það verkefni viðskiptaráðherra að leggja frumvarp um að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds, svo framarlega sem niðurstaða skýrslu Fjármálaeftirlitsins og álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila gefur tilefni til þess. Fjármálaeftirlitið hefur því ekki sjálfdæmi um mat á því hver fjárþörf þess til næsta árs á eftir verður. Nefndin bendir á að sú lækkun á eftirlitsgjaldi sem leiðir af breytingartillögum nefndarinnar kallar á að nýráðningar verði endurmetnar í samhengi við mat á mannaflaþörf til þriggja ára. Nefndin leggur jafnframt til að þegar frumvarp sama efnis verður lagt fyrir Alþingi á næsta haustþingi verði horft lengra en verið hefur hingað til og t.d. lagt mat á starfsmannaþörf Fjármálaeftirlitsins til næstu þriggja ára þaðan í frá. Jafnframt telur nefndin æskilegt að sameiginlegur skilningur fáist um það milli Fjármálaeftirlitsins og samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila hvernig rekstri stofnunarinnar verði háttað til næsta þriggja ára hverju sinni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 10. des. 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.