Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 601  —  325. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um fullvirðisrétt við sölu ríkisjarða.

     1.      Hversu margar ríkisjarðir hafa verið seldar af hálfu landbúnaðarráðuneytisins á tímabilinu 1997–2001 þar sem fullvirðisréttur í eigu jarðeiganda (ríkis), þ.e. réttur til framleiðslu og greiðslumarks í sauðfé og mjólk, hefur verið skráður á viðkomandi ríkisjörð (lögbýli)?
    Spurt er um sölu ríkisjarða með skráðan fullvirðisrétt við sölu. Landbúnaðarráðuneytið seldi 49 jarðir á tímabilinu 1997–2001 sem á var skráð greiðslumark í sauðfé eða mjólk eða hvort tveggja.
    Fullvirðisréttur sem kvað á um það magn mjólkur og sauðfjárafurða sem ríkissjóður tryggði framleiðendum fullt verð fyrir samkvæmt samningum milli ríkisstjórnarinnar og Stéttarsambands bænda, sbr. 30. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, var felldur niður árið 1992. Það gerðist þegar beingreiðslur til bænda voru teknar upp í stað niðurgreiðslna á verði búvöru á heildsölustigi. Breyting þessi var gerð annars vegar með lögum nr. 5 28. febrúar 1992, þar sem kveðið er á um rétt lögbýlis til beingreiðslna úr ríkissjóði út á tiltekið magn kindakjöts, þ.e. kvóta, og hins vegar með lögum nr. 112 29. desember 1992, þar sem kveðið er á um rétt hvers lögbýlis til greiðslu úr ríkissjóði fyrir tiltekið magn mjólkur, eftir nánari reglum um skiptingu heildarmagns sem beingreiðslur náðu til, þ.e. kvóta.

     2.      Í hve mörgum tilvikum var fullvirðisrétturinn seldur með jörð? Var hann í þeim tilvikum metinn sérstaklega til verðs? Ef svo er, hvaða sjónarmið voru lögð til grundvallar við mat á verðmæti hans? Ef hann var ekki metinn sérstaklega, hvaða rök lágu þar að baki?
    Í öllum þeim tilvikum sem greiðslumark var skráð á jörð fylgdi það jörðinni við sölu. Greiðslumark er ekki metið sjálfstætt í verði jarðanna en kemur fram í verðmæti þeirra sem grunnur að þeim framleiðslumöguleikum sem jörðin hefur.
    Þegar greiðslumark var tekið upp í samræmi við tillögur sjömannanefndar um framleiðslu sauðfjárafurða frá febrúar 1991 og stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt samkvæmt samningi milli ríkisstjórnarinnar og Stéttarsambands bænda frá í mars 1991 voru rekstrarmöguleikar jarða í framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða verulega skertir. Settur var kvóti á beingreiðslur til bænda sem miðaðist eingöngu við neyslu afurða sauðfjár og mjólkur á innanlandsmarkaði en útflutningsbætur til að styrkja framleiðslu umfram innanlandsmarkað voru felldar niður. Þessu fylgdi því veruleg takmörkun fyrir bændur á framleiðslumöguleikum á mjólk og kindakjöti.
    Sala ríkisjarða fer fram á tvo vegu. Annars vegar þegar tekin er ákvörðun um sölu jarðar með almennri markaðssetningu og hún auglýst opinberlega og hins vegar þegar ábúandi beitir kauprétti sem hann öðlast eftir 10 ára búsetu skv. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, eða skv. 2. mgr. laga nr. 34/1982 um jarðasjóð. Í fyrra tilvikinu hefur ráðuneytið aldrei skilið rétt frá ríkisjörð til að selja og auglýsa sérstaklega. Væri það gert fæli það í sér að viðkomandi jörð yrði óhæf til hefðbundins búskapar og mannvirki jarðarinnar gerð ónýtanleg. Í seinna tilvikinu þegar um kaup ábúenda er að ræða eiga þeir oftast öll mannvirki á jörðinni eða meginhluta þeirra. Yrði jarðareiganda gert að greiða sérstaklega fyrir greiðslumark jarðarinnar, sem eins og áður er nefnt gefur rétt til að nýta mannvirki jarðarinnar til framleiðslu, væri verðmæti eigna hans á jörðinni skert.

     3.      Hvernig hefur fullvirðisrétti sem skráður var eign ríkisins verið ráðstafað í kjölfar sölu ríkisjarða:
                  a.      Í hve mörgum tilvikum var hann seldur sérstaklega og hvaða sjónarmið voru lögð til grundvallar við mat á verðmæti hans?
                  b.      Hefur honum í einhverjum tilvikum verið ráðstafað á annan hátt en með sölu, t.d. leigu, gjöfum eða með öðrum hætti? Ef svo er, eftir hvaða reglum var farið?

    Þar sem greiðslumark hefur ekki verið skilið frá ríkisjörðum við sölu er ekki um það að ræða að ríkið hafi ráðstafað greiðslumarki (fullvirðisrétti) í kjölfar sölu. Upplýsingar um ráðstöfun kaupenda á greiðslumarki (fullvirðisrétti) til að svara fyrirspurn undir þessum lið eru ekki til staðar í ráðuneytinu. Um er að ræða persónubundin viðskipti sem ráðuneytið hefur hvorki aðgang að né yfirlit yfir.

     4.      Hefur ráðherra veitt heimildir til þess á tímabilinu að ábúendur ríkisjarða gætu selt eða afhent fullvirðisrétt í eigu ríkisins af jörð meðan hún hefur verið í ábúð? Ef svo er, á hvaða lagaheimildum hefur það verið byggt?

    Ábúendum ríkisjarða hefur verið heimilað að afhenda fullvirðisrétt og síðar greiðslumark af ríkisjörð þegar almenn uppkaup hafa farið fram samkvæmt búvörusamningum til að hagræða við framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða í samræmi við markmið búvöursamninga. Í búvörusamningi frá í mars 1991, um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða, var samið um að ríkið keypti upp fullvirðisrétt í sauðfé er nam 3.700 tonnum. Til aðlögunar á fullvirðisrétti mjólkur að greiðslumarki árið 1992 greiddi Framleiðnisjóður landbúnaðarins fyrir fullvirðisrétt, sem bundinn var í leigu hjá sjóðnum, þegar hann losnaði. Í búvörusamningi um sauðfjárframleiðslu frá 1. október 1995 var samið um að ríkissjóður keypti upp greiðslumark í sauðfé á samningstímanum, sem var til ársloka 2000, eftir nánari ákvæðum. Í búvörusamningi um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 eru enn fremur ákvæði um uppkaup ríkissjóðs á greiðslumarki í sauðfé, en samkvæmt þeim kaupir ríkissjóður upp 45 þúsund ærgildi. Ábúendum ríkisjarða hefur verið heimilað að taka þátt í hagræðingu innan mjólkur- og sauðfjárframleiðslu samkvæmt áðurnefndum búvörusamningum. Það hefur verið gert á þann hátt að andvirði greiðslumarksins sem selt er af ríkisjörð er greitt ábúanda, en færist sem framlag til jarðarinnar. Framlag þetta afskrifast á 10 árum sem leiðir til þess að fari ábúandi af jörðinni áður en afskriftartíma lýkur endurgreiðir hann óafskrifaða upphæð á uppfærðu verðlagi til þess dags þegar ábúð lýkur. Þessi regla hefur hefur verið sú sama frá 1991 og sett til að gera ábúendum ríkisjarða mögulegt að taka þátt í þeirri hagræðingu í mjólkurframleiðslu og saufjárrækt sem áðurnefndir samingar hafa gefið kost á.
    Í þremur undantekningartilvikum hefur ábúendum ríkisjarða verið heimilað að selja greiðslumark í mjólk utan ákvæða búvörusamninga. Í þessum tilvikum var um að ræða hagræðingu í búskap vegna veikinda sem leiddu til þess að ábúendur voru ófærir um að stunda mjólkurframleiðslu. Selt var greiðslumark frá jörðunum Breiðabólsstað í Þverárhreppi, Vestur-Húnavatnssýslu, Langholti í Skaptárhreppi, Vestur-Skaftafellssýslu og Staðarfelli í Dalasýslu. Ákvörðun hefur verið tekin um að heimila ekki frekari sölu á greiðslumarki í mjólk af ríkisjörðum.

     5.      Hvernig hefur verið farið með fullvirðisrétt í eigu ríkisins við ábúðarlok og uppgjör við fráfarandi ábúanda?
    Við ábúðarlok á ríkisjörðum fer fram uppgjör eigna skv. 16. gr. ábúðarlaga, 64/1976, á þann hátt að ráðuneytið greiðir fyrir endurbætur og framkvæmdir sem ábúendur hafa gert á jörðinni á ábúðartíma sínum. Þeim er greitt sem svarar til nývirðis eigna að frádregnum afskriftum samkvæmt mati úttektarmanna eða eftir atvikum yfirmatsnefndar. Greiðslumark fylgir jörðinni sem óaðskiljanlegur hluti hennar og fá ábúendur hvorki greitt fyrir það né reiknað til kostnaðar.