Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 540  —  132. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



     1.      Við bætist ný grein, 1. gr., svohljóðandi:
                   Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
                  Nú er starfsleyfi aðila sem gert hefur aðildarsamning um eignarskráningu skv. 1. mgr. afturkallað, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann óskar eftir heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og fellur aðildarsamningurinn við það þá þegar úr gildi, svo og réttur til þess að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð. Verðbréfamiðstöð skal annast eignarskráningar frá þeim tíma sem samningur fellur úr gildi nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Eigi síðar en fjórum mánuðum frá því að verðbréfamiðstöð tekur við eignarskráningu samkvæmt ákvæði þessarar málsgreinar skal hún hafa tryggt að rafbréf og eignarréttindi yfir því hafi verið færð í umsjón annarrar reikningsstofnunar sem gert hefur aðildarsamning við verðbréfamiðstöðina. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um aðferð og framkvæmd við slit aðildarsamnings og færslu gagna skv. 1. og 3. málsl. þessarar málsgreinar.
     2.      Við 1. gr. sem verði 2. gr. Greinin orðist svo:
                  Í stað lokamálsliðar 13. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Rafbréf í sama verðbréfaflokki sem tekinn hefur verið til eignarskráningar í verðbréfamiðstöð er heimilt að skrá í fleiri en einni verðbréfamiðstöð, enda sé tryggt að aðeins sé hægt að skrá réttindi yfir hverju einstöku rafbréfi í einni verðbréfamiðstöð. Sama gildir um verðbréfaflokk sem hefur verið tekinn til eignarskráningar í erlendri verðbréfamiðstöð.
     3.      Við bætist ný grein, 3. gr., svohljóðandi:
                   2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
                  Skipa skal samráðsnefnd verðbréfamiðstöðva, kauphalla og Seðlabanka Íslands. Seðlabanki Íslands skipar einn fulltrúa í nefndina, verðbréfamiðstöðvar sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum einn fulltrúa og kauphallir sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða einn fulltrúa. Seðlabanki Íslands fer með formennsku í nefndinni. Hlutverk samráðsnefndar er að fjalla um samskipti verðbréfamiðstöðva, kauphalla og Seðlabankans í tengslum við frágang viðskipta.