Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 645  —  389. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Kjósendur geti valið milli tveggja kosta:
     a.      Núverandi áforma um Kárahnjúkavirkjun með virkjun Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal ásamt með tilheyrandi stíflum, vatnaflutningum, veitum og öðrum tengdum framkvæmdum.
     b.      Frestun ákvarðana um framtíðarnýtingu svæðisins uns tekin hefur verið afstaða til verndunar þess og stofnunar þjóðgarðs með einu stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Einnig liggi þá fyrir endanleg rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvama með flokkun virkjanakosta, stefnumótun um framtíðarskipan orkumála og áætlun um orkunýtingu til lengri tíma.
    Atkvæðagreiðslan fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum 25. maí 2002.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um atkvæðagreiðsluna í samráði við allsherjarnefnd, umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis.
    Heimilt er að verja allt að 20 millj. kr. til að kynna þau meginsjónarmið sem um er kosið og verði upphæðinni skipt jafnt milli málsvara fyrrgreindra meginsjónarmiða enda sé um að ræða heildarsamtök eða samstarfsvettvang aðila sem deila sjónarmiðum í málinu. Dómsmálaráðherra setur sömuleiðis nánari reglur um þetta atriði að höfðu samráði við allsherjarnefnd Alþingis.

Greinargerð.


    Tillaga sú sem hér er flutt af öllum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerir ráð fyrir að fram fari samhliða sveitarstjórnarkosningum 25. maí 2002 þjóðaratkvæðagreiðsla um mestu framkvæmdir sem ráðgerðar hafa verið hérlendis og hafa mundu óafturkræf áhrif á náttúru landsins á stóru svæði. Að baki liggja harðar deilur um Kárahnjúkavirkjun og hugmyndir um aðrar virkjanir á þessu svæði og úrskurður umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 sem flestir viðurkenna að byggður er á þröngum pólitískum viðhorfum. Fjölmargar ástæður renna stoðum undir þá hugmynd að frekari framvinda málsins verði ráðin í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn geti tekið þátt í. Samhliða sveitarstjórnarkosningum innan fárra mánaða gefst kostur á að framkvæma slíka atkvæðagreiðslu án mikils umstangs og tilkostnaðar og áður en fyrirhugað er að teknar verði ákvarðanir um framkvæmdir. Hér á eftir verður í stuttu máli gerð grein fyrir ýmsu er snertir baksvið þessa máls.

Virkjanaáformin norðan Vatnajökuls.
    Hugmyndir um virkjun fallvatna norðan Vatnajökuls hafa verið til umræðu í rúma þrjá áratugi og hafa skoðanir manna á þeim löngum verið skiptar. Árið 1991 veitti iðnaðarráðherra Landsvirkjun með vísan til raforkulaga nr. 60/1981 heimild til framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun með það í huga að orka frá virkjuninni yrði nýtt fyrir álver á Keilisnesi sem þá var í undirbúningi á vegum Atlantsáls-samsteypunnar. Áformin um álverið runnu út í sandinn og var þá hætt við frekari undirbúning framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Á þessum árum kom fram andstaða við virkjanaáform og stórfellda vatnaflutninga norðan Vatnajökuls og settar voru fram mótaðar tillögur um friðlýsingu Snæfellssvæðisins, studdar af Náttúruverndarráði og síðar Náttúruvernd ríkisins. Þær náðu hins vegar ekki fram að ganga vegna andstöðu stjórnvalda og Landsvirkjunar.

NORAL-verkefnið.
    Síðsumars 1997 kynntu stjórnvöld hugmyndir sínar um stóriðju á Austurlandi með þátttöku Hydro Aluminium A/S, dótturfélags Norsk Hydro. Gert var ráð fyrir byggingu risaálvers á Reyðarfirði og orkuöflun til álversins frá jökulánum norðan Vatnajökuls. Í samfélaginu kom fram hörð gagnrýni á þessi tröllauknu áform og öflug umræða hófst um hálendi Íslands og óbyggðir í kjölfar ýmissa þingmála og stjórnvaldsaðgerða. Náttúruverndarfólk hélt málþing og baráttufundi til verndar hálendinu og gegn náttúruspjöllum, ótal blaðagreinar voru skrifaðar og listamenn lögðu sitt af mörkum. Á Alþingi var lögð fram tillaga um að umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar yrðu metin. Hlaut sú krafa miklar og almennar undirtektir sem fylgt var eftir með undirskriftum yfir 45.000 Íslendinga. Í júní 1999 var undirrituð á Hallormsstað yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium A/S um stóriðju á Austurlandi, kallað NORAL-verkefnið. Sú yfirlýsing gerði ráð fyrir álveri á Reyðarfirði með 480 þús. tonna afkastagetu og að orku til þess yrði aflað með Fljótsdalsvirkjun og síðar Kárahnjúkavirkjun.

Deilur um umhverfisáhrif stóriðjuframkvæmda.
    Á haustþingi 1999 lagði Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra þingsályktunartillögu fyrir Alþingi um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Um svipað leyti lagði Landsvirkjun fram skýrslu um umhverfisáhrif væntanlegra framkvæmda og var umfjöllun um hana tengd tillögu ráðherra. Deilurnar í samfélaginu mögnuðust enn og á Alþingi var tekist harkalega á um málið. Hinn 21. desember 1999 var var tillaga iðnaðarráðherra þar sem lýst er yfir „stuðningi við að haldið verði áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun“ samþykkt á Alþingi með 39 atkvæðum gegn 22. Samhliða undirbúningi að Fljótsdalsvirkjun var 480 þús. tonna álver á Reyðarfirði, sem reist skyldi í tveimur áföngum, sett í mat á umhverfisáhrifum af eignarhaldsfélaginu Hrauni ehf. Fjöldi athugasemda barst og úrskurðaði skipulagsstjóri framkvæmdina í frekara mat að þágildandi lögum. Sá úrskurður var kærður, m.a. af framkvæmdaraðila og náttúruverndarsamtökum. Hinn 25. febrúar 2000 felldi umhverfisráðherra úrskurð skipulagsstjóra úr gildi og ómerkti meðferð málsins í heild sinni. Nokkru eftir að umhverfisráðherra felldi úrskurð sinn tilkynntu aðilar að NORAL-verkefninu þá kúvendingu í málinu að fallið yrði frá áformum um Fljótsdalsvirkjun í fyrirhuguðu formi í tengslum við 120 þús. tonna áfanga í álverksmiðju á Reyðarfirði. Barátta náttúru- og umhverfisverndarsamtaka gegn Fljótsdalsvirkjun hefur eflaust haft sín áhrif á þessa ákvörðun, sem og vantrú fjárfesta á að reisa svo lítinn upphafsáfanga álvers án trygginga fyrir orkuöflun til stækkunar.

Ný NORAL-yfirlýsing.
    Í framhaldi af þessu beittu stjórnvöld sér fyrir endurskoðun NORAL-verkefnisins, í samvinnu við Norsk Hydro, og sérstakt félag, Reyðarál hf., var stofnað til undirbúnings álverksmiðju. Hinn 24. maí 2000 var ný NORAL-yfirlýsing undirrituð og gerir sú ráð fyrir allt að 420 þús. tonna álverksmiðju á Reyðarfirði í tveimur áföngum og hugsanlegri stækkun hennar síðar. Til orkuöflunar er þar gert ráð fyrir að Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal verði virkjaðar saman í svonefndri Kárahnjúkavirkjun og til hennar veitt fjölda smærri vatnsfalla á Fljótsdalsheiði og Hraunum. Jafnframt var horfið frá miðlun á Eyjabökkum en Hálslón í staðinn stækkað frá því sem áður var áformað. Gert var ráð fyrir lokaákvörðun um framkvæmdir á þessum grunni eigi síðar en 1. febrúar 2002. Sumarið 2001 var tími til ákvarðana af hálfu NORAL-aðila lengdur um allt að sjö mánuði eða til 1. september 2002.

Úrskurður Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun.
    Í maí 2001 lagði Landsvirkjun sem framkvæmdaraðili fram matsskýrslu um Kárahnjúkavirkjun. Í skýrslunni koma skýrt fram og eru viðurkennd mikil og óafturkræf áhrif virkjunarframkvæmdanna. Í lok skýrslunnar segir: „Niðurstaða Landsvirkjunar er að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir. Framkvæmdaraðili óskar því eftir því að fallist verði á framkvæmdina.“ Þessi meginniðurstaða framkvæmdaraðilans í matsskýrslu er ekki síst athyglisverð í ljósi úrskurðar umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 eins og nánar verður vikið að hér á eftir.
    Hinn 1. ágúst 2001 úrskurðaði Skipulagsstofnun að Kárahnjúkavirkjun, eins og henni var lýst í matsskýrslunni, mundi hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af framkvæmdunum, meintur efnahagslegur ávinningur þar meðtalinn, mundi vega upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif, sem virkjuninni fylgdu. Einnig taldi Skipulagsstofnun skorta upplýsingar um einstaka þætti framkvæmdarinnar svo segja mætti fyrir um endanleg áhrif hennar. Með vísan til þessa lagðist Skipulagsstofnun í úrskurði sínum gegn framkvæmdinni. Niðurstöðuna studdi stofnunin ítarlegum rökum sem gerð er nákvæm grein fyrir á þeim tæplega 300 blaðsíðum sem úrskurðurinn telur. Þegar ljóst var að Skipulagsstofnun legðist gegn Kárahnjúkavirkjun varð talsvert uppnám í samfélaginu. Tekist var á um réttmæti úrskurðarins og blönduðu ráðherrar sér í þær deilur með afgerandi hætti.

Stjórnsýslukærur.
    Þegar lögbundnum kærufresti um úrskurð Skipulagsstofnunar lauk hafði umhverfisráðherra fengið til meðferðar 122 kærur. Ein kæran var reyndar send í nafni 100 félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga, svo með réttu má segja að umhverfisráðherra hafi haft 23 sjálfstæðar kærur til að fjalla um, þar á meðal kærur til staðfestingar úrskurði Skipulagsstofnunar. Kærurnar snerust um ólíka þætti úrskurðarins. Landsvirkjun lagði fram með kæru sinni 4. september 2001 greinargerð um efnislega þætti, svonefndar viðbótarupplýsingar, og frekari gögn síðar, eða 12. október 2001. Ráðherra kallaði eftir áliti Eiríks Tómassonar lögfræðings, sem taldi ráðherranum heimilt að taka viðbótarupplýsingar framkvæmdaraðila til skoðunar á grunni rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Það mat var talið orka tvímælis af aðilum sem fylgdust með málinu og varð meðferðin sem málið fékk hjá umhverfisráðherra í heild sinni afar umdeild. Þar má m.a. nefna þá ákvörðun ráðherra að fjalla ekki um kærurnar á grundvelli þeirra gagna sem fyrir Skipulagsstofnun lágu til úrskurðar, heldur að taka til skoðunar á vegum ráðuneytisins viðbótargögn framkvæmdaraðilans. Þarna var ráðuneytið í raun að efna til endurnýjaðs matsferlis á eigin vegum sem engin fordæmi eru fyrir og ekki er gert ráð fyrir í lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Þótt almenningi væri að formi til gefinn kostur á athugasemdum um kærur og viðbótargögn var tíminn sem til þess var veittur aðeins örfáar vikur og lítil von til að menn gætu sett sig inn í málavöxtu. Einnig er rétt að nefna þá ákvörðun ráðherrans að fara með lögbundna tímafresti eftir eigin geðþótta. Í kæru var hæfi ráðherrans sem úrskurðaraðila einnig dregið í efa, m.a. vegna yfirlýstrar stefnu stjórnvalda í stóriðju- og virkjanamálum.

Umsögn Skipulagsstofnunar um kæru Landsvirkjunar.
    Þegar stjórnsýslukærurnar lágu fyrir sendi umhverfisráðherra Skipulagsstofnun þær til umsagnar ásamt viðbótargögnum þeim sem Landsvirkjun lagði fram með kæru sinni. Í umsögn Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins segir að í kærunni komi ekkert það fram sem breyta eigi niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Vert er að vekja sérstaka athygli á því sem Skipulagsstofnun segir í umsögn sinni þar sem fjallað er um skort á gögnum í matsvinnunni. Um það segir Skipulagsstofnun að „þrátt fyrir skort á gögnum um veigamikil atriði var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að á grundvelli þeirra gagna sem lágu fyrir væru framkvæmdirnar líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og því ekki önnur niðurstaða tæk en að leggjast gegn framkvæmdinni, sbr. ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.“

