Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 573  —  371. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kirkjugarðsstjórn getur einnig afmarkað almennan reit í kirkjugarði, þar sem ösku látinna verði komið fyrir, án þess að grafarnúmers sé getið, en nöfn hinna látnu skulu færð í legstaðaskrá, sbr. 1. mgr. 27. gr.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Dóms- og kirkjumálaráðherra getur heimilað, samkvæmt nánari reglum er hann setur, að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó, enda liggi fyrir ótvíræð ósk hins látna þar að lútandi. Óheimilt er að dreifa ösku á fleiri en einn stað sem og að merkja dreifingarstað. Sömuleiðis er óheimilt að geyma duftker fram að ráðstöfun þess annars staðar en í líkhúsi. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku skulu vera úr forgengilegu efni og brennd strax að lokinni dreifingu.

2. gr.


    Í stað orðsins „Utanþjóðkirkjusöfnuðum“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: Skráðum trúfélögum.

3. gr.


    11. gr. laganna orðast svo:
    Kirkjugarðaráð hefur yfirumsjón með kirkjugörðum landsins svo sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Í því eiga sæti biskup Íslands eða fulltrúi hans, þjóðminjavörður eða fulltrúi hans, einn fulltrúi tilnefndur af Kirkjugarðasambandi Íslands, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi kosinn af kirkjuþingi. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Biskup Íslands eða fulltrúi hans skal vera formaður kirkjugarðaráðs. Ef atkvæði falla jöfn í ráðinu ræður atkvæði biskups.
    Kirkjugarðaráð ræður framkvæmdastjóra kirkjugarða og setur honum erindisbréf. Hann skal vera sérfróður um gerð og skipulag kirkjugarða. Laun hans og annar starfskostnaður, svo og kostnaður við störf kirkjugarðaráðs, greiðist úr Kirkjugarðasjóði.
    Kirkjugarðaráð er jafnframt stjórn Kirkjugarðasjóðs og fer með málefni hans, sbr. 40. gr.

4. gr.


    Við 2. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kirkjugarðaráð setur viðmiðunarreglur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur hvað felst í skyldu sveitarfélaga til að leggja til hæfilegt kirkjugarðsstæði og efni í girðingu.

5. gr.


    Í stað orðanna „skipulagsnefnd kirkjugarða“ í 2. mgr. 16. gr. laganna og sömu orða í 3. mgr. 16. gr., 2. mgr. 17. gr., 1. mgr. 18. gr., 1. mgr. 20. gr., 1. og 3. mgr. 27. gr., 2. mgr. 28. gr., 1. og 4. mgr. 31. gr., 32. gr., 1. mgr. 33. gr., 36. gr., 1. mgr. 43. gr. og 51. gr. laganna kemur, í viðeigandi falli: kirkjugarðaráð.

6. gr.


    3. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

7. gr.


    2. mgr. 20. gr. laganna orðist svo:
    Kirkjugarðsstjórn er heimilt að taka þátt í kostnaðarsömum framkvæmdum við útfararkirkjur, en því aðeins að tryggt sé að það gangi ekki svo nærri fjárhag kirkjugarðsins að hann sé ófær um að gegna lögbundnu hlutverki sínu. Ráðherra setur reglur um fjárstuðning kirkjugarðsstjórna í þessum efnum.

8. gr.


    Við 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, 1. málsl., svohljóðandi: Grafstæði í kirkjugörðum skal vera 2,50 x 1,20 metrar og grafstæði duftkera 0,75 x 0,75 metrar.

9. gr.


    1. málsl. 34. gr. laganna orðast svo: Þegar samþykkt hefur verið að leggja niður kirkjugarð eða slétta yfir hann skal það vandlega kynnt almenningi með auglýsingu tvisvar sinnum í dagblöðum eða í staðbundnum blöðum er koma reglubundið út.

10. gr.


    4. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
    Kirkjugarðaráð myndar stjórn Kirkjugarðasjóðs og fer með málefni hans, sbr. 11. gr.

11. gr.


    Í stað orðanna „stjórnar hans“ í 4. mgr. 41. gr. laganna kemur: kirkjugarðaráðs.

12. gr.


    Í stað orðsins „utanþjóðkirkjusöfnuðum“ í 1. mgr. 45. gr. laganna kemur: trúfélögum, og í stað orðsins „utanþjóðkirkjusafnaðar“ í 2. mgr. 45. gr. kemur: skráðs trúfélags.

13. gr.


    Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Grafreitir skráðra trúfélaga.

14. gr.


    Við 50. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra setur reglugerð um umgengni í kirkjugörðum sem skal vera fyrirmynd að umgengnisreglum kirkjugarðanna. Kemur þessi reglugerð í stað reglugerða fyrir kirkjugarða þar sem reglugerðir eru ekki sérstaklega settar, sbr. 51. gr.

15. gr.


    Á eftir orðunum „Brot gegn lögum þessum“ í 52. gr. laganna kemur: og reglum settum samkvæmt þeim.

16. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.
    Umboð fulltrúa í skipulagsnefnd kirkjugarða, svo og umboð stjórnarmanna í stjórn Kirkjugarðasjóðs, fellur niður 31. desember 2001 og skal kirkjugarðaráð taka við störfum þeirra frá sama tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eftir að sérstök nefnd er skipuð var til að endurskoða og setja fram breytingar á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993, skilaði tillögum nú í haust. Þær tillögur voru lagðar fyrir kirkjuþing til umsagnar sem lagði til nokkrar breytingar og hefur verið tekið tillit til þeirra við samningu frumvarpsins.
    Vegna breytinga sem orðið hafa í stjórnsýslu ríkisins undanfarin missiri var nauðsynlegt að endurskipuleggja skipan skipulagsnefndar kirkjugarða þar sem embætti húsameistara ríkisins hefur verið lagt niður og hlutverk skipulagsstjóra ríkisins hefur breyst þannig að óeðlilegt þykir að hann sitji þar áfram. Jafnframt því var talin ástæða til að endurskoða í heild hvernig skipulagsnefnd kirkjugarða skuli skipuð, svo og að skoða nánar störf stjórnar Kirkjugarðasjóðs, en verkefni þessara tveggja nefnda skarast mjög, og hvort gerlegt væri að sameina skipulagsnefndina og stjórn Kirkjugarðasjóðs í eina stjórn. Enn fremur var áhugi fyrir því að kannað yrði hvort unnt væri að rýmka löggjöfina að því er varðar dreifingu ösku látinna manna. Loks var talin ástæða til að yfirfara ýmis önnur álitaefni og gera minni háttar lagfæringar á lögunum eins og nánar verður vikið að síðar.
    Til þess að vinna að þessari endurskoðun skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd 12. febrúar 2001. Í nefndinni áttu sæti sr. Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur og þáverandi alþingismaður, formaður, Anna Guðrún Björnsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af biskupi Íslands, og sr. Valgeir Ástráðsson varamaður hennar, Helga Jónsdóttir borgarritari, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Þórsteinn Ragnarsson forstjóri, tilnefndur af Kirkjugarðasambandi Íslands. Ritari nefndarinnar var Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
