Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 696  —  425. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneytinu, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands og Friðrik Hermannsson frá Vélstjórafélagi Íslands. Þá átti nefndin samtal símleiðis við Friðrik Arngrímsson frá LÍÚ.
    Með breytingum sem samþykktar voru á lögum um stjórn fiskveiða fyrr á þessu þingi var brugðist við þeim tekjusamdrætti sem útgerðir krókaaflamarksbáta urðu fyrir í kjölfarið á kvótasetningu aukategunda 1. september sl. Þessar breytingar sneru eingöngu að krókaaflamarksbátum og vörðuðu ekki önnur hagsmunamál smábáta.
    Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar um framangreint mál kom fram sú afstaða meiri hlutans að hann teldi að lagfæra þyrfti rekstrarumhverfi svokallaðra dagabáta sérstaklega og var lögð áhersla á að frumvarp þess efnis yrði lagt fram á þessu þingi.
    Með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er komið til móts við óskir meiri hlutans í þessum efnum. Með frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að sóknardagar á fiskveiðiárinu 2001/2002 verði 23 eins og þeir voru á fiskveiðiárinu 2000/2001 í stað 21 eins og áætlað var. Í öðru lagi er lagt til að reglum um nýtingu sóknardaga verði breytt þannig að sókn verði mæld í klukkustundum en ekki heilum dögum eins og verið hefur. Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott regla laganna um að flutningur sóknardaga yfir á minni báta leiði til fjölgunar daganna. Þessi breyting hefur ekki áhrif á þá aðila sem fyrir gildistöku laganna hafa flutt sóknardaga frá stærri bátum til minni, enda njóta þeir núgildandi ákvæða laganna um fjölgun sóknardaga. Skilyrði þess að dagar verði fluttir með þessum hætti milli báta er að báturinn, sem dagarnir eru fluttir til, hafi fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir gildistöku laganna, en veiðileyfi er ekki gefið út fyrr en gefið hefur verið út haffærisskírteini fyrir viðkomandi bát. Flutningur sóknardaga eftir gildistöku laganna leiðir því ekki til fjölgunar sóknardaga. Í fjórða og síðasta lagi er í frumvarpinu að finna það nýmæli að ráðherra er gert að setja nánari reglur um flutning sóknardaga milli báta í eigu sömu aðila.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu. Er henni ætlað að afmarka betur reglugerðarheimild ráðherra vegna flutnings sóknardaga milli báta í eigu sömu aðila.
    Meiri hlutinn telur að framangreindar breytingar séu til hagsbóta fyrir útgerðir dagabáta og jafnframt í samræmi við þær áherslur sem hann hefur sett fram.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Í stað orðanna „milli báta í eigu sömu aðila“ í lokamálslið 4. efnismgr. 1. gr. komi: vegna endurnýjunar eigin báts.

Alþingi, 30. jan. 2002.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Árni R. Árnason.



Vilhjálmur Egilsson.


Magnús Stefánsson.


Sigríður Ingvarsdóttir.



Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara