Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 652  —  395. mál.




Fyrirspurn



til samgönguráðherra um starfslokasamninga hjá Landssímanum.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hver eru þau starfskjör sem samið var um í ráðningarsamningi við fyrrverandi forstjóra Landssímans, sem lét af störfum í desember sl., til hve langs tíma var starfslokasamningurinn og hvernig sundurliðast greiðslur og kjör milli launa og annarra fríðinda? Hvert er mat ráðherra á þessum samningi?
     2.      Eru laun og önnur starfskjör sem samið var um í starfslokasamningnum greidd óháð því hvort forstjórinn fyrrverandi tekur við öðru starfi á gildistíma starfslokasamningsins sem færir honum sambærileg eða hærri laun en starfslokasamningurinn kveður á um?
     3.      Var hafinn undirbúningur að sölu Landssímans þegar framangreindur starfslokasamningur, sbr. 1. tölul., var gerður?
     4.      Var starfslokasamningurinn gerður með vitund og vilja annars vegar ráðherra og hins vegar stjórnar Landssímans og hver ber ábyrgð á gerð þessa samnings?
     5.      Hvað kostar þessi starfslokasamningur og aðrir þeir starfslokasamningar sem í gildi eru og gerðir hafa verið við fyrrverandi forstjóra Landssímans, hve langur var gildistími þeirra samninga og hverjar voru greiðslur og önnur kjör samkvæmt þeim samningum?
     6.      Hafa verið gerðir ráðningarsamningar við aðra yfirmenn eða stjórnendur Landssímans sem fela í sér sérkjör við starfslok umfram hefðbundinn rétt samkvæmt starfsmannalögum á sl. átta árum? Ef svo er, við hverja hafa slíkir samningar verið gerðir og hverjir þeirra hafa þegar komið til framkvæmda?


Skriflegt svar óskast.