Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 706  —  439. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum.

Flm.: Ásta Möller, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Gunnar Birgisson,


Drífa Hjartardóttir, Guðmundur Hallvarðsson,
Árni R. Árnason, Guðjón A. Kristjánsson.

    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa og ákveða fyrirkomulag innheimtu sérstaks þjónustugjalds á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum sem stæði undir uppbyggingu og þjónustu á slíkum svæðum.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur orðið mikil vakning meðal Íslendinga að ferðast um eigið land. Jafnframt hefur erlendum ferðamönnum fjölgað verulega á síðustu árum. Árið 1990 komu um 142 þúsund erlendir ferðamenn til landsins, en tíu árum síðar voru þeir orðnir 303 þúsund talsins, hafði fjölgað um 113% á 10 ára tímabili. Fjölgunin milli áranna 1999 og 2000 ein og sér var tæp 16%, fór úr 262 þúsund ferðamönnum í 303 þúsund eins og fyrr segir. Spáð er frekari fjölgun erlendra ferðamanna og er gert ráð fyrir að árið 2020 verði þeir um hálf milljón.
    Ýmsar kannanir hafa sýnt að íslensk náttúra er eitt meginaðdráttarafl erlendra ferðamanna. Íslensk náttúra er því auðlind í sjálfu sér, auðlind sem ferðaþjónustan byggist á. Það skiptir þá atvinnugrein afar miklu máli hvernig búið er að íslenskri náttúru og hvernig aðstöðu ferðamönnum er boðið upp á.
    Þótt verulega auknu fjármagni hafi verið varið til uppbyggingar til móttöku ferðamanna á vinsælum ferðamannastöðum á síðustu árum er ljóst að margir þeirra standast tæpast kröfur um aðgengi, aðstöðu og fræðslu sem ferðamenn vænta. Fæstir vinsælla ferðamannastaða eru undir það búnir að taka á móti þessum aukna fjölda ferðamanna. Afleiðingin er að víða hefur land látið á sjá, en slíkt leiðir fljótt til minni virðingar fyrir umhverfinu og verri umgengni.
    Samhliða auknum áhuga á ferðalögum um Ísland til að njóta einstakrar náttúrufegurðar þess, hefur áhugi á verndun landsins aukist. Það endurspeglast m.a. í stofnun nýrra þjóðgarða. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var formlega opnaður sumarið 2001 og ákveðið hefur verið að stofna Vatnajökulsþjóðgarð í náinni framtíð, þar sem Skaftafellsþjóðgarður yrði hluti hans. Auk þess eru þjóðgarðar í Jökulsárgljúfrum og á Þingvöllum. Þjóðgarðar hafa alþjóðlega tilvísun í huga ferðamanna enda eru þeir stofnaðir til að varðveita sérstakar náttúruheildir sem verðugt er að njóta. Í hugtakinu felst ákveðinn gæðastimpill og eru tilteknar kröfur gerðar til aðbúnaðar og umbúnaðar á slíkum stöðum.
    Í úttekt OECD 2001 á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi segir m.a. eftirfarandi:
    „Í flestum þjóðgörðum og á öðrum verndarsvæðum þarf fleiri eftirlitsmenn og framkvæmdaáætlanir … Mikil aukning varð í ferðaþjónustu á síðasta áratug og þar með jókst einnig þörfin fyrir það að hafa hemil á því mikla álagi á náttúru landsins sem þessu fylgir, og þörfin fyrir auknar fjárveitingar til uppbyggingar á betri aðstöðu og fleiri eftirlitsmenn á vinsælustu ferðamannasvæðunum.“
    Í skýrslu OECD eru lagðar fram ýmsar tillögur sem geta stuðlað að auknum árangri landsins á sviði umhverfismála. Þar er m.a. lagt til að „fjölgað verði landvörðum á náttúruverndarsvæðum og fjármagn til náttúruverndar aukið, t.d. með því að beita nytjagreiðslureglunni í ferðaþjónustu og með gjaldtöku af ferðamönnum á friðuðum svæðum...“.