    Auk framangreindra atriða sem rakin hafa verið sagði í skipunarbréfi nefndarinnar að hún skyldi skoða hvort og með hvaða hætti skyldi greitt fyrir útför manna sem búið hafa hér á landi um lengri eða skemmri tíma en látast erlendis og verða greftraðir hér. Þá skyldi nefndin athuga ákvæði um upplýsingaskyldu kirkjugarða um legstaði, uppdrætti o.fl. Einnig var talið rétt að nefndin skoðaði hvort ástæða væri til að setja nánari ákvæði eða gera nánari grein fyrir skyldum sveitarfélaga. Loks var í skipunarbréfinu tekið fram að teldi formaður tilefni til, eftir því sem liði á störf nefndarinnar, gæti hún tekið fleiri álitamál til umfjöllunar.
    Frumvarp það sem hér liggur fyrir er afrakstur þessarar endurskoðunar. Í fyrsta lagi er lagt til að dreifing ösku verði heimiluð samkvæmt nánari reglum. Einnig er lagt til að breyting verði gerð á skipan skipulagsnefndar kirkjugarðanna sem einnig taki við hlutverki stjórnar Kirkjugarðasjóðs. Þá er lagt til að skyldur sveitarfélaga í tengslum við nýja kirkjugarða verði skilgreindar nánar og ráðgert að sett verði almenn reglugerð um umgengni í kirkjugörðum sem allir kirkjugarðar geti notast við ef þeir sjá ekki ástæðu til að setja auknar eða sérstakar reglur. Ýmsar minni háttar breytingar eru lagðar til sem lýst verður nánar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins. Nefndin taldi ekki þörf á að setja skýrari reglur um upplýsingaskyldu kirkjugarða varðandi legstaði, uppdrætti o.fl. Gert hefur verið myndarlegt átak í að tölvuvæða slíkar upplýsingar, og hafa landsmenn aðgang að slíkum upplýsingabanka á vefslóðinni gardur.is. Áfram verður unnið að slíkri skráningu, og fer hraðinn eftir því hversu mikið fjármagn fæst til verksins. Nú þegar eru stórir kirkjugarðar, t.d. í Reykjavík og á Akureyri, kortlagðir. Á þessu stigi er heldur ekki talin ástæða til að endurskoða ákvæði um greiðslu kostnaðar fyrir útför einstaklinga sem búið hafa á Íslandi, síðan erlendis og kjósa loks að verða greftraðir á Íslandi.
    Frumvarp nefndarinnar var sent kirkjuþingi til umsagnar í samræmi við 23. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997. Hafði dóms- og kirkjumálaráðuneytið framsögu í málinu. Að lokinni fyrstu umræðu var málinu vísað til löggjafarnefndar. Lagði nefndin til nokkrar breytingar í sérstöku þingskjali, og að lokinni síðari umræðu um málið var frumvarpið samþykkt með þeim breytingum. Fullt tillit hefur verið tekið til breytingartillagna kirkjuþings og frumvarpinu breytt til samræmis við þær.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Erlendis er algengt að ösku látinna manna sé dreift á tiltekið afmarkað svæði í kirkjugarði án þess að nokkur nafngreining eigi sér stað um það hverjir hvíla þar. Margir óska þess að askan sé látin hvíla innan um ösku annarra ónafngreindra látinna manna. Nokkur dæmi eru um að beiðni hafi komið fram um slíkt hér, en í 3. mgr. 27. gr. laganna er að finna heimild fyrir greftrun líka á slíku svæði. Eðlilegt þykir að sama eigi við, hvort heldur um ösku eða jarðneskar leifar látinna manna er að ræða. Nauðsynlegt þykir að í legstaðaskrá sé slíkrar skráningar getið þótt legastaðanúmer vanti. Með b-lið greinarinnar er því lagt til að við 3. mgr. 7. gr. laganna bætist ákvæði þessa efnis.
