Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 542  —  193. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar.    Þessu frumvarpi er ætlað að draga úr áhrifum þeirra laga sem Alþingi setti í kjölfar dóms Hæstaréttar 3. desember 1998 í máli Valdimars Jóhannessonar. Ákvæðin um veiðar krókabáta komu til framkvæmda 1. september 2001 en gildistökunni hafði verið frestað um eitt ár að tillögu sjávarútvegsráðherra. Með umræddri lagasetningu hefur síðustu veiðiréttindum á Íslandsmiðum verið skipt milli útvaldra og þeim færður réttur til að selja öðrum aðgang að þjóðarauðlindinni. Um þessa stefnu er gríðarlegt ósætti og foringjar stjórnarflokkanna sáu sitt óvænna í aðdraganda síðustu kosninga og lofuðu alvörusáttaumleitunum um málið. Eftir að það loforð lá fyrir töldu margir að farið yrði í heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða og ekki væru fyrir því rök að festa þá nýskipan í sessi sem fólgin er í þeim lagaákvæðum sem sett voru í kjölfar fyrrnefnds dóms og lúta að krókabátum séstaklega. Einnig voru komin fram ný rök sem studdu það álit að sú túlkun stjórnvalda, að sóknarkerfi væri brot á stjórnarskránni, væri ekki endilega einhlít eða rétt. Sú nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði til að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða og gekk undir nafninu sáttanefnd hefur lokið störfum og þær „sáttatilraunir“ eru farnar út um þúfur. Þær reyndust eingöngu vera fólgnar í því að finna sátt milli LÍÚ-forustunnar og ríkisstjórnarinnar. Aðrir áttu svo að sætta sig við niðurstöðuna.
    Í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er nánast eingöngu fjallað um krókaaflamarksbáta. Aðrir flokkar smábáta bíða til síðari tíma samkvæmt upplýsingum í nefndaráliti meiri hlutans. Þar er annars vegar boðað að tekið verði á hagsmunamálum annarra smábáta við margboðaða heildarendurskoðun laganna um stjórn fiskveiða en hins vegar að meiri hlutinn muni beita sér fyrir sérstöku frumvarpi um málefni dagabáta fyrir 1. febrúar nk. enda telur meiri hlutinn ,,óhjákvæmilegt að lagfæra rekstrarumhverfi þess bátaflokks á þessum vetri“ eins og þar segir.
    Það lagafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur boðað til endurskoðunar á lögunum um stjórn fiskveiða hefur ekki enn séð dagsins ljós þótt drjúgur tími sé liðinn síðan nefndin skilaði af sér. Síðbúin framlagning þess máls sem hér er til umfjöllunar kallar á svör um hvers vegna ekki mátti fjalla heildstætt um endurskoðun laganna því að ljóst er að verði þau frumvörp að lögum sem boðuð eru á þessu þingi verður ekki langt á milli afgreiðsludaga þeirra.
    Þær breytingar sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir varðandi krókaaflamarkið eru fyrst og fremst aukning á aflaheimildum frá því sem er samkvæmt gildandi lögum. Bæði er um að ræða almennar breytingar sem allir njóta og sértækar breytingar sem koma einstökum útgerðum í einstökum byggðarlögum sérstaklega til góða.
    
Sérstakur krókaaflamarksbyggðakvóti.
    Í 3 gr. frumvarpsins er gerð tillaga um breytingu á 9. gr. laganna um stjórn fiskveiða sem er um 12.000 þorskígildistonna pott sem sjávarútvegsráðherra getur ráðstafað „til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.“ Gert er ráð fyrir því að við gildandi ákvæði greinarinnar bætist ný málsgrein sem eftir breytingartillögu meiri hlutans, ef samþykkt verður, orðast svo: „Á hverju fiskveiðiári er sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta til árs í senn samtals allt að 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa miðað við óslægðan fisk til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Getur ráðherra þar á meðal ákveðið skilyrði fyrir framsali aflamarks sem úthlutað er á grundvelli þessa ákvæðis og um ráðstöfun afla sem svarar til þess sem úthlutað er samkvæmt því.“
    Það kom fram hjá sjávarútvegsráðherra við 1. umræðu að þessi kvóti yrði framseljanlegur. Breytingartillaga meiri hlutans heimilar sjávarútvegsráðherra hins vegar að setja skilyrði fyrir framsali og varðandi ráðstöfun afla sem svarar til þess aflamagns sem bátar hafa fengið úthlutað á grundvelli 3. gr. Yfirlýst markmið er að reyna að tryggja að þessar aflaheimildir nýtist sem best þeim byggðarlögum sem eru að verulegu leyti háð veiðum krókaaflamarksbáta og ætlunin að úthlutun aflaheimilda á grundvelli þessarar greinar fari til byggðarlaga sem eru að verulegu leyti háð veiðum krókaaflamarksbáta og verða fyrir hlutfallslega mestri skerðingu útgerðartekna. Ekki er gert ráð fyrir því að þau byggðarlög sem verða fyrir tiltölulega lítilli tekjuskerðingu njóti þessarar úthlutunar. Ekki er heldur gert ráð fyrir því að krókaaflamarksbátar sem koma frá þeim byggðarlögum fái úthlutað af þessum kvóta jafnvel þótt þeir hafi verið gerðir út frá stað sem er að verulegu leyti háður veiðum krókaaflamarksbáta.
    Þá er miðað við að úthlutun þessara heimilda til einstakra báta sé til þriggja til fimm ára í senn á grundvelli samnings þar sem kveðið sé á um nýtingu á þessum heimildum.
    Þetta er þriðja tilraun sem gerð er með meinta byggðatengingu kvóta. Fyrsta tilraun voru 500 þorskígildislestir sem Byggðastofnun fékk til úthlutunar árið 1995. Eftir tvö ár var stærstum hluta þess kvóta úthlutað varanlega til báta frá þeim byggðarlögum sem skilgreining laganna var látin ná til, án tillits til þess hvar þeir höfðu landað aflanum. Næsta tilraun stendur yfir enn, en Byggðastofnun fékk með breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 1/1999, úthlutað 1.500 þorskígildislestum „til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi“ eins og segir í bráðabirgðaákvæði IV, sbr. bráðabirgðaákvæði XXVI í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Það segir e.t.v. allt sem segja þarf um samspil kvótastöðu byggðarlags og atvinnustigs að sá kvóti er ekki endilega vistaður á báta úr viðkomandi byggðarlagi þótt ein af forsendum úthlutunar hafi verið sú að kvótastaða byggðarlagsins hefði minnkað. Og ekki eru allir á eitt sáttir um réttlætið í úthlutun Byggðastofnunar og þá ekki síst það að kvótanum skyldi öllum úthlutað til margra ára þannig að sá sveigjanleiki sem einhverjir töldu sig vera að samþykkja er ekki til staðar.
    Samfylkingin telur afar mikilvægt að þegar verið er að færa kvóta með handafli til tiltekinna aðila sé skilgreint mjög nákvæmlega hverjir eiga að fá og með hvaða skilyrðum. Það er verið að færa aðilum fjármuni í formi veiðiréttar.
    3. gr. frumvarpsins er að mörgu leyti óljós. Það virðist eiga að koma til móts við byggðarlög. Samt má bara úthluta þessum afla til krókaaflamarksbáta. Það vekur líka athygli að ekki er talað um sveitarfélög í þessu sambandi heldur sjávarbyggðir og byggðarlög en skilgreiningin mun vera að fyrirmynd frá Byggðastofnun. Ekki er ljóst hvaða byggðarlög eru ,,að verulegu leyti háð veiðum krókaaflamarksbáta“ í skilningi þessarar greinar, en eins og áður segir fá eingöngu bátar skráðir á slíkum stöðum úthlutun. Hvorki aðrir bátar né krókaaflamarksbátar fá úthlutun jafnvel þótt þeir hafi verið og séu gerðir út frá viðkomandi stað.
    Hér skortir það gegnsæi sem þarf að vera fyrir hendi þegar opinberir aðilar úthluta verðmætum.

