Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 624, 127. löggjafarþing 193. mál: stjórn fiskveiða (krókaaflamarksbátar).
Lög nr. 129 20. desember 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     3. málsl. 5. gr. laganna orðast svo: Á sama fiskveiðiári er aðeins heimilt að veita fiskiskipi eina gerð leyfis til veiða í atvinnuskyni, þ.e. veiðileyfi með almennu aflamarki, veiðileyfi með krókaaflamarki eða leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum.

2. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 6. gr. b, svohljóðandi:
     Bátum sem veiðileyfi hafa með krókaaflamarki er heimilt að stunda veiðar úr þeim tegundum sem þeir hafa krókaaflamark í og enn fremur tegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Ráðherra skal þó setja reglur um leyfðan meðafla. Krókaaflamark er óheimilt að nýta á annan hátt en við línu- og handfæraveiðar.

3. gr.

     Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Ákvæði laganna um úthlutun, nýtingu og framsal aflahlutdeildar og aflamarks gilda einnig um krókaaflahlutdeild og krókaaflamark nema öðruvísi sé kveðið á um í þeim.

4. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Á hverju fiskveiðiári er sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta til árs í senn samtals allt að 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa miðað við óslægðan fisk til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Getur ráðherra þar á meðal ákveðið skilyrði fyrir framsali aflamarks sem úthlutað er á grundvelli þessa ákvæðis og um ráðstöfun afla sem svarar til þess sem úthlutað er samkvæmt því.

5. gr.

     2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Krókaaflahlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 6 brl. eða 6 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Við 1. málsl. 7. mgr. bætist: þó skal einungis heimilt að flytja 30% krókaaflamarks.
  2. 8. mgr. orðast svo:
  3.      Krókaaflamark verður aðeins flutt til báts sem er undir 6 brl. eða 6 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki.


7. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
  1. (I.)
  2.      Á fiskveiðiárinu 2001/2002 skal úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001, 1.800 lestum af ýsu, 1.500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa, sem skal skipt milli þeirra á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á fiskveiðiárinu 1999/2000 eða 2000/2001, að vali útgerðar. Þetta magn kemur til viðbótar við þá úthlutun í þessum tegundum sem ákveðin var í reglugerð nr. 631 16. ágúst 2001, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001/2002. Hlutdeild einstakra krókaaflamarksbáta skal hækka til samræmis við úthlutað viðbótarmagn og hlutdeild aflamarksskipa skerðast sem því nemur. Hlutur krókaaflamarksbáta skal eftir endurreikning hlutdeildar vera 14,4858770% í ýsu, 6,0736640% í ufsa og 38,3989351% í steinbít.
         Bátum sem krókaaflamarksleyfi fengu 1. september 2001 skal á fiskveiðiárinu 2001/2002 úthlutað aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001. Að úthlutun lokinni skal endurreikna aflahlutdeild og aflamark allra fiskiskipa í keilu, löngu og karfa að teknu tilliti til þeirra breytinga sem stafa af þessari úthlutun.
         Á fiskveiðiárinu 2001/2002 skal enn fremur úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001, 200 lestum af ýsu og 600 lestum af steinbít sem skiptist milli þeirra á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á fiskveiðiárinu 1999/2000 eða 2000/2001, að vali útgerðar. Þetta aukna aflamark ýsu og steinbíts á fiskveiðiárinu 2001/2002 kemur til viðbótar því heildarmagni sem ákveðið er í 1. mgr. þessa ákvæðis.
         Við ákvörðun veiðireynslu samkvæmt þessu ákvæði skal taka tillit til flutnings veiðileyfa milli krókabáta.
         Útgerðum báta, sem á fiskveiðiárinu 2000/2001 stunduðu línu- eða handfæraveiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki, er heimilt að velja á milli veiðileyfis með krókaaflamarki og veiðileyfis til handfæraveiða með dagatakmörkunum, enda hafi ekki verið flutt af bátnum krókaaflahlutdeild eða krókaaflamark. Skulu útgerðir tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 15. febrúar 2002. Tilkynni útgerðir ekki um val fyrir þau tímamörk skal bátum þeirra úthlutað veiðileyfi með krókaaflamarki. Velji útgerð veiðileyfi með dagatakmörkunum fyrir bát reiknast róðrardagar hans fyrir útgáfu veiðileyfisins til leyfilegra sóknardaga á fiskveiðiárinu 2001/2002.
  3. (II.)
  4.      Á tímabilinu 1. febrúar 2002 til 31. ágúst 2002 og á fiskveiðiárinu 2002/2003 er skipstjóra fiskiskips heimilt að ákveða að allt að 5% heildarafla hvors tímabils í botnfiski reiknist ekki til aflamarks skipsins, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
    1. Aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
    2. Aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til Hafrannsóknastofnunarinnar.

         Sé framangreind heimild nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla til Hafrannsóknastofnunarinnar að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.


8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi 6. og 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV við lög nr. 38 15. maí 1990, sbr. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II við lög nr. 1 14. janúar 1999 og a-lið 3. gr. laga nr. 93 22. maí 2000.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2001.