    Með hliðsjón af auknum fjölda ferðamanna sem kjósa að ferðast um Ísland, þörf á auknu fjármagni til að standa undir uppbyggingu aðstöðu til móttöku þeirra á vinsælum ferðamannastöðum og um leið nauðsyn þess að vernda íslenska náttúru og koma í veg fyrir landspjöll vegna aukins ágangs er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.

Þjónustugjald á vinsælum ferðamannastöðum.
    Á síðari árum hefur svokölluð mengunarbótastefna rutt sér rúms í umhverfismálum, en meginhugsunin að baki henni er að þeir sem menga greiði fyrir förgun mengunarefna . Á sama hátt hefur stefnan í nágrannalöndum okkar verið að þeir sem njóta náttúrunnar greiði fyrir þá þjónustu og aðstöðu sem þörf er á til að taka á móti ferðamönnum á viðunandi máta. Erlendis þykir það sjálfsagt að ferðamenn greiði aðgangseyri að náttúrufyrirbærum sem eru sérstakt aðdráttarafl ferðamanna. Þá er það almenn regla erlendis að greitt er aðgangsgjald að þjóðgörðum, enda stendur slíkt gjald undir tiltekinni þjónustu sem veitt er innan þjóðgarðsins, svo sem öryggisþjónustu, bæklingum, leiðarlýsingum, aðgangi að fræðslusetrum og annarri fræðslu eða leiðbeiningum. Einnig stendur það undir gerð og viðhaldi göngu- eða hjólastíga, bílastæða og tjaldstæða, auk þjónustuhúsa, t.d. salerna og þvottaaðstöðu, að ónefndri verndun náttúru svæðisins, sem er meginástæða þess að fólk kýs að sækja staðinn.
    Hér á landi þykir eðlilegt að greiða fyrir aðgang að sögusýningum, fornminjum og merkum sögustöðum. Hins vegar hefur ekki þótt eins sjálfsagt að greiða þjónustugjald fyrir aðgang að náttúrufyrirbærum eða þjóðgörðum. Mörg rök hafa verið færð fyrir því og þau algengust að fólk eigi ekki að greiða fyrir að upplifa eigið land né fyrir aðgang að náttúru landsins. Jafnframt hefur verið bent á að af landfræðilegum ástæðum sé eingöngu hægt að krefjast gjalds á tilteknum stöðum og það feli í sér mismunun. Landfræðilegar ástæður ráði þannig hvaða svæði fái aukið fjármagn til uppbyggingar. Einnig sé um mismunun að ræða í þeim skilningi að þeir sem fara á tiltekna staði greiða gjald, en aðrir fái frían aðgang að öðrum svæðum. Þá þurfi jafnvel að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir til að girða land af, ef stýra á aðstreymi ferðamanna. Það sé óæskilegt, slíkt hindri frítt flæði um landið og sé umhverfismengandi. Þá sé ferðamannatíminn stuttur, innheimtukostnaður hár og innheimtan jafnvel erfið í framkvæmd og mundi í ýmsum tilvikum ekki skila miklu. Að lokum er því haldið fram að þjónustugjald fæli ferðamenn frá að heimsækja viðkomandi stað og ferðaskrifstofur sneiði hjá slíkum stöðum.
    Á hinn bóginn má benda á að ýmsir vinsælir ferðamannastaðir eru tilvaldir í þessu sambandi, bæði af landfræðilegum ástæðum, en einnig vegna fjölda ferðamanna og þeirrar þjónustu sem þarf að standa til boða. Hér má nefna staði eins og Dimmuborgir, Gullfoss, Geysi, Þórsmörk og Öskju, að ónefndum þjóðgörðunum Snæfellsjökli, í Skaftafelli, og Jökulsárgljúfrum, Ásbyrgi og Dettifoss þar innifalið, sem fullkomlega eðlilegt er að sett sé á þjónustugjald við aðgang, enda þarf að gera miklar kröfur til öryggisgæslu, aðstöðu og þjónustu á slíkum stöðum eðli málsins samkvæmt. Þjónustugjald gæti í ákveðnum tilvikum, t.d. í Þórsmörk, einnig virkað sem takmarkandi á aðgang, þar sem þegar er um oftroðslu á landi að ræða.
