Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 688  —  428. mál.




Frumvarp til laga



um brottfall laga um kirkjubyggingasjóð, nr. 21 18. maí 1981.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Kirkjubyggingasjóður, sem starfar á grundvelli laga nr. 21 18. maí 1981 og stofnaður var með lögum nr. 43 14. apríl 1954, skal lagður niður og renna í Jöfnunarsjóð sókna, sem starfar á grundvelli laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91 29. desember 1987.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla brott lög um kirkjubyggingasjóð, nr. 21 18. maí 1981.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að tilhlutan kirkjuráðs þjóðkirkjunnar. Í því felst að kirkjubyggingasjóður, sem stofnaður var með lögum nr. 43/1954, skuli lagður niður en gildandi lög um kirkjubyggingasjóð eru nr. 21/1981.
    Samkvæmt lögum um kirkjubyggingasjóð er hlutverk hans að veita lán til kirkjubygginga og endurbóta á eldri kirkjum. Lán hafa aðeins lítillega verið veitt úr sjóðnum undanfarin ár, enda hefur fé ekki verið veitt til sjóðsins í fjárlögum um árabil og snýst því rekstur hans fyrst og fremst um varðveislu eigna, sem eru sjóður og útistandandi kröfur hjá sóknum sem hafa fengið lán. Tekjur sjóðsins árið 2000 voru eingöngu fjármunatekjur. Námu þær 8,7 millj. kr. af löngum lánum og 4,3 millj. kr. af skammtímakröfum og bankainnstæðum. Árið 1999 var ekkert nýtt lán veitt. Árið 2000 var gengið frá láni að fjárhæð 2 millj. kr. Að auki var skammtímakröfu á prestssetrasjóð breytt í langtímalán að fjárhæð 9,7 millj. kr. Árið 2000 varð 6,2 millj. kr. tekjuafgangur af rekstri kirkjubyggingasjóðs. Eigið fé nam 128,7 millj. kr.
    Verði frumvarp þetta að lögum er eignum kirkjubyggingasjóðs ætlað að renna til ábyrgðardeildar Jöfnunarsjóðs sókna, sem stofnuð var á grundvelli laga um sóknargjöld, nr. 91/1987, með reglugerð um ábyrgðir Jöfnunarsjóðs sókna, nr. 865 6. nóvember 2001, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 206/1991, um Jöfnunarsjóð sókna. Ábyrgðardeildin veitir ábyrgðir á lánum til sókna samkvæmt fyrrgreindri reglugerð nr. 865/2001 og tók hún gildi um áramótin.
    Með sameiningunni, ef samþykkt verður, er verið að einfalda stjórnsýslu og bæta þjónustu. Eru röksemdir fyrir þessari tilhögun raktar í greinargerð með tillögu kirkjuráðs sem lögð var fram fyrir kirkjuþing árið 2000 um stofnun ábyrgðardeildar hjá Jöfnunarsjóði sókna þar sem sagði m.a.:
     1.      Jöfnunarsjóður hefur heimild til að veita ábyrgðir með samþykki biskups og dóms- og kirkjumálaráðherra, sbr. 5. gr. reglugerðar sjóðsins, nr. 206/1991. Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur (1. júní 1999) heimilað sjóðnum að veita ábyrgðir fyrir allt að 30% af árlegum rekstrartekjum hans. Veittar hafa verið ábyrgðir fyrir 47,5 millj. kr.
     2.      Jöfnunarsjóður hefur bæði tekjur og inneignir til tryggingar því að hægt verði að standa undir skuldbindingum.
     3.      Með því að hafa styrkveitingar og ábyrgðir Jöfnunarsjóðs, kirkjubyggingasjóðs og hins almenna kirkjusjóðs undir einni stjórn fáist nauðsynlegt yfirlit þar sem lán væru oft tekin út á væntanlegt framlag úr Jöfnunarsjóði sókna.
     4.      Umsýsla og kostnaður verður minni.
    Þess ber að geta að kirkjuráð féll síðar frá því að svo stöddu að leggja til að hinn almenni kirkjusjóður yrði lagður til ábyrgðardeildar Jöfnunarsjóðs sókna með sama hætti og kirkjubyggingasjóður. Frumvarp þetta tekur því aðeins til kirkjubyggingasjóðs.
    Verði frumvarp þetta að lögum lætur stjórn kirkjubyggingasjóðs af störfum og nefnd sú sem ætlað er að veita umsögn um umsóknir í sjóðinn um lán er aflögð.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 21/1981,
um kirkjubyggingasjóð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Kirkjubyggingasjóður, sem er í vörslu biskups Íslands, verði lagður niður og að eignir hans renni í Jöfnunarsjóð sókna. Eigið fé sjóðsins nam 128,7 m.kr. í lok ársins 2000. Ekki hefur verið veitt framlag til Kirkjubyggingasjóðs í fjárlögum um margra ára skeið og hefur því lögfesting frumvarpsins ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.