Allur afli að landi.
    4. gr. frumvarpsins, nýtt bráðabirgðaákvæði samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans, gerir ráð fyrir að landa megi 5% heildarafla á tímabilinu frá 1. febrúar 2002 til 31. ágúst 2002 og á fiskveiðiárinu 2002/2003 án þess að sá afli reiknist til aflamarks skipsins. Þessum afla skal halda aðgreindum frá öðrum afla og verður hann seldur sérstaklega á fiskmarkaði. Útgerðin fær 20% andvirðis aflans sem skiptist milli áhafnar og útgerðar samkvæmt samningum þar um.
    Þessu ákvæði fagnar 1. minni hluti sérstaklega og telur að hér sé loksins tekin ákvörðun sem geti haft afgerandi áhrif til að koma í veg fyrir brottkast. Það fyrirkomulag sem hér er upp tekið á einnig að geta upplýst með nokkuð öruggum hætti hversu mikið brottkastið hefur verið. Breytingartillögur meiri hlutans eru til verulegra bóta frá frumvarpinu hvað varðar upphæð endurgjaldsins fyrir landaðan afla með þessum hætti. En þó skiptir breytingartillagan um að landa megi 5% heildaraflans yfir tímabilið í stað 5% úr hverri veiðiferð mestu máli vegna þess að gera verður ráð fyrir því að afli sem mjög óhagstætt er að koma með í land geti veiðst mjög sveiflukennt í ýmsar tegundir veiðarfæra. Þessi tillaga eða aðrar samkynja henni hafa verið fluttar á Alþingi ítrekað af fjölmörgum þingmönnum allt frá árinu 1989.
    Þessi tillaga gerir tvennt í senn. Hún afléttir þeirri refsingu sem er fólgin í því að reikna til kvóta afla með lágt verðgildi og afla sem útgerðin hefur af einhverjum ástæðum ekki kvóta fyrir. Sú upphæð sem ákveðin er sem endurgjald til útgerðar og áhafnar gæti þurft endurskoðunar við. Gjaldið þarf að þróa þannig að það hafi ekki áhrif á veiðarnar eða umgengni um miðin. Þó þarf það að vera hvatning til þess að allur afli komi að landi og að lögð sé áhersla á að hann sé vel frá genginn um borð. Gjaldið er þó ekki aðalatriði málsins heldur það að með þessu eru stjórnvöld að gefa útgerðunum kost á úrræði til að koma með aflann að landi í stað þeirrar „refsingar“ sem er fólgin í núgildandi fyrirkomulagi. Hafi útgerðarmenn það svigrúm sem hér er lagt til að verði gefið er engin afsökun fyrir því að afla sé kastað fyrir borð. Það er full ástæða til að ætla að gott samstarf geti myndast við alla sjómenn um betri umgengni um auðlindina á grundvelli þessarar tillögu.
    Gert er ráð fyrir því að annað andvirði hins selda afla en það sem fer til útgerðar og áhafnar eða í kostnað við söluna renni til Hafrannsóknastofnunarinnar. Fulltrúum Samfylkingarinnar finnst eðlilegra að um væri að ræða sjálfstæðan rannsóknarsjóð sem bæði Hafrannsóknastofnunin og aðrir vísindamenn gætu sótt í til sérstakra verkefna á sviði hafrannsókna.
    Jafnaðarmenn studdu ekki þá lagasetningu sem hér er verið að reyna að lagfæra, hvorki upphaflega né það að gildistakan yrði í haust. Það var eðlilegra að breytingar á stöðu smábáta yrðu hluti af þeirri heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða sem gefin voru fyrirheit um. Þessi sérstaka lagasetning um krókaaflamark er því alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.
    Samfylkingin mun hins vegar styðja setningu þess ákvæðis sem lýtur að því að tiltekinn hluti afla reiknist ekki til aflamarks og eykur líkur á að allur afli geti komið að landi, enda er það í samræmi við tillögu sem liggur fyrir frá Samfylkingunni í öðru þingskjali.

Alþingi, 12. des. 2001.Jóhann Ársælsson,


form., frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.