    Tekið skal fram að gert er ráð fyrir að þjóðgarðurinn á Þingvöllum verði ávallt undanskilinn þjónustugjaldi, enda hefur hann slíka sérstöðu meðal þjóðarinnar að eðlilegt er að kostnaður við hann sé alfarið greiddur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
    Sem dæmi um fjölda ferðamanna á einstökum stöðum má nefna að um 140 þúsund ferðamenn komu í þjóðgarðinn í Skaftafelli á síðasta ári og um 200 þúsund manns koma að Gullfossi á ári hverju. Ef hver ferðamaður sem skoðar Gullfoss greiðir sem nemur 200–250 kr. gætu árlegar tekjur numið 40–50 millj. kr. Á sama hátt gæfu árleg þjónustugjöld fyrir aðgang að Skaftafelli 28–35 millj. kr., eða 23–28 millj. kr. ef miðað er við að börn fái ókeypis aðgang og miðað við að þau séu 20% gesta. Innheimtukostnað þar má áætla 4–5 millj. kr. á ári miðað við að þjónustugjald sé innheimt yfir sumartímann. Þess má geta að algengt aðgangsgjald í þjóðgörðum í Kanada er sem samsvarar um 250–350 kr. fyrir fullorðna, 200–250 kr. fyrir eftirlaunaþega og 130–170 kr. fyrir börn á aldrinum 6–16 ára og sérstakt afsláttargjald fyrir hópa. Þessi gjöld standa að mestu undir rekstri viðkomandi þjóðgarða. Þar er litið svo á að greiðsla aðgangseyris jafngildi því að fjárfest sé í verndun garðsins fyrir óbornar kynslóðir.
    Það mætti hugsa sér að aðgangur að þjóðgarðinum væri innifalinn í tjaldleyfum ef fólk kýs að gista á staðnum. Þá er algengt að þjónustugjald sé innifalið í skipulagðri ferð ferðaskrifstofa, þannig að hver og einn ferðamaður þurfi ekki að standa skil á því við inngang. Einnig er algengt erlendis að keypt sé aðgangskort að fleiri en einum stað, sem gildir ákveðinn tíma. Slíkt getur virkað sem hvatning til að skoða náttúruperlur á ferðalögum. Fjölskyldur gætu skipulagt ferð sína með hliðsjón af þessu og gefur ómetanlegt tækifæri til fræðslu og útiveru. Innifalið í þjónustugjaldi væri aðgangur að gestastofu, leiðbeiningar og upplýsingar auk þess sem viðkomandi getur gengið að því vísu að öll aðstaða, svo sem hreinlætisþjónusta og sorphirða, aðstaða til útivistar, t.d. göngustígar og öryggisgæsla, svo og verndun landsins, sé í því horfi sem vænta má af þjóðgarði.
    Skaftafellsþjóðgarður er elsti þjóðgarðurinn hér á landi. Vel var vandað til verka og hann talinn til fyrirmyndar langt út fyrir landsteinana. Frá fyrstu tíð hefur hann verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna jafnt innlendra sem erlendra. Því miður hefur aðstaða og þjónusta í þjóðgarðinum ekki náð að þróast í samræmi við breyttar kröfur og hugmyndir manna um rekstur þjóðgarða. Þarf að gera bragarbót á göngustígum og umhverfi þeirra, sem hefur látið á sjá við aukna aðsókn ferðamanna. Þá þarf einnig að fjölga vegvísum og huga nánar að öryggismálum. Aukið fjármagn til staðarins með því að leggja á þjónustugjald getur bætt verulega úr fjárvöntun til að standa m.a. undir þessum úrbótum.
    Varðandi mismunun milli staða þyrfti að skoða að hluti þess fjármagns, sem innheimtist á þeim stöðum þar sem þjónustugjald er innheimt, nýttist öðrum stöðum til uppbyggingar aðstöðu.
    Vegna stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs má einnig velta fyrir sér að láta tryggingu vegna ferðalaga á jöklinum vera innifalda í þjónustugjaldi og gæti hún m.a. staðið straum af kostnaði vegna hugsanlegra björgunaraðgerða um leið og hún er trygging fyrir að fólk sem áformar ferð á jökul tilkynni um för sína og að fylgst sé með því. Það eitt og sér er ákveðin öryggistrygging.

Ástand og uppbygging vinsælla ferðamannastaða.
    Í skýrslu um framkvæmdir og aðgerðir til úrbóta á náttúruverndarsvæðum og vinsælum viðkomustöðum ferðamanna – samantekt vegna fjögurra ára framkvæmdaáætlunar (2000– 2004) frá 1999, sem unnin var og gefin út af Ferðamálaráði, Náttúruvernd ríkisins og Vegagerðinni, segir m.a. eftirfarandi:
    „Á undanförnum árum hefur það orðið æ ljósara að vegna stóraukins fjölda ferðamanna er nauðsynlegt að fara í ýmsar framkvæmdir á friðlýstum svæðum og öðrum vinsælum ferðamannastöðum í mun ríkara mæli en áður hefur verið gert. Náttúruvernd ríkisins hefur engan veginn getað uppfyllt þær kröfur sem eru gerðar til stofnunarinnar um úrbætur á friðlýstum svæðum vegna fjölgunar ferðamanna. Stofnunin lagði því til við umhverfisráðuneytið, við fjárlagagerð, að fjármunir til framkvæmda á friðlýstum svæðum væru stórauknir.“
    Þar sem yfirleitt fer saman náttúruverndarsvæði og vinsælir áningarstaðir ferðamanna tóku framangreindir aðilar sig saman um að gera yfirlit um nauðsynlegar úrbætur á slíkum stöðum. Nauðsynlegar úrbætur taka til umhverfisþátta og aðstöðu, auk fræðslu og merkinga, sem m.a. hefur þá þýðingu að stýra umferð á eða um ákveðin svæði. Í skýrslunni segir m.a. um ástand á vinsælum ferðamannastöðum:
    „Aðstaða og aðgengi ferðamanna að helstu náttúruperlum landsins eru víða hvar í mjög bágu ástandi. Þar sem svæðin hafa ekki verið skipulögð og undirbúin fyrir ferðamenn hafa þau látið á sjá vegna átroðnings. Víða þarf að grípa til aðgerða strax ef koma á í veg fyrir eyðileggingu. Opin sár í gróðurþekjuna geta stækkað af völdum vatns og vinda.“
    Skýrsluhöfundar taka jafnframt undir eftirfarandi lýsingu sem kemur fram í skýrslu verkefnishóps á vegum samgönguráðuneytis frá árinu 1995 þar sem segir m.a.:
    „Víða skortir þætti sem nútíma ferðamannastaðir þurfa að hafa, s.s. þjónustuhús, snyrtiaðstöðu, rotþrær, vatnsöflun, stígagerð, göngubrýr, vegabætur, bílastæði, merkingar, sorphirðu og uppgræðslu.“
    Í skýrslunni kemur fram það mat skýrsluhöfunda að leggja þurfi til um 434 millj. kr. á verðlagi ársins 1999 til nauðsynlegra úrbóta á vinsælum ferðamannastöðum. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er þar undan skilinn. Reiknað til núvirðis samsvarar það um 500 millj. kr. Þar af yrði um þriðjungi varið til bætts aðgengis: gerðar stíga, palla, hliða, príla, trappa, göngubrúa, bílastæða, áningarborða og skipulags. Um 15% fjárhæðarinnar yrði varið til bættrar salernisaðstöðu, tæplega fjórðungs til fræðslu, t.d. friðlýsingarskilta og fræðsluskilta, stika, varða og annarra leiðarmerkinga. Öðrum tæpum fjórðungi yrði varið til húsagerðar, gestastofa og húsnæðis landvarða. Gerð varnargarða, girðinga, tjaldstæða og leiksvæða, auk annars, samsvarar milli 7–8 % af heildarupphæð. Þessi upphæð er varlega áætluð, þar sem ekki er m.a. sérstaklega gert ráð fyrir aukakostnaði vegna aðgengis fatlaðra, né til gerðar fræðslubæklinga.
    Sem dæmi má nefna að fram kemur í framkvæmdaáætlun Ferðamálaráðs, Náttúruverndar ríkisins og Vegagerðarinnar fyrir tímabilið 2000–2004 að um 35 millj. kr. þurfi í Skaftafellsþjóðgarð, 75 millj. kr. í Jökulsárgljúfur og 11 millj. kr. í Öskju í Dyngjufjöllum.

Fjárframlög til þjóðgarða og friðlýstra svæða.
    Náttúruvernd ríkisins hefur samkvæmt lögum eftirlit og umsjón með þjóðgörðum og vernduðum svæðum, svo sem friðlöndum.
    Töluverðu auknu fjármagni hefur verið varið til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum á fjárlögum á undanförnum árum. Á fjárlögum fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir 86 millj. kr. til almenns reksturs, viðhalds og stofnkostnaðar vegna þjóðgarða og friðlýstra svæða. Upphæðin hækkaði nokkuð á fjárlögum 2000, en hafði verið um 55–60 millj. kr. árin á undan. Því til viðbótar hefur Ferðamálaráð árlega undanfarin ár haft til ráðstöfunar nokkurt fé vegna þessa málaflokks, sem er nú um 50 millj. kr. Einnig hefur Vegagerðin lagt málaflokknum til fé. Þannig kostuðu þessir tveir aðilar framkvæmdir við Dettifoss upp á um 8 millj. kr. vegna stígagerðar, snyrtihúss og aðkomu; nýtt bílastæði var gert við Ásbyrgi fyrir um 12 millj. kr. og sömu upphæð varið til nýs bílastæðis í Skaftafelli. Ferðamálaráð kostar framkvæmdir við Gullfoss sem munu nema allt að 14 millj. kr.
    Miklu munar um þessar framkvæmdir en meira þarf til að koma ástandi vinsælla ferðamannastaða í viðunandi horf svo að þeir standist kröfur sem almennt eru gerðar til ferðamannastaða. Þess má geta að Bretar og Skotar telja að rekstur þjóðgarðs með svipaðan gestafjölda og hér, á milli 100–150 þúsund manns á ári, kosti 90–120 millj. kr. Þetta þýddi um 270–360 millj. kr. á ári miðað við þá þrjá þjóðgarða sem nú eru starfræktir fyrir utan þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þjónustugjald gæti mætt þessu að hluta.

Lagaheimild fyrir þjónustugjaldi.
    Í 32. gr. laga um náttúruvernd er veitt heimild til að ákveða gjald fyrir veitta þjónustu og aðgang að náttúruverndarsvæðum. Skal gjaldið renna til verndunar og fegrunar eða uppbyggingar á því svæði. Þessi heimild hefur ekki verið notuð.
    Ljóst er því að lagaheimild er fyrir því að innheimta þjónustugjald á náttúruverndarsvæðum. Hins vegar þarf sennilega lagabreytingu ef nýta á þjónustugjöld á einum stað einnig til uppbyggingar á öðrum stöðum, þar sem aðstæður, fjöldi ferðamanna eða aðrar ástæður eru í vegi fyrir innheimtu þjónustugjalda.

Skýrsla um tekjuöflun af náttúruperlum 1999.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2000 var lagt til að „innheimtur verði aðgangseyrir að friðlýstum svæðum og tekjum varið til uppbyggingar þeirra svæða þar sem aðgangseyrir er tekinn. Áætlað er að á árinu 2000 verði innheimtar 15 m. kr.“.
    Í október 1999 skipaði umhverfisráðherra starfshóp til að gera tillögur um tekjuöflun af náttúruperlum í samræmi við markmið frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2000. Jafnframt skyldi nefndin gera tillögu að stefnumótun til lengri tíma um aðgangs- og þjónustugjöld á vernduðum svæðum, eða á hvern hátt best megi tryggja nauðsynlegt fjármagn til að byggja upp fjölsótt náttúruverndarsvæði til að mæta vaxandi umferð ferðafólks. Í nefndinni áttu sæti Þórður H. Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, sem jafnframt var formaður, Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, Magnús Oddsson ferðamálastjóri, fulltrúi Ferðamálaráðs, Þorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar, og Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin fjallaði um innheimtu aðgangseyris að friðlýstum svæðum. Það var niðurstaða nefndarinnar að fáeinir friðlýstir staðir kæmu til greina, þar sem með tiltölulega einföldum hætti væri hægt að halda utan um aðstreymi ferðamanna og voru Ásbyrgi, Skaftafell, Dimmuborgir og Gullfoss nefnd í því sambandi. Innheimta yrði sennilega einungis á háferðamannatíma (15. júní–31. ágúst) og líklega aðeins hluta sólarhringsins. Meiri hluti nefndarinnar lýsti sig andvígan slíkri gjaldtöku. Rökin voru þau að í því fælist mismunun milli staða bæði er varðar aðgang og möguleika til tekjuöflunar. Þá kom fram það sjónarmið að kröfur um hreinan aðgangseyri að íslenskri náttúru gæti ekki verið í anda náttúruverndarlaga, sem segja að lögin eigi að auðvelda þjóðinni umgengni um náttúru landsins og auka kynni af henni.
     Minni hluti nefndarinnar, fulltrúar Náttúruverndar ríkisins og fjármálaráðuneytis, taldi að breyta þyrfti náttúruverndarlögum til að hægt væri að nýta fjármuni sem fengjust á tilteknum fjölsóttum ferðamannastöðum til uppbyggingar á öðrum stöðum.
    Í skýrslu starfshópsins er lýst þremur leiðum til að fjármagna uppbyggingu og rekstur fjölsóttra náttúruverndarsvæða til að mæta vaxandi umferð ferðafólks.

1. Þjónustugjöld.
    Starfshópurinn var sammála um að stórbæta mætti „ýmsa þjónustu á mörgum stöðum, sem aftur skapaði forsendur til frekari tekjuöflunar rekstraraðila á þeim stöðum og ná þannig inn auknu fjármagni til enn frekari uppbyggingar“. Til þess þyrfti þó enn frekara fjármagn í byrjun, sem t.d. fengist með langtímaþjónustusamningum við einstaka rekstraraðila um að annast uppbyggingu á staðnum gegn möguleikum á ýmissi sölustarfsemi á svæðinu. Á það er bent að veruleg aukning á „seljanlegri þjónustu og þar með viðbótartekjum næst ekki nema á takmörkuðum fjölda ferðamannastaða og leysir ekki nema hluta til vandann um almenna uppbyggingu allra ferðamannastaða á landinu“.

2. Framlög á fjárlögum.
    Meiri hluti nefndarinnar taldi að í náinni framtíð verði áfram veitt einhver framlög úr ríkissjóði, en „eðlilegt verður að telja að fleiri aðilar en ríkissjóður komi að fjármögnun þeirra verkefna“. Í séráliti fulltrúa samtaka ferðaþjónustunnar kom fram að með framlögum úr ríkissjóði sé hægt að tryggja verndun og viðhald íslenskrar náttúru, en uppbygging á ferðamannastöðum rennir „stoðum undir möguleika að veita þjónustu sem í vaxandi mæli er hægt að taka gjald fyrir“.

3. Gistináttagjald.
    Nefndin velti fyrir sér þeirri leið að leggja svokallað gistináttagjald á alla selda gistingu í landinu, sem yrði föst krónutala á hvern gest hverja nótt, óháð verði gistingarinnar. Þetta væri raunverulega skattur, innheimtur af söluaðila, sem stendur skil á honum gagnvart ríkissjóði. Innheimt gjald rynni óskert til uppbyggingar ferðamannastaða um allt land, úthlutað af sérstakri nefnd. Jafnhátt gjald væri lagt til úr ríkissjóði árlega til úthlutunar til þessara verkefna. Gistináttagjald þekkist m.a. í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Færeyjum og eru dæmi um upphæðir sem samsvara frá um 10 kr. íslenskum í um 225 kr. Ekki náðist samstaða innan nefndarinnar um þessa leið. Bent var á sem mótrök að með gistináttagjaldi væri settur skattur á eina atvinnugrein umfram aðra, sem að auki væri flókinn í framkvæmd og erfitt að hafa eftirlit með skilum hans. Fulltrúi samtaka ferðaþjónustunnar benti á í áliti sínu að hann væri mótfallinn því „að lagður verði sérstakur skattur á seljendur gistingar. Það stríði gegn því grundvallarsjónarmiði að ekki beri að innheimta gjöld eða skatta af einum þætti atvinnugreinar sérstaklega, heldur einungis að miða við eðlilegt gjald fyrir veitta þjónustu“. Jafnframt kom fram það sjónarmið að það væri stefna fjármálaráðuneytis að fækka smáum tekjustofnum.
    Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um tekjuöflun af náttúruperlum. Ákvæði um tekjuöflun af náttúruperlum var fellt úr frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000.
    A.m.k. ein aðferð til viðbótar hefur verið nefnd til að afla frekari fjár til uppbyggingar vinsælla ferðamannastaða, en það væri álagning ferðamannagjalds á alla ferðamenn sem koma til landsins. Ókostur slíkrar aðferðar er að með því er lagður skattur á alla ferðamenn, hvort heldur þeir stoppa í styttri eða lengri tíma hér á landi og óháð því hvaða aðstöðu og þjónustu þeir nýta sér. Einnig væri spurning hvort heimilt væri að undanskilja Íslendinga álagningu slíks gjalds, en augljóslega er álagning slíks gjalds á Íslendinga á leið heiman og heim frá útlöndum undarleg.

Lokaorð.
    Eins og sagði í upphafi þessarar greinargerðar þarf verulegt viðbótarfé til að byggja upp aðstöðu á vinsælum ferðamannastöðum svo að unnt verði að taka á móti auknum fjölda ferðamanna og vernda um leið íslenska náttúru. Vægt þjónustugjald sem innheimt yrði við aðgang að fjölsóttum náttúruverndarsvæðum gæti mætt þessari fjárþörf að hluta.
    Ferðaþjónustuaðilar hafa jafnan lýst sig mótfallna sérstakri gjaldtöku á ferðamenn ef þjónusta kemur ekki á móti. Hafa hugmyndir um aðgangseyri eða þjónustugjald á ferðamannastöðum stöðvast vegna meintrar andstöðu þeirra.
    Lögð skal á það áhersla að gjaldtaka á vinsælum ferðamannastöðum er fyrst og fremst hugsuð til að standa undir óskum ferðamanna um þjónustu og aðbúnað á slíkum svæðum. Á undanförnum mánuðum hafa ýmsir ferðaþjónustuaðilar lýst því yfir að verði gjaldið hóflegt og látið standa undir tiltekinni þjónustu væri hægt að ljá máls á slíku þjónustugjaldi.
    Núverandi umhverfisráðherra hefur margoft lýst því yfir að hann telji að í framtíðinni verði tekin upp gjöld í formi aðgangseyris og rekstrarleyfisgjalda á stöðum sem margir ferðamenn fara um. Þá hefur forstjóri Náttúruverndarráðs lýst því að augljóst sé að slík gjaldtaka væri markmið sem stefna bæri að. Í úttekt OECD 2001 á stöðu og þróun um-hverfismála á Íslandi var íslenskum stjórnvöldum bent á að til að stuðla að auknum árangri landsins á sviði umhverfismála þyrfti meira fjármagn til náttúruverndar, sem yrði aflað m.a. með því að beita nytjagreiðslureglunni í ferðaþjónustu og með gjaldtöku af ferðamönnum á friðuðum svæðum.
    Þingsályktunartillaga um þjónustugjald á náttúruverndarsvæðum er lögð fram til að ná fram frekari umræðu um málið. Það eru hagsmunir ferðaþjónustunnar, íslenskrar náttúru og þjóðarinnar allrar að staðinn sé vörður um fjölsótt náttúruverndarsvæði. Fjármagn til þessa þáttar hefur á undanförnum árum ekki verið nægilegt og ljóst að munar um þótt ekki sé nema hóflegt þjónustugjald við aðgang að tilteknum stöðum.