Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 588  —  229. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur, Vilborgu Hauksdóttur, Ragnheiði Haraldsdóttur og Guðrúnu W. Jensdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Jóhannes Pálmason og Sigríði Snæbjörnsdóttur frá Heyrnar- og talmeinastöð, Björn Víðisson frá Heyrnartækni ehf., Gylfa Baldursson frá Félagi heyrnarfræðinga, Guðjón I. Stefánsson og Málfríði Gunnarsdóttur frá Heyrnarhjálp, Valgerði Stefánsdóttur frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Hafdísi Gísladóttur frá Félagi heyrnarlausra og Berglindi Stefánsdóttur frá Vesturhlíðarskóla. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir frá Heyrnarhjálp, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Félagi heyrnarlausra, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Sjálfsbjörg, landlæknisembættinu, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, ríkisendurskoðun, Félagi heyrnarfræðinga, Vesturhlíðarskóla, Félagi háls-, nef- og eyrnalækna, Læknafélagi Íslands og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, menntamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins.
    Með frumvarpinu eru meginákvæði laga um Heyrnar- og talmeinastöð felld inn í lög um heilbrigðisþjónustu. Helstu efnisbreytingar sem frumvarpið hefur í för með sér eru að í stað stjórnar er gert ráð fyrir skipun fagráðs sem skal vera framkvæmdastjóra stofnunarinnar til ráðuneytis um fagleg málefni og stefnumótun. Þá er í frumvarpinu að finna það nýmæli að ráðherra er heimilt að veita einkaaðilum rekstrarleyfi til að annast þá þjónustu eða hluta þeirrar þjónustu sem Heyrnar- og talmeinastöð er ætlað að veita samkvæmt lögunum. Auk þessa eru felld út ákvæði sem eðlilegt er að kveðið sé á um í árangursstjórnunarsamningi milli Heyrnar- og talmeinastöðvar og ráðuneytisins, svo sem segir í athugasemdum með frumvarpinu.
    Nefndin telur að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu til bóta. Nefndin álítur að sú breyting að skipa fagráð í stað stjórnar sé í samræmi við þau viðhorf sem nú eru uppi og sé til þess fallin að auka gæði og hagkvæmni þjónustunnar. Nefndin gerir ekki athugasemd við þá tilhögun sem gert er ráð fyrir á skipun fagráðsins.
    Nefndin fjallaði nokkuð um heimild ráðherra til að veita einkaaðilum rekstrarleyfi til að annast þjónustu eða hluta þeirrar þjónustu sem fellur undir starfssvið Heyrnar- og talmeinastöðvar. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar mun einkum vera áhugi fyrir þeim þætti starfseminnar sem lítur að prófun heyrnar og úthlutun og sölu heyrnartækja. Engu að síður er hugsanlegt að áhugi manna til að starfa á öðrum sviðum muni aukast í framtíðinni. Nefndin telur að þetta nýmæli geti verið til þess fallið að auka og bæta heilbrigðisþjónustu á þessu sviði. Nefndin leggur vegna þessa áherslu á að gera verður kröfu um nákvæma kostnaðargreiningu af hálfu Heyrnar- og talmeinastöðvar á þeim þáttum starfseminnar sem er á sama sviði heilbrigðisþjónustu og því sem einkaaðilar með rekstrarleyfi starfa á. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja óhlutdrægni og jafna rekstrarstöðu til hagsbóta fyrir neytendur þjónustunnar.
    Með tilkomu einkaaðila í rekstur heilbrigðisþjónustu á þessu sviði er nauðsynlegt að greiðsluþátttaka ríkisins sé tiltekin sem ákveðin krónutala en ekki sem hlutfallsgjald. Erfitt er að hafa stjórn á útgjöldum ríkisins til málaflokksins ef greiðsluþátttaka er ákveðin sem hlutfall af kostnaði. Nefndin telur því brýnt að þessa verði gætt á þeim sviðum þar sem rekstrarleyfi verða veitt.
