Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 723  —  453. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Hafi umsækjandi ekki heimilisfesti hér á landi skal hann hafa umboðsmann búsettan á EES-svæðinu sem getur komið fram fyrir hans hönd í öllu því er varðar umsóknina. Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal fært í einkaleyfaskrá.

2. gr.

    1.–3. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Óski umsækjandi eftir því að yfirfæra alþjóðlega einkaleyfisumsókn til Íslands skal hann innan 30 mánaða frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi umsóknarinnar, sé forgangsréttar krafist, greiða tilskilin gjöld til einkaleyfayfirvalda. Enn fremur skal umsækjandi afhenda þýðingu á umsókninni að því marki sem ákveðið er í reglugerð.
    Beiðni um að gerð verði alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi alþjóðlegrar umsóknar skal koma fram innan 19 mánaða frá þeim degi sem getið er um í 1. mgr.
    Hafi umsækjandi greitt þau gjöld, sem krafist er, innan þess frests sem um getur í 1. mgr. má leggja inn tilskilda þýðingu innan tveggja mánaða viðbótarfrests gegn því að greitt sé ákveðið viðbótargjald áður en sá frestur rennur út.

3. gr.

    32. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    1. mgr. 33. gr. laganna orðast svo:
    Þegar alþjóðleg einkaleyfisumsókn er yfirfærð í samræmi við ákvæði 31. gr. gilda ákvæði II. kafla um umsóknina og meðferð hennar ef ekki er kveðið á um annað í þessari grein eða 34.–37. gr. Umsóknina má þó því aðeins taka til meðferðar að liðinn sé frestur skv. 1. mgr. 31. gr. nema umsækjandi óski annars.

5. gr.

    66. gr. laganna orðast svo:
    Einkaleyfastofan getur farið fram á að einkaleyfishafi, sem hefur ekki heimilisfesti hér á landi, tilnefni umboðsmann búsettan á EES-svæðinu sem hefur fyrir hans hönd heimild til að taka við stefnu og öðrum tilkynningum er einkaleyfið varða. Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal fært í einkaleyfaskrá.

6. gr.

    Ákvæði 2.–4. gr. laga þessara taka til alþjóðlegra einkaleyfisumsókna þar sem 20 mánaða frestur til yfirfærslu, talið frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi, rennur út 1. apríl 2002 eða síðar enda hafi þær ekki verið yfirfærðar á þeim tíma.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þær lagabreytingar, sem gerðar eru tillögur um í frumvarpi þessu, eru með einum eða öðrum hætti til komnar vegna breytinga á alþjóðavettvangi. Aðallega er um að ræða afleiðingar af breytingum á samstarfssáttmálanum um einkaleyfi frá 1984 (Patent Cooperation Treaty, PCT ) sem Ísland gerðist aðili að árið 1995.
    Á þingi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) í september–október 2001 voru samþykktar tillögur um breytingar á samstarfssáttmálanum um einkaleyfi. Þær breytingar eiga að vera komnar í landslög aðildarríkja sáttmálans fyrir 1. apríl 2002. Vegna umræddra breytinga eru nú lagt til að breytt verði þremur greinum í einkaleyfalögunum (sjá 2.–4. gr. frumvarpsins). Í breytingunum felst aðallega að frestur til að yfirfæra alþjóðlega umsókn til Íslands lengist úr 20 í 30 mánuði. Þetta er gert til að hamla gegn mikilli fjölgun alþjóðlegra umsókna í aðildarríkjum samstarfssáttmálans sem talið er að hafi átt sér stað vegna mismunandi frestákvæða í honum.
    Þá er lagt til að breytingar verði á ákvæðum er varða skyldur umsækjenda og einkaleyfishafa til að hafa umboðsmann sem sé búsettur hér á landi. Skilyrði um að erlendu aðilarnir verði að hafa umboðsmann, búsettan hérlendis, þykir stríða gegn meginmarkmiðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa þjónustu milli ríkja. Því hafa Evrópuríki, m.a. Norðurlöndin, breytt löggjöf sinni á þann hátt að einungis sé heimilt að krefjast þess að umsækjandi eða einkaleyfishafi hafi umboðsmann sem sé búsettur á EES-svæðinu. Í þessu frumvarpi er lagt til að umsækjendum verði skylt að hafa umboðsmann, búsettan á EES-svæðinu, en heimilt verði að krefjast þess að einkaleyfishafi hafi umboðsmann.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er um að ræða breytingu á 12. gr. einkaleyfalaga þar sem kveðið er á um skyldu umsækjanda, sem hefur ekki heimilisfesti hér á landi, til að tilnefna umboðsmann. Í 12. gr. er nú kveðið á um að umboðsmaðurinn skuli vera búsettur hérlendis. Samkvæmt breytingunni er lagt til að ekki verði lengur gerð krafa um það að umboðsmaðurinn skuli hafa búsetu hér á landi heldur þurfi hann aðeins að vera búsettur á EES-svæðinu. Þessi breyting kemur til af því að krafa um búsetu í tilteknu ríki þykir stríða gegn meginmarkmiðum EES um frjálsa þjónustu milli ríkja. Samskipti umsækjanda við Einkaleyfastofuna munu þó áfram verða á íslensku fyrir utan þau tilteknu gögn sem sérstaklega er heimilað að skila inn á erlendum tungumálum. Er gert ráð fyrir því að framkvæmdin verði óbreytt að því leyti. Verði umboðsmaður ekki tilnefndur í samræmi við ákvæði 12. gr. getur 15. gr. og jafnvel 16. gr. laganna átt við um slík tilvik.
    Þá þykir rétt að bæta við í greininni að nafn og heimilisfang umboðsmanns skuli fært í einkaleyfaskrá.

