Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 539  —  132. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson og Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Verðbréfaþingi Íslands, Þjóðhagsstofnun, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Verðbréfaskráningu Íslands hf. og Landssamtökum lífeyrissjóða.
    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að auðvelda rafræna eignarskráningu verðbréfa erlendis þannig að unnt verði að skrá rafbréf í sama verðbréfaflokki í fleiri en einni verðbréfamiðstöð að því tilskildu að aðeins verði hægt að skrá réttindi yfir hverju einstöku rafbréfi í einni verðbréfamiðstöð.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Þær eru þríþættar og lúta í fyrsta lagi að því að gera frumvarpið skýrara þannig að ekki leiki vafi á að ákvæði þess taki jafnt til bréfa sem skráð eru í innlendum og erlendum verðbréfamiðstöðvum. Í öðru lagi er lagt til að bætt verði inn í 11. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa ákvæði til að treysta réttargrundvöll þegar starfsleyfi aðila sem hefur með höndum eignarskráningu rafrænna verðbréfa er afturkallað eða óskað er eftir gjaldþrotaskiptum eða heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamnings á búi reikningsstofnunar sem gert hefur aðildarsamning við verðbréfamiðstöð. Í þriðja lagi leggur nefndin til að í stað þess að gert sé ráð fyrir að Verðbréfaþing Íslands eigi aðild að samráðsnefnd skv. 2. mgr. 15. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa verði ákvæðið þess efnis að kauphallir eigi fulltrúa í nefndinni, en ljóst er samkvæmt ákvæðum laganna að hér á landi geta fleiri kauphallir starfað en Verðbréfaþing Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. des. 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.