Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 805  —  168. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um póstþjónustu.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór S. Kristjánsson frá samgönguráðuneyti, Gústaf Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun, Einar Þorsteinsson frá Íslandspósti hf., Jón Jarl Þorgrímsson frá Póstdreifingu hf. og Guðmund Sigurðsson frá Samkeppnisstofnun. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið frá Póst- og fjarskiptastofnun, Byggðastofnun, Póstdreifingu hf., Íslandspósti hf., Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Póstmannafélagi Íslands, Íslandspósti, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélag og Samkeppnisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um póstþjónustu. Helsta nýmæli frumvarpsins felst í því að tekið er upp hugtakið alþjónusta í stað hugtaksins grunnpóstþjónusta sem notað er í núgildandi lögum. Samkvæmt frumvarpinu ber íslenska ríkinu að tryggja öllum landsmönnum aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu á jafnræðisgrundvelli. Þetta ber ríkinu að gera á grundvelli alþjónustukvaða sem því er heimilt að leggja á rekstrarleyfishafa samkvæmt frumvarpinu. Í samræmi við þetta eru í frumvarpinu skýrari ákvæði um jöfnunarsjóð alþjónustu. Í jöfnunarsjóð alþjónustu getur rekstrarleyfishafi sótt um fjárframlag ef honum er gert skylt að starfrækja alþjónustu sem er óarðbær. Gert er ráð fyrir að jöfnunarsjóðurinn verði fjármagnaður með jöfnunargjaldi sem rekstrarleyfishafar greiða í hlutfalli við bókfærða veltu þeirra á sviði alþjónustu. Hér er um að ræða svipað fyrirkomulag og í fjarskiptalögum.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir tvenns konar heimildum til að stunda póstþjónustu, annars vegar almennri heimild og hins vegar rekstrarleyfi. Alþjónustukvaðir verða einungis lagðar á rekstrarleyfishafa. Samkvæmt frumvarpinu er handhafa almenns leyfis heimilt að stunda þá póstþjónustu sem ekki telst til alþjónustu, sbr. 6. gr. frumvarpsins, en til alþjónustu teljast allar póstsendingar með utanáskrift upp að tiltekinni þyngd. Þetta felur í sér að almenn heimild samkvæmt frumvarpinu nægir til dreifingar á pósti án utanáskriftar.
    Þá er í frumvarpinu kveðið á um gæðakröfur sem póstþjónusta verður að uppfylla. Gerð er sú lágmarkskrafa að móttöku- og söfnunarstaðir fyrir póst sem fellur undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. einu sinni hvern virkan dag og einnig að póstur sé borinn út alls staðar á landinu alla virka daga, nema sérstakar aðstæður hindri það. Auk þessa skal Póst- og fjarskiptastofnun setja reglur um staðsetningu og fyrirkomulag afgreiðslustaða, lágmarksopnunartíma, fjölda tæminga póstkassa á dag, öryggismál á afgreiðslustöðum o.fl. Það er álit meiri hlutans að gæðakröfur sem þessar séu til þess fallnar að tryggja að allir landsmenn eigi aðgang að póstþjónustu á jafnræðisgrundvelli.


Prentað upp.