    Nefndin vekur athygli á því að í 26. gr. laganna, sbr. 27. gr., er almenn heimild fyrir ráðherra til að veita rekstrarleyfi vegna starfsemi í lækningaskyni. Það má halda því fram að sérákvæði um starfsleyfi vegna heyrnar- og talmeinaþjónustu sé af þessum sökum óþarft. Framkvæmd þessara ákvæða hefur hins vegar verið ósamræmd og hvetur nefndin til endurskoðunar ákvæðanna með það að markmiði að samræma rekstrarleyfisveitingar innan ramma þeirra. Nefndin gerir því að svo stöddu ekki athugasemd við þá útfærslu sem lögð er til í frumvarpinu enda er um nýtt þjónustusvið að ræða sem eðlilegt er að áskilja að uppfylli tilteknar kröfur.
    Nefndin vill vekja athygli á að sérstaklega þarf að huga að þjónustu við daufblinda. Samkvæmt orðalagi frumvarpsins fellur þjónusta við daufblinda innan ramma Heyrnar- og talmeinastöðvar. Daufblinda er sérstök fötlun og þarf að sjá til þess að þessi hópur njóti samsettrar þjónustu sem mætir sérstökum þörfum hans. Jafnframt er mikilvægt að haldin sé skrá yfir daufblinda með sama hætti og haldin er skrá yfir þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða blindir og vill nefndin koma þeirri hugmynd á framfæri að Heyrnar- og talmeinastöð taki þetta að sér.
    Heyrnar- og talmein hafa í för með sér margvísleg vandamál fyrir þá sem þau hrjá. Hjálpartæki fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa eru að sama skapi margvísleg. Nefndin telur afar mikilvægt að Heyrnar- og talmeinastöð fylgist náið með tækniframförum á þessu sviði og miðli þeim upplýsingum til þeirra sem á tækjunum þurfa að halda.
    Nefndin gerir ekki athugasemd við ákvæði 5. tölul. 2. efnismgr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Heyrnar- og talmeinastöð skuli safna upplýsingum um alla skjólstæðinga sína samkvæmt frumvarpinu ásamt öðrum tölfræðilegum upplýsingum enda er gerður áskilnaður um að söfnun þessara upplýsinga skuli fara fram samkvæmt lögum um persónuvernd. Heyrnar- og talmeinastöð hefur einnig þessa skyldu samkvæmt núgildandi lögum. Nefndin vill taka fram að með tilkomu sjálfstæðra rekstrarleyfishafa verður að tryggja og gera um það áskilnað í rekstrarleyfi að þeir miðli tölfræðilegum upplýsingum til Heyrnar- og talmeinastöðvar svo að hún fái sinnt þessari skyldu sinni á fullnægjandi hátt til hagsbóta fyrir þá sem njóta þjónustu hennar.
    Í núgildandi lögum er kveðið á um að Heyrnar- og talmeinastöð skuli annast þjónustu við málhalta en svo er ekki í frumvarpinu heldur er einungis talað um talmein. Nefndin vill taka af allan vafa um það að með þessu er ekki verið að þrengja það hlutverk sem stöðin hefur, enda segir í athugasemdum með frumvarpinu að orðið talmein hafi öðlast sess í íslensku máli og er notað í stað málhelti nú. Með sama hætti vill nefndin taka það fram að þrátt fyrir að ekki sé kveðið sérstaklega á um það í frumvarpinu, eins og í núgildandi lögum, að Vesturhlíðarskóli og sérdeildir fyrir heyrnarskerta í almennum skólum og sérskólum skuli njóta þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar, ber alls ekki að skilja það svo að verið sé að draga úr þjónustu við nemendur þessara skóla. Enda ber Heyrnar- og talmeinastöð að sinna öllum sem eiga við heyrnar- og talmein að stríða. Sérstök útfærsla þessarar þjónustu í samvinnu við einstök sveitarfélög til að mæta þörfum heyrnarlausra nemenda fellur innan starfssviðs Heyrnar- og talmeinastöðvar.
    Nefndin leggur til fáeinar breytingar á frumvarpinu. Lagt er til að tiltekið verði sérstaklega að það sé hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvar að annast uppsetningu á hjálpartækjum. Þá er lagt til að þar sem talmein er nefnt í frumvarpinu verði samhliða einnig talað um heyrnarmein. Þetta er gert til að tryggja að heyrnarmein, t.d. eyrnasuð, falli ótvírætt innan starfssviðs Heyrnar- og talmeinastöðvar. Aðrar breytingar hafa ekki efnisbreytingu í för með sér.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. des. 2001.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.



Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Þuríður Backman,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.