Úrskurður umhverfisráðherra.
    Með úrskurði sínum 20. desember 2001 felldi umhverfisráðherra úr gildi hinn kærða úrskurð Skipulagsstofnunar og fellst á Kárahnjúkavirkjun með tilteknum skilyrðum í 20 liðum. Ekkert þessara skilyrða hróflar við meginþáttum fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda né tryggir viðhlítandi mótvægisaðgerðir gegn neikvæðum umhverfisáhrifum, m.a. áfoks og uppblásturshættu á stóru svæði út frá Hálslóni. Þótt í litlu sé eru sum af þeim skilyrðum sem ráðherra setur til bóta, fyrst og fremst að falla frá ýmsum smáveitum í tenglum við annan áfanga Kárahnjúkavirkjunar. Önnur eru í raun aðeins staðfesting á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum Landsvirkjunar. Átta umræddra skilyrða varða eingöngu vöktun og rannsóknir. Þá virðist gæta ókunnugleika hjá ráðherra varðandi a.m.k. eitt nefndra skilyrða (Tröllkonustígur).
    Með úrskurðinum sneri umhverfisráðherra ekki aðeins við úrskurði Skipulagsstofnunar heldur breytti jafnframt lagalegum grundvelli mats Kárahnjúkavirkjunar frá því sem Landsvirkjun og Skipulagsstofnun höfðu unnið mat sitt eftir og sama á við um mat á framkvæmdaáformum Reyðaráls hf. Er þar um að ræða þá lagatúlkun umhverfisráðuneytisins að efnahagslegir þættir eigi ekki heima í mati á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Einmitt á því atriði hafði Landsvirkjun byggt niðurstöðu matsskýrslu sinnar þar sem staðhæft var að „umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir. Framkvæmdaraðili óskar því eftir því að fallist verði á framkvæmdina.“ Úrskurður umhverfisráðherra 20. desember 2001 felur í sér að „ekki skuli líta til þjóðhagslegra áhrifa framkvæmdar þegar tekin er afstaða til þess hvort fallist sé á hana eða lagst gegn henni“ (bls. 121).
    Um þetta atriði segir m.a. í úrskurði umhverfisráðherra: „er ráðuneytið sammála því sjónarmiði, sem fram kemur í kæru Náttúruverndarsamtaka Austurlands, að við mat á umhverfisáhrifum beri ekki að vega saman neikvæð áhrif á umhverfið annars vegar og efnahagslegan ávinning hins vegar. Samkvæmt því skuli taka afstöðu til framkvæmdar án tillits til þjóðhagslegs ávinnings eða taps.“ (bls. 115). Og enn fremur: „er það álit ráðuneytisins að ekki beri að fjalla um þjóðhagsleg áhrif framkvæmdarinnar og arðsemi hennar við mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.“ (bls 115).
    Aðalmótvæginu gegn náttúruspjöllunum, meintum efnahagslegum ávinningi af Kárahnjúkavirkjun að mati Landsvirkjunar og sem Skipulagsstofnun hafði reiknað með í sínum úrskurði, er þannig kippt burt sem málsástæðu, bæði í þessu tilviki og eftirleiðis við mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Með þetta í huga verður enn ótrúverðugri en ella sú niðurstaða umhverfisráðherra að snúa við úrskurði Skipulagsstofnunar og heimila framkvæmdina að því er mat á umhverfisáhrifum áhrærir. Hér ræður því pólitísk en ekki fagleg afstaða niðurstöðu ráðherrans.
    Hvað varðar atvinnuþróun sem sölu orkunnar fylgir er nauðsynlegt að hafa í huga að mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar er af hálfu Landsvirkjunar formlega sett fram óháð því hver verða kunni kaupandi að orku frá virkjuninni og þá um leið hvar á landinu sá notandi verði staðsettur. Mat framkvæmdaraðila er að sjálf virkjunin skapi í rekstri innan við 20 ársverk. Þá má minna á að arðsemi virkjunarinnar, og reyndar verkefnisins í heild, hefur verið dregin mjög í efa. Hagfræðingar hafa birt útreikninga sem benda til mikils taps af virkjuninni og það þótt landið og náttúran sem spillist sé ekki metið á eina einustu krónu.

Viðbrögð við úrskurði umhverfisráðherra.
    Þegar úrskurður ráðherra lá fyrir sendu formenn níu umhverfis- og náttúruverndarsamtaka frá sér harðorða ályktun þar sem segir m.a.: „Í ljósi þess að Kárahnjúkavirkjun myndi valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi til þessa er niðurstaða ráðherra óskiljanleg. Veruleg og óafturkræf áhrif virkjunarinnar, sem Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn á, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, blasa við hverjum þeim sem kynnir sér framkomnar upplýsingar. Tæpast er hægt að ímynda sér stórfelldari röskun af mannavöldum á náttúru landsins.“ Jafnframt því sem formenn þessara félagasamtaka mótmæla úrskurði ráðherra lýsa þeir því yfir að þeir „munu beita sér fyrir því að málsmeðferð og forsendur fyrir úrskurðinum verði athugaðar vandlega og metið hvort ástæða sé til að fara með málið fyrir dómstóla.“ Ályktunin er birt sem fylgiskjal I með tillögunni.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sendi frá sér yfirlýsingu 21. desember 2001 þar sem úrskurði ráðherrans var mótmælt sem hreinni pólitískri valdbeitingu og það gagnrýnt að málinu væri fundinn nýr farvegur utan laga, einhvers konar málamynda- viðbótarmat á vegum umhverfisráðuneytisins. Yfirlýsing þingflokksins er birt sem fylgiskjal II með tillögunni.
    Af þessum og síðari viðbrögðum við úrskurði umhverfisráðherra er ljóst að því fer fjarri að með málatilbúnaði og úrskurðinum hafi skapast einhver sátt meðal þjóðarinnar um Kárahnjúkavirkjun og tengdar framkvæmdir. Margir hafa orðið til að draga í efa hæfi Sivjar Friðleifsdóttur til að úrskurða í málinu þar sem hún væri skuldbundin ríkisstjórninni og stefnu hennar í stóriðju- og virkjanamálum og vegna fyrri yfirlýsinga. Einnig var ráðherrann gagnrýndur fyrir að úrskurða í málinu örfáum dögum fyrir jól, þegar flestir eru í jólaönnum.

Rammaáætlun um vatnsafl og jarðvarma.
    Í framhaldi af heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Ríó 1992, ræddu íslensk stjórnvöld hvernig þau gætu fylgt eftir Ríó-yfirlýsingunni og öðrum samþykktum ráðstefnunnar. Liður í þeirri umræðu var umhverfisþing sem haldið var 1996 en þar kom fram áskorun á ríkisstjórnina að skipa starfshóp til að vinna langtímaáætlun um nýtingu orkulindanna. Í framhaldi af því samþykkti ríkisstjórnin svohljóðandi ályktun: „Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.“
    Á haustdögum 1999 skipaði iðnaðarráðherra, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, verkefnisstjórn undir forustu Sveinbjörns Björnssonar, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands. Í tengslum við verkefnisstjórnina starfa fjórir faghópar, sem hver um sig skoðar virkjanahugmyndir út frá ólíkum sjónarhóli, flokkar þær og gerir tillögur til verkefnisstjórnarinnar. Það tók hópana og verkefnisstjórnina ærinn tíma að hanna aðferðafræðina sem unnið skyldi eftir, en nú er hún orðin nokkuð mótuð og miðar vinnunni vel áfram þótt of naumur tími hafi verið ætlaður til verksins. Það hefur tafið vinnuna að mikið vantaði á að tiltæk væru nauðsynleg náttúrufarsgögn og fleiri upplýsingar. Náttúrufræðistofnun hefur verið fengin til að framkvæma rannsóknir á tilteknum svæðum, en slíkt tekur eðlilega nokkurn tíma. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra hefur nýverið ákveðið að krefja faghópana og verkefnisstjórnina um nokkurs konar „skemmri skírn“ á einhverjum hluta rammaáætlunarinnar. Stangast það á við upphaflegt markmið vinnunnar sem átti að miða að því að losna úr sjálfheldu og deilum um virkjanakosti og skapa heildarsýn til náttúruverndar og orkuframleiðslu. Því leysir það engan vanda að óska eftir bráðabirgðaniðurstöðum um einstaka fáa virkjanakosti. Í því sambandi vísast til þess sem Finnur Ingólfsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði þegar vinnu við rammaáætlunina var hrundið af stað: „Brýnt er að rammaáætlunin njóti trausts í samfélaginu.“

Ný löggjöf.
    Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frumvarp að raforkulögum, sem ætlað er að breyta í ýmsum grundvallaratriðum fyrirkomulagi raforkumála á Íslandi. Frumvarpið, sem byggist á tilskipun frá Evrópusambandinu, gerir ráð fyrir að skapaðar verði forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og sölu á raforku. Frumvarpið hefur þegar verið talsvert rætt í samfélaginu og reynist vera umdeilt. Á orkuþingi sem haldið var 11.–13. október 2001 sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra að frumvarpið yrði lagt fram í endurnýjuðum búningi á yfirstandandi þingi og að tilskipun Evrópusambandsins kallaði jafnframt á breytingar á lögum um raforkuver, lögum um Landsvirkjun og lögum um rannsóknir á auðlindum í jörðu. Þá tilkynnti hún einnig að hafin væri endurskoðun vatnalaganna, auk þess sem stefnt væri að nýrri lagasetningu um Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og setningu sérlaga um hitaveitur. Framundan er því að öllum líkindum mjög breytt landslag í raforkumálum á Íslandi. Jafnframt blasir við þörf fyrir heildstæða áætlun um orkunýtingu til lengri tíma með hliðsjón af umhverfisvernd og alþjóðlegum skuldbindingum, sem og því hvaða orka geti fyrirsjáanlega verið til ráðstöfunar, hvernig skynsamlegt sé að nýta þá orku og hversu hratt við ætlum að ganga á orkulindir landsins?

Verndun landsins norðan Vatnajökuls.
    Í allri þeirri umræðu sem fram hefur farið um mögulegar virkjanir á svæðinu norðan Vatnajökuls hefur oft verið hreyft hugmyndum um annars konar nýtingu landsins en þá sem fæli í sér að virkja jökulvötnin. Margir hafa viljað skoða möguleikann á verndun landsins með það að markmiði að stofna þar öflugan þjóðgarð, sem eflt gæti íslenska ferðaþjónustu til muna. Í viðbrögðum sem bárust við matsskýrslu Landsvirkjunar var af ýmsum óskað eftir að þjóðgarðshugmyndinni yrði stillt upp sem raunverulegum valkosti við hlið hugmynda um virkjun fallvatnanna. Vinstri hreyfingin – grænt framboð ályktaði um málið og fór þess formlega á leit við umhverfisráðherra að lagt yrði sjálfstætt mat á þann kost að stofna þjóðgarð á hálendinu norðan Vatnajökuls. Slíkt gerðu einnig níu náttúruverndar- og umhverfissamtök, sem í sameiningu sendu umhverfisráðherra áskorun í júní 2000. Viðbrögð umhverfisráðherra urðu þau að óska eftir því við iðnaðarráðherra að verkefnisstjórn Rammaáætunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma kæmi að málinu. Í framhaldinu var skipaður starfshópur með þátttöku Náttúruverndar ríkisins, sem falið var að hafa umsjón með mati á því hvert gildi landsvæðið norðan Vatnajökuls hefði fyrir náttúruvernd, útivist og þjóðgarð. Þá skyldi jafnframt kannað hver áhrif virkjun við Kárahnjúka gæti haft á náttúruvernd á svæðinu. Stefán Benediktsson, fyrrverandi þjóðgarðsvörður, var ráðinn starfsmaður starfshópsins og hefur hann skilað skýrslu um málið. Þar kemur fram að gildi svæðisins sé mikið með tilliti til náttúruverndar og útivistar og að virkjun við Kárahnjúka mundi rýra það verulega. Í úrskurði umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 er því hafnað að taka afstöðu til hugmyndarinnar um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls og einnig er alfarið hafnað kröfunni um það að landið sem færi undir fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun verði metið til fjár með þeim aðferðum sem hagfræðingar hafa þróað til slíkra nota og kallaðar eru skilyrt verðmætamat.

Vilji þjóðarinnar og skyldur stjórnvalda.
    Kannanir sem gerðar hafa verið um afstöðu almennings til Kárahnjúkavirkjunar hafa sýnt að andstæðar skoðanir eru uppi um framkvæmdina og að þjóðin skiptist í fylkingar í afstöðu sinni. Einnig sést af blaðagreinum og skoðanaskiptum á netmiðlum að almenningur lætur sig málið miklu skipta. Hér er um óafturkræfar aðgerðir að ræða sem kæmu til með að hafa áhrif löngu eftir daga þeirra sem nú bera ábyrgð á náttúru Íslands og byggja íslenskt samfélag. Einnig ber að líta á málið útfrá alþjóðlegum skuldbindingum okkar í umhverfismálum, svo sem Ríó-yfirlýsingunni, rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og samningnum um líffræðilega fjölbreytni, að ógleymdri áætlun um sjálfbær Norðurlönd sem Íslendingar eiga aðild að. Þá gera tilskipanir Evrópusambandsins kröfur til undirbúnings ákvarðana um framkvæmdir af þessu tagi, m.a. eru tilskipanir ESB grundvöllur laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Með alþjóðasamningum höfum við undirgengist mikilvægar skyldur er snerta varúð í umhverfismálum, trúverðugleika og gagnsæi í umfjöllun um þau og um að láta fara fram hlutlægt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda áður en ákvarðanir um þær eru teknar. En skyldur okkar lúta ekki síður að því að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð við mat á umhverfisáhrifum. Um lýðræðislegu hliðina í þessu tiltekna máli má segja að margir telji stjórnvöld hafa farið offari í beitingu valds síns.