    Núgildandi lög heimila ekki dreifingu ösku. Margir hafa bent á, og skírskota þá í því sambandi m.a. til trúfrelsis, að þeir sem vilja af trúarlegum ástæðum láta dreifa öskunni ættu að geta fengið þá ósk uppfyllta. Í flestum vestrænum ríkjum hefur almenna þróunin orðið sú að heimila öskudreifingu, en þó ávallt með skilmálum. Sums staðar er þess krafist að fyrir liggi skrifleg beiðni eða samþykki hins látna, en annars staðar er talið nægilegt að nánustu aðstandendur staðfesti að það hafi verið vilji hins látna að öskunni yrði dreift.
    Með c-lið greinarinnar er lögð til breyting á 4. mgr. 7. gr. laganna þannig að ráðherra geti samkvæmt nánari reglum heimilað að ösku verði dreift. Gert er ráð fyrir að þá er beiðandi leggur fram umsókn verði honum gert ljóst að ekki sé heimilt að dreifa ösku yfir byggð eða væntanlega byggð, heldur aðeins yfir haf og óbyggðir. Þá verði einnig gerð grein fyrir því að dreifingin skuli fara fram með sómasamlegum hætti þar sem askan geymir jarðneskar leifar látins manns. Ef út af verði brugðið gæti slíkt leitt til saksóknar á grundvelli 124. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um ósæmilega meðferð á líki. Talið er að með lögjöfnun sé unnt að láta orðið „lík“ ná einnig til jarðneskra leifa látins manns í formi ösku. Þeim sem fá afhenta ösku til dreifingar verði gert ljóst að þeim sé óheimilt að geyma öskuna eftir að hún hefur verið afhent úr líkhúsi og að henni verði að dreifa á þann stað sem samþykktur hefur verið. Almennt ætti ekki að vera fyrirstaða fyrir því að heimila að ösku verði dreift yfir opið haf, firði og flóa, t.d. Faxaflóann, svo og óbyggðir. Gert er ráð fyrir að settar verði leiðbeiningarreglur, einkum hvað varðar staðarval, og eyðublöð hönnuð. Eftir á þarf sá sem fær leyfi til að dreifa ösku að leggja fram skriflega staðfestingu á að dreifing hafi átt sér stað í samræmi við settar reglur. Síðan þarf að senda upplýsingar til legstaðaskrár þar sem tilgreint er hvar öskunni hafi verið dreift. Ekki þykir fært að heimilað verði að dreifa ösku í byggð eða væntanlegri byggð, né heldur yfir stöðuvötn. Þá er alveg tekið fyrir að setja megi upp minnisvarða, minningarplötu eða annars konar minnismerki á þeim stað þar sem öskunni var dreift eða nálægt þeim stað. Enn fremur ber að brenna duftkerið sem askan hafði verið í að lokinni dreifingu hennar. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um meðferð beiðna hér að lútandi og framkvæmd þessara mála í reglugerð. Brot gegn fyrirmælum þessa efnis munu varða sektum, sbr. 52. gr. laganna, enda liggi eigi við þyngri refsing samkvæmt öðrum lögum. Atbeina prests við öskudreifinguna er ekki talin þörf. Þá er ekki talið að smithætta stafi af öskunni þar sem hitinn í brennsluofnum sem notaðir eru við líkbrennslu er mjög hár.
    Með a-lið greinarinnar er lögð til breyting á 2. mgr. 7. gr. laganna sem heimilar að ösku sem heimilað verður að dreifa megi varðveita annars staðar en í kirkjugarði eða löggiltum grafreit. Að öðru leyti er áfam óheimilt að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði eða löggiltum grafreit.

