Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 568  —  252. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um loftferðir, nr. 60/1998.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hlutinn leggst harðlega gegn afgreiðslu þessa frumvarps að svo komnu máli þar sem málið hefur lítið verið rætt og er lítt undirbúið. Meginhugmynd frumvarpsins er að auka til muna valdheimildir Flugmálastjórnar án þess að mikið liggi fyrir um hvernig þær verða framkvæmdar eða hvort stofnunin sé á nokkurn hátt í stakk búin til að taka við og fara með slíkar valdheimildir. Þá hefur komið fram í umsögnum um málið og hjá gestum sem hafa komið á fund samgöngunefndar að eins og staðan sé í samskiptum Flugmálastjórnar og ýmissa aðila sem starfa við flug hér á landi sé traust þeirra á stofnuninni lítið sem ekkert.
    Í frumvarpinu er lagt til að valdheimildir og þvingunarúrræði Flugmálastjórnar Íslands verði auknar verulega í ýmsum veigamiklum þáttum:
     1.      Flugmálastjórn er veitt heimild til að áskilja að fyrirsvarsmenn framleiðenda, viðhaldsaðila og flugrekstraraðila standist sérstaka prófraun. Flugmálastjórn veitir þeim viðurkenningu sem standast prófraunina og getur hún síðan hvenær sem er fellt viðurkenningu sína úr gildi.
     2.      Flugmálastjórn er veitt vald til að svipta leyfishafa samkvæmt lögunum leyfi til bráðabirgða hvenær sem þeir gerast brotlegir við lög, reglur eða fyrirmæli Flugmálastjórnar sem um starfsemina gilda.
     3.      Flugmálastjórn getur svipt eigendur eða umráðamenn flugvalla starfsleyfi ef þeir fullnægja ekki þeim skilyrðum sem sett eru.
     4.      Flugmálastjórn er falið að gera flugverndaráæltun fyrir landið allt og skal hún jafnframt samþykkja flugverndaráætlanir sem eftirlitsskyldir aðilar gera. Ekki er annað að sjá en að með þessu geti Flugmálastjórn lagt nokkrar kvaðir á eftirlitsskylda aðila.
     5.      Flugmálastjórn er veitt heimild til að leggja dagsektir á eftirlitsskylda aðila ef þeir verða ekki við kröfum stofnunarinnar eða veita ekki umbeðnar upplýsingar. Geta dagsektir numið frá 10.000 kr. upp í allt að 1 millj. kr.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að ein meginrót þess að það er lagt fram sé að í kjölfar flugslyssins í Skerjafirði 7. ágúst 2000 hafi komið í ljós verulegir brestir í skipulagi flugrekstraraðila vélarinnar sem fórst og jafnframt að Flugmálastjórn teldi sig ekki hafa yfir nægum úrræðum að ráða til að eftirlit stofnunarinnar bæri tilætlaðan árangur. Komið hefur fram í umfjöllun nefndarinnar, sem ekki var mikil, að frumvarpið og hugmyndir sem þar er að finna séu krampakennd viðbrögð stjórnvalda við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á flugmálayfirvöld og frammistöðu þeirra í kjölfar umrædds slyss.
    Enn fremur hefur komið skýrt fram að ef takast á að skapa traust milli Flugmálastjórnar og margra hópa sem starfa að flugmálum sé nauðsynlegt að skipta stofnuninni upp í flugöryggissvið annars vegar og flugþjónustusvið hins vegar. Það getur ekki gengið að stofnun sem m.a. hefur það hlutverk að greiða götu þeirra sem starfa að flugmálum skuli einnig hafa eftirlit með öryggismálum sömu aðila. Þá er á það bent að sami aðili fari með rekstur og viðhald flugvalla, fjalli um öryggismál þeirra og veiti þeim leyfi fyrir starfseminni. Þetta á einnig við um rekstur aðila og útgáfu leyfisskírteina. Hagsmunaárekstrarnir eru of margir. Afleiðingin þessa fyrirkomulags er sú að stofnunin er rúin trausti margra sem starfa í fluginu.
    Samgöngunefnd hafa borist fjölmargar umsagnir um málið. Í þeim er að finna mjög alvarlegar athugasemdir við störf og starfshætti Flugmálastjórnar Íslands. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að fá ítarlegri upplýsingar um þessar athugasemdir og kanna réttmæti þeirra til hlítar áður en Flugmálastjórn verða veittar þær stórauknu valdheimildir og þvingunarúrræði sem í frumvarpinu felast. Slíkt gæti leitt til aukinna hagsmunaárekstra, en af þeim er nóg ef marka má umræddar athugasemdir og er slíkt ekki til þess fallið að auka öryggi í flugsamgöngum hér á landi. Minni hlutinn er tilbúinn til þess að taka þátt í þeirri vinnu sem nauðsynleg er til þess að koma málum til betri vegar. Til þess að af því geti orðið er nauðsynlegt að skipta Flugmálastjórn upp. Á meðan stofnunin fer með allt vald, rannsakar, framkvæmir, dæmir og gefur út leyfi er hættan á hagsmunaárekstrum of mikil til þess að friður geti skapast í einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.
    Með hliðsjón af framangreindu leggst minni hlutinn gegn samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 13. des. 2001.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Kristján L. Möller.


Jón Bjarnason.