Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 567  —  366. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, Hjörleif Kvaran borgarlögmann og Alfreð Þorsteinsson og Guðmund Þóroddsson frá Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt bárust erindi um málið frá Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ og sameiginlegt erindi frá Akraneskaupstað, Borgarfjarðarsveit og Borgarbyggð.
    Frumvarpinu er ætlað að veita Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Borgarbyggð, Garðabæ og Borgarfjarðarsveit heimild til að stofna sameignarfyrirtæki um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu og Andakílsárvirkjunar undir nafni Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrir liggja viljayfirlýsingar framangreindra aðila um sameiningu við Orkuveitu Reykjavíkur og sameignarsamningur milli aðilanna hefur verið undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Pétur H. Blöndal skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 13. des. 2001.Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Svanfríður Jónasdóttir.


Árni R. Árnason.Árni Steinar Jóhannsson.


Drífa Hjartardóttir.


Ísólfur Gylfi Pálmason.
Fylgiskjal.SAMEIGNARSAMNINGUR    Undirritaðir aðilar, Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsi Reykjavíkur, Reykjavík, Akranesbær, kt. 410169-4449, Stillholti 16–18, Akranesi, Hafnarfjarðarbær, kt. 590169-7579, Strandgötu 6, Hafnarfirði, Borgarbyggð, kt. 510694-2289, Borgarbraut 11, Borgarnesi, Garðabær, kt. 570169-6109, Garðatorgi 7, Garðabæ og Borgarfjarðarsveit, kt. 480698-2669, Litla Hvammi, Borgarfjarðarsveit, hafa ákveðið að stofna sameignarfyrirtæki og gera af því tilefni svofelldan

SAMNING1. gr.


    Heiti fyrirtækisins er Orkuveita Reykjavíkur.
    Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
    Fyrirtækið mun starfrækja útibú á Akranesi, Borgarnesi og í Þorlákshöfn. Fyrirtækinu er heimilt að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

2. gr.


    Sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur tekur til starfa l. janúar 2002 og yfirtekur frá þeim degi allar eignir og skuldir, réttindi og skyldur borgarstofnunarinnar Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar, Hitaveitu Borgarness og eignarhluta Akranesbæjar, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.
    Fyrirtækið er sjálfstæður skattaðili og skal skráð hjá sýslumanninum í Reykjavík.

3. gr.


    Tilgangur fyrirtækisins er vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum.

4. gr.


    Við gerð sameignarsamnings þessa liggja til grundvallar eftirtalin fylgiskjöl: viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Akranesbæjar, dags. 26. júní 2001, sbr. fylgiskjal I, samningar Reykjavíkurborgar annars vegar við Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ hins vegar, dags. 21. september 2001 ásamt fylgiskjali, sbr. fylgiskjöl II, III og IV, viljayfirlýsingar Reykjavíkurborgar annars vegar Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar hins vegar, dags. 10. desember 2001, sbr. fylgiskjöl V og VI. Drög að stofnefnahagsreikningi, fylgiskjal VII.

5. gr.


    Á grundvelli framlaga sameigenda til sameignarfyrirtækisins, sbr. 4. gr., hafa eignarhlutföll verið ákveðin. Eignarhlutir í sameignarfyrirtækinu grundvallast á samkomulagi hlutaðeigandi sveitarfélaga og skiptast svofellt milli sameigenda:
              Reykjavíkurborg     92,22%
              Akranesbær     5,45%
              Hafnarfjarðarbær     0,94%
              Borgarbyggð     0,75%
              Garðabær     0,47%
              Borgarfjarðarsveit     0,17%
              Samtals          100,00%

6. gr.


    Stjórn fyrirtækisins skal skipuð sex mönnum, fimm kjörnum af borgarstjórn Reykjavíkur og einum kjörnum af bæjarstjórn Akraness. Borgarstjórn Reykjavíkur kýs formann og varaformann stjórnar úr hópi fulltrúa Reykjavíkurborgar. Á stjórnarfundum skal atkvæði formanns vega tvöfalt.
    Varamenn, jafnmargir, skulu kjörnir á sama hátt og aðalmenn. Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera eitt ár í senn, frá aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur á viðkomandi ári til aðalfundar á næsta ári.
    Stjórn fyrirtækisins stýrir öllum málefnum þess milli aðalfunda/aukafunda og gætir hagsmuna þess. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.

7. gr.


    Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju þarf Orkuveita Reykjavíkur að fá fyrirfram samþykki allra eignaraðila. Með höfuðstól er átt við bókfært eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í lok næstliðins árs.
    Heimild til að skuldbinda sameignarfyrirtækið, með þeim takmörkunum sem fram koma í 1. mgr. þessarar greinar, er í höndum stjórnar þess og nægir atkvæði meirihluta stjórnarmanna til þessa. Með skuldbindingum er í ákvæði þessu átt við lántökur, kaup, sölu eða veðsetningu á fasteignum fyrirtækisins eða öðrum veigameiri eignum þess, hlutabréfum, lánveitingar, o.þ.h.
    Hver eigandi um sig er í einfaldri hlutfallslegri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Hlutfallsleg einföld ábyrgð hvers eiganda um sig tekur mið af eignarhluta hans í fyrirtækinu, sbr. 4. gr.

8. gr.


    Stjórn sameignarfyrirtækisins ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
    Forstjóri hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar fyrirtækisins. Skal hann vinna sjálfstætt að stefnumótun þess og áætlanagerð. Hann annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins, allar framkvæmdir og undirbúning þeirra, sjóðvörslu og reikningshald og ráðningu starfsliðs. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Forstjóri kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Forstjóra ber að veita stjórn og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins sem þeir kunna að óska eða veita ber samkvæmt lögum. Stjórn skal setja forstjóra starfslýsingu.
    Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri skal sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
    Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra og öðrum starfsmönnum prókúruumboð samkvæmt nánari ákvörðun þar að lútandi.

9. gr.


    Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur. Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og skulu þeim boðin störf hjá því, sambærileg þeim er þeir áður gegndu. Umræddir starfsmenn skulu ekki njóta lakari réttinda og starfskjara en þeir nutu í störfum sínum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjun og Hitaveitu Borgarness.

10. gr.


    Stjórn sameignarfyrirtækisins setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatnsveitu til notenda.
    Gjaldskrár vegna sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991.
    Orkuveita Reykjavíkur hefur sjálfstætt reikningshald og tekur sjálf við greiðslu fyrir selda
orku og öðrum tekjum. Skal tekjunum varið til að standa straum af öllum greiðsluskuldbindingum, svo sem afborgunum á áhvílandi skuldum, vöxtum og öðrum rekstrarkostnaði, þar með talið fullnægjandi viðhald og endurnýjun mannvirkja og tækja.
    Við það skal miðað að Orkuveita Reykjavíkur skili eðlilegum arði miðað við það fjármagn sem á hverjum tíma er bundið í fyrirtækinu. Ákvörðun um ráðstöfun arðsins skal tekin af aðalfundi.
    Rekstur hinna ýmsu deilda Orkuveitu Reykjavíkur skal aðgreindur reikningslega og fjárhagslega í samræmi við þarfir Orkuveitu Reykjavíkur og lagaáskilnað. Aðgreiningunni skal háttað þannig að unnt sé að sannreyna raunverulegan kostnað af orkuöflun, flutningi, dreifingu og sölu. Sameiginlegum kostnaði skal skipt á hinar ýmsu deildir samkvæmt áætlun sem staðfest skal af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.
    Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttar- eða verndaðri starfsemi.

11. gr.


    Æðsta vald í málefnum fyrirtækisins er í höndum lögmætra aðalfunda. Aðalfund skal halda í júnímánuði ár hvert. Stjórn skal boða til aðalfundar með tilkynningu til hvers sameiganda í ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða á annan sannanlegan hátt. Aðalfund skal boða með minnst sjö daga fyrirvara. Fundarefnis skal getið í fundarboði. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
     1.      Skýrsla stjórnar um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur síðastliðið starfsár.
     2.      Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir liðið reikningsár, ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins, lagður fram til staðfestingar.
     3.      Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Orkuveitu Reykjavíkur og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Orkuveitu Reykjavíkur á reikningsárinu.
     4.      Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið starfsár.
     5.      Lýst kjöri stjórnar.
     6.      Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
     7.      Umræður um önnur mál.
    Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á aðalfundum/aukafundum.
    Rétt til setu á aðalfundi eiga borgar-, bæjar- og sveitarstjórar eignaraðila, stjórn og forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Borgar-, bæjar- og sveitarstjórar hlutaðeigandi sveitarfélaga, eða aðrir þeir sem fengið hafa umboð til þess, fara með atkvæðisrétt eignaraðila á aðalfundi og skal vægi atkvæða vera í samræmi við eignarhluta hvers sameiganda. Heimilt er stjórn fyrirtækisins að bjóða öðrum að sitja aðalfund fyrirtækisins.