Um 2. gr.


    Langt er síðan horfið var frá því að nefna aðra söfnuði en þjóðkirkjusöfnuði utanþjóðkirkjusöfnuði. Því er lagt til að einungis verði talað um trúfélög eða skráð trúfélög eftir því hvert tilefnið er hverju sinni. Hér er átt við skráð trúfélög, sbr. lög nr. 108 28. desember 1999.

Um 3. gr.


    Skipulagsnefnd kirkjugarða er nú skipuð sex fulltrúum til fjögurra ára í senn, en það eru biskup Íslands, húsameistari ríkisins, skipulagsstjóri, þjóðminjavörður, fulltrúi kosinn af kirkjuþingi og fulltrúi kosinn af kirkjugarðsstjórn Reykjavíkurprófastsdæma.
    Eðlilegt þykir að biskup Íslands, eða fulltrúi hans, sé formaður. Embætti húsameistara ríkisins hefur verið lagt niður og ekkert hefur komið í stað þess. Skipulagsstjóri telur sig vera vanhæfan til setu í skipulagsnefnd kirkjugarða, í kjölfar breytinga sem gerðar hafa verið á skipulags- og byggingalögum, og hefur umhverfisráðuneytið tekið undir þau sjónarmið. Mikilvægt er að í nefndinni eigi sæti fulltrúi sem býr yfir þekkingu á fornminjum og húsagerð en liðveisla og atbeini frá Þjóðminjasafninu hefur verið mikill á undanförnum áratugum. Fulltrúi sá sem kirkjuþing hefur kosið kemur fram sem almennur fulltrúi borgaranna.
    Fyrir nokkrum árum voru stofnuð samtök kirkjugarða, Kirkjugarðasamband Íslands (KGSÍ). Í sambandinu eru um 60 kirkjugarðar af 280, en það hefur innan sinna vébanda um 90% allra gjaldenda kirkjugarðsgjalda. Telja verður að KGSÍ, í ljósi þeirra verkefna sem því er ætlað að takast á hendur, sé nú orðið eðlilegur málsvari kirkjugarðaheildarinnar í stað kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og að það hafi að leiðarljósi að sjónarmið jafnt stærri sem minni kirkjugarða komi fram. Búast má við að æ fleiri kirkjugarðar gangi í sambandið og er því talið rétt að KGSÍ eigi fulltrúa í nefndinni. Ljóst er að miklu skiptir að fyrir hendi sé fagleg þekking á skipulagsmálum, byggingamálum, umhverfismálum, svo og um varðveislu fornminja eða verndaðra bygginga eða minja og nefndin þarf að vera reiðubúin til að móta stefnu og taka ákvarðanir.
    Náið samstarf hefur verið á milli skipulagsnefndar kirkjugarðanna og stjórnar Kirkjugarðasjóðs. Skipulagsnefndin gerir tillögur að úthlutun fjár úr Kirkjugarðasjóði og hefur stjórn sjóðsins undantekningalítið farið eftir þeim tillögum. Er nú talið rétt að steypa stjórn Kirkjugarðasjóðs og skipulagsnefnd kirkjugarðanna saman í eina stjórn. Er eðlilegt að nefnd sem mótar gerð, umhverfi og hvaðeina varðandi kirkjugarða landsins og hefur umsjón með þeim sé jafnframt falið að úthluta fé til brýnustu verkefna á því sviði. Leitað hefur verið álits Íslenskrar málstöðvar á nafni slíkrar nefndar/stjórnar og hefur hún stungið upp á heitinu kirkjugarðaráð sem þykir hæfa vel.
    

Um 4. gr.


    Fram hafa komið ýmsar ábendingar um að orðalag gildandi laga um skyldur og rétt sveitarfélaga sé hvorki nægilega skýrt né nákvæmt. Það ráðist oft af vilja sveitarfélaga hversu skammt eða langt þau teygi sig þegar kirkjugarðsstæði er afhent og eins sé mjög mismunandi á milli sveitarfélaga hvernig þau túlka skyldu sína að leggja til efni í girðingu. Í því skyni að koma hér á samræmi er lagt til að kirkjugarðaráð setji nokkurs konar staðal, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem miða beri við í þessum efnum er sveitarfélag láta af hendi stæði undir kirkjugarð eða efni í girðingu. Þess eru dæmi að sveitarfélög leysi sig undan þessari skyldu með því að greiða kirkjugarðinum ákveðna fjárhæð sem er reiknuð út frá fjölda grafarstæða. Talið er að viðmiðunarreglur sem verði settar hér að lútandi muni geta leyst þennan vanda.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Óeðlilegt þykir að gerður sé áskilnaður um að tiltekinni stofnun skuli vera gert með lögum að leggja til ókeypis ráðgjöf og leiðbeiningar um plöntu- og trjáhirðu, ekki síst eftir að komin er virk samkeppni í garðplöntuframleiðslu. Því þykir eðlilegast að fella ákvæðið niður.

Um 7. gr.


    Allnokkur brögð hafa verið að því á undanförnum árum að kirkjugarðsstjórn hafi veitt lán eða styrki til kirkjubygginga í svo ríkum mæli að það hefur skert getu kirkjugarðsins til að annast sín lögbundnu verkefni með sómasamlegum hætti. Hefur Ríkisendurskoðun látið í té umsögn af þessu tilefni. Hún telur ekkert því til fyrirstöðu, ef fjárhagur er traustur, að lagaheimildin sé nýtt, en tekur fram að það sé hverrar kirkjugarðsstjórnar að marka stefnu í þessum efnum, en einnig mætti hugsa sér að ráðuneytið kvæði á um þetta í reglugerð. Rétt þykir að ráðuneytið setji reglur hér að lútandi þar sem fram komi almennar reglur um fjárhagsstuðninginn.

Um 8. gr.


    Nokkuð hefur borið á því að kirkjugarðsstjórnum sé ekki nægilega kunnugt um þær stærðir sem skulu vera á grafstæðum, bæði fyrir kistur og duftker. Til að taka af tvímæli þykir ástæða til að tilgreina stærðirnar í lögum.

Um 9. gr.


    Almenningur les að jafnaði ekki Lögbirtingablaðið og því þykir óheppilegt að blaðið skuli vera vettvangur auglýsinga eða tilkynninga, t.d. um niðurlagningu eða sléttun kirkjugarðs. Til þess að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að þær komi fyrir almennings sjónir þykir nauðsynlegt að slíkar auglýsingar verði birtar með tryggilegum hætti, og því fer best á því að tilkynningarnar verði birtar í dagblöðum eða öðrum blöðum sem gefin eru út reglulega á viðkomandi stað.

Um 10. og 11. gr.


    Hér er gerð breyting vegna þess að kirkjugarðaráð kemur í stað stjórnar Kirkjugarðasjóðs.

Um 12. og 13. gr.


    Orðið utanþjóðkirkjusöfnuður er ekki lengur notað í kirkjulegri löggjöf og því þykir full ástæða til að fella slíkt orð brott hér. Samkvæmt lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999, er rætt um trúfélög utan þjóðkirkjunnar, en samt er ekki vísað til þeirra nema sem trúfélaga eða skráðra trúfélaga.

Um 14. gr.


    Það hefur gefist vel þegar um er að ræða að sveitarfélög eigi að setja sér byggingarreglugerð eða lögreglusamþykkt að lögð sé skylda á ríkisvaldið að útbúa nokkurs konar grunnreglur sem einstök sveitarfélög geti notast við ef þau kjósa að setja ekki sérstakar reglur. Oft væri um að ræða tímafrekt starf ef einstök sveitarfélög ættu að setja sér eigin reglugerð eða samþykkt. Þá er talið nægilegt að notast við grunnreglurnar.
    Talið er að þetta geti hentað hér. Kirkjugarðsstjórnir losna þannig við að setja sjálfar nokkuð viðamiklar reglur, en geta þess í stað notast við grunnreglur um umgengni í kirkjugörðum. Ef einhver sérstök sjónarmið eða aðstæður eru til staðar, sem kalla á að þessum grunnreglum sé breytt, getur kirkjugarðsstjórnin samið slíka reglugerð og beðið um staðfestingu, sbr. 51. gr.
    Í þessu sambandi skal hvað fyrirmynd snertir t.d. bent á 2. gr. laga um lögreglusamþykkir, nr. 36 18. maí 1988.

Um 15. gr.


    Í því skyni að tryggja að næg refsiheimild verði fyrir þeim reglum sem fyrirhugað er að setja ef frumvarp þetta nær fram að ganga þykir nauðsynlegt að bæta inn í refsiákvæði 52. gr. laganna að ekki aðeins brot á lögunum varði refsingu heldur einnig brot á reglum sem settar verða samkvæmt þeim.

Um 16. gr.


    Miðað er við að frumvarpið geti orðið að lögum 1. janúar 2002. Ef það gengur ekki eftir er nauðsynlegt að seinka gildistöku á skipun kirkjugarðaráðs og að það taki þá til starfa frá seinna tímamarki. Umboð skipulagsnefndar kirkjugarðanna og stjórnar Kirkjugarðasjóðs félli niður frá sama tíma.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1993,
um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

    Helstu breytingar sem lagt er til að gerðar verði á gildandi lögum í frumvarpinu eru í fyrsta lagi þær að dreifing ösku eftir líkbrennslu verði heimiluð samkvæmt tilteknum reglum. Í öðru lagi er lagt til að skyldur sveitarfélaga í tengslum við nýja kirkjugarða verði skilgreindar nánar auk ýmissa annarra minni háttar breytinga. Í þriðja lagi er lagt til að breyting verði gerð á skipan skipulagsnefndar kirkjugarða sem fái heitið kirkjugarðaráð og taki við hlutverki stjórnar Kirkjugarðasjóðs og hafi yfirumsjón með kirkjugörðum landsins. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður eigi fulltrúa í ráðinu. Starfsemi kirkjugarða er nær eingöngu fjármögnuð með framlagi úr ríkissjóði sem samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 nemur um 630 m.kr. í samræmi við gildandi lög um kirkjugarða og breytist ekki þótt frumvarp þetta verði lögfest.