    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum á einkarétti ríkisins frá því sem nú er. Ekki er enn ljóst hver þróunin verður í Evrópu hvað þetta varðar og má telja eðlilegt að beðið sé eftir því að línur skýrist á þeim vettvangi áður en næstu skref eru stigin hér á landi í átt til frekari takmörkunar einkaréttarins. Þess má geta að þyngdarmörk bréfa sem falla innan einkaréttarins hér á landi eru nokkuð lægri en núgildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins segir til um. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fylgst verði vel með þróun mála í Evrópu þannig að Ísland verði ávallt í fararbroddi í átt til aukins frelsis á þessu sviði.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að notað verði orðið ákvörðunarstaður um endanlegan áfangastað póstsendingar í stað orðsins viðtökustaður eins og gert er í frumvarpinu. Þessi breyting er í samræmi við málvenju í póstþjónustu.
     2.      Lögð er til smávægileg breyting á skilgreiningu frumvarpsins á póstsendingu í 4. gr. Í skilgreiningunni er talað um rekstrarleyfishafa og má misskilja það á þann veg að einungis þær sendingar sem rekstrarleyfishafar flytja teljist til póstsendinga samkvæmt frumvarpinu. Það er ekki ætlunin og er því lagt til að notað verði orðið póstrekandi í stað rekstrarleyfishafa en það orð nær til allra aðila sem veita póstþjónustu samkvæmt frumvarpinu.
     3.      Lögð er til breyting á 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Breytingin hefur þann tilgang að skilgreina nákvæmar hvað fellur undir alþjónustu samkvæmt frumvarpinu en það eru póstsendingar með utanáskrift upp að tiltekinni þyngd og er markpóstur þar meðtalinn.
     4.      Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins getur einkaleyfishafi ekki fengið fjárframlag úr jöfnunarsjóði vegna alþjónustu sem hann veitir, jafnvel þótt alþjónustan falli utan einkaleyfis hans. Regla sem þessi getur þegar fram líða stundir skekkt samkeppnisstöðu einkaleyfishafa á þeim hluta markaðarins sem fellur utan einkaréttar hans. Af þessari ástæðu leggur meiri hlutinn til þá breytingu að rekstrarleyfishafi sem jafnframt er einkaleyfishafi geti eins og aðrir rekstrarleyfishafar sótt um fjárframlög úr jöfnunarsjóði vegna alþjónustu sem hann sinnir og fellur utan við einkaleyfið.
     5.      Samkvæmt frumvarpinu skal jöfnunargjald ákveðið árlega með lögum. Telja verður óþarft að gera kröfu um árlega lagasetningu enda getur sú staða verið uppi að hvorki reynist ástæða til að hækka eða lækka gjaldið. Eigi að síður er mikilvægt að gjaldið sé endurskoðað á hverju ári þannig að tryggt sé að sjóðurinn hafi ávallt það fjármagn sem nauðsynlegt er og jafnframt til að tryggja að af rekstrarleyfishafa sé ekki innheimt meira en fjárþörf sjóðsins segir til um. Meiri hlutinn leggur því til að áskilnaður um árlega lögfestingu á gjaldhlutfalli jöfnunargjaldsins verði felldur brott en Póst- og fjarskiptastofnun verði eftir sem áður gert að endurskoða hlutfallstölu gjaldsins árlega og jafnframt gert að skila tillögum um breytt gjaldhlutfall, ef ástæða þykir, til samgönguráðherra. Það er síðan á ábyrgð ráðherra að leggja fram frumvarp um breytta hlutfallstölu jöfnunargjalds ef á þarf að halda.
     6.      Lagt er til að í stað hugtaksins vanskilasendingar í 32. gr. verði talað um óskilasendingar. Þetta er í samræmi við málvenju í póstþjónustu.
     7.      Jafnframt er lögð til sú breyting á 32. gr. að í stað þess að gera áskilnað um nærveru fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar þegar nauðsynlegt reynist að opna óskilasendingar er lagt til að ráðherra setji sérstakar reglur um hvernig það skuli gert. Ljóst er að póstsendingar geta innihaldið viðkvæmar persónuupplýsingar, enda er það svo að póstsendingar njóta sérstakrar verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um friðhelgi einkalífsins. Samkvæmt ákvæðinu má ekki framkvæma rannsókn á póstsendingu nema með dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Því er nauðsynlegt að um þetta gildi skýrar reglur. Meiri hlutinn leggur því til að ráðherra fái umsögn Persónuverndar áður en reglurnar eru settar. Þá er í breytingartillögum meiri hlutans lögð áhersla á að við gerð og beitingu reglnanna skuli þess ávallt gætt að póstsending geti innihaldið viðkvæmar persónuupplýsingar.

Alþingi, 13. febr. 2002.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður Ingvarsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.
Kristján L. Möller,
með fyrirvara.