12. gr.


    Aukafundi eigenda (eigendafundi) skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða kröfu sameigenda sem ráða yfir a.m.k. 5% eignarhluta í Orkuveitu Reykjavíkur. Slíkar kröfur skulu gerðar skriflega til stjórnar og fundarefni tilgreint og skal fundur þá boðaður með sjö daga fyrirvara. Stjórn skal boða til aukafundar með tilkynningu til hvers sameiganda í ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða á annan sannanlegan hátt og skal fundarefnis getið í fundarboði. Um atkvæðagreiðslur, vægi atkvæða o.þ.h. gilda sömu reglur og á aðalfundum.

13. gr.


    Orkuveita Reykjavíkur greiðir eigendum sínum arð í samræmi við eignarhluta hvers sveitarfélags í sameignarfyrirtækinu, sbr. 5. gr. sameignarsamnings þessa. Arðgreiðslan skal ákveðin með hliðsjón af afkomu sameignarfyrirtækisins.

14. gr.


    Starfsár og reikningsár er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt
fyrir endurskoðanda eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.

15. gr.


    Sameignarsamningi þessum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi með samþykki eigenda sem ráða yfir a.m.k. 3/ 4eignarhluta fyrirtækisins. Engin sérréttindi fylgja eignarhlutum í fyrirtækinu að öðru leyti en greinir í sameignarsamningi þessum. Sameigendur þurfa ekki að sæta innlausn hluta sinna nema lög standi til annars. Sameigendum er óheimilt að selja eignarhlut sinn eða ganga úr sameignarfyrirtækinu án samþykkis sameigenda. Þá er sameigendum óheimilt að veðsetja eignarhlut sinn í fyrirtækinu eða ráðstafa honum á annan hátt.

16. gr.


    Við undirritun sameignarsamnings þessa liggja fyrir drög að stofnefnahagsreikningi Orkuveitu Reykjavíkur, árituð af löggiltum endurskoðanda, sbr. fylgiskjal VII.
    Með sameignarsamningi þessum eru 7 fylgiskjöl og eru þau öll hluti sameignarsamnings
þessa.

17. gr.


    Sameignarsamningur þessi eru gerður á grundvelli 11. gr. frumvarps til laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.
    Sameignarsamningur þessi er undirritaður með fyrirvara um samþykki hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. sameignarsamnings um kjörtímabil stjórnar skal stjórn sú sem kjörin verður til starfa við stofnun sameignarfyrirtækisins Orkuveita Reykjavíkur einungis starfa til aðalfundar ársins 2002.

Fyrirvari:
    Sameignarsamningur þessi er gerður með fyrirvara um að fyrirliggjandi lagafrumvarp um stofnun sameignarfyrirtækisins Orkuveita Reykjavíkur verði samþykkt á Alþingi eigi síðar en í desembermánuði 2001. Jafnframt að ekki verði gerðar breytingar á fyrirliggjandi lagafrumvarpi sem raski forsendum og fyrirætlunum sem sameignarsamningur þessi byggir á.

Reykjavík, 12. desember 2001.    F.h. Reykjavíkurborgar,     F.h. Akranesbæjar,

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.    Gísli Gíslason.
    
    F.h. Hafnarfjarðarbæjar,    F.h. Borgarbyggðar,

    Magnús Gunnarsson.    Stefán Kalmansson.

    F.h. Garðabæjar,    F.h. Borgarfjarðarsveitar,

    Guðjón E. Friðriksson.    Þórunn Gestsdóttir.