Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 566  —  370. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um endurskoðendur, nr. 18/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)1. gr.


    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Endurskoðendafyrirtæki skal tryggja að nöfn og heimilisföng félagsmanna eða hluthafa fyrirtækisins séu aðgengileg almenningi.

2. gr.


    Lög þessi eru sett með hliðsjón af tilskipun 84/253/EBE um löggildingu einstaklinga sem falið er að annast löggilta endurskoðun bókhaldsgagna og öðlast gildi 1. janúar 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Breyting sú sem hér er lögð til er gerð vegna samningsskuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Skv. b-lið 2. mgr. 28. gr. 8. tilskipunar ráðsins, um löggildingu einstaklinga sem falið er að annast löggilta endurskoðun bókhaldsgagna, er endurskoðendafyrirtækjum skylt að hafa nöfn og heimilisföng félagsmanna eða hluthafa aðgengileg almenningi. Er gert ráð fyrir að fyrirtæki geti ýmist haft aðgengilegan lista eða jafnvel upplýsingar á netsíðum félagsins til að fullnægja framangreindum skuldbindingum.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurskoðendur,
nr. 18/1997, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum um endurskoðendur sem felur í sér að slíkum fyrirtækjum verði skylt að tryggja að nöfn félagsmanna eða hluthafa verði aðgengileg fyrir almenning. Sú breyting er í samræmi við ákvæði í tilskipun Evrópuráðsins nr. 84/253/EBE og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Ekki er talið að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.