Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 676  —  417. mál.
Frumvarp til lagaum afnám gjalds á menn utan trúfélaga.

Flm.: Mörður Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir.1. gr.

    Maður utan trúfélags, sbr. lög um skráð trúfélög, skal ekki greiða Háskóla Íslands, né neinum öðrum, gjöld sem honum hefði ella borið að greiða trúfélagi sínu, sbr. 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum:
     1.      Í stað orðanna „Þjóðkirkjusöfnuðir, skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög, nr. 18/1975, og Háskólasjóður“ í 1. gr. laganna kemur: Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um skráð trúfélög.
     2.      Í stað orðanna „þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands“ í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga.
     3.      4. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
     4.      Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                  Ríkissjóður skal endurgreiða einstaklingi sem hvorki er í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi, samkvæmt lögum um skráð trúfélög, fjárhæð sem nemur gjaldinu.
     5.      Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Um hlutdeild þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga í tekjuskatti.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu vegna tekna á árinu 2002.

Greinargerð.


    Trúfrelsi ríkir á Íslandi og var komið á með stjórnarskránni 1874. Ákvæði núverandi stjórnarskrár um frelsi til að stofna trúfélag er að finna í 63. gr. og til að standa utan trúfélaga í 2. mgr. 64. gr. Félagafrelsi er tryggt í 74. gr., bæði rétturinn til að stofna félag og ákvæði um að engan megi skylda til aðildar að félagi.
    Samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, sér ríkisvaldið um að innheimta fast gjald til þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trúfélaga. Má líta svo á að þessum innheimtustörfum hafi verið komið svo fyrir vegna þeirra sérstöku tengsla ríkisins við evangelísk-lútersku kirkjuna sem kveðið er á um í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á þessari skipan.

Prentað upp.

    Hér er hins vegar lagt til að sérstök gjaldheimta á fólk utan trúfélaga verði stöðvuð. Einstaklingur sem kýs að vera utan trúfélaga nýtir sér þar með rétt sinn samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrár til að standa utan félaga. Það er í ósamræmi við 74. gr. og 2. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar að trúfélögum sé gert svo hátt undir höfði að réttinum til að standa utan þeirra fylgi sú kvöð að greiða til alls óskyldra hluta sama gjald og sá greiðir sem kýs að vera í trúfélagi.
    Að sinni hentar illa að fella einfaldlega brott 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar, þá sem kveður á um hina einkennilegu skattrefsingu þeirra sem kjósa að standa utan trúfélaga. Er því lagt til að nýtt sé heimild lokamálsliðar sömu greinar um breytingu með almennum lögum. Um hana segir svo í Stjórnskipunarrétti Gunnars G. Schrams (Reykjavík 1997), bls. 469: „Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 64. gr. er heimilt að breyta með lögum þeirri skipan að menn utan trúfélaga greiði gjöld til Háskóla Íslands. Með almennum lögum má því ákveða að gjöld þeirra renni t.d. í ríkissjóð eða til einhverrar annarrar ókirkjulegrar stofnunar en Háskólans eða afnema þau alveg.“
    Háskólasjóður hefur haft verulegar tekjur af svokölluðum „sóknargjöldum“ fólks utan trúfélaga. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir að þær verði 76 millj. kr. á árinu (bls. 270), en í þingskjali nr. 711 frá 121. löggjafarþingi 1996–1997 er því lýst hvernig Háskólasjóður varði tekjum sínum árin 1988–1996. Er ljóst að sjóðnum þarf að finna nýjan tekjustofn. Verkefni hans geta á hinn bóginn ekki talist slík þjóðarnauðsyn að fjár sé aflað til þeirra með sérstöku gjaldi á umræddan hóp fólks í samfélaginu og vant að sjá rök fyrir þeirri skipan.
    Þess skal getið að hvergi á Norðurlöndum nema hér tíðkast skattheimta af þessu tagi og ekki í þeim Evrópuríkjum öðrum sem spurnir hafa fengist af.
    Frumvarp þetta var áður flutt á 125. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Þær breytingar hafa verið gerðar frá því frumvarpi og frá fyrstu gerð frumvarpsins á þessu þingi að í 2. gr. er sérstaklega tiltekið að einstaklingum utan trúfélaga skuli endurgreidd sú upphæð sem nemur sóknargjaldinu. Flutningsmenn þakka Ástu Möller ábendingu sem leiddi til þessarar breytingar. Árið 1999 bárust allsherjarnefnd umsagnir um frumvarpið frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Siðmennt, félagi um borgaralegar athafnir, Samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju og guðfræðideild Háskóla Íslands. Í stuttu máli mæla allir umsegjendur með frumvarpinu nema guðfræðideild. Umsagnir þeirra fylgja þessari greinargerð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 64. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum er frjálst að standa utan trúfélaga og að enginn sé skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að. Hins vegar er boðið í 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar að maður sem stendur utan trúfélaga greiði til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Stjórnarskárgjafinn heimilar að reglunni um gjaldskyldu manns utan trúfélaga megi breyta með lögum. Hér er lagt til að þessi gjaldskylda þeirra sem standa utan trúfélaga verði afnumin.