Þjóðaratkvæði.
    Þingsályktunartillaga sú sem hér er flutt gerir ráð fyrir að tryggja lýðræðislega niðurstöðu í þessu viðkvæma og afdrifaríka deilumáli með því að bera það undir dóm þjóðarinnar. Lagt er til að Alþingi álykti um að fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor og gert er ráð fyrir því að kjósendur geti þar valið um þá tvo kosti sem tillagan gerir ráð fyrir. Þá er í tillögunni kveðið á um að ríkissjóður styrki aðila ólíkra sjónarmiða til að standa fyrir kynningu á sjónarmiðum sínum og ýta með því undir almenna umræðu um málið með það að markmiði að fólk geti gert upp hug sinn á málefnalegum forsendum.
    Flutningsmenn tillögunnar eru andvígir stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar og byggingu Kárahnjúkavirkjunar og hafa ítrekað gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Í ljósi eðlis þessa máls og hversu afdrifarík niðurstaða í því getur orðið fyrir nútíð og komandi kynslóðir telja flutningsmenn full rök standa til að gefa öllum kosningabærum mönnum tækifæri til að taka afstöðu til framhalds þess í almennri atkvæðagreiðslu. Með kosningunni yrði tryggt að ekki yrði af byggingu Kárahnjúkavirkjunar í andstöðu við vilja meiri hluta þjóðarinnar.



Fylgiskjal I.


Úrskurður umhverfisráðherra alvarlegt áfall fyrir náttúruvernd á Íslandi.
(Yfirlýsing formanna níu umhverfis- og náttúruverndarsamtaka.)

    Formenn neðangreindra umhverfis- og náttúruverndarsamtaka hafa á fundi sínum í dag fjallað um úrskurð umhverfisráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar.
    Í ljósi þess að Kárahnjúkavirkjun myndi valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi til þessa er niðurstaða ráðherra óskiljanleg. Veruleg og óafturkræf áhrif virkjunarinnar, sem Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn á, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, blasa við hverjum þeim sem kynnir sér framkomnar upplýsingar Tæpast er hægt að ímynda sér stórfelldari röskun af mannavöldum á náttúru landsins.
    Í þessu sambandi er minnt á eftirfarandi:
     *      Kárahnjúkavirkjun mun eyðileggja eitt stærsta hálendisvíðerni í Evrópu með mannvirkjagerð á um 1000 km2 svæði og spilla fjölbreyttu gróðurlendi á allt að 600 km 2 svæði, sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá sjó inn til jökla. Líta ber á hálendisgróður ofan við 500 m hæð sem fágæta og verðmæta auðlind.
     *      Ómetanlegar jarðfræðiminjar og landslagsheildir á heimsvísu yrðu eyðilagðar eða þeim raskað verulega með virkjunarframkvæmdunum.
     *      Meira en 100 fossar yrðu fyrir röskun af völdum virkjunarinnar og sumir þeirra hyrfu alveg.
     *      Stórfelldir vatnaflutningar einkenna virkjunina þar sem m. a. eitt stærsta vatnsfall landsins, Jökulsá á Dal, yrði flutt á milli vatnasviða og veitt í Lagarfljót.
     *      Nánast ekkert vatnakerfi á virkjunarsvæðinu stæði eftir óraskað. Lífríki í stöðuvötnum og fjölmörgum ám mun eyðast eða raskast verulega, einangruðum stofnum verður útrýmt eða þeim blandað saman við aðra stofna.
     *      Þýðingarmikil varpsvæði og fjaðrafellistaðir fugla eyðilegðust á sjálfu virkjanasvæðinu og samfara vatnaflutningum á Úthéraði. Mikilvæg búsvæði hreindýra og sela myndu raskast eða eyðileggjast.
    Standi úrskurður umhverfisráðherra mun hann hafa fordæmisgildi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og stefnir í hættu þeim miklu verðmætum sem felast í íslenskri náttúru og landslagi.
     Undirritaðir formenn mótmæla úrskurði umhverfisráðherra og munu beita sér fyrir því að málsmeðferð og forsendur fyrir úrskurðinum verði athugaðar vandlega og metið hvort ástæða sé til að fara með málið fyrir dómstóla.