Um 2. gr.


    Breytingin felst í því að frestur til að yfirfæra alþjóðlega umsókn til Íslands lengist úr 20 í 30 mánuði. Í gildandi lögum er fresturinn til að yfirfæra umsókn 20 mánuðir en 30 mánuðir ef óskað er eftir alþjóðlegri forathugun á einkaleyfishæfi umsóknar. Fresturinn til að yfirfæra umsókn verður þannig jafnlangur (30 mánuðir) hvort sem óskað er eftir alþjóðlegri forathugun eða ekki.
    Breyting á ákvæðinu kemur til vegna breytinga á samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (Patent Cooperation Treaty, PCT) sem samþykktar voru á þingi Alþjóðahugverkastofnunarinnar árið 2001. Ástæðan fyrir þessari breytingu er mikil fjölgun alþjóðlegra umsókna. Á árinu 2000 voru alþjóðlegar umsóknir alls 90.948 talsins. Á síðastliðnum tíu árum hefur umsóknum fjölgað yfir 10% á ári hverju og yfir 20% sum árin. Þessi fjölgun hefur haft í för með sér mjög mikið vinnuálag fyrir einkaleyfayfirvöld. Þær skrifstofur, sem annast alþjóðlega forathugun, hafa ekki haft undan þar eð a.m.k. 80% af alþjóðlegum umsóknum fara í alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi. Talið er að mikill fjöldi umsækjenda hafi aðeins óskað eftir alþjóðlegri forathugun vegna lengri frests til að yfirfæra umsóknir (30 mánaða í stað 20). Með breytingunni er þess vænst að færri óski eftir alþjóðlegri forathugun þar eð ekki verður lengur þörf á að fara þá leið til að fá lengri frest.
    Í 2. mgr. er lagt til að felldur verði brott síðari hluti málsgreinarinnar sem nú er óþarfur þar eð frestur til að yfirfæra umsókn verður hinn sami. Óski umsækjandi eftir alþjóðlegri forathugun þarf það að koma fram innan 19 mánaða eins og áður. Lagt er til að gerð verði lítils háttar breyting á orðalagi ákvæðisins. Í stað þess að „lýsa yfir ósk“ um að gerð verði forathugun komi fram „beiðni“ um forathugun.
    Í 3. mgr. er lagt til að felld verði brott tilvísun í 2. mgr. 31. gr. þar eð það ákvæði á ekki lengur við.

Um 3. gr.


    Lagt er til að ákvæði 32. gr. laganna verði felld brott þar eð þau hafa enga þýðingu þegar fresturinn til yfirfærslu umsóknar er hinn sami hvort sem forathugun á sér stað eða ekki.

Um 4. gr.


    Í greinini er lagt til að felld verði brott tilvísun í 2. mgr. 31. gr. laganna þar sem það ákvæði á ekki lengur við.

Um 5. gr.