Um 2. gr.

    Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, gera ráð fyrir ákveðinni hlutdeild trúfélaga og Háskólasjóðs í álögðum tekjuskatti hverju sinni. Þar sem ekki er gert ráð fyrir gjaldskyldu manna sem standa utan trúfélaga er nauðsynlegt að fella niður ákvæði í 3. gr. laganna sem fjallar um skyldu þeirra til að greiða gjald til Háskóla Íslands og jafnframt er nauðsynlegt að fella brott úr lögunum allar vísanir til Háskóla Íslands og Háskólasjóðs. Í staðinn er sett inn ákvæði um að ríkissjóður skuli endurgreiða þeim sem standa utan þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga fjárhæð sem nemur gjaldinu.

Um 3. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en þar sem gjöld sem greidd eru í samræmi við 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar eru ákveðin hlutdeild af tekjuskatti er nauðsynlegt að miða framkvæmd við álagningu vegna tekna á árinu 2002.

Fylgiskjal I.

Umsagnir um hliðstætt frumvarp á 125. löggjafarþingi
(þskj. 155, 134. mál).


Umsögn Bjarneyjar Friðriksdóttur f.h.
Mannréttindaskrifstofu Íslands (16. desember 1999).

    Mannréttindaskrifstofan telur að sú breyting sem mælt er fyrir um með frumvarpinu, þ.e. afnám gjalda á menn sem standa utan trúfélaga, samræmist meginsjónarmiðum trúfrelsis og því mælir Mannréttindaskrifstofan með því að frumvarpið verði samþykkt.

Umsögn Jóns K. Kalmanssonar f.h. siðfræðistofnunar
Háskóla Íslands (23. desember 1999).

    Mælt er með því að frumvarp þetta verði samþykkt sem lög frá Alþingi. Alfarið er komið undir frjálsum vilja manna hvort þeir eru í trúfélagi eður ei. Skilyrðislaus réttur þeirra er að vera ekki skyldaðir til aðildar að slíku félagi. Sé aðild að trúfélagi á annað borð frjáls þá hefur ríkisvaldið – sem tekið hefur að sér að innheimta gjald til skráðra trúfélaga – engar haldbærar ástæður til að innheimta sama gjald af þeim sem standa utan þeirra og láta það renna til annarra hluta; einungis ætti að innheimta slíkt gjald af þeim sem eru í trúfélagi. Sá sem tekur ákvörðun um að standa utan trúfélaga tekur þar með ákvörðun um að axla ekki þær skuldbindingar – fjárhagslegar eða af öðrum toga – sem aðild að trúfélagi hefur í för með sér. Honum á þá jafnframt að vera frjálst að ráðstafa þeim fjármunum sem hann ella myndi greiða til eins eða annars trúfélags. Með því að innheimta umrætt gjald af þeim sem standa utan trúfélaga og láta það renna til háskólans er ríkisvaldið í raun og veru að leggja sérskatt á þennan tiltekna hóp – á þeirri forsendu einni að hann stendur utan trúfélaga. Réttlátara og eðlilegra er að afleggja þennan skatt.
    Háskóli Íslands hefur skipulagt uppbyggingu og rekstur háskólans meðal annars út frá þeim tekjum er renna í Háskólasjóð. Samþykkt frumvarpsins hefur í för neð sér verulegt tekjutap fyrir háskólann sem getur komið hart niður á mikilvægum þáttum í starfsemi hans. Því er nauðsynlegt að samfara samþykkt frumvarpsins finni ríkisvaldið aðrar leiðir til að tryggja háskólanum samsvarandi tekjur.

Umsögn guðfræðideildar Háskóla Íslands,
samþykkt á deildarfundi 20. desember 1999.

    Gjaldi því, sem lagt er til að fellt sé niður samkvæmt frumvarpi þessu, er ætlað að jafna aðstöðu þeirra sem eiga aðild að trúfélögum og hinna sem kjósa að standa utan trúfélaga, sem og að tryggja að enginn sé skyldaður til að greiða til trúfélags sem hann er ekki þátttakandi í. Tillögur hafa áður komið fram um að fella gjald þetta niður en ekki náð fram að ganga. (Sjá Magnús Jónsson: Alþingi og kirkjumálin 1845–1943. Reykjavík 1952.)
    Ef tryggja á óskorað trúfrelsi í landinu er m.a. mikilvægt:
     *      að enginn sé skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að (sbr. 64. gr. stjórnarskrárinnar),
     *      að trúfélögum sé ekki mismunað með mismunandi fjárveitingum eða fjárhagslegri fyrirgreiðslu frá hinu opinbera,
     *      að opinberum gjöldum einstaklinga sé hvorki með beinum eða óbeinum hætti ráðstafað til eflingar trúfélaga sem viðkomandi á ekki aðild að.
    Ekki verður séð að gjaldtaka á borð við þá sem hér um ræðir skerði trúfrelsi í ofangreindum atriðum. Það kann þó að koma í veg fyrir að fólk velji að standa utan trúfélaga af fjárhagsástæðum einum saman. Á þann hátt má líta á það sem óbeinan stuðning við starf trúfélaga almennt án þess að stuðningurinn beinist að neinu einu félagi. Hins vegar verður ekki séð að hann brjóti í bága við trúfrelsi eða skerði það. […]

Umsögn Páls Halldórssonar f.h. Samtaka um
aðskilnað ríkis og kirkju (14. janúar 2000).

    SARK, Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju, hafa fengið til umsagnar frumvarp til laga um afnám gjalds á menn utan trúfélaga.
    Að mati SARK er hér hreyft mikilsverðu máli, þar sem um er að ræða afnám á sérstakri skattheimtu til Háskóla Íslands af þeim sem annaðhvort eru utan trúfélaga eða tilheyra trúfélagi sem ekki hefur fengið skráningu.
    Í stefnuskrá SARK segir: Samtökin telja innheimtu ríkisins á sóknargjöldum viðunandi því aðeins að öll trúfélög fái sömu kjör og kirkjan. Fólki utan trúfélaga verði tryggður réttur til að ákveða sjálft til hvaða félags eða stofnunar gjald það rennur sem greitt er í stað sóknargjalda. Gjöld þeirra sem ekki nýta sér þennan rétt renni til háskólafræðslu í landinu.
    Í samræmi við þetta telja samtökin að forsendur fyrir innheimtu ríkisins á sóknargjöldum séu: 1) Að fullt jafnræði verði tryggt meðal trúfélaga. 2) Að menn eigi það ekki undir ákvörðunum stjórnvalda hvort félög sem þeir stofna í þeim tilgangi að rækja trú sína séu skráð sem trúfélög. 3) Að þeir sem kjósa að standa utan trúfélaga ákveði sjálfir hvernig þeim peningum sé varið sem aflað er með þessari skattheimtu. Ekkert ofangreindra skilyrða er fyrir hendi.
    Við þessar aðstæður telja samtökin það með öllu óðelilegt að þeir sem eru utan skráðra trúfélaga greiði sérstakan skatt til Háskóla Íslands og mæla með því að frumvarpið verði samþykkt.

Umsögn Hope Knútsson f.h. Siðmenntar, félags áhugafólks
um borgaralegar athafnir (16. desember 1999).

    Siðmennt, félag áhugafólks um borgaralegar athafnir, var stofnað 1990. Félagið er málsvari mannúðarstefnu og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum og stendur fyrir borgaralegum athöfnum. Siðmennt leggur áherslu á virðingu fyrir félagafrelsi, frelsi manna til að standa utan félaga, skoðanafrelsi og virðingu fyrir trúarafstöðu. Alþingi hefur ákveðið að þeir sem standa utan trúfélaga borgi sama félagsgjald og þeir sem tilheyra trúfélagi. Meint félagsgjald utantrúfélagsmanna rennur síðan í sjóð þriðja aðila sem hefur ekkert með trúarafstöðu þeirra að gera. Siðmennt telur það refsingu að taka félagsgjald af þeim sem kjósa að vera ekki í trúfélagi. Allar refsingar til handa þeim sem taka þá afstöðu að standa utan trúfélaga skerða frelsi þeirra.
    Stjórn Siðmenntar lýsir fullum stuðningi við frumvarp Marðar Árnasonar.