Anna Guðrún Þórhallsdóttir, SÓL í Hvalfirði,
Árni Finnsson, Náttúruverndarsamtök Íslands,
Björn Þorsteinsson, Náttúruverndarsamtök Vesturlands,
Halla Eiríksdóttir, NAUST,
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, SUNN,
Jóhann Óli Hilmarsson, Fuglaverndarfélag Íslands,
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, Landvernd,
Steingrímur Hermannsson, Umhverfisverndarsamtök Íslands,
Þórhallur Þorsteinsson, Félag um verndun hálendis Austurlands.




Fylgiskjal II.


Yfirlýsing þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs
um Kárahnjúkavirkjun

(21. desember 2001.)


    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmælir harðlega úrskurði umhverfisráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar.
    Með úrskurði sínum gengur ráðherra þvert gegn faglegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem gaf Kárahnjúkavirkjun algjöra falleinkunn, enda ljóst að virkjunin ein og sér hefði í för með sér meiri umhverfisspjöll, jarðrask og óafturkræfar breytingar á landslagi og náttúrufari en nokkru sinni hefur verið efnt til hér á landi og þó víðar væri leitað. Með framkvæmdunum er stærsta ósnortna víðerni Evrópu raskað og möguleikum til annars konar nýtingar spillt. Verði ráðist í framkvæmdirnar verður sú ákvörðun aldrei aftur tekin, svæðið norðan Vatnajökuls verður aldrei samt.
    Skilyrðin sem ráðherra setur fyrir framkvæmdinni draga aðeins að mjög litlu leyti úr þeim óbætanlega skaða sem virkjunin hefði í för með sér. Þau eru yfirleitt því marki brennd að útlátalítið er fyrir Landsvirkjun að fallast á þau. Skilyrðin skerða fyrirhugað afl virkjunarinnar aðeins um 4% og í mörgum tilvikum er verið að fjalla um sjálfsagða hluti eins og að hanna mannvirki með tilliti til aðstæðna. Annað sem Landsvirkjun er gert að falla frá, eins og að eltast við smálæki upp að rótum Snæfells, var fyrst og fremst til marks um ótrúlega ósvífin áform sem e.t.v. var hvort sem er aldrei mikil alvara á bak við.
    Úrskurður umhverfisráðherra er hrein pólitísk valdbeiting. Sá tími sem liðinn er síðan Skipulagsstofnun kvað upp sinn úrskurð 1. ágúst sl. virðist fyrst og fremst hafa farið í að leita leiða til að láta fyrirfram ákveðna niðurstöðu líta skár út. Nýr farvegur var búinn til fyrir málið utan laga, einhvers konar málamynda-viðbótarmat á vegum ráðuneytisins, og er það eitt út af fyrir sig dæmafár gjörningur. Þrátt fyrir þetta tekst ekki að sýna fram á neitt nýtt sem réttlæti úrskurð umhverfisráðherra. Með honum er ráðherrann augljóslega að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar um að Kárahnjúkavirkjun skuli byggð hvað sem umhverfisspjöllum líði. Ráðherrann er því vanhæfur til að úrskurða í málinu sem hlutlægur aðili og hefði borið að víkja sæti.
    Með þessum úrskurði og framgöngu sinni hefur Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra brugðist þeim málaflokki sem hún ber ábyrgð á. Alger trúnaðarbrestur er þar með orðinn milli náttúruverndarsjónarmiða, -fólks og -samtaka og núverandi valdhafa.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mun taka málið upp á Alþingi strax og þing kemur saman. Jafnframt skorar þingflokkurinn á almenning og alla náttúruunnendur að halda vöku sinni gagnvart þeirri grímulausu pólitísku valdbeitingu sem umhverfisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar beitir í þessu máli.