    Hér eru lagðar til efnislegar breytingar á 1. mgr. 66. gr. einkaleyfalaga auk þess sem lagt er til að 2.–3. mgr. greinarinnar verði felldar brott.
    Í núgildandi lögum er í 1. mgr. 66. gr. kveðið á um skyldu einkaleyfishafa, sem búsettur er erlendis, til að hafa umboðsmann búsettan hér á landi. Með breytingunni er einkaleyfishafa, sem búsettur er erlendis, ekki lengur skylt að hafa umboðsmann en kveðið er á um heimild Einkaleyfastofunnar til að fara fram á að umboðsmaður verði tilnefndur. Þá er ekki lengur gerð krafa um það að umboðsmaðurinn, sé hann tilnefndur, skuli hafa búsetu hér á landi heldur þarf hann einungis að vera búsettur á EES-svæðinu.
    Breytingin, sem lögð er til varðandi búsetu umboðsmanns, kemur til af því að krafa um búsetu í tilteknu ríki þykir stríða gegn meginmarkmiðum EES um frjálsa þjónustu milli ríkja.
    Hvað varðar þá breytingu að einkaleyfishafa sé ekki lengur skylt að hafa umboðsmann má nefna að í greinargerð með núgildandi 66. gr. er tekið fram að megintilgangurinn með því að skylda einkaleyfishafa til að hafa umboðsmann eftir að einkaleyfi hefur verið veitt sé að tryggja að unnt sé að birta stefnur og aðrar tilkynningar, sem varði einkaleyfið hans, einhverjum hér á landi. Þar eð lögð hefur verið til sú breyting að umboðsmaður þurfi ekki lengur að vera búsettur hér á landi, heldur einungis á EES-svæðinu, þykir sú forsenda fyrir umboðsmannaskyldunni, að unnt sé að birta einhverjum hér á landi stefnur og aðrar tilkynningar varðandi einkaleyfið, ekki lengur vera fyrir hendi. Þá má einnig benda á að í sumum tilvikum er ekki brýn nauðsyn að hafa umboðsmann, t.d. varðandi greiðslur árgjalda. Í slíkum samskiptum þarf ekki að vera nauðsynlegt að umboðsmaður komi fram fyrir hönd einkaleyfishafa sem búsettur er erlendis þar eð lítið reynir á tungumál ef ekkert er athugavert. Hins vegar geta flóknari tilvik komið upp og því þykir nauðsynlegt að veita Einkaleyfastofunni heimild til að fara fram á að umboðsmaður verði tilnefndur.
    Lagt er til að 2. mgr. 66. gr. núgildandi einkaleyfalaga verði felld brott. Í henni er kveðið á um að hafi einkaleyfishafi ekki umboðsmann fari um birtingu stefnu eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála í héraði, senda skuli í ábyrgðarbréfi skráðum einkaleyfishafa afrit stefnu og sama gildi um aðrar tilkynningar er einkaleyfið varði. Ekki verður séð að þörf sé á því að hafa slíkt ákvæði í lögum þessum. Sé umboðsmaður ekki tilnefndur fer um birtingu stefnu eftir lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum. Í þeim lögum er m.a. kveðið á um birtingu stefnu þegar stefndi á heimili eða aðsetur erlendis, sbr. einkum 89.–91. gr. þeirra. Þá er öðrum tilkynningum beint til einkaleyfishafa sé umboðsmaður ekki fyrir hendi.
    Lagt er til að 3. mgr. 66. gr. núgildandi einkaleyfalaga verði felld brott. Í henni er kveðið á um heimild iðnaðarráðherra til að veita undanþágu frá því að einkaleyfishafi, sem hefur ekki heimilisfesti hér á landi, skuli tilnefna umboðsmann, m.a. ef um gagnkvæma réttarvernd er að ræða. Hér er því um undanþáguheimild að ræða frá skyldu einkaleyfishafa til að tilnefna umboðsmann. Þar eð lögð hefur verið til sú breyting að einkaleyfishafa, sem búsettur er erlendis, sé ekki lengur skylt að tilnefna umboðsmann þykir ekki þörf á því að hafa í lögunum sérstaka undanþáguheimild frá umboðsmannaskyldu einkaleyfishafa sem samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur fyrir hendi.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 17/1991,
um einkaleyfi, með síðari breytingum.

    Frumvarpið felur aðallega í sér tvær breytingar. Þær eru að lengja frest til að yfirfæra alþjóðlega einkaleyfisumsókn til Íslands frá 20 dögum í 30 daga. Hin breytingin er sú að umsækjanda einkaleyfis er ekki lengur heimilt að setja það skilyrði að umboðsmaður skuli vera hér á landi heldur nægir að hann sé búsettur á EES-svæðinu. Breytingarnar er lagðar fram í þeim tilgangi að einfalda reglur um einkaleyfi og laga þær að alþjóðareglum.
    Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs.