Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 697  —  425. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15 maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Í nefndaráliti vegna breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða sem samþykkt var fyrr á þessu þingi kom fram sú skoðun undirritaðra að taka þyrfti málefni dagabáta til endurskoðunar.
    Sú breyting sem skiptir mestu máli í þessu frumvarpi er að útgerðarmenn þessara báta munu geta skipulagt veiðar sínar í klukkustundum í stað daga. Þetta eykur öryggi og dregur úr óhóflegu vinnuálagi sem hefur fylgt þeim sólarhringsveiðileyfum sem í gildi hafa verið. Gert er ráð fyrir að til eftirlits með róðrartíma bátanna verði stuðst við sjálfvirka tilkynningarkerfið sem eykur á öryggi og nákvæmni eftirlitsins.
    Í öðru lagi er fallið frá því að beita á þessu ári þeirri 10% skerðingu á dagafjölda sem er í gildandi lögum. Lagt er til að endurskoðun á sóknarstýringarákvæðunum fari fram í lok yfirstandandi fiskveiðiárs þegar reynsla hefur fengist af því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir að verði tekið upp.
    Með frumvarpinu er því frestað mikilvægasta deiluefni stjórnvalda við útgerðarmenn þessara báta, sem er um þá kröfu þeirra að 10% skerðingarákvæðið verði fellt úr gildi. Ekki verður komist hjá því að vekja athygli á því mikla ósamræmi sem er milli leyfilegrar sóknar í dögum og þeirri lágu viðmiðunarprósentu sem er í lögunum. Reynsla undanfarinna ára af veiði þessa flota liggur fyrir og er margföld fyrrnefnd viðmiðun. Það er ekki Alþingi til sóma að setja nú enn einu sinni lög um stjórn fiskveiða sem fyrir fram er ljóst að ekki geta staðist.
    Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott sú regla sem er nú í lögunum að dögum fjölgi hlutfallslega miðað við stærðir báta í brúttótonnum ef þeir eru fluttir yfir á minni bát. Sú breyting er nauðsynleg vegna þess að auðsæilega hefði hún annars þau áhrif að útgerð örsmárra báta stórykist vegna þess að þeir fengju fleiri daga en stærri bátarnir. Þetta mundi valda aukinni slysahættu en einnig stóraukinni sóknargetu í þessum flota.
    Almennt eru ákvæði þessa lagafrumvarps til bóta. Hins vegar er sá grundvöllur sem veiðikerfið byggist á, þ.e. framseljanleg einkaeignarréttindi útgerðarmannana á veiðiréttinum, algerlega andstæður stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Þetta fyrirkomulag varð til í kjölfar svokallaðs Valdimarsdóms sem stjórnvöld kusu að túlka þannig að allir sem ættu skip gætu fengið veiðileyfi, annað væri brot á stjórnarskránni. Þeir yrðu hins vegar að kaupa hinn raunverulega rétt til að veiða fisk af þeim sem voru svo heppnir að vera við útgerð tiltekin ár á síðust öld eða hafa keypt slíkan rétt af handhöfum kvótans. Til að innleiða sambærilegt fyrirkomulag hjá þessum hópi útgerðarmanna voru framseljanlegir veiðidagar lögfestir. En sú lagasetning kom ekki til framkvæmda fyrr en sl. haust.
    Af framangreindum ástæðum getum við ekki stutt frumvarpið og munum sitja hjá við afgreiðslu þess.

Alþingi, 30. jan. 2002.



Jóhann Ársælsson,


frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.