Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 699  —  346. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um persónuskrár.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða skrár heldur lögreglan um brotafólk og þá sem tengst hafa brotum? Hver er tilgangurinn með því að halda slíkar skrár?
     2.      Á hvaða lögum eða reglugerðum byggjast slíkar skrár?
     3.      Að hvaða skrám um fólk hafa fyrirtæki, ríkisstofnanir og/eða almenningur aðgang? Hver veitir þann aðgang og á hverju eru slíkar aðgangsheimildir byggðar?

    
    Allar þær persónutengdu skrár sem lögreglan heldur hafa verið tilkynntar til Persónuverndar og hlotið þar ítarlega skoðun. Þær eru eftirfarandi:

Með heimild í 5. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996:
          Skrá til að halda saman upplýsingum um aðila er tengjast samtökum sem talin eru alþjóðleg glæpasamtök.
          Skrá í tengslum við rýmingu húsa vegna snjóflóðahættu á Patreksfirði.
          Skrá til að halda saman upplýsingum um mannshvörf á Íslandi.

Með heimild í reglugerð nr. 501/1997, um ökuskírteini, sbr. reglugerð nr. 799/1998 og nr. 327/1999:
          Ökuskírteinaskrá, til að halda utan um handhafa ökuskírteina og útgáfu þeirra.

Með heimild í vopnalögum, nr. 16/1998:
          Skotvopnaskrá, til að halda utan um öll skráð skotvopn, eigendur og umráðamenn þeirra.

Með heimild í reglugerð nr. 152/1979, um töku, meðferð og geymslu fingrafara og ljósmynda hjá lögreglu:
          Brotamannaskrá, til að halda sérstaka skrá um þá brotamenn sem reglugerðin tekur til.

Með heimild í lögreglulögum, nr. 90/1996, og reglugerð nr. 322/2001, um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu:
          Handtökukerfi lögreglunnar, til að halda utan um allar handtökur lögreglunnar.
          Málaskrá lögreglu, til að halda utan um kærur sem berast lögreglu með öllum nauðsynlegum upplýsingum sem málin varða.
          Skýrslugerð lögreglu, til að halda utan um skráningar skýrslna í tengslum við verkefni og rannsóknir mála.
          Dagbók lögreglu, til að halda utan um öll verkefni lögreglunnar og það sem þeim tengist.
    Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 322/2001, um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, getur ríkislögreglustjóri heimilað lögreglustjórum að halda aðrar skrár en kveðið er á um í reglugerðinni, og er um leið ábyrgur fyrir þeim. Af hálfu embættis ríkislögreglustjóra var lögreglustjóraembættunum ritað bréf 29. janúar 2001 og óskað eftir því að embættin tilkynntu ríkislögreglustjóra allar þær skrár sem þeir héldu og innihalda persónuupplýsingar. Allar þær skrár sem lögreglustjórarnir tilkynntu hafa verið afritaðar og fluttar í hús embættis ríkislögreglustjóra til skoðunar. Að skoðun lokinni verður tekin ákvörðun um hvort þær verði heimilaðar eða þeim eytt. Framangreindar skrár hafa verið tilkynntar til Persónuverndar með bráðabirgðatilkynningu, dags. 29. júní 2001. Framangreindar skrár hafa verið notaðar til að halda utan um aðila sem tengjast fíkniefnabrotum. Frá embætti ríkislögreglustjóra voru þær upplýsingar gefnar að embættin sem hafa haldið þessar skrár takmörkuðu mjög aðgang að þeim og að í öllum tilvikum nema einu væri skránum ekki haldið við lengur.
    Það er meginregla að miðlun upplýsinga úr gagnagrunnum lögreglu til annarra aðila er óheimil, nema í þeim tilvikum sem lög um persónuvernd og reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu heimila slíkt. Embætti ríkislögreglustjóra og embætti tollstjórans í Reykjavík hafa t.d. gert með sér samkomulag um miðlun upplýsinga á fíkniefnasviði sem hefur verið í gildi um tíma. Í þeim tilvikum miðlar lögreglan upplýsingum, sem varða fíkniefnabrot, til tollayfirvalda en þeim er ekki heimilt að framsenda þær öðrum. Í engum tilvikum er lögreglu heimilt að miðla persónutengdum upplýsingum til annarra en þeirra sem kveðið er á um í 6. gr. reglugerðar um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, auk skráðra, en þó með þeim undantekningum sem kveðið er á um í 9. gr. sömu reglugerðar.
    Í fyrrnefndri 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að persónuupplýsingum skuli aðeins miðlað innan lögreglu eftir því sem þörf krefur vegna tiltekinna löggæsluverkefna. Persónuupplýsingum verði aðeins miðlað til annarra stjórnvalda en lögreglu eða til einkaaðila þegar samþykki hins skráða liggur fyrir, samkvæmt lagaheimild, samkvæmt heimild Persónuverndar eða ef miðlun upplýsinga er nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu. Persónuupplýsingum verður aðeins miðlað til erlendra lögregluyfirvalda samkvæmt lagaheimild eða þjóðréttarlegri skuldbindingu eða ef miðlun upplýsinga er nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu eða sporna við alvarlegum afbrotum, enda veiti það ríki sem upplýsingar eru sendar til fullnægjandi persónuupplýsingavernd. Eftir því sem unnt er skal sannreyna áreiðanleika persónuupplýsinga áður en þeim er miðlað. Ef upplýsingar eru ónákvæmar eða úreltar skal þeim ekki miðlað. Ef slíkum upplýsingum hefur verið miðlað skal lögreglan eftir því sem frekast er unnt hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða.