Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 736  —  387. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um framlengingu á heimild ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 120/2001 til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Guðlaugsson og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að staðfesta bráðabirgðalög sem sett voru 27. desember 2001 og framlengja þannig heimild ríkissjóðs til að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem íslenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns sem hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika, en lögin voru sett í framhaldi af því að vátryggjendur um allan heim sögðu upp ábyrgðartryggingum flugrekenda vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001.
    Lögunum var ætlað að gilda til ársloka 2001. Nú hefur hins vegar komið í ljós að vátryggjendur eru ekki enn farnir að bjóða fullnægjandi ábyrgðartryggingar. Því er nauðsynlegt að framlengja gildistíma tryggingar ríkissjóðs enn um sinn og er lagt til í frumvarpinu að hún geti staðið allt til 15. febrúar 2002.
    Nú er málum hins vegar þannig háttað að ekki eru líkur á að farið verði að bjóða fullnægjandi ábyrgðartryggingar til flugrekenda fyrr en um mánaðamótin mars/apríl 2002. Í því skyni að tryggja að nægjanleg ábyrgð verði fyrir hendi leggur nefndin til að ábyrgðin verði framlengd til 10. apríl 2002.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    1. gr. orðist svo:
    Í stað orðanna „ársloka 2001“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: 10. apríl 2002.

    Jóhanna Sigurðardóttir, Gunnar Birgisson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. jan. 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson.